02. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Frá Félagi læknanema. Að fjölga læknanemum um helming
Mannaflaspá Læknafélags Íslands gefur vísbendingar um að árið 2040 muni vanta um 250 lækna. Heilbrigðisráðherra og ráðherra háskóla, iðnaðar- og nýsköpunar hafa rætt lausnir. Nefnt hefur verið að fjölga læknanemum sem stunda nám við Háskóla Íslands í 75 eða jafnvel 90 sem væri 50% fjölgun. Í haust var stjórn læknadeildar boðuð á fund með ráðuneytunum og skipaðar voru nefndir til þess að safna gögnum um hvernig best væri að haga fjölguninni.
Hér verður gerð grein fyrir afstöðu Félags læknanema til málsins.
Aðstæður til náms og breyttir kennsluhættir
Fyrstu þrjú ár læknanámsins fara að mestu fram í Læknagarði þar sem engin kennslustofa rúmar 90 nemendur. Nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs á að rísa árið 2025. Það á að sameina alla starfsemi sviðsins undir einu þaki. Í húsinu verða þrjár kennslustofur sem rúma 90 nema og verður þeim deilt með enn stærri árgöngum hjúkrunarfræðideildar.
Síðari þrjú ár læknanámsins eru verknám á Landspítala en að mati margra er það flöskuháls námsins. Fyrsti árgangurinn með 60 nemendum sem tekinn var inn í læknadeild er nú á fjórða ári að stíga sín fyrstu skref í klínísku námi. Þannig hefur enn ekki fengist reynsla af svo stórum hópi í verknámi á Landspítala og áhrif þess fjölda á námið munu því ekki verða ljós fyrr en árgangurinn útskrifast vorið 2025.
Aðstæður á Landspítala fyrir læknanema í verknámi bjóða varla upp á frekari fjölgun. Fullsetið er í vinnuherbergjum, engin lesaðstaða er til staðar í Fossvogi og búningsklefar of fáir og litlir. Mikilvægust eru þó námstækifærin sem eru háð fjölda sjúklinga. Legurými eru ekki mörg og efri mörk eru á því hve mörgum læknanemum er hægt að bæta við á stofugangi eða í viðtöl á geðsviði, svo dæmi sé tekið. Sömuleiðis er aðgengi að skurðstofum takmarkað þar sem þær eru ekki fullnýttar núna.
Margir sem stunda læknanám erlendis kjósa að taka hluta af verknámi sínu á Landspítala. Aðsókn eykst með ári hverju og hefur þetta í för með sér fjölgun læknanema á deildum sem eru illa í stakk búnar til að taka á móti fleirum.
Verði læknanemum fjölgað þarf að breyta kennsluháttum svo koma megi öllum fyrir. Í því samhengi eru færni- og hermisetur nefnd og nú eru tvö í notkun. Þau hafa þó lítið verið notuð við kennslu læknanema, þau eru oft fullbókuð, krefjast mannafla og því kostnaðarsöm. Í nýju húsi heilbrigðisvísindasviðs er gert ráð fyrir nýju hermisetri og eru fleiri slík verkefni í bígerð. Í gegnum árin hefur einn stærsti kostur læknanámsins verið gæði verknámsins sem hefur einkennst af mikilli viðveru á deildum spítalans. Fjölgun læknanema mun hafa veruleg áhrif á þetta.
Að leita á önnur mið
Á síðustu árum hafa dag- og göngudeildir verið meira nýttar til kennslu en slíkt er þó háð framboði. Til þess að viðunandi kennsla eigi sér stað á þessum vettvangi er lykilatriði að nægur tími sé fyrir hendi svo hægt sé að sinna bæði skjólstæðingnum og læknanemanum.
Ár hvert fara læknanemar í verknám á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta er valkvætt og hefur gefist vel. Eflaust væri hægt að nýta Fjórðungssjúkrahúsin til verknáms en það strandar á framboði lækna og þjónustu sjúkrahúsanna. Margir læknanemar hafa stofnað fjölskyldu og eiga ekki tök á að flytja sig um set sem hindrar að þessi valkvæði möguleiki verði gerður að skyldu.
Til eru margar sjálfstætt starfandi læknastofur þar sem verknám læknanema gæti farið fram. Semja þyrfti um slíkt við sjálfstætt starfandi lækna og fjármagn yrði að fylgja hverjum nema svo læknar yrðu ekki fyrir tekjutapi af því þeirri kennslu.
Hvati til kennslu og mönnunarvandi
Klínískt verknám byggir á óeigingjarnri kennslu sérfræðilækna, sérnámslækna og annars starfsfólks. Tilfinning læknanema er þó sú að kennsla sé gjarnan einstaklingsframtak sérlega áhugasamra og endurspeglar það skort á hvata lækna til að sinna fræðslu. Hvati í formi kjarabóta, skilgreinds vinnutíma til kennslu og aukinnar fjármögnunar til vísindastarfs er nauðsynlegur þegar vinnuálag er mikið og kulnun í starfi eins áberandi og raun ber vitni en niðurstöður könnunar Félags almennra lækna árið 2022 um þetta voru sláandi.
Það er fagnaðarefni að stjórnvöld skoði leiðir til að bregðast við yfirvofandi læknaskorti. Þó er ljóst að umfangsmiklar breytingar þurfa að verða á innviðum heilbrigðiskerfisins og skipulagi læknanámsins eigi 50% fjölgun læknanema að ganga eftir. Viðhalda þarf gæðum klínísks verknáms læknanema en þau hafa veitt íslenskum læknum sérnámsstöður á erlendum sjúkrahúsum í ára raðir. Nákvæmt skipulag hvers læknanema í klínísku verknámi verður að liggja fyrir til grundvallar fjölguninni.
Stjórnvöld verða að hlúa að starfsumhverfi lækna svo heilbrigðiskerfið sé samkeppnishæft og þyki ákjósanlegur áfangastaður nýrra sérfræðilækna. Undirmönnun fagfólks á flestum sviðum, ónógar fjárveitingar og ófullkomin nýting þeirra ásamt álagi og kulnun í starfi getur ekki talist vera frjór jarðvegur fyrir fjölgun læknanema. Mikilvægt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að leysa rót vandans sem viðheldur læknaskortinum áður en farið er í fjölgun af þessu tagi.