9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Ólík afstaða til fjármögnunar meðal stjórnmálaflokkanna - 7. spurning

Stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til þings telja allir öflug vísindi mikilvæg en Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að nýta mætti ónýtta möguleika til hagræðingar og aukins árangurs til að efla vísindarannsóknir innan Landspítala. Vinstri græn segja framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar hafa aukist um 70% á þessu kjörtímabili. Áfram þurfi að stuðla að -sterkri þróun þar.

Viðreisn vill að fé til vísinda fylgi verðlagsþróun. Flokkur fólksins vill auka fé til rannsókna á næstu árum. Framsókn vill fjármagna með sambærilegum hætti og samanburðarlönd. Píratar vilja að fjármagn sé tryggt nokkur ár fram í tímann svo hægt sé að vinna að rannsóknum til lengri tíma á fyrirsjáanlegan hátt.

Samfylkingin telur mikilvægt að styrkja vísindasjóð Landspítala með beinum árlegum styrk óháð rekstrarframlagi til spítalans. Miðflokkurinn styður eflingu samkeppnissjóða þar sem það á við og segir mikilvægt að heilbrigðisstofnanir landsins hafi fjármuni til ráðstöfunar til að styðja við vísindastarf.

Læknablaðið hefur tekið saman svör stjórnmálaflokkanna við spurningum þess um heilbrigðisþjónustuna fyrir Alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi.

 Althingi-1

7. SPURNING

Vísindastarf á mjög undir högg að sækja, meðal annars á Landspítala þar sem fé til vísindarannsókna mætir afgangi í rekstri spítalans. Hvernig vill flokkur ykkar breyta þessu? Vill hann taka frá ákveðna upphæð eða hlutfall af rekstri háskólasjúkrahússins til vísinda?

 

Auka fjármagn og eyrnamerkja rannsóknum - Flokkur fólksins

Flokkur fólksins telur mikilvægt að hið opinbera styðji við heilbrigðisvísindi. Hann vill auka fjármagn til rannsókna á næstu árum og tryggja að fjármagn verði eyrnamerkt til þeirra verkefna svo ekki verði gengið á það ef uppá vantar annarsstaðar. Best færi á því að hlutfall af rekstri háskólasjúkrahússins væri eyrnamerkt vísindastarfsemi.

 

Auka stuðning og fylgja framtíðarsýn - Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna og auknum stuðningi við nemendur sem fara erlendis í nám. Mikilvægt er að framtíðarsýn Landspítala um skipulag og eflingu vísindastarfs gangi eftir og við þá framtíðarsýn þurfa stjórnvöld að styðja. Í henni felst aukið samráð og samtal milli spítalans og Háskóla Íslands, að gæði vísindastarfs verði sambærileg við norræn háskólasjúkrahús, að starfið verði sýnilegt innan og utan spítalans og að það verði fjármagnað með sambærilegum hætti og á háskólasjúkrahúsum þeirra landa sem við berum okkur helst saman við. Það er mat Framsóknarflokksins að vísindarannsóknir á heilbrigðissviði hér á landi eigi að vera sterk stoð heilbrigðiskerfisins og standast alþjóðlegan samanburð að gæðum og umfangi enda gegni vísindarannsóknir í heilbrigðiskerfinu viðamiklu hlutverki í þróun heilbrigðismála. Þá telur Framsóknarflokkurinn mikilvægt að styðja við íslenskan heilbrigðisklasa þar sem Landspítali háskólasjúkrahús væri miðpunktur. Ávinningur af klasasamstarfi getur orðið umtalsverður bæði fyrir vísindastarf og heilbrigðiskerfið í heild.

 

Vísindastarf mikilvægt fyrir þekkingu og lækningu - Miðflokkurinn

Íslendingar eiga og hafa átt marga frábæra vísindamenn á sviði heilbrigðisvísinda. Þessum vísindum hefur sem betur fer fleygt fram á liðnum árum og leitt til margvíslegra nýjunga við meðferð á sjúkdómum. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga sem fullvalda þjóð að reka sterkt og öflugt vísindastarf, í senn til að geta lagt okkar af mörkum í baráttu við sjúkdóma og einnig til að tryggja að hér sé ávallt til staðar þekking á flóknum vísindagreinum. Miðflokkurinn styður eflingu samkeppnissjóða þar sem það á við en einnig er mikilvægt að heilbrigðisstofnanir landsins hafi fjármuni til ráðstöfunar til að styðja við slíkt starf. Nú á tímum kórónuveirunnar hefur komið í ljós hve mikilvægt er að vera fullvalda og sjálfstæð þjóð til að geta tekið upplýstar ákvarðanir undir leiðsögn okkar eigin vísindamanna á heilbrigðisvísindasviði. Landspítalinn á að sinna vísindastarfi og hefur ákveðið svigrúm um hversu mikið hann setur í vísindarannsóknir, auk samstarfs Landspítalans og Háskóla Íslands sem skapar tækifæri til þess að sækja styrki í viðurkennda sjóði eins og dæmin sanna.

 

Tryggja þarf fjármagn nokkur ár fram í tímann - Píratar

Píratar eru hörðustu talsmenn nýsköpunar og vísindastarfs af öllum flokkum á Alþingi. Það er hlutverk hins opinbera að hvetja til og greiða fyrir rannsóknir og þróun sem gerir líf okkar allra betra. Þar undir falla bæði grunnrannsóknir og frekari hagnýting þeirra. Landspítalinn er mjög vel til þess fallinn að leiða stóran hluta af þessum rannsóknum, sérstaklega grunnrannsóknir sem leiða ekki beint til hagnaðarvonar en eru engu að síður algjör hornsteinn komandi hugmynda. Þar að auki þarf að sjá til þess að fjármagn sé tryggt nokkur ár fram í tímann svo hægt sé að vinna að rannsóknum til lengri tíma á fyrirsjáanlegan hátt. Verja tímanum í vísindi en ekki styrktarbeiðnaskrif.

 

Vísindasjóður styrktur árlega óháð rekstri spítalans - Samfylkingin

Samfylkingin telur mikilvægt að styrkja vísindasjóð Landspítala með beinum árlegum styrk óháð rekstrarframlagi til spítalans. Vísindarannsóknir eru nauðsynlegur þáttur í starfi spítalans en einnig hlutverki hans sem háskólasjúkrahúss. Samfylkingin telur óráðlegt að vísindastarfið sé háð afkomu spítalans hverju sinni og leggur því til að vísindasjóður Landspítala fái árlegt framlag til að stuðla að þróttfullu og öflugu vísindastarfi innan Landspítala Háskólasjúkrahúss. Miða ætti við hlutfall nærri 8-10% af rekstrarfé eins og þekkist á Norðurlöndum en þó, eins og áður segir, í sjálfstæðu framlagi, óháð rekstrarfé spítalans.

 

Hvetja og styrkja til öflugs vísindastarfs - Viðreisn

Viðreisn hefur í hvívetna talað fyrir mikilvægi vísindarannsókna. Til dæmis hefur Rannsóknasjóður verið verulega vanfjármagnaður og Ísland hefur dregist aftur úr í samanburði við aðrar þjóðir. Viðreisn vill að sérstaklega tilgreindum fjárhæðum sé á hverju ári varið til vísindarannsókna, bæði innan spítalans og utan, og að þær fjárhæðir verði hækkaðir á hverju ári í samræmi við verðlagsþróun. Þegar litið er til heildarmyndarinnar, gæða þjónustu, nýliðunar og þróunar í veitingu heilbrigðisþjónustu, er einsýnt að besta fjárfesting okkar innan heilbrigðiskerfisins liggur í því að hvetja til og styrkja öflugt vísindastarf innan háskólasjúkrahússins okkar.

 

Á ábyrgð ráðherra og stofnana að forgangsraða - Sjálfstæðisflokkurinn

Spurningar um forgangsröðun í starfsemi LSH eiga líklega best heima hjá stjórnendum spítalans. Útgjöld til heilbrigðiskerfisins hafa verið stóraukin undanfarin ár og það er á ábyrgð viðkomandi fagráðherra og undirstofnana að forgangsraða fjármunum í rekstri, þar með talið til vísindarannsókna.

Erlendir aðilar sem hafa skoðað þróun heilbrigðismála hér á landi hafa bent á ýmsa ágalla á skipulagi, stýringu og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Ljóst er að ónýttir möguleikar eru til hagræðingar og aukins árangurs, en slík tækifæri mætti meðal annars nýta til að efla vísindarannsóknir innan háskólasjúkrahússins.

 

Tryggja þarf fjármögnun og spítalinn setji sér stefnu - Vinstri græn

Framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar hafa aukist um 70% á þessu kjörtímabili enda hefur núverandi ríkisstjórn lagt ríka áherslu á þennan málaflokk. Í markáætlun á sviði vísinda og nýsköpunar eru þrjár samfélagslegar áskoranir skilgreindar og eru heilbrigðisvísindi og tækni ein þeirra. Þá hafa framlög til háskóla einnig verið aukin. Heilbrigðisvísindarannsóknir á Íslandi hafa verið sterkar og það er mikilvægt að stuðla að því að sú þróun haldi áfram. Samkvæmt heilbrigðisstefnu er áformað að stofna sérstakan vísindasjóð fyrir rannsóknir á heilbrigðissviði. Samstarf háskóla og vísindamanna á spítalanum er og hefur verið mikilvægt en einnig er mikilvægt að spítalinn setji sér markmið hvað varðar þátttöku og birtingar á vísindastarfi. Fjármögnun rannsókna þarf að tryggja og sömuleiðis að starfsmenn geti sótt um styrki og að þeir fái svigrúm innan sinnar vinnu á spítalanum til að stunda rannsóknir.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica