0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Hvers vegna valdi ég gigtarlækningar? Helgi Jónsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir?
Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Þegar ég lít til baka og reyni að greina þá þætti sem leiddu til þess að ég valdi gigtarlækningar kemur margt upp í hugann. Sumt af því var eðlilegt val, en annað mjög tilviljunum háð.

Ég missti föður minn ungur og afi minn, Helgi Ingvarsson yfirlæknir á Vífilsstöðum, varð að föðurímynd minni að einhverju leyti. Það held ég að hafi ráðið miklu þegar ég valdi læknisfræðina sem mitt fag.

Í seinni hluta læknisfræðinámsins fór ég að velta fyrir mér hvaða sérgrein ég gæti valið mér. Margar sérgreinar, einkum í lyflækningum, heilluðu mig, en ekki þó gigtarlækningar því mér leiddist á námstímanum þar.

Svo kom kandídatsárið og mér líkaði vel og fannst góð tilfinning að vera að gera gagn. Kvensjúkdómafræði fannst mér spennandi og ég kom því þannig við að ég lauk kandídatsárinu á þremur mánuðum á kvennadeild og svo þremur mánuðum í viðbót eftir lækningaleyfi. Mér leið vel á kvennadeildinni, en hafði áhyggjur af því að ég væri varla nógu laginn í höndunum. Staðfestingu á þessu fékk ég þegar ég fylgdist með Auðólfi Gunnarssyni kvensjúkdómalækni sauma snúið tilfelli. Þá áttaði ég mig á því að þetta fag átti ekki við mig, því þetta gæti ég aldrei leikið eftir, sama hvað ég æfði mig mikið.

Mynd/Olga Björt Þórðardóttir

Ég fékk deildarlæknisstöðu í lyflækningum á Landspítala sumarið 1980. Það var góður tími og margir góðir kennarar. Eftir áramót fór ég að hugsa um hvaða sérgrein ég ætti að velja og fór meðal annars og tók próf (PLAB) í Bretlandi fyrir þá sem vildu fara þangað í sérnám. Ég stóðst prófið en við nánari skoðun leist mér þó ekki á Bretland, en ég var kominn með fjölskyldu og ljóst að vinnan þar væri mjög mikil og nauðsynlegt að flytja milli sjúkrahúsa í sérnáminu. Á þessum tíma var ég á lungnadeild hér heima og Hrafnkell Helgason yfirlæknir og frændi minn bauð mér að útvega mér afleysingastöðu á lungnadeild Háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð og úr varð að ég réð mig þangað um sumarið.

Þegar hér var komið sögu voru liðnir 8 mánuðir af deildarlæknisárinu mínu, en fjórir mánuðir eftir. Þá kom upp sú staða að ég og annar læknir áttum báðir eftir að fara á gigtardeild og hjartadeild Landspítala og fór svo að dregið var um það. Ég dró gigtardeild og man að ég fór leiður heim um kvöldið þegar ljóst var að ég ætti að vera á gigtardeild síðustu fjóra mánuðina. Síðan þá hef ég oft hugsað um það að ef ég hefði dregið hjartadeildina hefði ég aldrei orðið gigtarlæknir.

Það er hins vegar skemmst frá því að segja að tíminn minn á gigtardeildinni var besti tíminn á ferlinum. Jón Þorsteinsson yfirlæknir og síðar prófessor rak deildina af miklum krafti. Hann ætlaðist til mikils af unglæknunum sínum en var mjög sanngjarn og ánægður þegar þeir sinntu sínum störfum vel. Ég smitaðist af hans mikla áhuga og viljanum til þess að gera alltaf það besta sem mögulegt var fyrir sjúklingana. Úrræði voru þó oft af skornum skammti og lyf þess tíma gagnslítil og aukaverkanir algengar.

Sumarið 1981 fór ég svo að vinna á lungnadeildinni í Lundi. Á þessum tíma var sú deild lítil og inniliggjandi sjúklingar flestir með langt genginn obstruktivan sjúkdóm eða lungnakrabba. Mér fannst ég gera lítið gagn og hugurinn leitaði meira og meira í gigtarlækningar. Í febrúar 1982 gekk ég því yfir á gigtardeildina í Lundi og hitti fyrir ungan lækni, Gunnar Sturfelt, sem þá var starfandi yfirlæknir á milli prófessora. Við náðum stax góðu sambandi og hann réð mig á staðnum. Síðar kom til sögunnar nýi prófessorinn Frank Wollheim, frábær kennari og mikill vísindamaður. Gunnar heitinn varð síðar leiðbeinandi minn í doktorsverkefni og Frank vinur minn er enn virkur í vísindastarfsemi á tíræðisaldri. Þessir tveir, ásamt Jóni Þorsteinssyni heitnum, voru tvímælalaust þeir áhrifavaldar sem hjálpuðu mér að öðlast þann áhuga á gigtarlækningum sem ég hef enn.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica