3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Sænski sérnámslæknirinn sem vildi sumar í skiptináminu en fékk vetur, - Rasmus Erik Strandmark

Hermaðurinn sem starfaði sem slökkviliðsmaður en varð hjúkrunarfræðingur og
að lokum læknir. Rasmus Erik Strandmark er fyrsti erlendi læknirinn sem stundar sérnám í bráðalækningum í skiptinámi á Landspítala. Hann lærði til læknis þegar honum fannst hann staðnaður sem hjúkrunarfræðingur

„Við vorum á leiðinni til Ástralíu,“ segir læknirinn Rasmus Erik Strandmark sem setur nú lokapunktinn á sérnám sitt í bráðalækningum á bráðamóttöku Landspítala. Þar hefur hann starfað frá því í október. Hann er í skiptinámi á sínu 5. ári og sá fyrsti sem sækist eftir því að stunda sérnám í skiptinámi á Íslandi.

Rasmus Erik Strandmark er í sérfræðinámi sínu í bráðalækningum og nýtur þess að vera hér á landi í skiptinámi. Hann útilokar ekki að vera áfram enda líkar fjölskyldunni veran í íslenska kuldanum vel. Hér er hann á bráðamóttökunni. Mynd/gag

Ísland var þó ekki fyrsta val Rasmusar og fjölskyldu. Þau stefndu til Ástralíu. „En það varð ljóst þegar kórónuveirufaraldurinn færðist í aukana að plön um Ástralíuför væru fyrir bí. Yfirvöld lokuðu landamærunum,“ lýsir hann í símtali við Læknablaðið. Hann er nú samt bara í Vesturbænum, þar sem fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir. Þau eru ánægð. „Fjölskyldan var ekki tilbúin að gefa drauminn um að búa erlendis upp á bátinn og ég leit í kringum mig og hafði svo samband við Landspítala um mánaðamótin ágúst-september,“ segir hann.

„Okkur langaði svo virkilega að fara eitthvert og mig langaði að klára sérnámið mitt utan Svíþjóðar. Mig langaði að stækka sjóndeildarhringinn og læra frá fyrstu hendi hvernig unnið er annars staðar,“ segir hann og er ánægður þótt hann hafi fengið vetur í stað sumars þegar áfangastaðurinn varð Ísland.

Æfðu ensku fyrir Íslandsförina

„Ég hafði undirbúið börnin fyrir ensku-mælandi ár en við urðum að laga okkur fljótt að nýjum aðstæðum,“ segir hann. Rasmus segir ekki ekki mikla hefð fyrir því að Svíar sæki sérnám erlendis. „Það er óvanalegt, sama til hvað sérgreinar er litið.“ Fáir fari til Ástralíu en einhverjir sæki til Suður-Afríku. Rasmus segir fjölskylduna aðlagast vel en þau kona hans, Camilla, eiga tvær ungar dætur.

„Þær standa sig svo vel. Eldri dóttir mín er 10 og sú yngri, sem hefur sérþarfir vegna Downs-heilkennis, er 7 ára. Við höfum alltaf smá áhyggjur af því hvernig hún aðlagist þegar við ferðumst en skólinn hefur staðið sig með miklum sóma. Fagmennskan er mikil og báðar stelpurnar elska að fara í skólann. Þær hafa eignast marga góða vini og eldri dóttir okkar upplifir sig mjög frjálsa. Hún getur gengið yfir til nágrannanna og ver öllum stundum með nýju vinkonu sinni. Þær njóta þess að vera hér,“ segir hann. Það eigi líka við eiginkonu hans.

Rasmus, Camilla og dætur þeirra tvær hafa notið tímans á Íslandi. Loftslagið og náttúran hafa heillað þau og þau notað hvert tækifæri til að njóta hennar.

„Já, hún rekur jógastöð. Nú í heimsfaraldrinum hafði mesta vinnan færst á netið og hún því ekki bundin staðsetningu heldur getur stundað vinnu sína hvaðan sem er. Hún skýst til Svíþjóðar í stuttar ferðir sem gengur vel héðan.“

Íslenskir læknar haukar í horni

Hann er ánægður með íslenska lækna, sem svo margir þekki hvernig það er að læra utan heimalandsins. „Við njótum þess að íslenskir læknar vita hvað við erum að ganga í gegnum sem fjölskylda á nýjum stað og hafa stutt okkur. Við erum mjög þakklát fyrir það.“ Kófið hafi þó sett strik í reikninginn. „Við höfum ekki komið heim til margra en hefðum örugglega gert það ef ekki væri fyrir heimsfaraldurinn.“

Rasmus segir að sérgrein í bráðalækningum sé tiltölulega ný í því formi sem nú sé í Svíþjóð og að horft hafi verið til Íslands. Hann hafi því vitað að íslenska heilbrigðiskerfið tæki við enskumælandi læknum.

„Ég vissi því að það væri smuga á að fá stöðu hér á landi. Ég hringdi því á Landspítala og fékk samband við Hjalta Má,“ segir hann og vísar til kennslustjóra bráðalækninga á Landspítala. Ólíkt því sem er í Svíþjóð sé íslenska námið viðurkennt af The Royal College of Emergency Medicine. Hér séu bæði verkleg og skrifleg próf sem mætti taka til fyrirmyndar í Svíþjóð en þar geti læknar óskað eftir því að taka próf hjá SWESEM, sænska bráðalæknafélaginu, kjósi þeir svo.

Rasmus segir því íslenska sérnámsprógrammið í bráðalækningum í fastari skorðum en í Svíþjóð. „Mér finnst að hér hafi verið lyft grettistaki í að móta námið að íslenskum þörfum og aðstæðum,“ segir hann.

„Ég er einnig afar hrifinn af veru alþjóðlegra lækna á bráðamóttöku Landspítala, til dæmis lækna frá Kanada og Nýja-Sjálandi. Ég tel að þetta auki gæði námsins og sýni að bráðalækningar á Íslandi séu eins og best verður ákosið.“

Hann segir bráðalækningar hér á landi spanna allt svið læknisfræðinnar. Í Svíþjóð sé meira um að bráðamóttökur sérhæfi sig. Hann hafi leitað eftir sem víðfeðmastri þekkingu og sé ánægður. Hann nefnir þó að íslenski spítalinn mætti taka fráflæðisvandann til athugunar. Hann sé ekki til fyrirmyndar. „En önnur þjónusta er mjög góð.“

Vill vinna á minni spítölum

Rasmus ólst upp í Stokkhólmi og starfaði á spítala þar sem hjúkrunarfræðingur. „Ég vildi njóta betur tengsla við sjúklingana, fylgja þeim betur eftir í stað þess að líta á þá sem atvik í sjúkraskrá og flutti því í minna samfélag. Mér fannst áherslan í Stokkhólmi meiri á ferilsskrána en verkin sjálf,“ lýsir Rasmus sem flutti sig um set til Mälar-sjúkrahússins í Eskilstuna, sem er um 70.000 manna samfélag í Söder-manlandsléni.

„Ég hef sterkar skoðanir á þessu og tel að minni sjúkrahús veiti fólki persónulegri þjónustu en þau stærri. Ég nýt þess að reyna á mig og þekkinguna í stað þess að vera partur af stóru teymi án stjórnar á aðstæðunum.“

Rasmus stundaði nám í hjúkrunarfræði á árunum 2000-2003 og starfaði til 2013 í faginu; bæði á bráðamóttöku og í sjúkrabílum. En hvers vegna vildi hann verða læknir en ekki halda áfram sem hjúkrunarfræðingur?

Rasmus segir að hann hafi fyrstu árin verið ánægður í starfi sem hjúkrunarfræðingur. „En ég fann að eftir fyrstu þrjú til fjögur árin hætti ég að sjá leiðir til að vaxa í starfi. Starfið rammaði of þröngt inn þær ákvaðanir sem ég mátti taka. Ég vildi því dýpka þekkingu mína og víkka rammann.“

Fylgdi vini í hjúkrunarfræðina

Rasmus á ekki ættingja í heilbrigðisstéttum. Mamma hans var leikkona og pabbi hans tónlistarmaður. Áhuginn á starfi í heilbrigðiskerfinu kviknaði þegar hann gegndi borgaralegri herskyldu og þjónaði í slökkviliði þar sem hann vildi ekki bera vopn.

„Ég kynntist strák í hernum sem vann sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæslunni sem ég hóf síðar störf á. Á þessum tíma hafði ég stefnt á að verða slökkviliðsmaður en hóf þess í stað nám í hjúkrunarfræði. Ég elskaði námið og það slökkti í draumum mínum um að verða slökkviliðsmaður. Það má því segja að ég hafi vaxið inn í heilbrigðiskerfið,“ segir hann og viðurkennir að hann sé nokkuð ævintýragjarn.

„Já, ætli ég sé það ekki svona miðað við hvaða leið aðrir fara í náminu. Ég elska áskoranir, hef ekki gaman af rútínu og elska að koma á nýja staði.“

Rasmus segir námstímann ná fram í ágúst á þessu ári. En hvað þá? „Já, þá hef ég lokið 5 ára námi í slysa- og bráðalækningum. Ég veit ekki hvert leiðin liggur eftir það,“ segir hann og útilokar ekki lengri veru hér á landi. „Ég loka engum dyrum. Ég virkilega nýt þess að starfa hér.“ Hér hafi fjölskyldan eignast vini.

„Það er frábært að vera hérna, svona ef litið er framhjá veðrabrigðum. „Bráðamóttakan er þróaðri en ég þekki að heiman. Á sama tíma langar mig að kynna það sem ég hef lært hér heima í Svíþjóð.“ Slysa- og bráðalækningar sem sérfag hafi aðeins verið kennt sem slíkt í Svíþjóð síðustu ár en verið áður tveggja ára nám eftir annað sérnám. „Fagið er ungt,“ segir hann. Margir spítalar bjóði ekki einu sinni upp á bráðamóttöku allan sólarhringinn. „Við verðum því að berjast fyrir því að fá meira svigrúm sem fag.“

Sér sænskuna í erfiðri íslenskunni

En hvernig gengur svo Svíanum að læra íslensku. „Erfiðlega,“ segir hann og hlær. „Ég var að vona að hún rynni auðveldlega inn í minnið en ég hef strögglað og átt erfitt með málfræðina og uppbyggingu málsins. Ég er farinn að átta mig á skrifuðu máli og sé leifar af sænskunni í íslenskum orðum en talað mál er allt annað mál.“

En hvað hefur svo komið honum mest á óvart? „Sundlaugarnar; við elskum að fara þangað með dæturnar. Náttúran, skýjafarið, loftslagið heilluðu okkur einnig strax í sóttkvínni. Algjörlega magnað. Íslensk náttúra er einstök og við nýtum hvert tækifæri til að njóta hennar.“

Rasmus sá fyrsti í skiptinámi í bráðalækningum

„Rasmus er fyrsti útlendingurinn sem kemur í viðbótarnám hingað til lands og lýkur sérnámi sínu hér,“ segir Hjalti Már Björnsson, kennslustjóri bráðalækninga á Landspítala.

„Við erum því komin lengra en aðrir á Norðurlöndunum í að stilla flæði námsins inn í störf bráðamóttökunnar,“ segir hann. Víða sé verið að byggja námið upp um þessar mundir og margir fari sömu leið og hér. „Það er að segja að gera þá kröfu að sérnámslæknar í faginu sæki sér að hluta þekkingu erlendis.“

Hjalti segir að námsstöður hér á landi hafi ekki verið auglýstar formlega erlendis. „En ég verð var við mikinn áhuga hjá fleiri norrænum læknum á að koma hingað og taka hluta sérnámsins þar sem við erum lengra komin í þeim efnum en víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum.“

Bráðalækningar hafa verið kenndar við Landspítala samkvæmt námskrá allt frá árinu 2002. Námið hefur þróast og haustið 2016 hófst kennsla samkvæmt námskrá The Royal College of Emergency Medicine.

Hjalti segir að þótt Rasmus sé fyrsti skiptineminn í sérnáminu séu erlendir læknar í því. Norðmaður á fyrsta ári og Ný-Sjálendingur á sínu fimmta. „Þau eru bæði hér af gömlu og góðu ástæðunni að vera gift Íslendingi,“ segir hann.

Alls eru 20 læknar í sérnámi í bráðalækningum sem er 6 ára sérnám.Þetta vefsvæði byggir á Eplica