04. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Læknirinn er sjúklingurinn - Hlynur N. Grímsson var að skrifa sína fyrstu skáldsögu, Krabbaveisluna

„Þetta er skáldsaga um veikan lækni í sjúku samfélagi,“ segir Hlynur Níels Grímsson krabbameinslæknir sem skrifað hefur skáldsöguna Krabbaveislunasem forlagið Sögur gefur út.

Sögusviðið er Þjóðarsjúkrahúsið og aðalpersónan og sögumaður er  læknirinn Jóhannes, sérfræðingur á krabbameinsdeildinni. Frásagnarstíllinn er eins konar vitundarstreymi Jóhannesar, óheft flæði hugsana sem litast af þeirri staðreynd að Jóhannes misnotar bæði róandi og örvandi lyf og hugsun hans er því hröð og hitasóttarkennd á köflum.

„Upphaflega hafði ég hugsað þetta sem táknsögu fyrir það sem gerðist hér árið 2008 og hafði í huga skáldsöguna Krabbameinsdeildina eftir Solzhenítsyn sem ég las fyrir mörgum árum og hafði mikil áhrif á mig. Sú saga gerist á krabbameinsdeild en er í rauninni táknsaga fyrir deyjandi stórveldi. Ég viðurkenni fúslega tengslin við þá bók,“ segir Hlynur.


„Á ferli mínum hef ég starfað á meira en tug sjúkrahúsa í fjórum löndum. Sjúkrahúsið í sögunni er
samnefnari þeirra allra og persónur sögunnar eru samsettar úr því fólki sem ég hef hitt, bæði í starfi
mínu og annars staðar,“ segir Hlynur Níels Grímsson krabbameinslæknir og höfundur nýrrar skáld-
sögu, 
Krabbaveislunnar.

Ekki lykilsaga

Krabbaveislanlýsir samfélagi þar sem spilling, yfirborðsmennska og eftirsókn eftir fánýtum vegtyllum og efnislegum gæðum ræður ferðinni. Þessa samfélagsádeilu sviðsetur Hlynur á þeim stað er hann þekkir best, sjúkrahúsi.

„Ég valdi þetta sögusvið einmitt vegna þess að ég þekki það í þaula. Ég lauk sérnámi í krabbameinslækningum 2002 og hef starfað mestmegnis á Landspítalanum síðan, en á ferli mínum hef ég starfað á meira en tug sjúkrahúsa í fjórum löndum. Sjúkrahúsið í sögunni er samnefnari þeirra allra og persónur sögunnar eru samsettar úr því fólki sem orðið hefur á vegi mínum, bæði í starfi og annars staðar. Ég á þó alveg von á því að einhverjir lesendur telji að persónur sögunnar eigi sér raunverulegar fyrirmyndir. Svo er þó ekki.“

Hlynur segist hafa byrjað að skrifa söguna í kjölfar hrunsins árið 2008. „Ég hætti á Landspítalanum í tvö ár og fór til starfa í Noregi, aðallega til að halda í horfinu fjárhagslega, enda var ég eins og margir aðrir þjakaður af húsnæðisskuldum sem engin leið virtist vera að kljúfa. Á sjúkrahúsinu þar sem ég starfaði lengst komu margir kollegar að máli við mig og spurðu forviða hvernig þetta hrun hefði getað gerst á Íslandi; þessu landi þar sem allt virtist vera í svo miklum blóma og Íslendingar fyrirmynd annarra þjóða um dugnað, sjálfstæði og vinnusemi. Haustið 2008 var nú staðan þannig að Landspítalinn átti ekki peninga til að borga út laun. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, heyrt um ríkissjúkrahús á Vesturlöndum sem ekki hefur getað borgað út laun. Hvernig getur slíkt gerst? Það var upp úr því sem fyrstu drög að þessari sögu kviknuðu. Ég sat á flugvallarbar að bíða eftir vél heim til Íslands og byrjaði að hripa niður hugsanir Jóhannesar, þessa veika læknis sem veltist í lyfjamóki í sjúku samfélagi.“
Vorum viðtakendur ekki þátttakendur

Kennsla í læknadeild hefur breyst mikið á undanförnum árum og Hlynur segir reynsluna af  læknanáminu á níunda áratugnum hafa beint sér í nám í bókmenntum að því loknu.

„Læknanámið sem ég fór í gegnum á sínum tíma var mjög sérstök reynsla. Kennsluformið var ótrúlega gamaldags, við sátum þarna og hlýddum á fyrirlestra, ekki var ætlast til þess að við spyrðum spurninga eða segðum yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Ég var orðinn afar þreyttur á þessu við útskrift úr læknadeildinni. Þá fór ég til New York og varði einu ári í meistaranám í enskum bókmenntum. Í því námi var þátttaka nemenda í tímum skylda og ég átti mjög erfitt til að byrja með þar sem ég gat hreinlega ekki sagt orð eftir að hafa þagað í 6 ár. Okkar samfélag var í rauninni gegnsýrt af þessari þögn. Við vorum viðtakendur en ekki þátttakendur. Mín kynslóð var ekki þjálfuð í neins konar samræðu eða rökræðu. Kannski var það þess vegna að fór sem fór. Við treystum þeim sem fóru með völdin og sögðum ekkert.“

Viðurkenna ekki veikleika

„Auk þess að skrifa þjóðfélagsádeilu langaði mig til að skrifa um veikan lækni,“ segir Hlynur. „Ég hef unnið með veikum læknum og það er mjög erfitt að taka á slíku. Norðmenn eru orðnir mjög meðvitaðir um þetta í seinni tíð, enda hefur sjálfsmorðstíðni meðal norskra lækna verið hærri en annars gerist þar í landi. Þeir hafa skipulagt stuðningsnet kollega í læknastétt, þannig að ef læknir lendir í erfiðleikum, hvort sem er í starfi eða einkalífi, getur hann leitað til stuðningsaðila innan stéttarinnar. Þetta er allt fólk með mikla reynslu og þekkingu og það sem skiptir mestu máli: með skilning á vandanum. Ekkert slíkt er til hér á Íslandi. Þarna finnst mér Læknafélag Íslands hafa brugðist en það ætti að hafa frumkvæði að einhvers konar fyrirkomulagi í þessa veru. Andinn í stéttinni er reyndar sá að læknar verði helst ekki veikir og þeir eiga fyrir vikið mjög erfitt með að viðurkenna að eitthvað sé að. Þeir viðurkenna helst aldrei neina veikleika. Það er svo aftur einkennandi fyrir það ástand sem hér skapaðist eftir hrunið að enginn hefur viðurkennt nein mistök eða eiga sök á því sem gerðist. Jafnvel þeir sem hafa verið dæmdir fyrir gjörðir sínar segjast ennþá vera saklausir. Þetta sé bara allt saman einn allsherjar misskilningur.“

 

Mistök í starfi hafa eyðilagt lækna

Óafturkræf mistök eru kannski það sem læknar óttast umfram annað og einn samstarfsmanna Jóhannesar í sögunni verður að gjalda mistök dýru verði. Hann missir starfið og heilsuna í kjölfarið.

„Þetta eru mistök sem hann á í rauninni ekki sök á en ber engu að síður ábyrgðina. Það sem ég vildi sýna með þessu er hversu rangt það er yfirleitt að finna einhvern einn sökudólg í slíkum málum. Oftast eru mistök lokapunktur í ferli þar sem rangar ákvarðanir hafa verið teknar, stundum með skelfilegum afleiðingum. Ég hef orðið vitni að því á sjúkrahúsum erlendis að kollegum hafi verið kennt um dauða sjúklings og þeir voru með því merktir fyrir lífstíð. Ein ágæt vinkona mín og kollegi í sérnáminu lenti í slíku. Sá atburður situr í mér þar sem þetta var alls ekki henni að kenna eingöngu en hún var látin gjalda þess. Við megum ekki gleyma því að tilvera okkar getur kollsteypst nánast á einu augnabliki og án þess að við eigum á því nokkra sök eða fáum nokkuð við það ráðið. Í starfi mínu sem læknir hef ég séð það gerast ótal sinnum og sjálfur hef ég reynt það í mínu lífi.“

Hlynur segist ekki eiga von á því að allir verði ánægðir með bókina. „Nei, og það verður bara svo að vera. Ég vona þó að fleiri átti sig á því að heimur sögunnar er líking fyrir það andrúmsloft sem ríkti fyrir hrun og kannski felst í því aðvörun því ýmislegt í samfélaginu í dag bendir til þess að við höfum lítið lært af fyrri reynslu.“


Maður hættir heldur aldrei að vera læknir, það var mér kennt snemma í náminu. Þetta er hlutskipti að bera, það var mér kennt snemma í náminu. Mitt hlutskipti. Minn heimur. Og spítalinn ER heimur út af fyrir sig. Heimur með fullt af reglum sem einu sinni gátu verið óskráðar en eru nú birtar samþykktar einróma af yfirstjórn framkvæmdastjórn ráðuneytisstjóra ráðherra og svo framvegis á vef spítalans mánaðarlega bara svona til að minna starfsmenn á. Hér má ekki, svona í hnotskurn, segja neitt mótmæla neinu hafa vonda skoðun eða einhverja skoðun yfirleitt maður á hreinlega ekki að kunna við svoleiðis því þá fellur maður í ónáð hjá yfirstjórn-inni og er aldrei aftur litinn öðru auga en hornauganu og getur gleymt öllu því sem heitir stöðuhækkun eða framgangur í starfi og ef maður segir samt eitthvað þrátt fyrir að hafa verið varaður við þá berst orðrómurinn ósjálfrátt út innan veggjanna að maður sé ákaflegur erfiður í samstarfi og svo framvegis alveg þangað til maður er orðinn óalandi og óferjandi og þá er þetta búið og skógarmannsævin bíður manns einhvers staðar verulega langt í burtu erlendis. þannig að ég hugsa bara. Með sjálfum mér. Það má. Hér eru hugsanir mínar. Um allt þetta. Allt það sem ekki má. Allt það sem ekki er hægt. Allt það sem ég get ekki sagt. Ég hugsa. Ég get það ennþá. Með hjálp lyfjanna. Ennþá.

Krabbaveislan, 2015: 22


Kollegar mínir hrokast þetta þannig áfram gegnum karríerinn til að láta örugglega ekkert á sér sjá enda er prinsippmál í nútíma íslenskri læknisfræði að láta heldur ekki sjást hvað maður er gamall eða öllu heldur ungur og þess vegna enda svo margir kollegana einkum karlkyns í járnkarlsþríþraut eða fjallaúltramaraþonhlaupum alltaf á sífelldum spretti  aleinir yfir endalausan kaldan eyðisandinn til að láta tímann sjúkdómana eyðinguna ekki ná sér heldur vera alltaf á undan skrefinu á undan eins og maður þurfti að vera í inntökuprófunum í læknisfræðina á sínum tíma þar sem var sko hver maður og kona fyrir sig fyrstir koma fyrstir fá pláss það er að segja í björgunarjullunni fyrir einn manns algerlega prívat Titanic sem ber lækninn síðan yfir úfið karríerhafið stóra alla leið yfir á læknaeftirlaunaaldurinn endalausa þangað sem allir Hinir Stóru úr íslenskri læknisfræði munu sameinast í einni gríðarlangri medisínskri samdrykkju í Emeriti deild Læknafélags Íslands - það er sko sjálfstæð deild innan félagsins - þar sem gefst loks tími til að ræða til hlítar á kvöldfundum og með opnum bar jafn áhugaverð vandamál og sýklalyfjaniðurgang. Nei læknar deyja ekki - fyrst þú spyrð.

Þann sjúkdóm fá aðrir. Íslenskir læknar lifa! þeir lifa og lifa! og því til sönnunar birta þeir reglulega myndir af sjálfum sér á facebook og myspace og blogginu úr síðasta Saharahlaupinu eða fjölskylduskíðaferðinni til St. Moritz eða var það Chamonix? og sanna þannig í leiðinni að börnin og konan séu bara happy þrátt fyrir að ekkert sjáist til manns heimavið nema hælarnir á hlaupa-skónum á leiðinni út um dyrnar í vinnuna eða annað hálfmaraþon.

Krabbaveislan, 2015: 104.Þetta vefsvæði byggir á Eplica