02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bráðnun jökla uppskrift að hörmungum, af málþingi á Læknadögum

„Rannsóknir benda til þess að meira en helmingur allra smitsjúkdóma
muni aukast verulega í kjölfar loftslagsbreytinga. Þessir sjúkdómar eru af fjölbreyttum toga og þetta gildir jafnt um veirusýkingar, bakteríusýkingar, sveppasýkingar og frumdýrasýkingar,“ sagði Magnús Gottfreðsson á Læknadögum

„Bráðnun jökla er dæmi um ógn sem við erum svo fákunnug um að við vitum ekki einu sinni að við vitum,“ sagði Magnús, prófessor í læknisfræði og sérfræðingur í smitsjúkdómum, í erindi sínu: Smitsjúkdómar og loftslagsbreytingar, á Læknadögum. Hann lýsti jöklum sem risastórri frystikistu eða tímahylki sem geymi vatn sem hafi safnast upp um árþúsundir og milljónaskeið. Þar finnist verðmæt sýni frá lífríkinu.

„Núna erum við í óðaönn að opna þessa frystikistu. Hreinsa út úr ísskápnum,“ sagði hann. Nýlega hafi verið teknir borkjarnar úr jöklum og aðferðir sameindalíffræðinnar nýttar til að greina lífríki úr 13.000 ára gömlum sýnum og jafnvel 130.000 ára gömlum sýnum sem hægt sé að finna í sífreranum í Síberíu.

„Þarna koma stórkostlegar uppgötvanir í ljós,“ sagði hann og benti á risaveiru með gríðarstórt erfðamengi sem framleiddi fleiri prótín en flestar bakteríur. Hún geti sýkt ýmisskonar heilkennafrumur.

„Við vitum að öðru leyti mjög lítið um hvað hún mun gera ef hún losnar úr læðingi. Þessari veiru var lýst fyrir skömmu og síðan hafa menn bætt um betur og sýnt fram á að jafnvel á svæðum sem við töldum vera algjörlega botnfrosin, hafa myndast jökullón vegna bráðnunar jökla þar sem leynist ótrúlega fjölskrúðugt lífríki.“ Spá megi fyrir framtíðinni með því að nota raðgreiningargögn til að para saman það sem finnist þar og í jöklunum við þær frumur sem síðan gætu mögulega orðið fyrir barðinu á þessum veirum.

„Niðurstöður sýna að það eru heilkennafrumur og dýr sem eru líklegustu skotmörkin, sagði hann og vitnaði í vísindamann sem sagði þetta uppskrift að hörmungum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica