3. tbl. 107. árg. 2021

Ritstjórnargrein

Bylting í þróun bóluefna. Ingileif Jónsdóttir

Ingileif Jónsdóttir prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu 

doi 10.17992/lbl.2021.03.623

Kórónuveiran SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 var raðgreind í janúar 2020. Fljótlega var sýnt að veiran notar broddprótínið (spike) sem binst ACE2-viðtaka til að sýkja frumur en hún fjölgar sér í umfrymi þeirra og mótefni gegn broddprótíninu hindra sýkingu frumna. Flest bóluefni í þróun miða að því að vekja ónæmissvar gegn broddprótíni SARS-CoV-2.

Á síðastliðnu ári varð bylting í þróun bóluefna. Á innan við ári tókst að þróa og fá leyfi eftirlitsstofnana fyrir notkun tveggja bóluefna í mönnum, sem venjulega tekur nær 10 ár. Nú hafa 10 bóluefni gegn COVID-19 fengið markaðsleyfi (4 dauðar veirur, 3 veiruferjur, 2 mRNA og 1 prótín).1 Bóluefni af nýrri gerð, fituhjúpaðar mRNA öragnir, sem höfðu ekki áður fengið leyfi til notkunar í mönnum, reyndust bæði örugg og veita betri vernd (Pfizer; 95%,2 Moderna; 94,1%3) en flest þekkt bóluefni. Einnig veiruferjubóluefni, sem hafa lítið verið notuð í mönnum (AstraZeneca; 70,1% vernd,4 Gamaleya; 91,6% vernd eftir einn skammt,5 J&J/Janssen; 66% vernd eftir einn skammt) og prótínbóluefni blönduð ónæmisglæði (adjuvant) (NOVAVAX; 89,3% vernd). Bóluefnin veita svipaða vernd hjá eldri en 60-65 ára (niðurstöður vantar frá AstraZeneca). Fyrstu þrjú bóluefnin hafa markaðsleyfi meðal annars í Evrópu og sótt hefur verið um mat Lyfjastofnunar Evrópu fyrir hin. Opinberar upplýsingar eru takmarkaðar um önnur bóluefni sem hafa markaðsleyfi í ýmsum löndum en ekki leyfi lyfjastofnana Evrópu eða Bandaríkjanna. Þá eru 63 bóluefni í fasa 1 til 3 og 179 í dýratilraunum.1

Aðalkostur mRNA og veiruferjubóluefna er að þau virkja T-drápsfrumur, sem eyða veirusýktum frumum og koma í veg fyrir veirufjölgun, betur en aðrar gerðir bóluefna, svo sem dauðra veira, auk þess að vekja mótefnamyndun og frumubundið ónæmissvar. Annar kostur er hve einfalt er að breyta mRNA eða DNA í veiruferju sem broddprótínið myndast eftir, til að bæta vernd gegn nýjum afbrigðum veirunnar. Bóluefni Pfizer og Moderna mynda mótefni sem hlutleysa suður-afríska afbrigði SARS-CoV-2 heldur verr en upprunalega afbrigðið og bóluefni J&J/Janssen verndar vel gegn suður-afríska afbrigðinu, en bóluefni AstraZeneca verulega minna. Vernd gegn breska afbrigðinu er almennt góð.

Ekki er ólíklegt að í framtíðinni verði gefnar blöndur bóluefna gegn mest útbreiddu afbrigðum SARS-CoV-2. Áhersla er á að bæta stöðugleika mRNA bóluefnanna við hærra hitastig en nú þarf við geymslu.

Ónæmisglæðar sem blandað er í bóluefni geta aukið ónæmissvar og vernd, einkum hjá þeim sem svara bólusetningum verr, svo sem ungbörnum og eldra fólki. Sumir ónæmisglæðar hafa skammtasparandi áhrif, sem skiptir máli þegar framleiðslugeta bóluefna er takmarkandi. Í prótínbóluefni NOVAVAX er ónæmisglæðirinn Matrix M, sem eykur mótefna- og T-frumusvör gegn prótínum SARS-CoV-2. Unnið er að rannsóknum á eflingu ónæmissvars með því að gefa ólíkar gerðir bóluefna í fyrri og seinni skammti (prime-boost), til dæmis veiruferju eða mRNA fyrst og prótín með ónæmisglæði síðar.

Til að hraða bóluefnaþróuninni voru fasar klínískra prófana látnir skarast. Í fasa 3 var ekki eingöngu ungt hraust fólk eins og oftast er, heldur líka einstaklingar í aukinni áhættu á alvarlegum COVID-19, svo sem eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þannig fengust strax upplýsingar um öryggi og gagnsemi bóluefnanna hjá áhættuhópum. Nú er öryggi og gagnsemi bóluefnanna hjá fullorðnum þekkt og prófun hafin í börnum frá 12 ára aldri. Ráðgjafanefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um bólusetningar gegn COVID-19 hefur gagnrýnt að barnshafandi konur voru ekki í fasa 3 rannsóknum, þar sem konur á barneignaaldri eru stór hluti framlínustarfsfólks í heilbrigðiskerfinu.

Eftirlitsstofnanir hafa stytt matstíma, í áfangamati er farið yfir niðurstöður jafnóðum og þær verða til, og því fljótlegt að meta lokaniðurstöður og ráðleggja um veitingu markaðsleyfa. Enginn afsláttur er gefinn á kröfum eða mati á öryggi.

Öflugt alþjóðlegt samstarf rannsóknastofnana, fyrirtækja, eftirlitsaðila, ríkisstjórna og alþjóðasamtaka, svo sem WHO, GAVI, CEPI, COVAX og Gates-stofnunarinnar, um þróun bóluefna og uppbyggingu framleiðslugetu hefur skipt sköpum. En við þurfum að gera betur þegar kemur að jöfnum og sanngjörnum aðgangi að bóluefnum og dreifingu á heimsvísu. Munum líka að enginn er öruggur fyrr en við erum öll örugg.

Reynslan af þróun bóluefna gegn COVID-19, prófunum, mati og framleiðslu, verður ómetanleg við þróun nýrra og betri bóluefna gegn þekktum sýklum og komandi faröldrum af völdum óþekktra sýkla.

Heimildir

 

1. The COVID-19 vaccine race - weekly update. gavi.org/vaccineswork/covid-19-vaccine-race - febrúar 2021.
 
2. Polack FP, Thomas SJ, Kitchin N, et al. Safety and Efficacy of the BNT162b2 mRNA Covid-19 Vaccine. N Engl J Med 2020; 383: 2603-15.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa2034577
PMid:33301246 PMCid:PMC7745181
 
3. Baden LR, Sahly HM, Essink B, et al. Efficacy and Safety of the mRNA-1273 SARS-CoV-2 Vaccine. N Engl J Med 2021; 384: 403-16.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa2035389
PMid:33378609 PMCid:PMC7787219
 
4. Voysey M, Clemens SAC, Madhi SA, et al. Safety and efficacy of the ChAdOx1 nCoV-19 vaccine (AZD1222) against SARS-CoV-2: an interim analysis of four randomised controlled trials in Brazil, South Africa, and the UK. Lancet 2021; 397: 99-111.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(20)32661-1
 
5. Logunov DY, Dolzhikova IV, Shcheblyakov DV, et al. Safety and efficacy of an rAd26 and rAd5 vector-based heterologous prime-boost COVID-19 vaccine: an interim analysis of a randomised controlled phase 3 trial in Russia. Lancet 2021; S0140-6736: 00234-8.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica