02. tbl. 109. árg. 2023

Fræðigrein

Joðneysla tveggja ára barna og fullorðinna á Íslandi og mat á áhrifum þess að nota joðbætt salt við framleiðslu á brauði

Iodine intake of two-year-olds and adults in Iceland and estimation of the effect of using iodized salt in breads

doi 10.17992/lbl.2023.02.730

Ágrip

INNGANGUR
Ófullnægjandi joðhagur greindist nýlega hérlendis meðal barnshafandi kvenna. Notkun á joðbættu salti er þekkt leið til að bæta joðhag, en hefur ekki verið beitt hérlendis. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa joðneyslu tveggja ára barna og fullorðinna á Íslandi og meta líkleg áhrif þess að nota joðbætt salt í brauð.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Joðneysla var reiknuð út frá neyslugögnum landskönnunar á mataræði 2019-2021 (18-80 ára, n=822) og rannsókn á mataræði tveggja ára barna (n=124) og mat lagt á aukningu joðneyslu ef joðbætt salt væri notað í brauð. Niðurstöðurnar eru bornar saman við ráðlagða dagsskammta fyrir joð (90 µg/dag fyrir tveggja ára börn og 150 µg/dag fyrir fullorðna), efri mörk hættulausrar neyslu (200 µg/dag fyrir ung börn og 600 µg/dag fyrir fullorðna) og lægri mörk neyslu (70 µg/dag fyrir fullorðna).

NIÐURSTÖÐUR
Meðalneysla á joði var 88 µg/dag meðal tveggja ára barna og 134 µg/dag meðal fullorðinna. Ef allt brauð innihéldi 20 µg af joði í 100 grömmum færi meðalneysla á joði upp í 99 µg/dag hjá tveggja ára börnum (13% aukning) og 153 µg/dag hjá fullorðnum (14% aukning), miðað við núverandi neyslu á brauði. Við hærri styrk myndi meira en 5% tveggja ára barna fara yfir efri mörkin en joðstyrkur sem nemur allt að 70 µg/100 grömmum af brauði væri vel innan marka fyrir fullorðna.

ÁLYKTANIR
Notkun á joðbættu salti í brauð sem svarar til 20 µg af joði í 100 grömmum af brauði virðist örugg fyrir ung börn. Þessi viðbætti joðstyrkur í brauðum myndi þó ekki duga til að tryggja fullnægjandi joðneyslu allra fullorðinna, sé miðað við núverandi mataræði landsmanna.

Greinin barst til blaðsins 4. nóvember 2022, samþykkt til birtingar 16. janúar 2023.

Inngangur

Joð er snefilefni sem er nauðsynlegt fyrir myndun skjaldkirtilshormóna (þríjoðþýrónín (T3) og þýroxín (T4)). Skjaldkirtilshormón gegna mikilvægu hlutverki í líkamanum, meðal annars á meðgöngu fyrir eðlilegan vöxt og þroska fósturs.1-4 Helstu uppsprettur joðs í íslensku mataræði eru annars vegar mjólk og mjólkurvörur (aðrar en ostur) og hins vegar fiskur, sér í lagi magur fiskur.5 Frásog á joði úr fæðu er yfirleitt gott (>90%).6,7 Þörf fyrir joð er breytileg eftir aldri og aðstæðum (sjá töflu I) en joðþörf eykst til að mynda á meðgöngu vegna aukinnar framleiðslu á skjaldkirtilshormónum, aukins útskilnaðar á joði og flutnings joðs til fósturs.8,9

Ekki er reglulega fylgst með joðhag almennings á Íslandi, en til þess væri til dæmis hægt að safna þvagprufum og mæla miðgildi joðs úr tilviljunarkenndu úrtaki. Þær rannsóknir sem eru til um joðneyslu og joðhag Íslendinga benda allar til þess að joðhagur hafi í gegnum tíðina verið fullnægjandi.10,11 Ófullnægjandi joðhagur greindist í fyrsta sinn á Íslandi í rannsókn frá 2017-2018 meðal barnshafandi kvenna.12 Erlendar rannsóknir benda til þess að jafnvel vægur joðskortur á meðgöngu geti haft áhrif á þroska barna.13-19 Því er ekki útilokað að versnandi joðhagur geti verið farinn að hafa áhrif á þroska barna hérlendis.

Í ljósi sögunnar hefur ekki fyrr en nú verið talin þörf fyrir aðgerðir til að bæta joðhag þjóðarinnar. Á grunni rannsókna á joðhag víða erlendis hafa verið sett lög eða reglugerðir um notkun á joðbættu salti,20 en það er sú aðferð sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með.21 Á Norðurlöndunum er Danmörk eina landið þar sem skylt er að nota joðbætt salt í framleiðslu á brauðvörum.20 Lögin voru sett árið 1999 og var miðað við að salt sem notað er í bakstur innihéldi 13 µg af joði fyrir hvert gramm af salti og var styrkur joðs síðan hækkaður árið 2019 í 20 µg af joði fyrir hvert gramm af salti. Á hinum Norðurlöndunum er mælt með notkun á joðbættu salti til heimilisnota (borðsalti). Styrkur joðs sem reglugerðir landanna heimila í borðsalti er mjög breytilegur, allt frá 5 µg/g af salti í Noregi til 50 µg/g í Svíþjóð.20 Endurspeglar þetta að hluta til mismunandi joðhag þjóðanna í sögulegu samhengi og mismunandi neyslu joðs úr fæðu. Á íslenskum markaði má finna nokkrar tegundir brauða sem innihalda joðbætt salt, auk þess sem joðbætt salt til heimilisnota finnst einnig í hillum verslana.

Mikilvægt er að aðgerðir sem miða að því að bæta joðhag þjóðarinnar séu vel undirbúnar svo þær valdi ekki skaða. Ekki síst vegna þess að bilið milli þess sem telst æskileg neysla á joði (ráðlagður dagsskammtur) og efri marka hættulausrar neyslu er þrengra en fyrir mörg önnur næringarefni, sér í lagi fyrir ung börn.22 Ráðlagða dagsskammta, lægri mörk neyslu, áætlaða meðalþörf og efri mörk hættulausrar neyslu joðs (µg á dag) fyrir fullorðna og börn má sjá í töflu I.

Markmið rannsóknarinnar var að lýsa joðneyslu annars vegar fullorðinna Íslendinga á aldrinum 18-80 ára og hins vegar tveggja ára barna og áætla út frá þeirri neyslu hvaða áhrif það hefði að nota joðbætt salt við framleiðslu á brauði og brauðvörum. Tekin var sú ákvörðun að einskorða mat á áhrifum af notkun joðbætts salts við brauð líkt og gert er í Danmörku20 og er til skoðunar í Noregi.23 Í öðrum löndum þekkist að joðbætt salt sé notað í öllum matvælaiðnaði auk borðsalts.24

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin byggir á greiningum á neyslugögnum úr tveimur rannsóknum, annars vegar meðal fullorðinna Íslendinga sem voru þátttakendur í landskönnun á mataræði Íslendinga 2019-2021 og hins vegar tveggja ára barna.

Þátttakendur í landskönnun á mataræði fullorðinna Íslendinga voru 822 á aldrinum 18-80 ára.5 Kynjahlutfall var nokkuð jafnt (52% konur, 48% karlar) og flestir þátttakenda voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (64%), sem er í samræmi við þjóðskrá. Þátttökuhlutfall eftir aldri var einnig í samræmi við úrtakið úr þjóðskrá, fyrir utan yngsta aldurshópinn (18-39 ára) sem erfiðara var að ná til. Valið var 2000 manna úrtak af handahófi úr þjóðskrá. Þar sem um var að ræða símakönnun var eingöngu haft samband við þá 1545 einstaklinga sem voru með skráð símanúmer og heimilisfang. Boð um þátttöku var fyrst sent með bréfi og því fylgt eftir með símtali. Af þeim 1545 sem var boðin þátttaka í könnuninni luku 781 báðum viðtölunum, eða 51%. Þar sem illa gekk að ná til yngsta aldurshópsins (18-39 ára), var annað úrtak dregið út og lauk 41 þátttakandi úr þeim hópi báðum viðtölum. Heildarfjöldi þátttakenda var því 822. Tvær upprifjanir á neyslu alls matar, drykkjar og fæðubótarefna síðastliðins sólarhrings, ásamt tíðnispurningum um valdar fæðutegundir, auk fæðubótarefna fyrir lengra tímabil (vika/mánuðir), voru notaðar til að kanna mataræði í landskönnun. Í sólarhringsupprifjun er sérstaklega spurt um tegundir matar og drykkjar og þannig hægt að taka tillit til mismunandi næringargildis, meðal annars joðstyrks í mismunandi tegundum af fiski.

Niðurstöður um mataræði tveggja ára barna byggja á þátttöku 124 tveggja ára barna þeirra kvenna sem upphaflega tóku þátt í rannsókninni „Næringarástand á meðgöngu“ 2017-201812 og samþykktu að taka þátt í framhaldsrannsókninni „Tengsl fæðuvals og næringarástands mæðra á meðgöngu við örveruflóru barna fyrstu tvö ár ævinnar.“ Börnin voru öll fædd á árinu 2018. Þátttökuhlutfall í rannsókninni „Næringarástand á meðgöngu“ (n=1015) var 75%, þar af samþykktu 328 (32%) þátttöku í framhaldsrannsókninni. Konur sem samþykktu þátttöku í framhaldsrannsókninni voru aðeins eldri en þær sem ekki héldu áfram (meðal-aldur 31,2 ár miðað við 29,7 ár, p<0,05), en ekki reyndist munur á menntunarstigi, líkamsþyngdarstuðli eða styrk joðs í þvagi þeirra í upphafi meðgöngu. Gagnasöfnun fór fram árið 2020 og alls skiluðu sér 124 gildar skráningar á mataræði. Öll neysla barnanna á mat, drykk og fæðubótarefnum var skráð í matardagbók í þrjá samfellda daga. Skráningin var í höndum foreldra og forráðamanna sem fengu skriflegar og munnlegar leiðbeiningar um skráningu. Áhersla var lögð á nákvæmni er kemur að tegundum matvæla innan hvers matvælaflokks, svo sem tegunda af fiski, sem er mikilvægt fyrir áætlun á joðneyslu. Í þeim tilfellum þar sem skammtastærðir voru ekki skráðar nákvæmlega (til dæmis í máltíðum sem neytt var í leikskóla) var stuðst við viðmiðunarskammta frá Embætti landlæknis fyrir leikskólabörn.

Niðurstöður um neyslu matvæla úr báðum rannsóknum voru færðar inn í næringarútreikningaforritið ICEFOOD. Við útreikninga á joðneyslu var annars vegar stuðst við íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), og hins vegar við gagnagrunn Embættis landlæknis um samsetningu algengra rétta og skyndibita á íslenskum markaði.

Við áætlun joðneyslu ef joðbætt salt væri notað í brauð voru settar upp mismunandi sviðsmyndir sem gera ráð fyrir að joðinnihald í brauðum væri 20, 40, 60 eða 70 µg fyrir hver 100 grömm af brauði. Þessir styrkleikar voru valdir út frá saltmagni í algengum brauðtegundum á íslenskum markaði (0,9-1,4 g salt í 100 g af brauði), mismunandi styrk joðsalts sem hugsanlega yrði notað í brauðin (15-50 µg/g), mælingum á joðinnihaldi brauða á íslenskum markaði sem innihalda joðbætt salt og erlendum gögnum.20 Gögn úr mataræðisrannsóknunum tveimur, á fullorðnum og tveggja ára börnum, voru notuð til að áætla neyslu hvers þátttakanda (grömm á dag) af brauði. Undir flokkinn falla allar tegundir af brauði að sætabrauði undanskildu. Þær upplýsingar voru síðan notaðar til að áætla væntanlega neyslu á joði út frá mismunandi joðstyrk í 100 grömmum af brauði.

Niðurstöður fyrir allar sviðsmyndir eru bornar saman við ráðlagða dagsskammta, lægri mörk neyslu, áætlaða meðalþörf og efri mörk hættulausrar neyslu fyrir joð, annars vegar fyrir fullorðna og hins vegar tveggja ára börn (tafla I). Niðurstöður eru birtar fyrir joðneyslu án bætiefna sem lýsandi tölfræði (meðaltöl, staðalfrávik, miðgildi og hundraðshlutar) þar sem sérstaklega er horft til 90. og 95. hundraðshluta við samanburð við skilgreind efri mörk hættulausrar neyslu. Upplýsingar um mögulega joðneyslu, bæði úr fæðu og bætiefnum, eru einnig kynntar, þó með þeim fyrirvara að líklega er um ákveðið ofmat að ræða þar sem stöðluð fjölvítamín- og steinefnatafla í ÍSGEM inniheldur 150 µg af joði, en einungis hluti slíkra bætiefna á íslenskum markaði inniheldur joð.11

Niðurstöður

Neysla á joði úr fæðu (án bætiefna) í landskönnun á mataræði fullorðinna Íslendinga 2019-2021 var að meðaltali 134 µg á dag og alls reyndust 28% vera með joðneyslu undir skilgreindum lægri mörkum neyslu (töflur I og II).

Ef neysla joðs úr bætiefnum er tekin með, með þeim fyrirvara að um ofmat sé að ræða eins og kynnt er í kafla um efnivið og aðferðir, er áætluð meðalneysla joðs 163 µg á dag. Meðalneysla á brauði meðal fullorðinna þátttakenda í landskönnun á mataræði var 81 gramm á dag og í töflu II má sjá hver áætluð joðneysla væri ef joðbætt salt væri notað í brauðin. Þannig myndi, sem dæmi, meðalneysla á joði fara yfir 150 µg/dag (RDS fyrir fullorðna) og hlutfall einstaklinga með neyslu undir lægri mörkum neyslu fara úr 28% í 11% ef allt brauð innihéldi 40 µg af joði í 100 grömmum. Viðbót sem svarar 70 µg af joði í 100 grömmum af brauði myndi ekki leiða til þess að neysla færi yfir skilgreind efri mörk neyslu meðal fullorðinna (600 µg/dag). Ef sömu útreikningar eru endurteknir með bætiefnum fer 95. hundraðshluti (5% þátttakenda með mestu joðneysluna) hæst í 482 µg/dag ef miðað er við að 100 grömm af brauði gefi 70 µg af joði.

Meðalneysla á joði meðal tveggja ára barna var 88 µg/dag (94 µg/dag með bætiefnum) og þau 5% barna sem fengu mest af joði úr fæðu (95. hundraðshluti) neyttu yfir 180 µg/dag. Meðalneysla á brauði var 54 grömm á dag.

Tafla III sýnir áætlaða neyslu á joði (µg á dag) út frá mismunandi sviðsmyndum um styrk joðs í brauði. Notkun á joðbættu salti í brauð sem myndi skila sér í 20 µg af joði í 100 grömmum af brauði virðist ekki leiða til þess að hætta sé á að neysla þeirra sem mest fá af joði úr fæðu færi yfir skilgreind efri mörk neyslu fyrir börn (200 µg/dag). Væri styrkur joðs í brauðum hins vegar hærri, benda niðurstöðurnar til þess að hluti barna gæti farið yfir þessi viðmið. Sé tekið tillit til joðneyslu úr fæðu og bætiefnum fer 95. hundraðshluti barna hæst í 238 µg/dag miðað við 70 µg/ 100 g af brauði.

Umræða

Niðurstöður um joðneyslu þátttakenda í landskönnun á mataræði 2019-2021 benda til þess að hluti fullorðinna Íslendinga sé með neyslu undir skilgreindri lágmarksþörf fyrir efnið og útreikningar okkar á notkun joðbætts salts í brauði sýna að það er mjög ólíklegt að sú aðgerð myndi leiða til ofneyslu á joði meðal fullorðinna. Hins vegar er meðalneysla á joði nálægt RDS meðal tveggja ára barna og minna svigrúm virðist vera til joðbætingar fyrir þennan hóp heldur en fyrir fullorðna.

Mælikvarðar sem helst eru notaðir til að meta joðhag eru styrkur joðs í þvagi, stærð skjaldkirtils (thyroid volume) og styrkur TSH (thyroid stimulating hormone), skjaldkirtilshormóna (T3 og T4) og týróglóbúlíns (Tg) í blóði.25 Einnig má meta joðneyslu með ýmsum stöðluðum aðferðum við kannanir á mataræði. Sá lýðheilsumælikvarði sem mælt er með til að meta joðhag þjóða er miðgildi joðstyrks í þvagi.22,25 Telst miðgildi joðstyrks í þvagi á bilinu 100-299 µg/L spegla fullnægjandi joðhag fyrir fullorðna og börn,25 en 150-249 µg/L fyrir barnshafandi konur.22 Eldri rannsóknir á joðhag (joðneyslu og/eða mælingum á joðstyrk í þvagi) fullorðinna Íslendinga benda allar til þess að joðhagur hafi um árabil verið fullnægjandi á Íslandi.10,11 Meðal joðstyrkur í þvagi Íslendinga á aldrinum 20-59 samkvæmt rannsókn sem fram fór árið 1988 reyndist vera 332 µg/24 klst (sem samsvarar um 215 µg/L ef miðað er við 1,5 L þvagútskilnað á sólarhring),26 en 10 árum síðar, mældist joðstyrkur í þvagi 66-70 ára Íslendinga 150 µg/L.27 Fullnægjandi joðstyrkur í þvagi sást í rannsóknum hérlendis allt til áranna 2007-2009 þegar styrkur joðs í þvagi mældist 180 µg/L meðal barnshafandi kvenna7 og 200 µg/L meðal unglingsstúlkna á aldrinum 16-20 ára.28 Ófullnægjandi joðhagur greindist í fyrsta sinn á Íslandi í rannsókn frá 2017-2018 meðal barnshafandi kvenna, en í þeirri rannsókn mældist miðgildi joðstyrks í þvagi 89 µg/L.12 Erlendar rannsóknir benda til þess að jafnvel vægur joðskortur á meðgöngu geti haft áhrif á þroska barna og að gildi undir 100 µg/L í þvagi sé ákveðinn þröskuldur í þessu samhengi.13-19 Niðurstöður landskönnunar á mataræði Íslendinga 2019-2021 gefa sömu vísbendingar um að joðneysla sé ekki lengur fullnægjandi meðal fullorðinna hérlendis, sérstaklega ekki meðal kvenna á barneignaraldri, en 24% kvenna á aldrinum 18-39 var með joðneyslu undir skilgreindri lágmarksþörf fyrir joð (70 µg/dag).5 Önnur íslensk rannsókn sem fram fór á árunum 2014-2017 bendir jafnframt til þess að styrkur joðs í móðurmjólk íslenskra mæðra sé ekki nægjanlega hár til að fullnægja þörfum nýbura og ekki var hægt að útiloka að 5,5 mánaða gömul íslensk börn fengju of lítið joð.29 Þess ber þó að geta að viðmið um joðstyrk í þvagi barna undir 12 mánaða aldri og styrk joðs í móðurmjólk byggja enn sem komið er á mjög fáum rannsóknum.30 Joðhagur barna eldri en 5,5 mánaða hefur ekki verið metinn hérlendis. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með að joðhagur viðkvæmra hópa á borð við barnshafandi konur og börn á grunnskólaaldri sé metinn reglulega.22,25

Eins og fram hefur komið eru helstu joðgjafar í íslensku mataræði annars vegar fiskur og hins vegar mjólkurvörur. Þannig er áætlað framlag fisks og fiskafurða til heildarneyslu á joði 42% og úr mjólk og mjólkurvörum (án osts) fást 21%. Framlag osta er um 12% og eggja 5%.5

Í töflu IV má sjá þróun á neyslu á fiski og mjólkurvörum auk áætlaðrar meðalneyslu á joði úr landskönnunum á mataræði fullorðinna Íslendinga frá árinu 1939 til 2019-2021.5,10,31 Fiskneysla dróst mikið saman frá 1990 til ársins 2002, en hefur staðið nokkurn veginn í stað síðan. Mjólkurneysla fullorðinna er hins vegar stöðugt á niðurleið á tímabilinu. Afleiðingar þessara breytinga má glögglega sjá, en meðalneysla á joði hefur lækkað um tæplega 50% frá árinu 1990. Þess má geta að meðalneysla tveggja ára barna á mjólk og mjólkurvörum í þeirri rannsókn sem hér hefur verið fjallað um var 282 g/dag (niðurstöður ekki sýndar), sem er meiri neysla en mældist meðal fullorðinna í landskönnun á mataræði 2019-2021. Fiskneysla barnanna var að meðaltali 18 g á dag (niðurstöður ekki sýndar) sem er svipað magn og 6 ára börn neyttu í rannsókn frá árinu 2012.32

Niðurstöður okkar benda til þess að val á æskilegri leið til að bæta joðhag fullorðinna Íslendinga (með sérstaka áherslu á konur á barneignaraldri) gæti verið snúin, sér í lagi ef horft er til efri marka hættulausrar neyslu fyrir ung börn. Versnandi joðhag hefur einnig verið lýst í Noregi, af svipuðum ástæðum og hérlendis, það er vegna minni neyslu á mjólkurvörum og fiski. Áhættumat á notkun á joðbættu salti í brauðvörur í Noregi bendir til sambærilegra áskorana og hérlendis, þar sem áætlað var að 8-18% ungra barna færu yfir efri mörk hættulausrar neyslu við slíkar aðgerðir.23 Mikil óvissa ríkir þó um skilgreind efri mörk hættulausrar neyslu fyrir börn enda eru þau byggð á rannsóknum á fullorðnum.22,30 Hérlendis virðist sem styrkur allt að 20 µg af joði í 100 grömmum af brauði sé í lagi og leiði ekki til þess að neysla þeirra sem mest fá af joði úr fæðu fari yfir skilgreind efri mörk neyslu (200 µg/dag) fyrir tveggja ára börn. Þessi joðstyrkur í brauði myndi þó ekki duga miðað við núverandi mataræði landsmanna til að tryggja fullnægjandi joðneyslu allra fullorðinna. Samhliða þyrfti að koma til aukin neysla á öðrum joðgjöfum. Ákveðin áskorun felst í því að helstu joðgjafar í fæði Íslendinga eru dýraafurðir, en síðastliðin ár hefur þeim fjölgað sem neyta eingöngu fæðu úr jurtaríkinu (vegan) en einnig hefur mjólkurneysla almennt minnkað hjá þjóðinni og fiskneysla meðal ungs fólks.5 Í dag er erfitt að mæla með notkun á þara sem joðgjafa þar sem joðmagn í honum getur verið mjög breytilegt og er oft hærra en skilgreind efri mörk hættulausrar neyslu í venjulegum neysluskömmtum.33

Í núverandi ráðleggingum (frá árinu 2020) er barnshafandi konum á Íslandi sem borða lítið eða ekkert af fiski og mjólkurvörum ráðlagt að taka fæðubótarefni (fjölvítamín- og steinefnatöflur) sem innihalda 150 µg af joði í dagsskammti. Mælt hefur verið með notkun joðs í formi fæðubótarefnis fyrir barnshafandi konur í þeim löndum þar sem miðgildi joðs í þvagi í almennu þýði (ekki barnshafandi kvenna) er undir 100 µg/L.34 Miðgildi joðstyrks í þvagi barnshafandi kvenna sem notuðu fæðubótarefni sem innihalda joð (3,5% þátttakenda) í rannsókn frá 2017-2018 var 141 µg/L, sem er nálægt þeim viðmiðum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett fyrir barnshafandi konur (150-249 µg/L). Fræðilegur bakgrunnur þess að ráðleggja joð í formi bætiefna á meðgöngu telst þó veikur, enda benda nýlegar rannsóknir til þess að það gæti verið of seint að leiðrétta joðskort eftir getnað.35 Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hlutfall kvenna sem tekur joð sem bætiefni á meðgöngu hafi aukist eftir að ráðleggingarnar voru kynntar.

Ýmsar takmarkanir felast í þeim greiningum sem hér hafa verið settar fram. Fyrst ber að nefna að upplýsingar um joðneyslu byggja á mælingum á joðstyrk í íslenskum matvælum. Joðstyrkur í mjólkurvörum getur verið breytilegur, meðal annars vegna mismunandi innihalds joðs í fóðri. Meðalstyrkur joðs í 100 grömm-um af mjólk er skráður 11,2 µg í íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem notaður er við áætlun á joðneyslu í þessari rannsókn. Byggir það gildi á mælingum sem framkvæmdar voru árið 1995.36 Mælingar sem gerðar voru í norrænu samstarfi árið 2016 benda ekki til þess að joðstyrkur í íslenskri mjólk hafi lækkað frá árinu 1995 og sýndu niðurstöðurnar mun hærri gildi í íslenskri mjólk samanborið við mólk frá hinum Norðurlöndunum.37 Niðurstöður rannsóknar á joðhag barnshafandi kvenna frá árunum 2017-2018 sýndu að joðstyrkur í þvagi kvenna sem neyttu mjólkurvara sjaldnar en einu sinni í viku var 55 µg/L, en styrkur joðs jókst jafnt og þétt með aukinni tíðni neyslu og mældist 124 µg/L meðal kvenna sem neyttu mjólkur-vara tvisvar sinnum á dag eða oftar.12 Það er því margt sem bendir til þess að mjólkurvörur séu enn þann dag í dag góður joðgjafi. Styrkur joðs í fiski er jafnframt mjög mismunandi eftir tegundum, en tekið er tillit til þess í þeim greininum sem hér liggja til grundvallar.

Eins ber að nefna að þær aðferðir sem beitt er í báðum rannsóknum til að kanna mataræði eru ekki sérstaklega hannaðar til að meta áhættu á of mikilli eða of lítilli neyslu. Aðferðir þar sem fáum skráningardögum er beitt hafa tilhneigingu til að bæði ofmeta og vanmeta neyslu á fæðutegundum sem neytt er sjaldnar en daglega. Fiskur er dæmi um slík matvæli. Þá eru efri mörk hættulausrar neyslu (200 µg/dag) fyrir tveggja ára börn byggð á rannsóknum meðal eldri barna og fullorðinna og telja sérfræðingar að mörkin gætu verið of lág.30 Allt þetta þarf að hafa í huga þegar hætta á því að hluti tveggja ára barna fari yfir efri mörk hættulausrar neyslu við íblöndun á joðbættu salti í brauð er metin. Æskilegt væri að fyrir lægju rannsóknir á joðstyrk í þvagi íslenskra barna. Þátttökuhlutfall telst einnig veikleiki í báðum rannsóknum. Hins vegar eru niðurstöðurnar í góðu samræmi við aðrar rannsóknir með fleiri þátttakendum og teljum við að þær spegli nokkuð vel joðneyslu þjóðarinnar í þeim aldurshópum sem rannsakaðir voru.

Brýnt er að grípa til aðgerða til að bæta joðhag fullorðinna Íslendinga, með sérstaka áherslu á konur sem geta orðið barnshafandi. Notkun á joðbættu salti í brauð gæti verið liður í slíkum aðgerðum. Samhliða aðgerðum um að nota joðbætt salt við brauðgerð er mikilvægt að komið verði á reglubundnu eftirliti á joðhag Íslendinga með mælingum á joðstyrk í þvagi, í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Þakkir

Þakkir fá þátttakendur, spyrlar og aðrir starfsmenn landskönnunar á mataræði Íslendinga. Sérstakar þakkir fá einnig aðstandendur rannsóknarinnar Tengsl fæðuvals og næringarástands mæðra á meðgöngu við örveruflóru barna fyrstu tvö ár ævinnar fyrir að hafa veitt góðfúslegt leyfi fyrir notkun á gögnum um mataræði þátttakenda við tveggja ára aldurinn til greininga á áhrifum þess að nota joðbætt salt í brauð.

Heimildir

1. Bougma K, Aboud FE, Harding KB, et al. Iodine and mental development of children 5 years old and under: a systematic review and meta-analysis. Nutrients 2013; 5: 1384-416.
https://doi.org/10.3390/nu5041384
PMid:23609774 PMCid:PMC3705354
 
2. Laurberg P, Andersen SL. Nutrition: Breast milk - a gateway to iodine-dependent brain development. Nat Rev Endocrinol 2014; 10: 134-5.
https://doi.org/10.1038/nrendo.2014.3
PMid:24468649
 
3. Trumpff C, De Schepper J, Tafforeau J, et al. Mild iodine deficiency in pregnancy in Europe and its consequences for cognitive and psychomotor development of children: a review. J Trace Elem Med Biol 2013; 27: 174-83.
https://doi.org/10.1016/j.jtemb.2013.01.002
PMid:23395294
 
4. Zhou SJ, Skeaff SA, Ryan P, et al. The effect of iodine supplementation in pregnancy on early childhood neurodevelopment and clinical outcomes: results of an aborted randomised placebo-controlled trial. Trials 2015; 16: 563.
https://doi.org/10.1186/s13063-015-1080-8
PMid:26654905 PMCid:PMC4675066
 
5. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2019-2021. Helstu niðurstöður og samanburður við könnun frá 2010-2011. Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands, Reykjavík 2022.
 
6. Pesce L, Kopp P. Iodide transport: implications for health and disease. Int J Pediatr Endocrinol 2014; 2014: 8.
https://doi.org/10.1186/1687-9856-2014-8
PMid:25009573 PMCid:PMC4089555
 
7. Zimmermann MB, Jooste PL, Pandav CS. Iodine-deficiency disorders. Lancet 2008; 372: 1251-62.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(08)61005-3
PMid:18676011
 
8. Pearce EN, Lazarus JH, Moreno-Reyes R, et al. Consequences of iodine deficiency and excess in pregnant women: an overview of current knowns and unknowns. Am J Clin Nutr 2016; 104: 918s-23s.
https://doi.org/10.3945/ajcn.115.110429
PMid:27534632 PMCid:PMC5004501
 
9. Moog NK, Entringer S, Heim C, et al. Influence of maternal thyroid hormones during gestation on fetal brain development. Neurosci 2017; 342: 68-100.
https://doi.org/10.1016/j.neuroscience.2015.09.070
PMid:26434624 PMCid:PMC4819012
 
10. Gunnarsdottir I, Gustavsdottir AG, Thorsdottir I. Iodine intake and status in Iceland through a period of 60 years. Food Nutr Res 2009; 53.
https://doi.org/10.3402/fnr.v53i0.1925
PMid:19503752 PMCid:PMC2691155
 
11. Gunnarsdottir I, Gustavsdottir AG, Steingrimsdottir L, et al. I. Iodine status of pregnant women in a population changing from high to lower fish and milk consumption. Publ Health Nutr 2013; 16: 325-9.
https://doi.org/10.1017/S1368980012001358
PMid:22607718
 
12. Adalsteinsdottir S, Tryggvadottir EA, Hrolfsdottir L, et al. Insufficient iodine status in pregnant women as a consequence of dietary changes. Food Nutr Res. 2020;64.
https://doi.org/10.29219/fnr.v64.3653
PMid:31983913 PMCid:PMC6958617
 
13. Abel MH, Caspersen IH, Sengpiel V, et al. Insufficient maternal iodine intake is associated with subfecundity, reduced foetal growth, and adverse pregnancy outcomes in the Norwegian Mother, Father and Child Cohort Study. BMC Med 2020; 18: 211.
https://doi.org/10.1186/s12916-020-01676-w
PMid:32778101 PMCid:PMC7418397
 
14. Abel MH, Brandlistuen RE, Caspersen IH, et al. Language delay and poorer school performance in children of mothers with inadequate iodine intake in pregnancy: results from follow-up at 8 years in the Norwegian Mother and Child Cohort Study. Eur J Nutr. 2019; 58: 3047-58.
https://doi.org/10.1007/s00394-018-1850-7
PMid:30417257 PMCid:PMC6842354
 
15. Abel MH, Caspersen IH, Meltzer HM, et al. Suboptimal Maternal Iodine Intake Is Associated with Impaired Child Neurodevelopment at 3 Years of Age in the Norwegian Mother and Child Cohort Study. J Nutr 2017; 147: 1314-24.
https://doi.org/10.3945/jn.117.250456
PMid:28515161
 
16. Abel MH, Ystrom E, Caspersen IH, et al. Maternal Iodine Intake and Offspring Attention-Deficit/Hyperactivity Disorder: Results from a Large Prospective Cohort Study. Nutrients 2017; 9: 1239.
https://doi.org/10.3390/nu9111239
PMid:29137191 PMCid:PMC5707711
 
17. Bath SC, Steer CD, Golding J, et al. Effect of inadequate iodine status in UK pregnant women on cognitive outcomes in their children: results from the Avon Longitudinal Study of Parents and Children (ALSPAC). Lancet 2013; 382: 331-7.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(13)60436-5
PMid:23706508
 
18. Markhus MW, Dahl L, Moe V, et al. Maternal Iodine Status is Associated with Offspring Language Skills in Infancy and Toddlerhood. Nutrients 2018; 10: 1270.
https://doi.org/10.3390/nu10091270
PMid:30205599 PMCid:PMC6163597
 
19. Murcia M, Espada M, Julvez J, et al. Iodine intake from supplements and diet during pregnancy and child cognitive and motor development: the INMA Mother and Child Cohort Study. J Epidemiol Comm Health 2018; 72: 216-22.
https://doi.org/10.1136/jech-2017-209830
PMid:29279360
 
20. Nyström HF, Brantsæter AL, Erlund I, et al. Iodine status in the Nordic countries - past and present. Food Nutr Res 2016; 60: 31969.
https://doi.org/10.3402/fnr.v60.31969
PMid:27283870 PMCid:PMC4901513
 
21. Guideline: fortification of food-grade salt with iodine for the prevention and control of iodine deficiency disorders. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Genf 2014.
 
22. Andersson M, de Benoist B, Delange F, et al. Prevention and control of iodine deficiency in pregnant and lactating women and in children less than 2-years-old: conclusions and recommendations of the Technical Consultation. Public Health Nutr 2007; 10: 1606-11.
https://doi.org/10.1017/S1368980007361004
PMid:18053287
 
23. Norwegian Scientific Committee for Food and Environment (VKM). Benefit and risk assessment of iodization of household salt and salt used in bread and bakery products. Scientific opinion of the Panel on Nutrition, Dietetic Products, Novel Food and Allergy. VKM report 2020: 05.
 
24. Völzke H, Caron P, Dahl L, et al. Ensuring Effective Prevention of Iodine Deficiency Disorders. Thyroid 2016; 26: 189-96.
https://doi.org/10.1089/thy.2015.0543
PMid:26700864
 
25. Assessment of iodine deficiency disorders and monitoring their elimination. A guide for programme managers, 3rd ed. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Genf 2007.
 
26. Sigurðsson G, Franzson L. Joðútskilnaður í þvagi íslenskra karla og kvenna. Læknablaðið 1988; 74: 179-81.
 
27. Laurberg P, Pedersen KM, Hreidarsson A, et al. Iodine intake and the pattern of thyroiddisorders: a comparative epidemiological study of thyroidabnormalities in the elderly in Iceland and in Jutland, Denmark. J Clin Endocrinol Metab 1998; 83: 765-9.
https://doi.org/10.1210/jcem.83.3.4624
PMid:9506723
 
28. Gunnarsdottir I, Gunnarsdottir BE, Steingrimsdottir L, et al. Iodine status of adolescent girls in a population changing from high to lower fish consumption. Eur J Clin Nutr 2010; 64: 958-64.
https://doi.org/10.1038/ejcn.2010.100
PMid:20551966
 
29. Petersen E, Thorisdottir B, Thorsdottir I, et al. Iodine status of breastfed infants and their mothers' breast milk iodine concentration. Matern Child Nutr 2020; 16: e12993.
https://doi.org/10.1111/mcn.12993
PMid:32162412 PMCid:PMC7296790
 
30. Andersson M, Braegger CP. The Role of Iodine for Thyroid Function in Lactating Women and Infants. Endocr Rev 2021; bnab029.
https://doi.org/10.1210/endrev/bnab029
PMCid:PMC9113141
 
31. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður. Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands, Reykjavík 2011.
 
32. Gunnarsdottir I, Helgadottir H, Thorisdottir B, et al. Landskönnun á mataræði sex ára barna 2011-2012. Læknablaðið 2013; 99: 17-23.
https://doi.org/10.17992/lbl.2013.01.477
PMid:23341402
 
33. Aakre I, Tveito Evensen L, Kjellevold M, et al. Iodine Status and Thyroid Function in a Group of Seaweed Consumers in Norway. Nutrients 2020; 12: 3483.
https://doi.org/10.3390/nu12113483
PMid:33202773 PMCid:PMC7697291
 
34. Andersen SL, Laurberg P. Iodine Supplementation in Pregnancy and the Dilemma of Ambiguous Recommendations. Eur Thyroid J 2016; 5: 35-43.
https://doi.org/10.1159/000444254
PMid:27099837 PMCid:PMC4836119
 
35. Dineva M, Fishpool H, Rayman MP, et al. Systematic review and meta-analysis of the effects of iodine supplementation on thyroid function and child neurodevelopment in mildly-to-moderately iodine-deficient pregnant women. Am J Clin Nutr 2020; 112: 389-412.
https://doi.org/10.1093/ajcn/nqaa071
PMid:32320029
 
36. Reykdal Ó, Thorlacius A, Auðunsson GA, et al. Selen, joð, flúor, járn, kopar, sink, mangan, kadmín, kvikasilfur og blý í landbúnaðarafurðum. Fjölrit Rala 2000; 204: 7-36.
 
37. Nordic co-operation on food information: Activities of the Nordic Food Analysis Network 2013-2016. Valsta L, Pastell H, Aalto S, et al (ritstj) TemaNord 2017: 503.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica