6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi yfirlæknis á sóttvarnasviði hjá Embætti landlæknis. Guðrún Aspelund

6:10 Mánudagur. Vekjaraklukkan stillt á 6:30 en ég vakna áður. Dríf mig á fætur, er ekkert fyrir að liggja upp í. Út að hlaupa með Gunnari. 5 km henta vel fyrir vinnu, vesturbær – miðbær. Fallegt bjart veður en kalt.

7:00 Komin heim upp úr 7. Blómvendir frá mæðradeginum lífga upp á íbúðina. Bæti á kattamatinn, tek úr uppþvottavélinni og útbý nesti. Þarf ekki nesti fyrir dæturnar í dag því starfsdagur er í skólum. Gunnar vinnur heima og sér um hádegismat. Fer í sturtu og geri mig tilbúna.

8:00 Fundur stýrihóps á Teams (sóttvarnalæknir, landlæknir, Landspítali, almannavarnir og stjórnsýsla), ég hlusta til að vita hvað er á döfinni. Farið yfir stöðuna, smitin fyrir norðan um helgina, bólusetningar og landamærin. Byrja fundinn heima í símanum og held áfram á hjólinu á leið í Katrínartún. 10 mín í vinnuna með rafmagni – frábær ferðamáti.

8:30 Fæ mér kaffi, spjalla aðeins við vinnufélaga um helgina. Er heppin að vinna með kláru og skemmtilegu fólki. Svara nokkrum tölvupóstum, byrja á því sem er ósvarað frá föstudegi.

9:00 Fundur á Teams með miðstöð rafrænna heilbrigðislausna ásamt heilbrigðis- og forsætisráðuneyti um „grænt“ rafrænt samevrópskt COVID-19-vottorð. Spennandi að Ísland gæti orðið eitt fyrstu landanna til að taka þetta upp.

9:30 Höldum þrjú aðeins áfram til fara stuttlega yfir breytt ferli á landamærum á Seyðisfirði með tilliti til sumaráætlunar Norrænu en fyrirkomulag er í vinnslu með aðilum fyrir austan.

9:40 Fer yfir nokkur mál með sóttvarnalækni, meðal annars erindi utanríkisráðuneytis varðandi sóttvarnir á ráðherrafundi Norðurskautsráðs (Artic Council), verklag með landalistann vegna sóttvarnahúss og umsóknir um undanþágur frá dvöl þar.

10:00 Teams-fundur með forsætisráðuneyti, Rauða krossinum, almannavörnum, landamæralögreglu um sóttvarnahús og skyldu að dvelja þar fyrir farþega frá há-áhættulöndum. Tengist aðgerðum á landamærum svo ýmislegt ber á góma.

11:00 Tek stöðuna heima, tala við stelpurnar. Hádegismatur inni á skrifstofu. Kíki á fréttir í leiðinni.

Nokkrir samstarfsmenn kíkja við með spurningar og vangaveltur yfir daginn. Mikilvæg samskipti utan skipulagðra funda sem auk félagslegs þáttar ein aðal-ástæða fyrir að gott er að mæta á skrifstofuna þó fjarvinna henti á milli. Mál varða smitrakningu, sóttvarnahús, netspjallið og nýja Rakningarappið.

Aðstoða við að uppfæra leiðbeiningar á vef fyrir nýjar samkomutakmarkanir sem tóku gildi í dag. Breytingar ekki miklar í hvert sinn núorðið, svo frekar smurt.

Held áfram að svara tölvupóstum og afgreiða erindi.

14:30 Fundur á Teams að beiðni bandaríska sendiráðsins með sóttvarnalækni og aðstoðarmanni landlæknis varðandi fyrirspurnir Delta og United Airlines um vottorð og sýnatökur á landamærum. Útskýrum okkar reglur og svörum spurningum.

15:10 Stekk sein inn á Teams-fund með samhæfingateymi vegna skimunar á landamærum. Stærri hópur undir forystu forsætisráðuneytis. Sýnatökur og skipulag í Keflavík, greiningargeta rannsóknarstofu og hvað er framundan í sumar rætt.

15:50 Hjóla heim í snatri til að skutla yngri dóttur í fimleika. Bara 5 mínútna akstur út á Nes svo hún er ekki sein.

16:30 Kveiki aðeins á tölvunni aftur og klára verkefni fyrir morgundaginn, fæ mér svo að borða því ég verð í Myndlistaskólanum í kvöld.

17:45 Mæti í Teikningu I. Síðasti tíminn á þessu misseri. Held áfram með ávaxtauppstillingu, mæli út og skyggi vínber, perur, epli, blómavasa. Að teikna snýst mikið um að horfa og taka eftir svo ég gleymi öðru í bili.

21:00 Kem heim, fæ mér kamillute, nokkrar súkkulaðirúsínur, slaka á í sófanum. Við hjónin prófum að horfa á mexíkóskan (spánskan?) spennuþátt en þátturinn frekar slappur. Hætti að horfa þegar eldri dóttir biður mig að lesa yfir íslenskuverkefni. Leiðbeini með málfar og stafsetningu.

21:50 Les áður en ég fer að sofa eins og venjulega. Nauðsynlegt til að hreinsa hugann, finnst mér. Loksins að lesa Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason sem ég fékk í jólagjöf 2019. Vel skrifuð og áhugaverð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica