12. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Lögfræði 57. pistill. Ferliverk og SAk. Dögg Pálsdóttir
Ferliverk hafa verið í umræðunni vegna alvarlegrar stöðu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Halda mætti að ferliverk væru verktakagreiðslur sem læknar og stofnanir byrjuðu á án samráðs við stjórnvöld og í óþökk þeirra. Staðreyndin er önnur.
Ferliverk má rekja til ársins 1992 þegar heilbrigðisráðherra setti reglugerð um ferliverk.1 Þar eru þau skilgreind sem læknismeðferð sem sjúklingum er veitt á læknastofum eða á sjúkrahúsum og krefjast ekki innlagnar nema í undantekningartilvikum. Með læknismeðferð var meðal annars átt við skoðanir, rannsóknir, lyfja- og geislameðferð svo og skurðlækningar. Reglugerðin átti að leiðrétta ósamræmi í greiðslum sjúklinga fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
Fyrir ferliverk greiddi sjúklingur gjald í samræmi við reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og gilti einu þótt næturdvöl væri nauðsynleg í einstökum tilvikum.
Árið 2007 voru ákvæði um ferliverk færð í reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og hafa verið þar síðan, nú í 4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 1582/2024. Þar segir:
„Með komu til sérgreinalæknis á göngudeild eða dagdeild sjúkrahúsa skv. 1. mgr. er átt við ferliverk, það er læknismeðferð sem unnt er að veita hvort sem er á læknastofum utan sjúkrahúsa eða á sjúkrahúsum og krefst ekki innlagnar á legudeild nema í undantekningartilvikum. Sjúkratryggður greiðir gjald, sbr. 1. mgr., og gildir þá einu þótt næturdvöl kunni að reynast nauðsynleg í einstökum tilvikum enda fari dvölin ekki yfir 24 klukkustundir.“
Fyrst í stað sagði í reglugerðinni að sjúkratryggingum yrði ekki gerður reikningur vegna ferliverka sem veitt væru á sjúkrahúsum. Eftir gildistöku laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 breyttust ákvæðin þannig að sjúkratryggingum yrði ekki gerður reikningur vegna ferliverka á sjúkrahúsum nema um það hefði verið samið. Ákvæði um þetta féll brott með reglugerð nr. 314/2017 frá 1. maí 2017.
Í byrjun voru ferliverk á flestum sjúkrahúsum landsins. Síðustu ár hafa þau mest verið á SAk. Strax gerðist það að læknar sem unnu ferliverk á sjúkrahúsum fengu greitt fyrir þau ákveðið hlutfall af því sem hið opinbera greiddi fyrir verkið, gjarnan 60% en stofnunin fékk 40%. Fyrst var þóknunin greidd af sjúkratryggingum. Síðustu árin hafa sjúkrahús, sem framkvæma ferliverk, fengið greitt fyrir þau með mismunandi hætti, oftast beint á fjárlögum.
Árið 2004 gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á SAk.2 Þar kemur fram að starfsemi göngudeilda SAk felist fyrst og fremst í ferliverkum og að starfsemin hafi verið að aukast. Ríkisendurskoðun telur að mikil aukning starfseminnar bendi til að SAk hafi verið að mæta aukinni þörf. Í lokaorðum skýrslunnar segir meðal annars:2
„Þróun sérfræðilæknisstigsins innan íslenska heilbrigðiskerfisins er flókin í framkvæmd, m.a. þar sem hún skiptist milli sjúkrahúsa og stofa sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Með því að sinna ferliverkum, endurkomum og eftirliti þeirra vegna innan sjúkrahúss verður þjónustan heilsteypt, hægt er að bjóða alhliða kennslu innan sjúkrahússins og þær upplýsingar sem til verða í þjónustuferlinu safnast í upplýsingakerfi sjúkrahússins sem aftur á móti bætir alla yfirsýn.“ Ljóst er að ferliverkaþjónustan inni á sjúkrahúsinu hefur styrkt starfsemina og stuðlað að betri nýtingu aðstöðu og mannafla.
Þróunin á SAk var sú að ferliverk héldu áfram, efldu starfsemina, hafa átt stóran þátt í að laða sérfræðilækna til starfa og það er meðal annars þeim að þakka að þar hefur verið hægt að reka öflugt sérgreinasjúkrahús. Segja má að ferliverkin hafi gert SAk mögulegt að halda uppi þeirri viðamiklu þjónustu sem þar hefur verið veitt undanfarin ár, þjónustusvæði þess til heilla.
Í pistli um verktöku á þessum vettvangi fyrr á þessu ári var vísað í bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti þar sem stofnanir voru hvattar til að skoða verktakasamninga sína og, eftir því sem kostur væri, breyta þeim í launasamninga. Þessi bréf eru ástæða þess að til umræðu kom að segja upp ferliverkasamningum lækna á SAk, þó áformum um það hafi verið frestað.
Ferliverkastarfsemin á SAk hefur tryggt ákveðna kjarnastarfsemi fyrir þjónustusvæðið, starfsemi, sem ella hefði verið erfitt eða jafnvel útilokað að veita. Samkvæmt 17. gr. b laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 er SAk varasjúkrahús landsins og kennslusjúkrahús og ber að veita annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.
Í umræðu á Alþingi 22. september 2025 sagði heilbrigðisráðherra um ferliverkasamningana á SAk: „... Hið rétta er að þessir samningar, sem kallaðir eru ferliverkasamningar, standast ekki lög ...“3 án þess að útskýra nánar í hverju meint ólögmæti þeirra fælist.
Eftir því sem LÍ veit best eru samningar við lækna á SAk um ferliverk hluti af ráðningarkjörum þeirra frá 1992. Læknarnir hafa alla tíð greitt aðstöðugjald til SAk. Þeir eru á stofnuninni að sinna ferliverkunum og hlaupa úr þeim ef bráðaatvik koma upp. Þetta fyrirkomulag hefur bjargað mannslífum. Sjúklingatrygging þeirra er þó hluti af sjúklingatryggingum SAk. Það ákvað ríkið einhliða við setningu reglugerðar um iðgjald vegna sjúklingatryggingar nr. 1690/2024, sbr. breytingareglugerð nr. 120/2025. Vandséð er í hverju ólögmæti samninganna felst. Fullyrðingar þar að lútandi kalla á nánari rökstuðning.
Tilmæli stjórnvalda um uppsögn verktakasamninga og ferliverkasamninga lækna eru vanhugsuð. Betur og betur kemur í ljós að það eina sem næst fram með uppsögn þessara samninga er að læknisþjónusta á landsbyggðinni verður minni og brotakenndari. Sjúklingar úti á landi munu þurfa í ríkari mæli að leita til Reykjavíkur til lækninga með tilheyrandi viðbótarkostnaði. Hver er skynsemin og sparnaðurinn í því?
Heimildir
1. Reglugerð nr. 340/1992. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/2340 – nóvember 2025
2. Skýrsla Ríkisendurskoðurnnar ágúst 2004. 74-76. https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2004-fsa-stjornsysluend.pdf – nóvember 2025
3. Umræður á Alþingi 22. september 2025, Samningar við sérfræðilækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri, vefútgáfa Alþingistíðinda. https://www.althingi.is/altext/raeda/157/rad20250922T151049.html – nóvember 2025
