9. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Læknar vilja láta rödd sína heyrast, segir nýr formaður FSL, Theódór Skúli Sigurðsson

Gott starfsumhverfi, nægilega margt starfsfólk og nægt fjármagn í heilbrigðiskerfinu eru undirstaða þess að tryggja öryggi sjúklinga og góða þjónustu, segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna síðan í vor. Hann er sérfræðingur í barnasvæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og doktor í sérgrein sinni.

„Ég starfaði á Sjúkrahúsinu á Akureyri í þrjú ár eftir læknanámið og ætlaði í barnalækningar en svæfingarnar og sérstaklega barnasvæfingar urðu fyrir valinu. Sérfræðinámið stundaði ég við háskólasjúkrahúsið í Lundi og starfaði jafnframt á barnasjúkrahúsinu þar,“ segir Theódór sem flutti til Íslands með fjölskyldu sína 2017. Hann sagðist ekki hafa sóst eftir embættinu í Félagi sjúkrahúslækna „en ég vildi ekki skorast undan ábyrgð og var tilbúinn að láta til mín taka í því verkefni að bæta stöðu heilbrigðismála á Íslandi,“ segir Theódór Skúli sem var meðal forgöngumanna undirskriftasöfnunar þar sem 1060 læknar skora á stjórnmálamenn að taka til hendinni í heilbrigðiskerfinu.

„Tilgangur undirskriftasöfnunarinnar er að þrýsta á stjórnvöld að taka sig á í heilbrigðismálum. Ég fór ekki af stað með þetta sem formaður Félags sjúkrahúslækna heldur einstaklingur og við náðum samstöðu þúsund lækna, nokkur hundruð læknum fleiri en eru í félaginu. Við bendum á sex atriði sem þarfnast brýnna úrbóta og eru á sviði öldrunarþjónustu, gjörgæslu, flutnings verkefna frá Landspítala til undirmannaðrar heilsugæslu án samráðs og fjallað er um skort á faglegu samráði, meðal annars við mótun heilbrigðisstefnu til ársins 2030.“

Theódór nefnir gjörgæsluna sem hann þekkir vel. „Á öllu landinu eru 12 gjörgæslurými í sumar. Við verðum því endurtekið að fresta aðgerðum. Þetta setur lækna í þá stöðu að þurfa að ve1ja hver getur farið í aðgerð ef það er aðeins eitt gjörgæslurými laust þann daginn. Er það krabbameinssjúklingur sem þarf lífsnauðsynlega aðgerð, hjartasjúklingur sem þegar hefur mátt þola frestun eða barn sem ekki má bíða? Læknar vilja ekki standa frammi fyrir svona vali en þetta er veruleikinn. Sú staðreynd að Ísland sé í botnsæti Evrópuþjóða hvað varðar fjölda gjörgæsluplássa á hvern íbúa er algjörlega óásættanlegt og ákveðin birtingarmynd þess skorts sem ríkir í heilbrigðiskerfinu.“

Fjármögnunin eilífðarverkefni

Theódór Skúli segir sífelldar sparnaðarkröfur koma í veg fyrir að Landspítalinn geti ráðið nægilega margt starfsfólk. „Mannekla þýðir að heilbrigðiskerfið getur ekki sinnt hlutverki sínu og þess vegna heyrast endurtekin neyðarköll frá heilbrigðisstarfsfólki sem býr við ofurálag og hættir jafnvel vegna kulnunar. Þetta tengist líka nýtingu spítalans almennt á legurýmum, hún er nánast alltaf 100%, en eðlileg nýting bráðasjúkrahúsa ætti aldrei að vera meiri en 85-90% að staðaldri. Þessi hámarksnýting þýðir að spítalinn getur ekki með góðu móti tekið við stórslysum eða hópsýkingum þar sem ekkert svigrúm er til staðar.“

„Fjármögnun virðist vera eilífðarverkefni og aldrei nægt fjármagn til staðar. Það skýrist án efa af áratuga vanrækslu stjórnvalda en það er skammarlegt að eingöngu 7% af vergri þjóðarframleiðslu sé varið til heilbrigðismála eins og verið hefur síðustu ár. Það ætti að vera forgangsmál stjórnmálaflokka að ná þessu hlutfalli uppí 11% eins og nágrannaþjóðirnar gera og almenningur á Íslandi hefur krafist. Þá fyrst ættum við möguleika á að fara að byggja upp heilbrigðiskerfið í stað þess að setja alltaf plástra á sárin.“

Sýnist þér áskorunin hafa áhrif?

„Ég hef trú á því. Hún sýnir fáheyrða samstöðu lækna sem vilja láta rödd sína heyrast. Við erum stolt af starfi okkar og tilbúin að taka virkan þátt í mótun og stjórnun heilbrigðismála. Framtíðarsýn mín er að íslenskir læknar standi þannig saman og berjist fyrir sterku og fjölbreyttu heilbrigðiskerfi.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica