01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Ein fremsta vísindakona heims, Unnur Þorsteinsdóttir: „Ég hef alltaf fylgt hjartanu“
Unnur Þorsteinsdóttir er áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta á heimsvísu. Í rúma tvo áratugi hefur hún stýrt rannsóknum hjá Íslenskri erfðagreiningu og tók í sumar við sem forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Unnur segir mikilvægt að fylgja hjartanu og það hefur hún gert bæði í starfi og einkalífi
„Mig langaði að breyta til. Hrista upp í hlutum og tók stöðu forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Nú er ég í fullri stöðu við háskólann og 20% við Íslenska erfðagreiningu,“ segir Unnur Þorsteinsdóttir sem hafði starfað hjá Decode í 22 ár þegar hún söðlaði um – að mestu.
„Vinkona mín sagði: Nú eru allir að minnka við sig en þú eykur starfshlutfallið,“ segir Unnur og hlær. „Hausinn er í lagi og ég hef fulla starfsorku og er til í þetta.“
Vísindin eru ástríða Unnar og hún hefur fengið riddarakross fyrir framlag sitt. Unnur lýsir því hvernig hún hafi ekki verið upptekin af því að stíga á einhverjar tær heldur geri það sem hún telji rétt.Það hafi hjálpað henni í lífi og starfi. Mynd/gag
Unnur er áhrifamesta vísindakona Evrópu 2022 og fimmta á heimsvísu samkvæmt fyrsta lista vefjarins Research.com yfir kvenvísindamenn. „Þetta er möguleiki fyrir okkur íslenskar konur,“ segir hún stolt og bætir við að Íslensk erfðagreining gefi þetta tækifæri. „Hér er mikil samvinna. Við komum mörg að vísindagreinunum sem við birtum. Hér rær einn stór hópur í sömu átt.“
Framkvæmdastjórastaða Unnar hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur gefið henni einstakt tækifæri í heimi vísinda þar sem karlar hafa yfirhöndina. Eins og Imed Bouchrika, yfirmaður vísindagagna og efnis hjá Research.com segir: Líkur á að karlar fái styrki eru meiri, líkur á að verk þeirra séu metin að verðleikum eru meiri og þeirra er frekar getið en kvenna fyrir greinar sínar og einkaleyfi.
Vísindin heilla
Unnur er ekki læknir. Hún lærði líffræði í Háskóla Íslands, með áherslu á sameindaerfðafræði, en tók kennslufræði og kenndi á Suðurnesjum í 9 ár. Hún valdi kennsluna þrátt fyrir mikinn áhuga á vísindum þar sem vísindaumhverfið hér á landi á þeim tíma var frekar óburðugt.
„Mér fannst mjög skemmtilegt að kenna,“ segir hún en endalaus kennaraverkföll á þessum tíma, frá 1984 til 1991 drógu úr henni og þau Björn Örvar þáverandi eiginmaður hennar ákváðu að taka sér hlé frá kennslunni og flytja til Vancouver í Kanada. Bæta við sig þekkingu.
„Við ætluðum að vera í tvö ár en eftir fjóra mánuði vorum við bæði komin í doktorsnám.“ Unnur komst á „alvöru“ rannsóknarstofu í doktorsnáminu og vann eftir námið við Institut de recherches -cliniques í Montreal í þrjú ár sem nýdoktor.
„Ég er ekki þessi vísindamaður sem stend ein. Ég fæ starfsánægju út úr samskiptum við fólk,“ segir hún. „Ég tel lykilinn að árangri að fá fólk með sér og láta alla skipta máli. Það er mitt mottó að leyfa fólki að láta ljós sitt skína.“
Heim vegna deCODE
Við bökkum nú aftur í tíma og að því þegar Unnur vildi heim frá Montreal. Komast nær stórfjölskyldunni. „Já, þessar klassísku ástæður,“ segir hún og hlær. Hún hafi hitt Kára og heyrt hvert hann stefndi. „Ég hafði trú á að hann myndi ná að byggja upp vísindin,“ segir hún.
„Íslensk erfðagreining er á heimsmælikvarða. Það er mjög sérstakt að eining svo hátt skrifuð í vísindaheiminum sé hér á landi. Það er fyrst og fremst Kára að þakka. Hann hefur náð inn fé og hefur sterka sýn.“ Með fé fáist árangur. „Þá getur þú spurt stórra spurninga sem kostar mikið að svara,“ segir hún.
„Þú gerir ekki stóra hluti með Rannísstyrkjum einum sér en Evrópustyrkirnir sem hafa komið til Íslands hafa breytt rannsóknarumhverfinu innan háskólanna.“ Nú vaxi vísindi á Íslandi. „Við erum með sterka vísindamenn og ef okkur tekst áfram að draga inn styrki erlendis frá er framtíðin björt.“ Hún hvetur ríkið til að búa til rétta umgjörð um starfið. Passa að hér sé til heppilegt húsnæði.
„Ef við tökum aðstöðu rannsakenda innan læknadeildar sem dæmi, gæti hún verið mun betri. En ef þú vinnur við aðstæður eins og hjá Íslenskri erfðagreiningu er það mjög hvetjandi,“ segir hún. „Fallegt umhverfi og gott rannsóknar umhverfi skiptir miklu máli.“ Hefði Íslenskri erfðagreiningu ekki verið komið á fót hefði hún sennilega ekki flutt heim.
Ein með körlunum
En hefur það háð henni að vera kona í vísindum eins og Research.com nefnir? „Ég hef ekki upplifað það beint en er viss um að það hefur áhrif. Vísindin eru leidd af körlum en konur fá nú fleiri stöður hjá virtum stofnunum og háskólum.“ Staðan breytist hægt og rólega.
„En ef listi Research.com er skoðaður skrollar þú í gegnum endalausa karla. Ég hef ekki verið upptekin af kyninu en ég sé að ég var oft ein með strákunum á fundum. Ég get ekki sagt að ég hafi liðið fyrir að vera kona en ég hef oft verið eina konan við borðið. Konur hafa haft veikari rödd en fleiri og fleiri komast þó að.“
Hún segir hvernig hún hafi á starfsferlinum heyrt fleygt ástæðum eins og að konur séu öðruvísi. Hafi ekki sömu rökhugsun. „En það þýðir ekki að við séum verri vísindamenn.“ En bíta svona orð?
„Karlmenn á mínum aldri og eldri gera sér ekki grein fyrir hegðun sinni. Það er prógramm í heilanum sem tengist öllum uppvextinum og öllu sem maður hefur upplifað. Maður sér heiminn með ákveðnum gleraugum og þau litast af umhverfinu sem við ölumst upp í. Sjálf er ég mikill femínisti en stend mig stundum að því að hugsa óvart andfeminískt. En ég leiðrétti þá hugsun og stend með sjálfri mér,“ segir hún.
„Feðraveldið er ennþá mjög ríkt í fólki.“ Uppeldi beggja kynja litist af því.
Lífið tók nýja stefnu
Í 26 ár bjó Unnur með sálufélaga sínum en lífið tók aðra stefnu og þau skildu 2009. „Ég kom út úr skápnum og bjó með konu í 8 ár,“ segir hún og brosir. En fylgdi hún þá ekki hjartanu í einkalífinu eins og starfsvalinu? Hún lítur upp. Bendir svo á að horfa megi á kynhneigð sem kvarða frá 0-1. Núll þá gagnkynhneigð og 1 samkynhneigð.
„Svo sveiflumst við mörg á milli. Þá fer það eftir fólkinu sem þú hittir á lífsleiðinni hvað gerist. Ég er einhvers staðar á miðjunni. Ég get sveiflast til,“ segir hún og hlær. „Maður er svo margt annað en kynhneigð. Ég er vísindamaður, móðir og sé sjálfa mig frá mörgum sjónarhornum. Oft finnst fólki samkynhneigð svo stór partur af karakternum en í huga mér getur kynhneigð ekki skilgreint persónu,“ segir hún yfirvegað.
„En það er alltaf verið að setja fólk í box.“ Af eða á. Hún hafi hitt sálufélagann sinn í barnsföðurnum „Við vorum bæði líffræðingar, kenndum í sama skóla, höfðum sama áhugasvið, saman úti í námi. Vorum alltaf saman,“ lýsir hún.
„En svo kom sprengja inn í lífið.“ Hún sé ánægð að eiga enn vin í fyrrverandi maka sínum. „Já, allt er gróið og við borðum saman í kvöld með syninum,“ segir hún og vísar til sonarins sem er nú stundar sérnám í taugalækningum. Hún horfir fram veginn. „Ástin er mikilvæg.“
Fastmótuð sýn í feðraveldinu
Aftur að hlutverkum lífsins. „Pabbi og mamma sögðu við mig: Þú verður hjúkrunarkona. Aldrei var sagt við mig: Þú verður læknir. Ég held að hugarfarið okkar litist af þessum viðhorfum. Við erum það sem við erum af því að við fengum ákveðið uppeldi og erum hluti af ákveðnu samfélagi. Það litar skoðanir okkar og viðhorf,“ segir hún.
„En svo viltu reyna að brjótast út úr því en þarft um leið að brjótast út úr viðteknum venjum og losa þig við þær. Það á bæði við karla og konur,“ segir Unnur sem segir uppeldi sitt hafa verið gott. Hún gangi í hlutina án þess að spá mikið í hlutverkið.
„Kannski er það minn karakter. Ég hef ekki verið upptekin af því að ég sé að stíga á einhverjar tær heldur geri það sem ég tel rétt. Ég hef alltaf fylgt hjartanu og gert það sem þarf að gera.“ Hún sjái margar ungar ákveðnar konur innan Íslenskrar erfðagreiningar og háskólans.
„Þær eru upprennandi vísindamenn sem eiga eftir að ná langt. Ég er jákvæð á vísindin almennt á Íslandi og stöðu konunnar. MeToo-byltingin er ofboðslega stórt skref,“ segir Unnur og dregur saman orð sín. „Sýnin á konur er fastmótuð í hausnum á okkur og því tekur það langan tíma að breyta feðraveldinu.“
Vísindin séu ástríða hennar. „Nú á lyfjafyrirtækið Amgen okkur og við því komin nær því að uppgötvanir okkar verði einhverjum til góðs. Það er tilgangurinn með þessu öllu. Að við getum fært mannkyninu lokaafurð til góðs.“
Nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs rís
Búið er að teikna og gefa grænt ljós á nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem byggt verður við Læknagarð. „Þetta verður rannsóknar- og kennsluhúsnæði fyrir sviðið í heild,“ segir Unnur Þorsteinsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs. Sex deildir heyra undir sviðið sem verða sameinaðar undir einu þaki með þessari nýju byggingu.
„Ég bind því miklar vonir við að húsið efli kennslu, samskipti og vísindi,“ segir hún. Grafa á fyrir húsinu strax næsta sumar. „Svo er þetta þriggja ára verkefni.“ Nú er einnig unnið að því að fjölga lækna- og hjúkrunarfræðinemum hér á landi.
„Við höfum sett á stofn, bæði innan læknadeildar og hjúkrunar- og ljósmóðurdeildar, starfshópa sem vinna að því að útlista hvað þurfi að gera til að hægt sé að fjölga,“ segir Unnur. Hópurinn sendi nýlega frá sér minnisblað til heilbrigðisráðherra og ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Þá sjái hún fyrir sér að færni- og hermisetur rísi á Landspítalalóðinni í svokallaðri randbyggð meðfram Hringbraut.
„Í stað þess að fá kennslu á sjúklingum eru notaðir tölvustýrðir sýndarsjúklingar eða leikarar sem minnka álagið á heilbrigðiskerfið og dregur úr áhyggjum af því að stefna lífi og heilsu sjúklings í hættu. Slík hermi og færnisetur eru orðin mjög tæknivædd og mikið notuð til kennslu út um allan heim. Ég tel að svona setur sé lykillinn að því að geta fjölgað nemum.“ Vísir er að svona setrum í Eirbergi og Skaftahlíð þar sem hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild og læknadeild hafa aðstöðu.
Ein þriggja Íslendinga á topp 1000
Aðeins tveir Íslendingar ná inn á topp 1000 ásamt Unni Þorsteinsdóttur sem vermir 5. sæti á fyrsta lista Research.com yfir kvenvísindamenn og 119. sæti allra áhrifamestu vísindamannanna. Kári Stefánsson situr í 30. sæti heildarlistans og Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar í 892. sæti.
Fjórar bandarískar konur; JoAnn E. Manson hjá Harvard, Virginia M.-Y. Lee hjá Pennsylvaníu-háskóla, Aviv Regev hjá Broad-stofnuninni og Tamara B. Harris hjá heilbrigðisþjóðarstofnun Bandaríkjanna, tróna á toppnum. Yfir 640 af 1000 konum á listanum eru bandarískar.
„Það er aðstaðan og viðhorfið,“ segir Unnur þegar hún útskýrir þennan árangur þeirra. „Vísindi eru á háum stalli í Bandaríkjunum og draga til sín fé.“
Unnur segir mikilvægt fyrir konur að staða þeirra sé sérstaklega tekin út og sýnd. Vegsemdin sé mikil hvatning fyrir íslenskar konur.