3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

„Við kölluðum hana alltaf Möggu Odds“ - af málþingi á Læknadögum

„Andi hennar lifir og ég trúi að það verði alltaf svo,“ sagði Jonathan J. Lewis, skurðlæknir og lífeðlisfræðingur á Yale-háskólasjúkrahúsinu, á málþingi á Læknadögum í minningu Margrétar Oddsdóttur skurðlæknis en hún lést árið 2009. Röð minningafyrirlestra um Margréti eru haldnir í Yale á hverju ári

Vilhelmína Haraldsdóttir, lyf- og blóðsjúkdómalæknir, ásamt Einfríði Árnadóttur röntgenlækni og Hjördísi Smith svæfingalækni á Landspítala, við málverkið af vinkonu þeirra, Margréti Oddsdóttur á Landspítala. Málverkið var afhent 3. október 2016 en þann dag hefði Margrét orðið 61 árs og fjölskylda hennar, vinir og vinnufélagar voru á staðnum. Stephen Lárus málaði myndina. Mynd/gag

Ekki aðeins er minningu Margrétar Oddsdóttur haldið á lofti á Yale. Málverk af henni hangir í stigagangi gamla Landspítala á leið að skurðstofum. „Þar brosir hún til mín á hverjum degi og ég veit að dagurinn verður góður,“ sagði Hjördís Smith, svæfingalæknir á Landspítala. Hún ásamt þeim Einfríði Árnadóttur, röntgenlækni sem starfaði lengst af á Landspítala og í Orkuhúsinu, og Vilhelmínu Haraldsdóttur, lyf- og blóðsjúkdómalækni, halda minningu Margrétar á lofti hér heima. Allar voru þær nánar vinkonur hennar.

„Við kölluðum hana alltaf Möggu Odds,“ sagði Vilhelmína þegar hún opnaði minningarmálþingið á Læknadögum 20. janúar síðastliðinn. Málþingið var tilfinningaþrungið og var farið yfir ævi Möggu í leik og starfi. Vilhelmína sagði frá því þegar Margrét fæddist á Ísafirði 1955. Elst 7 systkina. Alltaf hafi verið gestkvæmt á heimili hennar bæði í æsku og þegar hún flutti suður. Kaffi og með því. Vinkonurnar dáðust að því hvað hún drakk mikla mjólk. Margrét lést 9. janúar 2009, „á besta aldri“ aðeins 53 ára gömul. Brjóstakrabbi varð hennar banamein.

Margréti var veittur sá heiður að „biblía“ skurðlækna, Schwartz´s Principles of Surgery útgefin 2009, var tileinkuð henni.

Margrét lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1975 og fékk styrk til náms í Bandaríkjunum fyrir góðan námsárangur. Hún fór til Alabama í Bandaríkjunum og lærði lífefnafræði. Skráði sig svo í læknisfræði við Háskóla Íslands ári síðar og útskrifaðist 1982.Sérnámið stundaði hún í Yale á árunum 1985-1992 og útskrifaðist með láði. Þangað ruddi hún leið íslenskra lækna. Þar lifir minning hennar og var skurðlækningabók meðal annars tileinkuð henni.

Brautryðjandi

Að loknu sérnámi í Yale fór Margrét til frekara sérfræðináms í kviðsjáraðgerðum „sem voru þá að ryðja sér til rúms.“ Námið stundaði hún við Emory University School of Medicine í Atlanta í Georgíu á árunum 1992-1994. Hún var ein af þeim fyrstu í heiminum sem fór þannig í fellowship. Þegar hún kom heim starfaði hún sem skurðlæknir á handlækningadeild Landspítala, síðan yfirlæknir og prófessor hjá Háskóla Íslands þar til hún lést.

„Kraftmikil, orkumikil. Það gustaði af henni. Það var akkúrat þannig sem hún var í kennslustofunni. Hún kom inn og það birti til,“ sagði Elsa Björk Valsdóttir, ristilskurðlæknir og lektor, þegar hún fór yfir nýjungar og framtíðarsýn í kennslu á minningarmálþinginu. Margrét hafi því ekki aðeins verið framúrskarandi skurðlæknir og rannsakandi heldur einnig skarað fram úr í kennslu. Hún hafi aldrei snúið baki í nemendur sína.

„Margrét settist upp á borðið, baðaði út öllum öngum. Hún hafði rosalega mikla ástríðu fyrir því sem hún kenndi.“ Ástríðan hafi fylgt öllu sem hún sagði. „Hún hreif fólk með sér og ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að þessi mikla fjölgun sem hefur orðið á kvenkyns skurðlæknum undanfarin ár megi rekja til hennar, því hún einfaldlega sýndi okkur að það var allt hægt. Hún hreif svo marga með sér.“

Fyrst Íslendinga

Walter E. Longo, yfirmaður ristils- og endaþarmsaðgerða á Yale, og Jonathan J. Lewis, skurðlæknir og lífeðlisfræðingur á Yale, minntust Margrétar á málþinginu. Lewis sagði frá því þegar hann hitti Margréti árið 1987. Hún var sú fyrsta af mörgum Íslendingum sem stunduðu nám og störfuðu á skurðstofum Yale. Aðdáun þeirra á Margréti sem manneskju fór ekki fram hjá áhorfendum.

Jórunn Atladóttir, Þóra Steingrímsdóttir, Einfríður Árnadóttir, Elsa Björk Valsdóttir, Hjördís Smith og
Vilhelmína Haraldsdóttir töluðu allar á málþinginu í minningu Margrétar. Mynd/Margrét Aðalsteinsdóttir.

„Hún var sú fyrsta sem ég hitti frá Íslandi,“ sagði Lewis. „Ég lærði fljótt margt um Margréti, margt um Ísland,“ sagði hann, og hvernig þau hjón, Margrét og Jón Ásgeir, fréttaritari og þáttastjórnandi til margra ára, hafi boðið honum í svið í fyrsta matarboði hans til þeirra. „Ég var kynntur fyrir siðunum en ekki síður fyrir hlýjunni sem kom frá landinu kennt við ís.“ Tengslin hafi orðið mjög sterk.

„Það er erfitt að lýsa tengslunum en þau voru náin. Walter, Margrét og ég urðum mjög nánir samstarfsfélagar. Við stofnuðum okkar bræðralag. Þetta voru tengsl sem við sjáum ekki í dag en við sáum ástæðu til að minna á slíkt í fyrirlestri 2015 sem kallaðist umhyggja (caring),“ sagði hann. Þeim hafi fundist sem læknar hafi misst sjónar á því að sýna sjúklingunum samkennd, hugsanlega vegna hins rafræna, en í samkenndinni hafi Margrét verið í sérflokki, mennska fyrir manneskjur (human to human).

Í bræðralagi

Walter E. Longo tók undir og sagði: „Það sem hélt okkur saman er að við hugsuðum um hvort annað en ekki eigin hag og afrek. Fólk skipti okkur máli og það var hægt að treysta okkur.“

Hann lýsti því hve mikil áhrif hennar hafi verið. Hversu góður vísindamaður hún var og hve vel hún hafi verið kynnt. Hún hafi byggt brú til Evrópu. Þau hafi notið samvistanna utan spítalans en starfið á rannsóknarstofunum hafi þó verið í forgrunni og Margrét límið sem hélt mjög svo hæfu fólki saman.

„Já, afreksfólk er líka bara fólk,“ segir Longo að hafi verið viðkvæði hennar. Jonathan tók undir það. „Já, hún jarðtengdi okkur og sameinaði.“ Félagsfærni hennar hafi verið einstök og hjálpað þeim við vísindastörfin og aukið afköstin.

Margrét hafi rutt brautina fyrir framúrskarandi sérnámslækna frá Íslandi: „Guðrúnu Aspelund á 10. áratugnum, Jórunni Atladóttur og Huldu Einarsdóttur, báðar ristilsskurðlæknar, og Arnar Geirsson, yfirlæknir og prófessor hjartaskurðdeildar Yale. Böndin voru þarna og menningin hélt okkur saman,“ sagði hann.

Þeir lýstu mikilli samkeppni á gólfinu í sérnáminu en einnig miklu álagi. 36 stunda vinnutörnum með 8 tíma hléum á milli. Margrét hafi á þessum tíma gengið með barn og fætt, fyrst allra í prógramminu. „Það var algjört einsdæmi.“ Hún missti ekkert úr og varð algjör fyrirmynd. „Það voru forréttindi að starfa við hlið hennar.“

Tímamót

Hún hafi verið á réttum stað á réttum tíma, mjög hæf. Hún hafi séð ljósið í speglunum (laparoscopic reper) í byrjun 10. áratugarins og birt um það mikilfenglega tímamóta vísindagrein.

Málþingið var á persónulegu nótunum. Einfríður sagði frá því hvernig Margrét hafi komið sem ferskur gustur að vestan. Hávaxnari og háværari en flestar. Geislandi fjörug. Hún sagði frá því hversu gott var að verja tíma með Möggu og manni hennar, Jóni Ásgeiri, sem lést 2007 úr krabbameini. Hvernig þær fóru saman til náms í Svíþjóð og svo í sérnám í sitthvorri heimsálfunni. Þær hafi gengið með börn á sama tíma, Magga mánuði á undan með tvíbura og stokkið stigana.

Fjölskylda Margrétar. Eiginmaðurinn Jón Ásgeir Sigurðsson, Margrét og synirnir Sigurður Árni og Oddur Björn.

„Síðasta ferð okkar saman var til New York á Sigurrósartónleika tveimur til þremur mánuðum áður en hún kvaddi. Þrátt fyrir hennar miklu veikindi hafði ég varla við henni á göngu. Hún skundaði áfram með bleika derhúfu, sem var reyndar umdeild hjá okkur vinkonunum, og naut þessarar ferðar. Við gerðum margt skemmtilegt en vissum því miður báðar að þetta yrði hennar síðasta utanlandsferð,” sagði vinkona hennar úr pontu á Læknadögum.

Þær vinkonurnar minnist margra skemmtilegra orða og tiltækja. Við seinni tíma rauðvínsdrykkju hafi Magga Odds haft á orði: „Stelpur, við drekkum ekki næstum því nóg.“ Þær skála alltaf fyrir henni þegar þær hittast.

Hjördís sagði frá því hvernig Margrét setti niður fótinn í sérnáminu við rannsóknir í Yale þar vestra. „Hún var í fyrstu launalaus en þegar henni leiddist þófið, og það var ekkert að bíta og brenna í kotinu, hótaði hún að hætta nema hún fengi laun. Þetta var fáheyrt á rannsóknarstofu Yale en hún hafði sitt fram.“

Áhrifavaldur

Þær vinkonurnar stikluðu á stóru í ævi Möggu Odds. Hvernig þau Jón Ás-geir misstu annan tvíbura sinn aðeins nokkurra vikna árið 1993, sem hafi verið þeim áfall. Aldrei hafi verið lognmolla á skurðstofunni þegar Magga var að skera eftir að heim var komið árið 1994.

„Hennar er enn sárt saknað hér á skurðstofunum. Hún var áhrifavaldur í bestu merkingu þess orðs. Um það geta allar þær frábæru konur vitnað sem fetuðu í fótspor hennar og lærðu listina að skera.“ Þær stöllur hafi einnig verið viðstaddar fyrsta minningarfyrirlestur um Margréti í New Haven í september 2009 með foreldrum hennar og fjölskyldu.

„Þar var henni veittur sá heiður að biblía skurðlækna, Schwartz´s Principles of Surgery, útgefin 2009, var tileinkuð henni.“ Lewis sagði að það að bókin hafi verið tileinkuð henni sýni hvað áhrif hennar hafi verið mikil. „Það var svo virkilega verðskuldað hjá henni.“

Margrét lét eftir sig synina Odd Björn og Sigurð Árna þegar hún lést og stjúpbörnin Sigríði og Þorgrím Darra.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica