10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Fannst bæklunarlækningar vera góð blanda. Sigurveig Pétursdóttir

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Í kennslu læknadeildar var einn kennari sem sagði skýrt að bæklunarskurðlækningar væru ekki fyrir konur. Það þótti allt í fína lagi að segja það hátt og skýrt í fyrirlestri. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir troðnar brautir og hlustaði ekki á hann. Eins og gefur að skilja sótti ég ekki um stöðu á því sjúkrahúsi þar sem hann vann.

Þegar ég var í læknadeildinni vaknaði áhugi minn á bæklunarskurðlækningum, ég velti vissulega fyrir mér öðrum sérgreinum, svo sem barnalækningum og taugalækningum. Þegar ég útskrifaðist var ég viss um að bæklunarlækningar væru rétt sérgrein fyrir mig.

Bæklunarlæknar á Borgarspítala tóku mér afar vel þegar ég hóf störf þar. Ég heillaðist af fjölbreytni bæklunarlækninga, þar sem bæði er mikil göngudeildarstarfsemi auk skurðaðgerða. Starfið er blanda af að lækna og líkna.

Helstu fyrirmyndir mínar hér á landi voru Haukur Árnason, Rögnvaldur Þorleifsson og Stefán Carlsson, allt frábærir fagmenn.

Ég hlaut sérfræðimenntun mína í Svíþjóð, byrjaði í Umeå, síðan Västerås og að lokum í Uppsölum. Ég held að það sé til góðs að eyða ekki öllum sínum starfsárum á sama stað og mjög mikilvægt að sjá hvernig „aðrir“ gera.

Ég bjó 15 ár í Svíþjóð og varði síðustu átta árunum á barnabæklunardeild. Þá var ég orðin sérfræðingur og bauðst að koma á barnabæklun þegar einn þeirra fastráðnu lækna fór í rannsóknarfrí. Það var minn lukkudagur því ég fann strax að þetta var undirsérgrein sem var heillandi. Vinna með börnum hefur mér alltaf þótt skemmtileg og hreinskilnin í samskiptum við börn einstaklega gefandi. Oft koma spurningar sem eru beinskeyttar svo sem: „Hvað ertu gömul?“, „Af hverju þarf ÉG að fara í skurðaðgerð?“ og „Trúir þú á guð?“

Það tók mig nokkuð langan tíma að finnast ég kunna eitthvað í barnabæklunarlækningum, meðal annars þar sem stór hluti starfsins fer í að sinna sjaldgæfum vandamálum. Það er hins vegar líka það sem gerir starfið skemmtilegt. Stór hluti starfsins fer í að sinna börnum með langvarandi vandamál og þá skapast oft tengsl við barn og fjölskyldu þess sem eru einstök.

Alla starfsævina finnst mér ég vera að læra eitthvað nýtt. Mér hefur einnig fundist alveg ómetanlegt að sækja árlega ráðstefnur og halda kunningskap við sænska barnabæklunarlækna og hafa möguleika á að ráðfæra mig við þá eftir þörfum.

Þegar ég hóf störf á Íslandi var blómleg barnadeild í Fossvogi, þar var góð aðstaða og unnið öflugt starf sem veruleg eftirsjá er að. Þar kynntist ég Höskuldi Baldurssyni sem þá var að ljúka starfsferli sínum sem barnabæklunarlæknir, hann var bæði flinkur og fróður og var gefandi að fá að starfa með honum.

Í heiminum í dag er vaxandi þörf fyrir bæklunarlækna, ekki síst barnabæklunarlækna, og vonast ég til að ungir læknar komi auga á þessa frábæru sérgrein og þá óþrjótandi möguleika sem felast í henni.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica