10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Það er ljómandi gott að vera bæklunarlæknir! Eyþór Örn Jónsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Það voru tvær meginástæður fyrir því að ég valdi bæklunarlækningar.

Við fyrstu kynni mín af sérgreininni sem læknanemi á fjórða ári fannst mér eftirtektarvert hvað það er hægt að hafa afgerandi áhrif á líf fólks með aðferðum bæklunarlækninganna. Fólk sem hafði til dæmis verið mjög þjakað af verkjum og skertri hreyfigetu en gengist undir liðskiptaaðgerð vegna slits á lið kom til baka á göngudeild eftir nokkra mánuði og fannst lífið hafa gjörbreyst til hins betra. Í dag er kannski litið á slíkar meðferðir sem sjálfsagðar en í rauninni er um að ræða hálfgerðar kraftaverkalækningar.

Það eru ekki nema 30-40 ár síðan farið var að gera liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám að einhverju ráði. Fram að því gat fólk á besta aldri með slitna liði þurft að sætta sig við verulega skert lífsgæði eða í versta falli að sitja í hjólastól. Sumir hafa gengið svo langt að tala um liðskiptaaðgerðir á mjöðm sem „aðgerð 20. aldarinnar“.1

Í öðru lagi þá er sérgreinin stór að umfangi og innihaldið fjölbreytt, sem mér fannst vera kostur fyrir starfsferilinn ef aðstæður eða áhugi skyldu breytast. Innan sérgreinarinnar rúmast allt frá litlum og einföldum aðgerðum upp í stórar og flóknar. Notaðar eru fjölmargar mismunandi aðferðir: speglanir, gerviliðir, innri festing á brotum – bara til að nefna nokkur dæmi. Bæklunarlækningar bjóða bæði upp á möguleikann á vinnu á spítala með vöktum og vinnu á stofu. Starfsemi sérgreinarinnar tekur til allra aldurshópa og það eru ágætir möguleikar á skrifstofuvinnnu af ýmsu tagi, til dæmis við vottorðaskrif.

Sumarið 2006, eftir fjórða árið, vann ég á skurðdeildum Sjúkrahúsins á Akureyri. Ég fann að ég dróst að því sem hafði að gera með bæklunarlækningar og mér var vel tekið af læknum deildarinnar, sem hafði jákvæð áhrif. Eftir það var ég meira og minna búinn að ákveða mig þó ég hafi velt valinu eitthvað fyrir mér út frá vinnu- og vaktaálagi, hugsanlegum fjölskylduaðstæðum í framtíðinni og svo framvegis. Veigamikill þáttur var að ég vildi velja sérgrein sem mér fannst líklegt að ég myndi ennþá hafa áhuga á eftir nokkra áratugi – sem hefur staðist hingað til. Ég átti tvö mjög góð og lærdómsrík ár sem deildarlæknir á Landspítala. Sérfræðingar deildarinnar veittu mjög góða kennslu í að framkvæma skurðaðgerðir, sem var ómetanlegt veganesti þegar ég hóf sérnám á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg árið 2011.

Ég sérhæfði mig í axlar- og olnbogavandamálum á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu eftir að sérnáminu lauk árið 2015. Allt hefur kosti og galla en ég vildi helst hafa undirsérhæfingu sem gengi út frá líkamshluta óháð því hvaða tækni eða aðferðir eru notaðar til meðferðar. Ein af ástæðum þess að ég valdi að fara í læknisfræði frá byrjun var sú að ég sá fyrir mér að það væri stöðugt hægt að læra nýja hluti – sem hefur heldur betur reynst raunin. Það hafa orðið miklar framfarir í meðferð á axlar- og olnbogavandamálum frá aldamótum. Notkun svokallaðra viðsnúinna gerviliða í öxl (reverse total shoulder arthroplasty) hefur til dæmis aukist verulega og valdið byltingu í meðferð fólks með langt gengið slit í axlarliðnum. Vandamál í olnbogum eru ekki jafn algeng og í öxlum en í sumum tilfellum er hægt að bæta ástandið með meðferðum svo sem gervilið, liðlosun (með speglun eða opið) eða liðbandaaðgerð. Það er fyrirsjáanlegt að enn frekari breytingar verði á næstu árum innan þessa geira.

Ég varði doktorsritgerð frá Sahlgrenska-Akademíunni í Gautaborg árið 2022. Ég komst í kynni við rannsóknarvinnu strax sem sérnámslæknir á Landspítala, sem var mjög gagnlegt. Ég vildi hins vegar bíða með að hella mér út í rannsókarvinnu af alvöru þangað til málin skýrðust varðandi hvaða klínísku vinnu ég myndi sinna. Ég hef síðustu árin samtvinnað klíníska vinnu vegna axlar- og olnbogavandamála við rannsóknir á sama efni, sem hefur reynst gefa mikil og góð samlegðaráhrif þekkingarlega séð og leiddi smám saman af sér doktorsritgerð.

Við fjölskyldan fluttum til Íslands sumarið 2023. Í dag starfa ég í Orkuhúsinu og í hlutastarfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sinni fyrst og fremst axlar- og olnbogavandamálum.

Heimild

1. Learmonth ID, Young C, Rorabeck C. The operation of the century: total hip replacement. Lancet 2007; 370: 1508-19.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(07)60457-7
PMid:17964352

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica