04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

HPV-veiran veldur líka krabbameini í munni og hálsi, rætt við Ernu Milunka Kojic

Skoða ætti að gefa fleiri en einum árgangi drengja bóluefni gegn HPV-veirunni nú þegar ákveðið hefur verið að bólusetja þá við þessum veirum. Þetta segir Erna Milunka Kojic, nýr yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. Erna er nýkomin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún bjó í 27 ár. Hún var yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Mount-Sinai West/Morningside sjúkrahússins í New York

„Mér finnst að forgangsraða ætti eftir því hve mikið af efninu er til fyrir stráka frá 11-12 ára aldri. Bólusetja þá að 15 ára aldri og svo nota bóluefnið upp að 26 ára aldri ef nóg er til af því,“ segir Erna Milunka Kojic, nýr yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.

Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins hefur verið ákveðið að hefja bólusetningu óháð kyni frá árgangi 2011 í haust með Gardasil 9 bóluefninu.

Erna Milunka Kojic er nýr yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítala. Hún kom til landsins um miðjan desembermánuð, líst vel á spítalann og segir að ef eitthvað fái hana til að snúa aftur til New York sé það veðrið. Mynd/gag

Erna segir að stöðugt komi í ljós að veiran skaði meira en áður hafi verið talið. Krabbamein í koki, hálsi, tungu og endaþarmi sem og kynfærum kynjanna. Ástæðan eru krabbameinsvaldandi týpur veirunnar. Aðrar veirur, eins og HPV 6 og 11, orsaki svo ýmsar tegundir af vörtum.

„Hér áður var til að mynda talið að krabbamein í hálsi og munni væru aðallega vegna reykinga en nú er að skýrast að veiran á einnig sinn þátt í þeim,“ segir Erna og bendir á að HPV-veiran valdi um 50% krabbameina í háls og koki (pharynx).

„Veiran veldur 70% af endaþarms-krabbameini og nánast öllum legháls-krabbameinum.“ Erna segir að með skimunum í leghálsi hafi tekist að fækka leghálskrabbameinum hjá konum en talan á endaþarmskrabbameinum hækki nú bæði hjá körlum og konum.

„Fyrir skimun greindust 40-50 af hverjum 100.000 með leghálskrabbamein á ári en tíðnin lækkaði niður í 8 eftir að hún var tekin upp,“ segir hún sem merki um mikilvægi skimana. „Vitn-eskjan hefur aukist mikið á síðustu 10-15 árum. Það að HPV-veiran valdi hálskrabbameini er til að mynda tiltölulega nýtt á læknisfræðilegri tímalínu.“ Mikilvægt sé því að auka þekkinguna á bóluefnum gegn HPV-veirum. „Fólk leitar ekki eftir bóluefni sem það veit ekkert um.“

Erna bendir á að frá árinu 2015 hafi verið mælt með bóluefninu Gardasil 4/9 og tveimur skömmtum í stað þriggja. Frá því í desembermánuði síðastliðnum hvetji Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, til þess að nota í það minnsta einn frekar en engan skammt. „Ástæðan er sú að í COVID hefur bólusetningum barna fækkað í heiminum og því er þetta hvatningin til að minnka dreifingu veirunnar.“ Einn skammtur sé því betri en enginn.

Eftirbátar hér á landi

„Íslendingar eru eftirbátar helstu samanburðarlanda þegar kemur að þessum bólusetningum,“ segir Erna og að allt frá árinu 2015 hafi verið þekkt að fá mætti bóluefni sem hindraði smit á týpum sem valda 90% af leghálskrabbameinum. „Þekkt var að nota ætti Gardasil 9 í stað Gardasil 4 sem hindrar 70% þeirra, eða týpur 16 og 18. Það er því gleðilegt að við stefnum nú loksins á að nota þetta breiðara bóluefni hér,“ segir hún.

„Það smitast nánast allir sem stunda kynlíf af HPV-veiru á lífsleiðinni,“ segir hún. „Í einni rannsókn var sýnt að 70% af nýsmituðum losi sig við veiruna innan árs og 90% innan tveggja.“ Hún malli hjá öðrum í mörg ár, sem geti þá valdið krabbameini á 20 ára tímabili. Hæsta tíðni smita sé hjá 20-24 ára konum og 25-29 ára körlum.

Erna segir framangreint sýna að bólusetja þurfi drengi til að viðhalda ekki veirunni og verja þá fyrir kynfærakrabbameinum. Mælt sé með að hefja bólusetningar stúlkna frá 9-12 ára aldri en 11-12 ára hjá drengjum. Ráðgjafanefnd um bólusetningaraðferðir í Bandaríkjunum, ACIP, segi að gefa megi drengjum bóluefni að 26 ára aldri og hún hvetji því yfirvöld til að skoða það hér.

Tilfinningarússíbani í COVID

Erna er nýkomin heim frá Bandaríkjunum og segir að hún hafi alltaf hálfvegis verið á heimleið. „En svo komu alltaf upp ný spennandi verkefni. Í gegnum tíðina hef ég ákveðið að klára þau,“ segir hún, en tvíburarnir hennar, Karl Milutin og Júlía Guðrún, sem eru á þrítugsaldri, eru farin að heiman.

„Þau eru komin með sitt sjálfstæða líf og ég allt í einu komin á þann stað að vilja koma heim.“ Dóttirin er meistari í lýðheilsu frá Michigan-háskóla og komin hingað heim og starfar á Vogi. Sonurinn hins vegar í hagfræðinámi, fyrst í Harvard en nú MIT. „Hann er ekkert að koma til Íslands en það að dóttirin fór heim spilaði inn í ákvörðun mína.“

Erna stóð í ströngu í COVID í New York síðustu ár sín þar. „COVID skall á með þvílíkum krafti og offorsi. Það bjóst enginn við þessari stærðargráðu,“ segir hún en New York er lendingarstaður stórs hluta heimsins og sýkingarnar því úr mörgum heimshornum. „Holskefla varð því í New York.“ Hún var þá yfirmaður smitsjúkdóma á stærsta spítala Manhattan þar sem gripið var til alls konar ráða til að eiga við fjöldann.

„Þetta er í mars 2020. Við vissum ekkert. Sem dæmi má nefna að við vorum að reyna að draga þekkingu af SARS-COV-1. Þá átti alls ekki að gefa stera og setja fólk á öndunarvélar sem fyrst. Þessi veira hagaði sér hins vegar öðruvísi og þetta hentaði henni ekki,“ segir hún.

Fyrstu viðbrögð hafi verið fálmkennd. „Við vorum að prófa okkur áfram. Við fórum í mikla rannsóknarvinnu, bera saman og setja fólk á ólíkar meðferðir. Sumar reyndust góðar en aðrar ekki, gagnslausar, jafnvel skaðlegar,“ segir hún og lýsir því hvernig tjaldað var yfir heilu göturnar á Manhattan til að koma sjúklingum fyrir. „Ég hugsaði: Hvert er ég komin?“ Fyrst hafi allir verið í sjokki.

„En það var ákveðin spenna í lofti. Allt var nýtt, nýr smitsjúkdómafaraldur. Við héldum að við gætum tekið á þessu og sigrað. Ég var alltaf á spítalanum, fannst gaman. En svo breyttist andrúmsloftið. Það fór fljótt úr því að vera spennandi yfir í að vera erfitt bæði andlega og líkamlega. Svo varð maður þreyttur, svo hálf reiður yfir að vera föst í sömu sporum. Þetta var andlegur rússíbani,“ lýsir Erna.

Alls störfuðu 19 læknar undir stjórn Ernu á smitsjúkdómadeildinni á Mount-Sinai West. „Þar er nóg af öllu og aðgengi að öllu. Hér á Landspítala þurfum við að pæla í hvað er til og að panta sumt frá útlöndum,“ segir hún og skellir létt upp úr spurð um samanburð.

„Maður finnur fyrir smæðinni. Læknar eru beðnir um að gera fleiri hluti hér en úti. Þar eru sviðin afmarkaðri og stuðningur meiri við lækna. Þar er einfaldlega meira af fólki en hér er fjöldinn takmarkaður. Það eru því allir að gera allt,“ segir hún en vill þó ekki kvitta undir að COVID-þreytan hafi fleytt henni heim. „Enda er þessi veira komin til að vera með okkur. Við verðum að læra að lifa með henni og hún orðin eins og hver önnur inflúensuveira.“

Í Serbíu á sumrin

Foreldrar Ernu, Guðrún Ottesen Óskarsdóttir og Milutin Kojic, kynntust Í New York. „Pabbi er fæddur í sveit í Serbíu. Hann var sendur eftir síðari heimsstyrjöldina til vinnu á Manhattan. Þar hittir hann mömmu árið 1954. Hún ætlaði í tískuskóla en giftist pabba þremur mánuðum seinna í Belgrad,“ segir hún, og hvernig hún varði sumrum í sveitinni þeirra í Zakúta í Serbíu.

„Tengslin við bæði löndin voru því alltaf mikil,“ segir Erna. „Pabbi var alltaf sterktengdur gömlu Júgóslavíu,“ segir Erna sem heldur í ræturnar. „Ég á fullt af ættingjum þar.“ Heimsfaraldrar og stríð hafa því komið við Ernu og ekki hægt annað en nefna Balkanstríðið 1996.

„Þetta stríð var afskaplega flókið. Balkanskagi er einn suðupottur. Þar úir og grúir af fólki af ólíkum uppruna enda Balkanskaginn hvarfpunktur frá austri til vesturs. Í gegnum tíðina eru landamærin mjög óskýr. Þau hafa alltaf verið að færast. Þá eru trúarbrögðin mismunandi. Á þessum árum voru stjórnmálamenn við völd sem horfðu ekki til langs tíma og því sauð allt upp úr,“ segir hún.

En kvikna þá tilfinningar nú við Úkraínustríðið? „Mér finnst skelfilegt hvað mannskepnan man ekkert. Það eru endalaus stríð og yfirtökur. Þetta er svo klikkað. Enn lifir fólk sem tók þátt í síðari heimsstyrjöldinni og við erum aftur komin í þá stöðu að ein þjóð taki yfir annað land. Það er óskiljanlegt,“ segir hún.

Nýr kafli í lífinu

Erna er á kaflaskilum í lífi sínu. „Já, ég sé líf mitt í köflum. Kaflinn sem krakki, kaflinn í læknadeildinni, kaflinn á Manhattan, kaflinn þegar ég var með börnin mín lítil og nú spyr ég mig: Hvernig verður þessi Íslandskafli,“ segir hún og lýsir því hvernig hún hafi talið að hún gengi inn í algjört hörmungarástand á spítalanum af umfjölluninni að dæma.

„Væntingarnar voru engar. Ég hélt að hér væri allt í hræðilegum ólestri. Það er ekki þannig.“ Landspítali glími við sömu vandamál og önnur sjúkrahús. „Þau eru flóknir vinnustaðir og fyrirbæri þar sem margt spilar inn í,“ segir hún.

„Við eigum alltaf að halda áfram að betrumbæta og vinna að því að gera betur en þetta gestsauga sem ég hef núna sýnir mér að margt er vel gert. Ég tel að upp á vinnustaðamóral sé mikilvægt að stoppa aðeins, horfa til baka og sjá hvar við gerum vel.“ Erna er því ekki að spá í að stökkva til baka eftir þessa fáu mánuði heima.

„Nei, ef það er eitthvað sem fær mig til að stökkva til baka er það veðrið. Það rignir neðan frá. Það hefur verið óveður síðan ég lenti 16. desember,“ segir hún að lokum.

Hollywood-kastljós á HPV-krabbamein

Fréttir af Hollywood-leikurunum Förruh Fawcett og Michael Douglas hafa varpað ljósi á HPV-veirukrabbamein.

„Hún deyr úr endaþarmskrabbameini árið 2009 og hann fékk hálskrabbamein. Hann kom út og sagði að hann hefði fengið krabbamein vegna munnmaka. Hann sagði það í gríni en þetta vakti athygli á veirunni,“ segir Erna Milunka Kojic, smitsjúkdómalæknir.

„Ég ber endaþarmskrabbamein saman við leghálskrabbamein. Þetta er sama anatómían, sama veiran sem veldur sama sjúkdómi,“ segir Erna. Því sé mikilvægt að skima endaþarm rétt eins og legháls. Vandi steðji þó að.

„Hægt er að skera leghálsinn úr en að taka hluta af endaþarmi er meiriháttar mál. Þrátt fyrir það ætti að taka áhættuhópa út og skima.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica