02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öll slitin en sum finna til, segir Jósep Ó. Blöndal um sjúklinga sína

Jósep Ó. Blöndal læknir segir myndatökur af bakverkjum í langflestum tilvikum oflækningar. Allt það, sem sést á myndum hjá fólki með bakverki, sjáist líka hjá þeim, sem aldrei finna til

„Læknar eiga ekki að eltast við verkinn sjálfan heldur heildarmyndina í lífi sjúklingsins,“ segir Jósep Ó. Blöndal, sérfræðingur í bakverkjum. Hann er fyrrum yfirlæknir sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi og nú trúnaðarlæknir hjá Heilsuvernd. Hann gagnrýnir myndatökur, sneiðmyndir og segulómanir á skjólstæðingum með bakverki.

Jósep Ó. Blöndal varði lengstum tíma starfsferilsins í bakverki, samhliða almennum skurðlækningum og starfaði á Patreksfirði í 6 ár, síðan í Stykkishólmi í 27 ár. Hann var áður skurðlæknir í Svíþjóð og nú trúnaðarlæknir hjá Heilsuvernd. Hér er hann á Læknadögum. Mynd/gag

„Myndatökur hjá flestum fullorðnum einstaklingum sýna aldurstengdar breytingar, en geta ekki sýnt verki. Suma verkjar og aðra ekki,“ segir Jósep, sem hlaut þjálfun í ortópedísk-medisínskri læknisfræði í London á árunum 1986-1991 við stofnun James Cyriax — „föður stoðkerfisfræðinnar,“ eins og hann segir. „Þar var okkur strax sagt að allt það sem sést á myndum af fólki með bakverki sjáist líka hjá fólki sem hefur aldrei fundið til.“ Jósep hélt hádegisfyrirlestur um málið á Læknadögum.

Jósep starfaði lengi sem almennur skurðlæknir en starfaði samhliða sérgreininni í 25 ár í háls- og bakdeildarteymi á St. Franciskus-spítalanum í Stykkishólmi. Hann segir tilhneigingu innan heilbrigðiskerfisins til að mynda að óþörfu.

„Þetta snýst um vonda læknisfræði — oflækningar. Ekki er hikað við að mynda þótt engin þörf sé á því. En samt er það gert,“ átelur hann. „Það þarf að hlusta á, spyrja réttra spurninga og skoða fólk almennilega því með því að hlusta vel á sjúklinginn sést heildarmyndin,“ segir hann og kallar eftir nánari samvinnu lækna og sjúkraþjálfara.

Jósep sótti ráðstefnu í Vancouver í Kanada í september. „Þar ræddum við hvað það er vitlaust að eltast endalaust við verkinn sjálfan. Ein afleiðing þess er yfir 70.000 dauðir Ameríkanar á ári af völdum ópíumskyldra lyfja.“ Verkjalyf leysi ekki vandann.

„Við þurfum að taka með í reikninginn hver einstaklingurinn er, hver fortíð hans er, hvað gerir hann og hvernig hann er menntaður,“ segir þessi reyndi læknir og horfir til skjólstæðinganna.

„Þeir sem eru með minni menntun eru í meiri hættu á að hafa króníska verki. Þeir sem hafa lág laun fá frekar langvinna verki. Það skiptir máli hvað þau gera, hvernig neyslumynstrið er, hver þeirra fortíð er, hvað þau eiga mörg börn og svo framvegis,“ segir Jósep sem lýsir því hvernig honum hafi í fyrstu ekki fundist einstæð móðir með 7 ára barn vera í vondri stöðu fyrr en hún sagði honum að hún hefði haldið á barninu öll þessi ár.

„Síðan hef ég spurt hvert einasta: Eru börnin frísk? Eins þurfum við að spyrja um lífsstílinn: reykingar, áfengisneyslu, mataræði,“ segir Jósep sem heldur ekki aðeins fast í þessa grunnþekkingu í læknisfræðinni, ef svo má segja, heldur einnig í mataræði. Sjúkdómarnir liggi í lífsstílnum.

„Ég er nú hræddur um það,“ segir hann í símtali við Læknablaðið stuttu áður en hann hélt erindið Talaðu bara hærra! Um endurteknar myndatökur hjá háls- og baksjúklingum á Læknadögum.

 

„Amma þín hvað?“

„Ég skildi ekki hvað það þýddi að spyrja fólk hvað það éti, hvað kemur það okkur [læknum] við? En þegar maður kynnist mataræði Bandaríkjamanna þá fattar maður það. Þeir lifa á rusli og allar aðrar þjóðir eru að taka það upp,“ segir Jósep Ó. Blöndal læknir.

Jósep hefur lagst yfir næringarfræði og segir ráðleggingar um mataræði hafa verið rangar í gegnum tíðina og byggst á vafasömum vísindum. Dæmi séu um að fræðingar hafi verið keyptir til segja í lagi að drekka „nógu mikið kók“ ef menn færu svo út að hlaupa. „Fínhreinsuð kolvetni; hveiti, pasta sykur, hvítt brauð, kex, gosdrykkir og kartöfluflögur. Þetta er það sem er líklegast óhollast fyrir okkur.“ Hann hvetur fólk til að horfa aftur í tímann.

„Amma þín hvað?“ spurði hann í hádegisfyrirlestrinum þriðjudaginn 17. janúar á Læknadögum. Undirtitilinn: Harmatölur næringarfáfræðings - með trúarlegum undirtónum. „Þegar maður hefur farið í gegnum þetta og séð vísindin fer maður heim til ömmu, því allt sem hún gaf okkur að borða innihélt það sem við þurftum.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica