03. tbl. 101. árg. 2015
Umræða og fréttir
Tónlistin tók við af læknisferlinum - rætt við Helga Júlíus Óskarsson
Helgi Júlíus Óskarsson sérfræðingur í hjartaþræðingum og kransæðaútvíkkunum hefur verið búsettur í Bandaríkjunum allt frá árinu 1986. Glæsilegur læknisferill hans tók óvænta stefnu fyrir 9 árum þegar hann greindist með Parkinsonsjúkdóminn. Helgi lagði þó ekki árar í bát heldur sneri sér að tónlistinni og hefur á undanförnum árum gefið út 5 hljómdiska með tónlist sinni og vakið verðskuldaða athygli.
Örlögin settu Helga stólinn fyrir dyrnar við læknisstarfið er hann greindist með Parkinson svo hann tók
aftur til við tónlistina. „Allt í einu hafði ég tíma í fyrsta sinn frá því ég var tvítugur,“ segir Helgi sem hefur
sent frá sér 5 geisladiska með eigin músík.
Helgi útskrifaðist úr læknadeild HÍ árið 1983 og var að eigin sögn óákveðinn með val á sérgrein. „Ég var eitt ár á Akureyri og tvö ár á Landspítalanum sem súperkandídat eins og það var kallað en 1986 hóf ég sérfræðinám í lyflækningum á Loyola University Medical Centre í Chicago. Þar var ég í þrjú ár, en fór síðan til sérnáms í hjartalækningum og hjartaþræðingum við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa. Þar var ég í fjögur ár en þurfti að færa mig til Nebraska í tvö ár til að fá græna kortið en fór síðan aftur til Iowa þar sem ég vann næstu þjú ár. Haustið 1998 fluttist ég síðan til High Point í Norður-Karólínu þar sem ég og félagi minn frá Iowa settum á stofn einkaklíník í hjartalækningum auk þess að vinna á sjúkrahúsi borgarinnar. Meðan ég dvaldi í Iowa og Nebraska varði ég miklum tíma í rannsóknavinnu og kennslu. Vann þó ávallt mikla klíníska vinnu með, þá sérstaklega við hjartaþræðingar og kransæðaútvíkkanir. Eftir að ég flutti til Norður-Karólínu vann ég mikið við almennar hjartalækningar. Síðustu fjögur árin í starfi kynnti ég mér nýjustu tækni í myndgreiningu hjarta og setti á stofn og stýrði myndgreiningarþjónustu sem bauð upp á segulómskoðun af hjarta og tölvusneiðmyndir af kransæðum. Þessi ár í Bandaríkjunum voru pökkuð með svakalegri vinnu, en þetta var geysilega skemmtilegur tími. Þegar ég greinist síðan með Parkinsonsjúkdóminn árið 2006 urðu breytingar sem urðu á endanum til þess að ég hætti að vinna við hjartalækningar.“
„Sjúkdómatryggingin bjargaði mér“
Dvalartími Helga og fjölskyldu hans í Bandaríkjunum spannar nær 25 ár, frá 1986 til 2010, en þá fluttu þau í raunar heimili sitt til Íslands en verða þó að dvelja ákveðinn lágmarkstíma á hverju ári í Bandaríkjunum til að viðhalda ríkisborgararétti og tryggingaréttindum.
„Ég greindist með Parkinson árið 2006, 48 ára gamall. Í fyrstu hafði þetta lítil áhrif á vinnugetu mína en þegar komið var fram á árið 2009 ákvað ég að hætta. Mín aðalsérgrein var hjartaþræðingar, þar sem aðgerðir voru oft gerðar undir miklu álagi. Ég fór að taka eftir því að þegar spenna kom upp við aðgerð fór ég að skjálfa í hnjánum og í höndunum. Ég var farinn að þurfa að einbeita mér að því að stjórna höndunum sem höfðu áður unnið sína vinnu sjálfkrafa. Mér fannst líka að ég væri ekki með fulla athygli við það sem ég var að gera við sjúklinginn. Þegar svona var komið vissi ég að þetta væri búið. Ef eitthvað hefði komið fyrir í aðgerð hjá mér eftir að sjúkdómsgreiningin lá fyrir hefði lögsókn gert algerlega útaf við mig. Ég steinhætti því að gera aðgerðir. Taugalæknirinn minn hafði strax í upphafi ráðlagt mér að hætta að vinna þar sem vinnuálagið og spennan sem fylgir hjartalækningum hefði slæm áhrif á framgang sjúkdómsins. Hann spurði hvort það væri ekki eitthvað annað skemmtilegt sem ég gæti hugsað mér að gera meðan ég gæti, en hann dró upp fremur dökka mynd af sjúkdómshorfum mínum þar sem almenna reglan um Parkinson mun vera sú að ef fólk fær greiningu fyrir fimmtugt fær sjúkdómurinn yfirleitt hraðan framgang og margir eru komnir í hjólastól innan 10 ára. Þetta leit því alls ekki vel út. En ég var þó vel settur að því leyti að hafa tryggt mig nokkuð vel fyrir svona áföllum og gat því hætt að vinna sæmilega áhyggjulaus um afkomu mína.“
Helgi lýsir því sposkur hvernig hann þráaðist við að kaupa þessa tryggingu á sínum tíma og það hafi í rauninni verið þrjóska tryggingasalans sem réði úrslitum á endanum. „Hann þurfti beinlínis að nauða í mér til að fá mig til að kaupa sjúkdómatryggingu og ég svaraði alltaf að ég væri svo hraustur að þetta væri algjör óþarfi. Hann kvaðst hafa heyrt það áður og sjúkdómatrygging væri mun skynsamlegri ráðstöfun en líftrygging. Á endanum lét ég undan og sé svo sannarlega ekki eftir því. Þetta var nokkuð dýr trygging og meðan allt lék í lyndi fann ég vel fyrir því að greiða iðgjaldið mánaðarlega. En það kom að því að það borgaði sig.“
Hefur gefið út 5 hljómdiska
Sjúkdómurinn kemur þó ekki veg fyrir að Helgi sinni lækningum í öðru samhengi og hann hefur á síðustu árum leyst af á heilsugæslustöðvum á Austurlandi í stuttan tíma í senn. „Konan mín, Bjarngerður Björnsdóttir, er ættuð úr Skriðdalnum og við höfum haft ánægju af því að dvelja endrum og sinnum fyrir austan. Fyrst eftir að ég kom heim tók ég líka þátt í segulómskoðun á hjarta sem var alger sjálfboðavinna og gert fyrst og fremst fyrir ánægjuna.“
Tónlistin hefur alltaf blundað í Helga þó hún hafi lengst af setið á hakanum vegna anna við læknisstörfin. „Móðir mín keypti handa mér gítar þegar ég var 8 ára og setti mig í nám til Jóns Páls jassista. Hann var svakalega kröfuharður og ég var alveg að guggna á þessu námi þegar hann tók sig upp og flutti til Svíþjóðar. Þá sá ég mér leik á borði og lýsti því yfir að ég vildi engan annan kennara en hann og myndi ekki hefja gítarnám aftur fyrr en hann flytti heim frá Svíþjóð. Sannleikurinn var sá að ég var búinn að fá miklu meira en nóg af tímunum hjá Jóni Páli. Lengra varð því gítarnámið ekki. Svo fór ég að gutla við gítarinn aftur á gagnfræðaskólaárunum, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því það hafði visst aðdráttarafl gagnvart stelpunum að getað spilað á gítar í partíum. Ég var þó ekki að semja nein lög að ráði, eitthvað þó á menntaskólaárunum.“
Hljómsveitarbransinn heillaði Helga ekki svo hann var aldrei í rokkhljómsveit. „Ég var bara ekkert hrifinn af rokktónlist. Hlustaði aðallega á melódíska popptónlist, Bítlana og Stevie Wonder. Í dag hlusta ég mest á jass og klassíska tónlist. Í læknadeildinni var lítill tími til að stunda tónlist og ég notaði helst gítarinn til að fá útrás eftir langar setur við lestur.“
Það var því ekki fyrr en örlögin settu Helga stólinn fyrir dyrnar við læknisstarfið að hann tók aftur til við tónlistina. „Allt í einu hafði ég tíma, í fyrsta sinn frá því ég var tvítugur. Ég kunni ekki að skrifa nótur svo ég samdi beint á gítarinn. Ég keypti mér lítið upptökutæki og byrjaði að taka upp melódíurnar sem ég var að semja. Þetta var skemmtilegt og lögin byrjuðu að hrannast upp. Frændi minn sem er klassískur tónlistarmaður heyrði lögin hjá mér og hvatti mig til að gefa þau út. Ég spurði bara hvort hann kynni annan brandara en hann sat við sinn keip. Svo dreymdi mig eina nóttina að ég væri að spila lögin mín með KK og þegar ég sagði konunni minni frá draumnum sagði hún að ég ætti endilega að tala við hann og leyfa honum að heyra lögin mín. Ég gerði það og KK tók mér afskaplega vel og sagði að lögin væru mjög frambærileg og hann skyldi koma mér í samband við einhvern góðan mann sem gæti hjálpað mér. Tveimur dögum seinna hringir hann og segir að hann hafi fundið rétta manninn fyrir mig, Svavar Knút að nafni. Ég hafði aldrei heyrt hann nefndan en féllst á að hitta hann og við náðum svona vel saman strax frá upphafi. Svavar Knútur er afskaplega vænn drengur og hann hjálpaði mér með fyrstu tvo diskana.“
Í takt við þjóðarpúlsinn
Síðan hafa þrír diskar bæst við útgáfuna og óhætt að segja að Helgi sé ekki við eina fjölina felldur í tónlistinni því fyrstu tveir diskarnir voru að hans sögn blanda af þjóðlaga-, popp- og kántrítónlist. Á þriðja disknum var reggítónlist í öndvegi, þar á eftir kom blúsdiskur og svo bættist rólegur melódískur diskur í safnið síðastliðið haust. Helgi er núna að undirbúa fyrir upptökur á disk með fönktónlist. Hann er einnig að vinna að rokkdiski. „Ég fór fyrst að hafa gaman af rokki þegar yngsti sonur minn fór á kaf í það. Við rokkum og blúsum saman þegar hann kemur í heimsókn en honum finnast lögin mín óttalega væmin og vill helst ekki vera að velta sér upp úr þeim. Hann er harður rokkari.“ Helgi kveðst eiga efni á nokkra diska í viðbót sem eru af ýmsu tagi, blús, reggí, popp, rokk og kántrí. Þrátt fyrir að sjúkdómur Helga hafi gengið hægar fram en spáð var í upphafi hefur hann sannarlega haft sín áhrif. „Ég get ekki lengur spilað á gítarinn nema í svona klukkutíma eftir að ég tek lyfin mín. Þetta er engin spilamennska til að hrópa húrra fyrir en nóg til þess að ég get komið frá mér hugmyndum. En ég hef nýtt mér tölvutæknina og er að semja tónlistina mína með tölvuforriti svo ég er ekki háður gítarnum til þess. Það er mikill kostur.
Sjúkdómurinn birtist þannig hjá mér að vöðvar stífna og hreyfingar verða hægari. Ég fæ ekki þennan dæmigerða skjálfta sem margir tengja við Parkinson. Ég á líka erfitt með að syngja núorðið svo ég er hættur að koma fram.“
Textagerð er snar þáttur í að vinna lögin og Helgi semur talsvert sjálfur af þeim. „Konan mín hefur líka gert mjög góða texta fyrir mig og einnig hefur Sigurður Albertsson skurðlæknir á Akureyri verið mér drjúgur. Ég sem yfirleitt lögin fyrst og svo verða textarnir til á eftir. Ég hef sáralítið gert af því að semja lög við texta.“
Með tilkomu Helga í tónlistarlíf landsins hefur borið svolítið á umræðu um það hvort læknar sem stétt séu músíkalskari en aðrir. Helgi vill ekki tjá sig mikið um það, en hefur þó komið á fót tónleikaröð sem hefur verið haldin á Kaffi Rósenberg. Þar hafa komið fram hinir ýmsu læknar og áhangandi tónlistarmenn. Þetta framtak hefur mælst vel fyrir og tónleikarnir verið vel sóttir. „Ég ætla að leggja áherslu á að fá yngri kynslóðirnar með úr röðum unglækna og læknanema á þessu ári.“ Helgi segir líka að hann sé í góðri samvinnu við aðra tónlistarmenn úr læknastétt, til dæmis Hauk Heiðar, Michael Clausen, Svein Rúnar og fleiri.
Tónlist Helga hefur sannarlega hitt á þjóðarpúlsinn því tvö lög af þriðja diski hans, Kominn heim, urðu gríðarvinsæl; hrunlagið hans, Stöndum saman, sungið af Valdimar Guðmundssyni, var eitt vinsælasta og mest spilaða lagið á Rás tvö árið 2012. Lagið Þú ert mín var valið vinsælasta lagið á Bylgjunni sama ár.
Ég spyr Helga í lokin hvort honum hafi aldrei dottið í hug að senda lag inn í Júró-visjónkeppni RÚV. Hann hristir höfuðið og segir alla umgjörð þeirrar keppni með þeim hætti að hann sjái ekki tilgang með því. „Þetta er vinsældakeppni og gæði laganna eru nánast aukaatriði. Það er verið að velja krúttlegasta flytjandann og stórir hópar vina og ættingja sameinast um að hringja inn atkvæði til stuðnings sínum manni. Þetta er fyrirkomulag sem höfðar ekki til mín. Enda hef ég nóg að gera í tónlistinni án þess,“ segir hann að lokum og framundan er lokahnykkurinn við frágang sjötta disksins sem inniheldur fönkaða popptónlist.