7-8. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Saga læknisfræðinnar. Eugene Braunwald er enn að
Hver var áhrifamesti læknir 20. aldar? Gaman væri að kanna hug íslenskra lækna til þess. Ýmis nöfn koma upp í hugann: Sigmund Freud, Robert Koch, Alexander Fleming, Jonas Salk, Virginia Apgar, Michael DeBakey, Benjamin Spock, William Osler og fleiri. En í hugum okkar lyflækna (og ennþá fremur hjartalækna) munu fáir skáka bandaríska lækninum Eugene Braunwald í slíkum samanburði. Líkt og Michael Debakey taldist fremstur hjarta- og æðaskurðlækna á 20. öld, bar Eugene Braunwald ægishjálm yfir aðra hjarta- og lyflækna að minnsta kosti síðari hluta aldarinnar.
Braunwald fæddist árið 1929 í Vínarborg. Foreldrar hans voru gyðingar, Wilhelm og Clara, fædd Wallach. Þau voru vinsæl og vel metnir borgarar. Wilhelm átti klæðaverksmiðju, sem var að sjálfsögðu gerð upptæk eftir innreið nasista í Austurríki í mars 1938. Wilhelm lenti í fangelsi. Clara gerði sér þá ferð til aðalfulltrúa þýsku stjórnarinnar í borginni og benti honum á þá augljósu staðreynd að best færi á því að afhenda Wilhelm aftur stjórn verksmiðjunnar, ef hugmyndin væri sú að hún skilaði hagnaði til Stór-Þýskalands. Wilhelm var látinn laus, en fjölskyldan komst úr landi nokkrum mánuðum síðar því nær allslaus.
Braunwald ólst upp í New York og fjölskyldan þurfti að takast á við fordóma sem innflytjendum mæta á öllum tímum. Hann var listunnandi og kostaði nám sitt meðal annars sem statisti í Metrópólitan- óperunni. Hann þótti einkar hermannlegur sem spjótliði í óperunni Aida. Hann stundaði læknanám við New York-háskóla og Johns Hopkins-háskóla, en sótti nokkur námskeið í Mexíkóborg. Hann taldi sig eftir á hafa haft mest gagn af þeim. Árið 1952 kvæntist Braunwald Ninu Starr Braunwald, sem var meðal fyrstu kvenna til að gera opnar hjartaaðgerðir. Hún lést árið 1992.
Árið 1955 varð Braunwald yfirmaður hjartarannsókna á National Institute of Health (NIH). Þar gekkst hann fyrir grundvallarrannsóknum á starfsemi hjartans í hjartabilun, lokugöllum og lungnaháþrýstingi. Hann var frumkvöðull í því að meta starfsemi vinstri hjartagáttar með þræðingu gegnum gáttaskipti. Hann mældi fyrstur útfallsbrot hjartans (ejection fraction) og LV dp/dt, það er þrýstingsris vinstra slegils. Hann lagði fyrstur réttmæta áherslu á áhrif hormóna og boðefna á starfsemi hjartans.
Á árunum 1968 til 1972 var Braunwald yfirmaður lyflækninga við Kaliforníuháskóla í San Diego. Hann umbylti strax læknanáminu, sem varð hið nýtískulegasta í Bandaríkjunum, auk þess að byggja upp geysiöflugt rannsóknarteymi. Ég naut góðs af því þegar ég réðst til starfa við Kaliforníu-háskóla sumarið 1976. Braunwald gerðist prófessor við Harvard- háskóla 1972. Þar einbeitti hann sér að rannsóknum á kransæðasjúkdómi. Þar ber hæst svonefndar TIMI-rannsóknarlotur, sem eru orðnar á sjöunda tuginn og hafa þokað mjög fram skilningi manna á viðfangsefninu. Braunwald er meðhöfundur yfir 1200 vísindagreina og tilvitnanir í þær eru um 150.000. Hann var um áratugi aðalritstjóri kennslubókar Harrisons í lyflækningum auk kennslubókar í hjartalækningum sem við hann er kennd.
Braunwalds verður því án efa minnst sem helsta forvígismanns hjartalækninga um allan heim síðustu 40-50 árin. En hann var ekkert lamb að leika sér við fremur en Michael DeBakey. Kröfur hans voru miklar og kveikiþráðurinn stuttur. Helsti samstarfsmaður hans í San Diego, John Ross, þreyttist smám saman á samstarfinu við karlinn, sótti um stöðu prófessors og yfirlæknis á hjartadeild Boston City Hospital og fékk hana. Þegar til kom voru starfsaðstæður í Boston ekki þær sem lofað hafði verið og John Ross hætti við að taka við starfinu. Sneri hann aftur til San Diego, en Braunwald taldi nú Ross eiga ráðningu skilda og lækkaði hann í tign þótt enn væri ekki ráðið í stöðuna sem Ross hafði yfirgefið. Þurfti Ross að bíða marga mánuði áður hann náði að vinna sig upp í fyrra starf.
Í San Diego reyndist Braunwald þannig hinn mesti ógnarbíldur. Meðal ungu læknanna á deild hans var samkynhneigður maður, Thomas Kazamias að nafni. Hann var listrænn og afar skrautgjarn. Ekki naut hann eftirlætis yfirlæknisins. Dag nokkurn hljómaði um allt hátalarakerfi spítalans: „Doctor Kazamias, doctor Kazamias, come immediately to doctor Braunwald´s office.“ Tómas varð að vonum skelfingu lostinn og átti einskis von nema uppsagnar, þótt ekki væri honum ljóst tilefnið. Skundaði hann yfir götuna og barði að dyrum hjá Braunwald. Karl opnaði hurðina, tók af honum hálsbindið og lokaði síðan orðalaust. Hann var á leið á virðulegan fund og þurfti á viðeigandi bindi að halda.
Í starfinu á NIH notuðu Braunwald og félagar hans oft sjálfboðaliða úr röðum fanga í nálægu fangelsi við tilraunir sínar. Einn sá tryggasti hét O´Rourke, sann-kaþólskur maður af írskum ættum. Nú leið að jólum. Braunwald sagði við samstarfsmenn sína: „Christmas is at our throats! We´ll have to speed up.“ Voru nú fyrirhugaðar nýjar tilraunir á O´Rourke, en þar var hver að verða síðastur, því að hann hafði fáar nothæfar bláæðar lengur til að leiða plastleggi inn í æðakerfið. Þegar aðfangadagur rann upp bað -O´Rourke um leyfi til að dveljast jóladagana tvo á spítalanum og fannst hann hafa unnið til þess. Ekki sá Braunwald nokkra ástæðu til að verða við þeirri bón.
Þegar Eugene Braunwald gerðist prófessor við Harvard var þar fyrir mikið mannval eins og vænta mátti. Meðal hinna frægustu má nefna Bernard Lown, upphafsmann nútíma hjartagæsludeilda, stuðtækja til að meðhöndla hjartsláttartruflanir og handhafa friðarverðlauna Nóbels. Hann var gyðingur, fæddur í Litáen en fluttist ungur til Bandaríkjanna. Hann var ásamt rússneska prófessornum Evgení Chazoff forvígismaður Samtaka lækna gegn kjarnorkuvá. Richard Gorlin var einnig prófessor við Harvard þegar Braunwald bar þar að garði. Hann var heimsþekktur fyrir rannsóknir sínar á hjartalokum og sjúkdómum í þeim. Loks má nefna Edmund Sonnenblick, fyrrum samstarfsmann Braunwalds. Öllum þessum mönnum og mörgum fleiri sagði Braunwald upp störfum og réði nýja í staðinn. Þetta var mesta Bartólómeusarnótt bandarískrar læknisfræði, en Braunwald byggði smám saman upp öflugustu hjartadeild Bandaríkjanna við Harvard-háskólann með nýjum liðsmönnum.
Það setti óneitanlega blett á frægðarskjöld Braunwalds að undir hans verndarvæng störfuðu nokkrir helstu svikarar í vísindasögu síðustu áratuga. Bob Slutsky starfaði með Braunwald í San Diego. Hann birti fjölda vísindagreina sem byggðust á skálduðum niðurstöðum. Sama er að segja um John Darsee, sem um stund var talinn ein helsta framtíðarvon bandarískrar læknisfræði og starfaði á deild Braunwalds við Harvard-háskóla. Báðir þessir menn voru opinberlega afhjúpaðir. Því er einnig haldið fram að grein sem samstarfsmenn Braunwalds birtu í New England Journal of Medicine um lyfið amri-none hafi byggst á fölskum mælingum. Kannski var þetta toppur á ísjaka sem aldrei hefur verið fullmældur. Ég tel næsta víst að Braunwald hafi verið fullkomlega ókunnugt um þessa sviksemi, en gegndarlaus vinnuharka hans hefur líklega orðið mörgum manninum ofraun.
Eugene virðist hafa heillast af Íslandi. Hann hefur oft komið hingað, stundum á eigin vegum en tvívegis sem fyrirlesari á norrænum ráðstefnum. Stundum hefur örlað á öfund sænskra kollega þegar okkur hefur tekist að klófesta og kynna til leiks fremstu bandarísku hjartalæknana á okkar ráðstefnuvakt.
Vorið 1989 var von á Gene hingað til fyrirlestrahalds með konu sinni. Sá kvittur var á lofti að illa stæði í bólið hjá honum. Hann hafði nýlega verið í Lissabon og haft allt á hornum sér. Við Árni Kristinsson vorum uggandi og það var tekið til bragðs að hringja í Mark Pfeffer, nánasta samstarfsmann Braunwalds í Boston og leita ráða. Mark sagði að aðal-atriðið væri að sýna Nínu þann sóma sem henni bæri. Portúgalarnir hefðu kallað hana Mrs. Braunwald í staðinn fyrir Dr. Braunwald. Þetta hafði ekki fallið í góðan jarðveg. Þetta reyndist heillaráð og Gene og Nína léku á als oddi.
Við Árni Kristinsson flugum til Ísafjarðar með Gene í júní 1999. Þetta var fagur og bjartur sumardagur og gesturinn í sólskinsskapi. Þegar við ókum inn í bæinn kom Gene auga á sjúkrahúsið. Hann sagði: „Now we´ll have fun. I shall deduce the purpose of this building“. Síðan sagði hann að þetta væri ekki fiskvinnsluhús, enda of langt frá sjó. Þetta væri alltof stórt til að vera spítali fyrir fámennt hérað. Svona skuggalegt hús gæti heldur ekki verið skóli fyrir ungt fólk. Þetta hlyti að vera ríkisfangelsið sjálft, The State Penitenciary!
Við svöruðum kindarlega að, jú, þetta væri nú spítali. Jæja, svaraði karl, hve margir íbúar eru í nálægum fjörðum? Þegar svarið lá fyrir kom úrskurðurinn: „Þið þurfið 6 rúma spítala hér“.
Seinast hitti ég Braunwald vorið 2002 í Boston og snæddi með honum hádegis-verð. Þá var hann upptendraður af hugmyndum um að samtvinna erfðafræði og lyfjafræði. Skömmu áður hafði verið skipulagður fundur Eugene Braunwalds, samstarfsmanna hans og Kára Stefánssonar hjá Íslenskri erfðagreiningu í Reykjavík. Gene sagði mér að Kári hefði ekki talið nauðsynlegt að mæta á fundinn og glotti kalt.