01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Læknar viðra áhyggjur sínar í lokuðum stuðningshópum
„Við finnum að sérnámslæknar sem setið hafa í viðrunar- og stuðningshópum sérnámsprógrammanna eru ánægðir að geta speglað upplifun sína meðal jafningja,“ segir Margrét Dís Óskarsdóttir, kennslustjóri á Landspítala. Hóparnir hafa starfað frá því í haust til að bregðast við svartri könnun Félags almennra lækna um líðan lækna í byrjun síðasta árs
„Enginn sem metur framgang læknis í námi eða starfi hefur aðgang að upplýsingunum sem koma fram í hópunum. Þar ríkir trúnaður og þeir eru lokaðir. Þar geta sérnámslæknar myndað ný starfstengd tengsl,“ segir Margrét Dís Óskarsdóttir, kennslustjóri gæða- og umbótaþjálfunar sérnáms á Landspítala, um viðrunar- og stuðningshópa).
Hóparnir voru settir á laggirnar á Landspítala eftir að svört könnun Félags almennra lækna sýndi í ársbyrjun í fyrra að 43,5% þeirra á Landspítala hafa oft eða mjög oft upplifað einkenni kulnunar síðustu 12 mánuði.
Margrét Dís og Díana Ósk við Barnaspítalann á sólríkum föstudegi í nóvembermánuði. Nýr spítali rís en einnig er nú umgjörðin um sérnámslækna byggð upp. Mynd/gag
„Þetta eru stuðningshópar sem styrkja lækna í faglegri þróun í starfi. Þau fá að koma og ræða það sem þau lenda í í vinnunni og hvernig þau geta brugðist við.“
Díana Ósk Óskarsdóttir, yfirmaður stuðnings og ráðgjafateymis á Landspítala og sjúkrahúsprestur, segir mikilvægt að styðja við faglegan lærdóm og þroska lækna í starfi. „Það hefur komið á óvart hversu fá hafa nýtt sér þetta úrræði. Við höfum velt fyrir okkur hvort það sé ekki nógu skýrt að þau eiga að fá að mæta á vinnutíma. Yfirmenn og samstarfsfólk þeirra geta því aðstoðað með því að hagræða hlutum þannig að þau geti komist frá,“ segir hún.
Margrét segir hvern hóp, 4-6 sérnámslækna, hittast í klukkustund í hádegi með leiðbeinanda sem hefur fengið formlega menntun sem handleiðari. Þetta gefi gott tækifæri til að kynnast starfsfólki stuðnings- og ráðgjafateymis til framtíðar. „Við vitum að læknar í vanda leita sér ekki aðstoðar, en þekki þau starfsfólk vonumst við til að það breytist.“
Hún segir sérvalið í hvern hóp. „Við veljum fólk saman svo það sjái að þetta eru þættir í starfi læknis sem hefur ekkert með hvert og eitt þeirra að gera sem manneskju heldur séu þau að fást við hluti sem séu innbyggðir í starfið og hægt að leysa í mismunandi hátt.“ Þá sé rætt hvernig þau losni við vinnuna úr huga sér þegar starfsdegi ljúki.
Díana Ósk segir hópana geta meðal annars verið einskonar forvörn eða viðbragð gegn kulnun. „Ég er ánægð með hvað læknarnir gátu nýtt sér hópana vel. Þarna kom einnig fram að þau telja að ákveðnar umbætur þurfi að eiga sér stað,“ segir hún en getur ekki um hvaða umbætur vegna trúnaðar. „Ég myndi því óska þess að fleiri myndu nýta sér þessa hópa.“
Spurð hvort læknar geri ekki almennt greinarmun á persónulega sjálfi sínu og því faglega, segir hún misjafnt hvort fólk hafi hugsað út í það meðvitað. „Það sér enginn hnakkann á sjálfum sér. Við sjáum myndina betur, dýpri og skýrari, þegar við eigum svo samtal og getum rýnt saman í viðbrögð okkar. Við fáum annað sjónarhorn og öðruvísi skilning. Svona vinna er því mikilvæg og gagnleg.“
Næstu hópar verða myndaðir nú í janúar og hvetja þær Margrét og Díana sérnámslækna til að taka þátt.
Segja mikils virði að fá að spegla reynslu sína
Ánægja hefur verið hjá þeim sem hafa tekið þátt í viðrunar- og stuðningshópum sérnámsprógramma Landspítala.
Einn sagði: „Mér fannst mikill stuðningur í því að fá að heyra að aðrir kollegar mínir eru að ganga í gegnum svipaðar áskoranir og ég. Það kom mér á óvart hvað það var margt sem lá mér á hjarta sem ég vildi ræða í þessum hópi og hvað mér var létt við að fá speglun frá kollegum mínum.“ Annar tók undir og sagði að hann hlakkaði til að mæta í hvert skipti. Hann hefði vilja fleiri tíma.
„Saman náðum við að koma með hugmyndir að úrbótum í starfinu okkar. Við fórum einnig inn á persónulegar áskoranir hvers og eins, eins og fólk var tilbúið til að deila. Að sama skapi náðum við einnig að einblína á það jákvæða og ræða hvað það er sem starfið gefur okkur og hver er ástæðan fyrir því að við viljum vera í þessu starfi.“