02. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Nýjung í kennslu læknanema, - rætt við Ingu Sif Ólafsdóttur og Önnu Björgu Jónsdóttur
„Svo þarft,“ sögðu túlkarnir tveir þegar þeir gengu út úr kennslustofu í Læknagarði á mánudagseftirmiðdegi í janúar. Samskipti við sjúklinga með aðstoð túlks höfðu þá verið kennd í fjóra daga sem og hvernig nýta mætti þverfaglega samvinnu á teymis- og fjölskyldufundum
52 sjötta árs læknanemar og 45 hjúkrunarfræðingar á starfsþróunarári við Landspítala skipuðu 26 hópa sem stunduðu hermikennslu í góðum vinnubrögðum við samskipti með aðstoð túlks og þverfaglega samvinnu á teymis- og fjölskyldufundum við Læknadeild nú í janúar.
Inga Sif Ólafsdóttir, lektor í læknadeild og lyf- og lungnalæknir, segir þessa kennslu vera lokahnykkinn í kennslu í samskiptafræði þar sem áherslan sé á þverfagleg samskipti. „Þetta er í annað sinn sem við höldum þetta námskeið. Við kennum færni sem algjörlega hefur vantað inn í grunnnámið hingað til. Endurgjöf nemenda á námskeiðið hefur verið mjög jákvæð,“ segir hún.
Inga Sif Ólafsdóttir, lektor í læknadeild og lyf- og lungnalæknir, og Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir.
„Þetta er færni sem læknar verða að búa yfir frá fyrsta degi í vinnu,“ segir hún þar sem hún sest með Læknablaðinu og Önnu Björgu Jónsdóttur, öldrunarlækni, eftir kennsludaginn. Þær skipulögðu og héldu utan um kúrsinn ásamt Sigrúnu Sunnu Skúladóttur hjúkrunarfræðingi. Túlkaþjónusta ASETUR komi svo með þeim að kennslunni.
„Læknar og hjúkrunarfræðingar sinna teymis- og fjölskyldufundum nánast daglega og því þurfum við að æfa þessa færni eins og allt annað. Þetta er þverfagleg samvinna númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hún. Þjálfa þurfi hvernig fundirnir verði markvissir og skili því sem til sé ætlast.
„Þetta eru stuttir fundir og dýrmætt að virða tíma alla sem þá sitja,“ segir Inga Sif. „Við æfum þetta í litlum hópum, báðar starfsstéttir, og 2-3 leiðbeinendur fyrir hvern hóp, svo þessi hermikennsla sé af bestu gæðum.“
Anna Björg segir mikilvægt að hafa kennsluna verklega. „Nemendur fá að æfa sig í öruggu umhverfi. Þau fá að gera mistök og við ræðum þau og lærum af þeim um leið og þau gefa hvert öðru jafningjamat.“ Samskiptin þjálfist með endurtekningunni. „Æfingin skapar meistarann.“
Inga Sif segir fæsta rétta upp hönd þegar hún spyrji um reynslu nemanna af fjölskyldufundum. „Sumir nemendur fara í gegnum 6 ára háskólanám án þess að hafa setið fjölskyldufundi,“ segir hún. Fæst ef nokkurt þeirra hafi komið að því að leiða slíkan fund eða fengið að byrja fundinn. Svo hefja þau störf og á fyrstu starfsdögum er nánast öruggt að þau þurfa að taka þátt í slíkum fundum eða jafnvel leiða fundinn.
„Læknar hafa því verið settir í þá stöðu að leiða þessa fundi án undirbúnings og það er það sem við erum að breyta með þessari kennslu,“ segir hún.
Læknanemar og hjúkrunarfræðingar á starfsþróunarári fóru í gegnum hermikennslu í samskiptum með túlki og á fjölskyldufundum í læknadeild. Myndir/gag
Þursabit er erfitt að þýða
Að mörgu er að huga þegar rætt er við sjúkling í gegnum túlk. Ekki aðeins orðanotkun heldur einnig menningu. Þetta segja þær Inga Sif Ólafsdóttir og Anna Björg Jónsdóttir. Þær segja til að mynda hafa verið nefnt að það þýði ekki að segja við skjólstæðing að hann sé með þursabit.
„Einn túlkurinn þýddi það bókstaflega sem svo að risi hefði bitið í bakið á viðkomandi,“ segir Inga Sif. Sjúklingurinn hafi ekki átt til orð. „Við verðum því að nota orð og hugtök sem túlkurinn skilur og getur þýtt. Við viljum ekki að túlkur giski og það getur reynst varasamt að þýða orðrétt, þó við viljum líka að túlkurinn komi réttum upplýsingum á milli.“
Þær segja að Alþjóðasetur, sem heldur utan um túlkaþjónustu á Íslandi, hafi stutt kennsluna frá upphafi. „Það hefur komið með ómetanlega sýn túlka á samskipti við fólk af erlendum uppruna,“ segir Anna Björg. „Margir nemendur hafa sagt þessa kennslu opna augu sín fyrir þeim fjölbreytileika sem er í íslensku samfélagi og við sem heilbrigðisstarfsmenn verðum að vera vakandi fyrir og virða.“