02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Öldungar við símann. Reynir Tómas Geirsson, Guðmundur Vikar Einarsson

 „Góðan daginn, er þetta Sigurður Kaldi Kaldan sem ég tala við?“

„Já, það er hann.“

„Sæll, þetta er Reynir Tómas Geirsson/Guðmundur Vikar Einarsson, læknir í COVID-símaveri Landspítala. Ég hringi til að vita hvernig þú hefur það og hvort eitthvað hefur breyst frá í fyrradag þegar við hringdum í þig. Er hóstinn svipaður eða verri? Hvað með hálsinn og nefrennslið? Niðurganginn, ógleðina, lystarleysið?“

Haustið 2020 var COVID að ná hámarki. Við höfðum skráð okkur í bakvarðasveit til að aðstoða ef læknar veiktust á okkar gömlu deildum, kvennadeild og skurðlækningadeild Landspítala. Þá gætum við aðstoðað við það sem við töldum okkur kunna best. En sú sem hringdi var ekki að sækjast eftir okkur í þannig verk. Hún sagði: „Við vitum að þú getur talað við fólk“. Okkur var boðið á kynningarfund um COVID-símaverið. Engin töf var á að útskýra hvað ætti að gera í símaveri og hvernig ætti að bera sig að við svona símtöl. Ekki var um annað að ræða en að mæta næsta dag á efstu hæð húsnæðis Landspítala við Skaftahlíð og láta setja sig inn í málin þar, tengja símtól, læra að logga sig inn í tölvur staðarins, fara inn á réttar síður, Heilsuveru og gagnagrunna sem settir voru upp til að halda utan um þá sem höfðu smitast. Finna kaffiaðstöðuna og matsalinn.

Þarna var fyrrum samstarfsfólk úr heimilislækningum, geðlækningum, lyflækningum, svæfingalækningum, auk okkar. Þarna voru líka barnalæknir og frábærir samstarfsmenn úr hópi reyndra hjúkrunarfræðinga sem kunnu ekki síður að tala við veikt og ekki svo veikt fólk. Læknanemar, sem svo sannarlega höfðu lært um samskipti, bættust við. Við sátum í opnu vinnusvæði, heyrðum hvort í öðru tala við skjólstæðingana og þar með hvernig samstarfsfólkið tók á álitamálum og uppákomum. Lærðum hvert af öðru og spurðum hvert annað ráða. „Hvað segir þú þegar spurt er um þetta? Hvernig á að leysa úr svona vanda hjá konu með þetta grunnvandamál, eða ungum karlmanni sem spyr um einangrunina fyrir sig og fjölskylduna?“

Allt í einu vorum við, seniorarnir, komin inn í hringiðu hins klíníska veruleika á ný. Hundruð símtala þurfti að eiga við fólk, hvar sem var á landinu, Íslendinga og erlent fólk, þar með talda ferðamenn. Útlendinga sem voru fastir á sóttvarnahóteli eða í heimahúsi. Ýmsu þurfti að bjarga, svo sem lyfjum og vottorðum. Félagsleg vandamál komu oft í ljós. Með góðri aðstoð tókst oftast að leysa bráðasta vandann. Tala við sóttvarnahótelin um aðstæður og matinn, útskrift í lok einangrunar, heimferðina. -Hringdum oft upp í 30-40 símtöl á dag hvert okkar þegar mest var. Enska, danska, sænska, þýska, stöku orð í öðrum málum. Sumir kunnu önnur tungumál: pólsku, spænsku, litháísku, taílensku eða rússnesku. Það gladdi fólk að heyra kunnuglega kveðju, og enn meira að fá leiðbeiningar og skýringar á eigin tungumáli.

Margir fóru án teljandi veikinda gegnum veirusýkinguna. Aðrir urðu verulega veikir og þurftu skoðanir, innlagnir og þétta eftirfylgd í símanum, tilvísanir og skoðun á COVID-göngudeild Landspítala eða á Akureyri, innlagnir og eftirfylgd eftir sjúkrahúsvist. Nær allir tóku manni vel, suma þekktum við, enn fleiri þekktu okkur og höfðu reynslu af okkar læknisstörfum á fyrri árum. Það hjálpaði í samskiptunum og skipti máli til að skapa traust. Oft urðu umræður skemmtilegar og snerust um fleira en veirusýkinguna. Annar okkar fékk að vita hjá nokkru yngri konu sem greinilega líkaði við viðmælandann eftir ráðleggingar um mál sem ekki snerti COVID-smitið: „Heyrðu, ég er á lausu!“ Þá var gott að hafa hringt úr spítalasíma en ekki að heiman eins og sumir gerðu í þessum hringingum.

Við vorum að alla daga og höfðum samviskubit ef við mættum ekki svona 2-4 klukkustundir á dag. Allt upp í 7-9 tíma þegar mest þurfti. Ráðguðumst við mjög duglega yngri kollega á COVID-göngudeildinni, en líka eldri kollega í smitsjúkdómateyminu eða á öðrum deildum spítalans, við lyfjafræðinga í apótekum og fleiri. Við höfðum frábæran yfirmann í símaverinu sem sjálf sat við símann alla daga og mun lengur en við hin. Þangað var alltaf hægt að sækja ráð. Skráningarkerfið og utanumhaldið virkaði án hnökra. Mikil stoð var í tölvukerfinu með því starfsfólki hélt því gangandi. Þetta gerði medísínskt utanumhald mun auðveldara. Læra mætti af þessu um leiðir til að létta á heilbrigðisþjónustunni.

Þegar hlé komu á smitum í samfélaginu mátti slaka á, en þrisvar varð uppsveifla og þá komum við öll aftur: læknar, hjúkrunarfræðingar og annað samstarfsfólk. Ljósmyndari spítalans kom og þannig fékk starfið aukna athygli, sjá meðfylgjandi myndir.

Símaversstarfið stóð í nær tvö ár og sýndi að enn gat verið gagn í þeim sem tilheyra öldungadeild Læknafélagsins. Þekking og reynsla nýttust vel fyrir þá sem höfðu smitast og til gagns fyrir samfélagið. Ekki síst var þetta okkur sem þátt tókum í starfsemi COVID-símaversins til gleði. Við gátum enn gert gagn. Ekki bara á golfvöllum og í því að líta eftir barnabörnum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica