3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Saga læknisfræðinnar. Michael DeBakey og ríki hans. Þórður Harðarson

Sumarið 1976 fór ég til framhaldsnáms til Houston í Texas, en hafði áður verið í London rúm fjögur ár. Frægastir lækna í Houston voru án efa hjartaskurðlæknarnir tveir, DeBakey og Cooley. Þeir störfuðu á Methodist Hospital og St Luke Hospital, og á því svæði taldist vera stærsta lækningamiðstöð heims.

Þessi uppgangur læknisfræði í Houston var í upphafi mest að þakka Michael DeBakey. Hann fæddist 1908 og var af fátækum líbönskum innflytjendaættum, en tókst með mikilli elju og hæfileikum að ná forystusessi meðal æðaskurðlækna heimsins. DeBakey var framgjarn, sérdrægur og miskunnarlaus á heimavelli, en þótti víðsýnn og veglyndur þegar hann var kvaddur til ráðuneytis í Washington eða erlendis. Meðal afreka DeBakeys má nefna uppbyggingu færanlegra sjúkraskýla í Kóreustríðinu (M.A.S.H.), notkun gerviefna við æðaskurðlækningar, þróun hjarta- og lungnavélar og gervihjarta. Hann varð fyrstur til að gera aðgerðir til að fjarlægja æðaþrengsli í hálsæðum og ósæðargúla í brjóstholi og meðal þeirra fyrstu sem gerðu kransæðaaðgerðir með bláæðahjáveitu. Hann var frumkvöðull að stofnun National Library of Medicine og var ráðgjafi flestallra forseta Bandaríkjanna um sína daga. Síðast kom hann við heimsfréttir þegar forseti Rússlands, Boris Yeltsin, fékk kransæðastíflu árið 1995, en þá var að sjálfsögðu leitað ráða hins níræða DeBakey.

Fyrstu tímabundna „ígræðslu" gervihjarta (left ventricular assist device) gerðu læknarnir Domingo Liotta og Michael DeBakey í Houston árið 1963. Viðtakandinn var 37 ára kona. Hér er DeBakey með lífið í lúkunum: gervihjarta.

Denton Cooley var tæknilega jafnvel enn færari skurðlæknir en DeBakey og birtist það ekki síst við skurðaðgerðir á smábörnum með meðfædda hjartagalla. Hann var af auðugu yfirstéttarfólki og kastaðist fljótt í kekki með honum og yfirmanninum, DeBakey. Einn góðan veðurdag árið 1960 strunsaði Cooley út af Methodist og sneri aldrei aftur, og um svipað leyti hófst bygging turnsins mikla sem hýsti St Luke Episcopal Hospital eða Texas Heart Institute, höfuðvígi Cooleys, skammt frá Methodist. DeBakey var illskeyttur við aðstoðarlækna sína og rak þá oft úr starfi fyrir litlar ávirðingar. Cooley þótti það enginn blettur á mannorði manna að lynda ekki við erkifjandann og réð þá oft samstundis í vinnu. Báðir græddu þeir hjörtu í fólk með alvarlega hjartasjúkdóma, en mörgum löndum þeirra fannst siðferðilega rangt að fjarlægja hjörtu sem enn slógu, þrátt fyrir heiladauða eigandans. Urðu því gjafahjörtu af skornum skammti. Jafnframt var höfnun algeng. Árið 1969 græddi Cooley gervihjarta í dauðvona sjúkling meðan beðið var eftir hjartagjafa. Eftir 65 klukkustundir fékkst nothæft hjarta, sem grætt var í sjúklinginn í stað gervihjartans, en sjúklingurinn lést, án þess að koma til meðvitundar. DeBakey kærði Cooley fyrir American College of Surgeons og hlaut Cooley ávítur, en var sýknaður af bótakröfum ekkju hins látna. Ég hafði lesið metsölubókina Hearts, sem fjallaði um stórkarlaleik Cooleys og DeBakeys og vissi því ýmislegt um aðstæður á væntanlegum vinnustað mínum.

Yfirmaður minn, Kinsman E. Wright, var jankí um fertugt, menntaður í Boston og með visna hönd eftir illa samsett beinbrot í bernsku. Ted var fráskilinn og keipóttur og hafði nokkuð nepjulega framkomu á yfirborðinu. Tók mér samt vel. Mestan hluta næsta árs vann ég á rannsóknastofu í hjartasjúkdómum, þar sem ég stýrði starfsemi 5-6 meinatækna. Við gerðum þrekpróf mestallan daginn, lesið var úr 24-klst hjartaritum, ómskoðanir gerðar og fylgst með gangráðum. Eftir á að hyggja var þetta dauflegur vinnustaður og stelpurnar höfðu flestar dæmigerð áhugamál aldurs síns. Þetta haust í Houston hef ég komist næst því að vera samtalshæfur um dægurtónlist.

Eftirminnilegastur jafnaldra minna var Richard Levinsky, sem einnig var að ljúka sérnámi í hjartalækningum. Hann var af sikileyskum mafíuættum í móðurætt, en af rússneskum gyðingum í föðurætt. Hann hefði getað verið Kleppari. Frásagnargleðin var taumlaus og sögurnar breyttust til batnaðar við endurtekningu líkt og hjá Úlfari og Gunnlaugi föðurbræðrum mínum. Hann sagði mér að faðir hans og föður-bræður bæru ennþá ör á baki sem þeir fengu á unglingsaldri þegar hópur ríðandi kósakka elti þá yfir kornakur í Úkraínu með gaddasvipur á lofti. Richard var glaður og óttalaus við flest nema konu sína Allison, sem var frá Wales og neistaði ekki af kímnigáfu. Richard hafði miklar áhyggjur af því að Indira Gandhi, þjóðhöfðingi Indlands, kynni í hugarvíli fyrirtíðaspennu að steypa heiminum út í kjarnorkustyrjöld og var greinilega ekki reynslulaus af slíkum kvillum á heimili sínu.

Það olli oft töfum og fylgikvillum að í Houston var eingöngu notuð tækni Masons Sones við þræðingarnar, en í henni fólst að skorið var inn á slagæð í olnbogabót og beinn, ómótaður æðaleggur þræddur inn að hjartanu. Tafsamt var oft að finna upptök kransæðanna og stundum stöðvaðist flæði um olnbogaæðina eftir aðgerðina og þurfti þá að grípa til skurðaðgerðar. Ekki gat heitið að ég næði mikilli leikni í hjartaþræðingum, þótt kalla mætti skammlaust. Tækni Melvin Judkins var þá að ryðja sér til rúms víða annars staðar, en með henni var nál stungið beint inn í náraslagæð, boginn æðaleggur þræddur inn og rataði oftast nær sjálfkrafa inn í mynni kransæðanna. Heimamenn höfðu flestir náð mikilli leikni í henni og algengt var að þeir lykju þræðingu á 15 mínútum. Rannsóknarstofur Wrights og Coles voru allan daginn önnum kafnar að þjóna sjúklingum á vegum Michael DeBakeys og annarra skurðlækna. Sigurður B. Þorsteinsson hafði sagt mér að í Houston teldist kransæðaaðgerð allra meina bót, ef menn væru vel tryggðir eða ættu handbæra 2000 dali. Rannsóknarstofurnar voru hýstar í nýrri byggingu en áður var orðið þröngt um aðstöðu fyrir hjartarannsóknir á Methodist og höfðu læknar orð á því við auðmenn borgarinnar. Á svipstundu söfnuðust 13 milljónir dala, líklega fjórðungur nýs Landspítala, og rannsóknabyggingin nýja reis á örskammri stund.

Gjörgæsludeildin var með 56 rúm og hin stærsta í heimi. Andi DeBakey sveif þar yfir vötnunum og þar vistuðust sjúklingar fyrst eftir skurðaðgerðir. Tólf skurðstofur voru fyrir hjartaaðgerðir, en DeBakey fór sjálfur á milli þeirra og gerði vandasömustu inngripin. DeBakey var andvígur því að unglæknar skiptu með sér vöktum. Hann sagði til dæmis að tvískiptar vaktir hefðu þann ókost að menn sæju ekki nema helming af innlögðum sjúklingum. Við slíkt vaktakerfi mæta menn til vinnu að morgni dags og fá ekki hvíld fyrr en síðdegis annars dags, að lokinni 30 klukkustunda starfslotu.

DeBakey hafði því þann hátt á að vaktlæknar dvöldust á gjörgæsludeildinni þrjá mánuði samfleytt og máttu alls ekki yfirgefa hana. Einn vaktlæknir hafði farið út á bílastæði spítalans til að taka við hreinum nærbuxum frá konu sinni, sem beið hans þar. Þessi yfirsjón barst DeBakey til eyrna og var ungi læknirinn látinn taka pokann sinn (með nærbuxunum). Daginn eftir frétti ég að öðrum lækni hefði þá um morguninn verið gert að yfirgefa spítalann. DeBakey hafði spurt hann um kalíum-gildi í blóði tiltekins sjúklings og hann ekki munað. Í ljós kom að gildið var 3,4 mEq/l, sem að vísu var í lægra lagi, en taldist vart hættulegt í sjálfu sér. Ungi maðurinn var skömmu seinna ráðinn á deild Cooley eins og fleiri sem rötuðu í svipaðar raunir. En DeBakey lagðist ekki bara á lömbin. Yfirmaðurinn á lyflækningadeildinni, Lawrence Lamb, kom dag nokkurn að skrifstofu sinni læstri og öllum föggum á gólfinu fyrir framan skrifstofudyrnar. Lamb var virtur höfundur kennslubókar um afbrigði á hjartariti og ágætur kennari. Hann hafði hins vegar verið ósammála DeBakey um ábendingar hjartaaðgerða og þagði ekki um skoðanir sínar. Hjartaaðgerðir voru langstærsta tekjulind Methodist Hospital og DeBakey réð því sem þurfa þótti.

DeBakey þoldi ekki að honum væri sagt frá fylgikvillum eftir aðgerðir sínar, enn síður dauðsföllum. Fyrir kom að undirmenn hans földu nýlátna sjúklinga í lyftum eða þvottaherbergjum þegar von var á karli. Sjálfur tók hann nær aldrei lyftu, því að hann hafði reiknað út að hann sparaði tíma með því að hlaupa stigana. Slík ógn stafaði af DeBakey að vini mínum og félaga, Patrick Hogan, lá við öngviti af skelfingu þegar yfirlæknirinn vék sér að honum (í lyftu í það skiptið) óvænt og sagði: “How are you to-day, Patrick?” Seinna frétti ég að ekki væri ætlast til að menn gengju inn í lyftu, þar sem De Bakey var fyrir.

Um þetta leyti var Michael DeBakey nýkvæntur. Hann var 66 ára, en eiginkonan 36 ára. Hún áttaði sig fljótlega að því að karlinn var alltaf í vinnunni. Hann var farinn að heiman þegar hún vaknaði á morgnana og kom ekki heim fyrr en hún var sofnuð. Aldrei var hægt að ná tali af honum símleiðis. Henni varð það fangaráð að láta leggja sig inn á Methodist Hospital þar sem fundum þeirra hjóna bar saman á stofugangi. Svipað varð uppi á teningi skömmu síðar, þegar sonur DeBakeys af fyrra hjónabandi hugðist gifta sig í heimaborg sinni Austin. Vitað var að DeBakey færi aldrei til Austin til þess eins að stunda veisluhöld. Var þá ákveðið að efna til læknaráðstefnu í borginni og bjóða DeBakey að halda aðal-ræðuna. Féll hann í þessa gildru, hélt ræðuna og hafði svo ekki betra að gera en sækja brúðkaupið, gerði það með ólund meðan beðið var næstu flugvélar til Houston.

Michael DeBakey uppgötvaði fljótlega að ekki þurfti að setja á langar ræður til að öðlast tiltrú sjúklinga sinna. Á hverjum degi staðnæmdist 20 manna bifreið utan við Fondren Brown bygginguna. Út úr bílnum og inn í húsið gekk einföld röð manna sem Patrick Hogan kallaði af lítilli smekkvísi „march of the zombies“. Þetta voru skurðsjúklingar næsta dags og áttu nú að hitta átrúnaðargoðið, skurðlækninn. DeBakey ræddi við alla einslega, en sagði aldrei nema eina setningu: „We´ll fix you.”

Árið 2006 fréttist af DeBakey í fjölmiðlum. Hann var á 98. aldursári að undirbúa fyrirlestur fyrir vísindafélag í Texas. Skyndilega fékk hann sáran verk fyrir brjóst og reyndist hafa stóran gúl í ósæð sem lá við að spryngi. Svæfingalæknar tóku fyrst um sinn ekki í mál að svæfa karlinn, enda hafði enginn maður í veröldinni svo aldraður gengist undir skurðaðgerð á ósæð. Sjálfur hafði DeBakey þróað aðgerðartæknina svona hálfri öld áður. Svæfarar urðu þó að láta í minni pokann fyrir George Noon skurðlækni og samstarfsmanni DeBakeys í 40 ár. Noon skarst í leikinn og krafðist þess að DeBakey væri ekki mismunað fyrir aldurs sakir, enda kynnu störf að vera í veði að öðrum kosti. Aðgerðin gekk vel og karli heilsaðist ágætlega.

Síðar urðu tímamót í valdabaráttunni í Houston. Árið 2007 ákvað Denton Cooley að veita DeBakey árlega gullmedalíu sína fyrir frábært lífsstarf í hjarta- og æðaskurðlækningum. Öllum til undrunar þá DeBakey medalíuna, þótt hann gæti ekki á sér setið að sproksetja Denton dálítið við móttökuathöfnina. Eftir það tókust þeir fjandvinirnir hlýlega í hendur. Cooley var þá 87 ára, en DeBakey skorti ár í hundraðið.

Þótt fjalla megi á léttum nótum um Michael DeBakey eins og hér er gert, er enginn vafi á því að hann var mikilmenni og frægastur allra æðaskurðlækna á 20. öld.Þetta vefsvæði byggir á Eplica