09. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Æði og árátta. Magdalena Ásgeirsdóttir

Þegar undirrituð var á leið í sumarfrí barst tölvupóstur frá Læknablaðinu um að hafa tilbúinn pistil strax að loknu sumarleyfi. Ákveðið efni fangaði hugann, en þegar sest var við tölvuna í þeim tilgangi að afla heimilda, tók víðhyglin öll völd. Ferðalag um netheima og athyglisfrestur skall á af fullum þunga. Ýmislegt vakti athygli, svo sem auglýsing um að einhver ákveðin litabók væri komin út í íslenskri þýðingu. Ég minntist litabókar með teikningum Sigurðar Þóris við ljóð Steins Steinars „Tíminn og vatnið“ sem ég keypti í nokkrum eintökum hér um árið og gaf börnum og nokkrum fullorðnum í fjölskyldunni. Ég skoðaði hina þýddu bók, en í henni var hvorki ljóð né nokkur texti, bara myndir til að lita. Seinna komst ég að því að eitthvert litabókaæði hafi gripið landann – það er þá fullorðnu. Annað æði rak á fjörur mínar í fréttaflutningi netheima, en það var biðröð eftir amerískum kleinuhringjum í miðborg Reykjavíkur! Þarna náði athyglisfresturinn hámarki og hugurinn hvarf 29 ár aftur í tímann til  Sovétríkjanna sálugu, nánar tiltekið verslunarmannahelgarinnar í Leníngrad árið 1986. Þar var löng röð væntanlega sársvangs fólks sem beið við bakarí eftir að geta keypt brauð. Sama fólkið í röð allan daginn. Ég skellti mér í röðina eftir skoðunarferð einn daginn, svona til að prófa. Ég komst að eftir svolitla stund, þar sem kurteisir Sovétmenn hleyptu útlendingnum fram fyrir röðina. Brauðið var gott, en ég skammaðist mín eftir á fyrir að hafa ruðst fram fyrir og haft brauð af fólkinu.  

Loksins náðist jarðsamband þegar ég rak augun í pistil á visir.is (16.8.2015) þar sem Ásdís Hjálmsdóttir afreksíþróttakona með meiru hvetur til kurteisi. Hún segist vera þreytt á að heyra að líkami hennar sé stór og karlmannlegur.

Þarna voru tvær flugur slegnar í einu höggi. Almennir mannasiðir og áhrif þjálfunar. Ég hef verið hugsi um tjáskipti manna á milli í netheimum, þar sem allt er látið fjúka. Svokölluð hreinskilni og það að segja sína meiningu hefur að mínu mati verið hafið til skýjanna. Oft er meintri hreinskilni kastað fram af fullkomnu ábyrgðarleysi og án þess að hirt sé um afleiðingarnar. Í mörgum tilvikum er of vægt til orða tekið að segja að tjáskipti á samskiptamiðlum og í athugasemdakerfum jaðri við yfirgang og ofbeldi, enda hafa mörg dæmi um einelti og annað ofbeldi á netinu ratað í fjölmiðla. Oft snúast slíkar meinfýsnar athugasemdir um útlitsdýrkun og staðlaðar ímyndir (kvenlíkamans), eins og  fram kemur í skrifum Ásdísar.  

Það sem ég ætlaði upphaflega að fjalla um tengist þjálfun, hreyfingu og íþróttum almennings. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi hreyfingar hvað varðar almenna vellíðan. Sá hópur sem hreyfir sig til að bæta líðan og liðleika virðist ekki vera hávær í þjóðfélaginu. Hins vegar eru meira áberandi þeir sem þjálfa af miklum móð eins og þeir séu afreksíþróttamenn, oft án leiðsagnar fagfólks og hljóta jafnvel skaða af. Þjálfunin virðist einnig vera orðin töluverður streituvaldur og gleðin sem fylgir góðri hreyfingu hverfur í skugga kappsins og kröfu um árangur. Fólk rífur sig upp um miðjar nætur (eins og flestir vita er klukkan röng hér á landi) og fer í hámarksáreynslu þegar líkamsstarfsemin á að vera í lágmarki, svo sem púls og blóðþrýstingur. Það eru til fjölmargar rannsóknir sem hafa sýnt fram á neikvæð heilsufarsáhrif vaktavinnu, en ég fann enga rannsókn um heilsufarsáhrif þjálfunar að næturlagi. Sem læknir og áhugamanneskja um lífeðlisfræði horfi ég björtum augum til annasamrar elli við rannsókir á því hvort þjálfun um nætur geri manni gott. En ég ætla að sofa um nætur og láta aðra um að púla.Þetta vefsvæði byggir á Eplica