01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Farsótt – Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 - ritdómur

Mér fannst spennandi að fá bókina Farsótt í hendur og það af mörgum ástæðum en hélt að ég myndi setja mig í ritdómarastellingar verandi hlutlausi læknirinn úti í bæ að fjalla um störf fyrri tíðar lækna og hjúkrunarkvenna. Við að sökkva mér niður í lesturinn fór það hlutleysi út í veður og vind. Margt af því sem frá er sagt virðist í fljótu bragði vera fjarlægt en reyndist mér ótrúlega tengt. Ekki síst vegna þess að ég er fædd og uppalin á Laufásvegi 35 í nágrenni Farsóttahússins en einnig vegna þess að allvíða er minnst á fólk mér skylt, til dæmis Indriða Einarsson langafa minn, Jakob Möller og fjölskyldu hans svo og Eufemiu Waage afasystur mína. Svo er mér í barnsminni að hafa á aðfangadagskvöld 1957 séð þegar gamli Hússtjórnarskólinn gegnt Farsóttarhúsinu brann (bls. 200).

Bókin er fróðleg aflestrar, vel skrifuð og gerir sögu Þingholtsstrætis 25 góð skil. Hlutverk Farsóttahússins í 100 ára sögu þess, allt frá því að vera byggt sem fyrsta sjúkrahúsið í Reykjavík fram til þess er það hýsti útigangsfólk, hefur verið margbreytilegt og löngum umdeilt. Það var frá fyrstu tíð talið fátæklegt og kalt og lóðin óþrifaleg enda rann skólp frá húsum í opnum rennum niður í Lækinn sem þá var stærsta skólpræsi Reykjavíkur (bls. 69). Vatnsveita og fráveita komu löngu seinna til skjalanna.

Höfundurinn: Kristín Svava Tómasdóttir

En hvað voru læknar að fást við á þessum tíma? Sullaveiki var algeng, skæðir smitsjúkdómar á borð við berkla, bólusótt, taugaveiki, skarlatssótt, mislinga og barnaveiki tóku sinn toll og engar bólusetningar komnar til sögunnar, hvað þá sýklalyf. Læknar urðu að einangra sjúklinga, meðhöndla einkenni eftir megni og setja þá í sóttkví á sjúkrahúsinu eða í heimahúsum. Við nútímafólk höfðum lítið af slíku að segja þar til að COVID-19-faraldrinum kom. En það var ekki nóg að einangra sjúklingana heldur þurfti að sinna öllum þeirra þörfum.

Guðrún Jónsdóttir hafði lært ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn og var ráðin sem spítalaráðskona. Hún bar ábyrgð á hjúkrun og daglegum rekstri sjúkrahússins frá 1884 til 1903 og er augljóst að vinnutími hennar var óskilgreindur. Skemmtilega er frá störfum hennar og einkalífi sagt í bókinni. Guðrún eignaðist þrjú börn í óvígðri sambúð sem strangt til tekið var ólögleg en þó var litið fremur mildum augum á barneignir fólks sem bjó saman (bls. 45) og eftir dauða sambýlismanns síns eignaðist hún barn með dönskum klæðskera. Hún bjó í Þingholtsstræti 25 í 36 ár.

Eftir að ákveðið hafði verið að spítalinn yrði gerður að farsóttahúsi kom sú merka kona María Maack til skjalanna og er vel fjallað um góðmennsku hennar (bls. 162), höfðingsskap, verklag og vit. María gegndi starfi yfirhjúkrunarkonu farsóttahússins samfleytt til 1. október 1964 og var Þingholtsstræti 25 bæði vinnustaður hennar og heimili. Aðstoðarhjúkrunarkona með henni frá 1925 var Anna Kjartansdóttir og þegar þarna var komið sögu störfuðu með þeim matráðskonur, vökukona og starfsstúlkur.

Margir merkir læknar koma við sögu á heilli öld eins og gefur að skilja, þeir tókust á við bylgjur skæðra sjúkdóma, stjórnuðu meðferð sjúklinga og báru nýjungar með sér erlendis frá.

Læknaskólinn hafði aðstöðu í húsinu í áratugi og námið var bæði verklegt og bóklegt. Krufningar fóru fram í líkhúsi sem var á lóðinni fyrir ofan húsið. Fram kemur að líkhúsið, sögulega merkileg bygging, hafi verið rifið árið 1986. Á þeim tíma var ég í borgarráði og minnist þess ekki að nokkur umræða hafi fram um fundargerð bygginganefndar sem hafði samþykkt málið enda kemur í ljós að siglt var undir fölsku flaggi og einungis óskað eftir leyfi til að rífa tvo skúra á lóðinni.

Frá 1969 var í húsinu rekið gistiskýli og var því komið á fót ekki síst fyrir vitundarvakningu frá fólki á borð við Þóru Einarsdóttur sem var stofnandi og fyrsti formaður Verndar. Vernd hafði látið sig varða hver aðbúnaður útigangsmanna og óreglufólks var í borginni. Þjónustan var síðustu árin við heimilislaust drykkjufólk, fíkla og fólk með geðsjúkdóma (bls. 294). Starfsemin var rekin ýmist af Samhjálp eða borginni frá 1990 en Reykjavíkurborg seldi húsið eftir að skýlið var flutt í húsnæði við Lindargötu 2014.

Bókin um hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur er henni til sóma, vel unnin, mikill fróðleikur og í viðaukum listar um heimildir, nöfn, efnisorð og myndaskrá.

Innkaupalisti frá Farsótt 1922

bygggrjón og hrísgrjón, sykur, mjöl og hveiti, brauð, kex og tvíbökur, laukur og kartöflur, baunir og pasta, epli og sellerí, sítrónur, bláber, apríkósur, sveskjur, ferskjur, rúsínur, tómatar, gulrætur, súrar gúrkur, hvítkál, blómkál og rauðbeður, súpujurtir og edik, kæfa og ostur, sulta og marmelaði, skyr og smjör, smjörlíki og egg og rjómi, fiskbollur, síld og vínarpylsur.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica