06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Samspil erfðaþátta og áfalla - Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor í lýðheilsuvísindum við HÍ stýrir mörgum og stórum rannsóknum

Líf og fjör í læknadeild hétu grínþættir sem sýndir voru í sjónvarpinu fyrir mannsaldri eða svo. Þetta var heldur hallærislegt grín en það er ekkert hallærislegt við það sem er að gerast í læknadeild Háskóla Íslands þessi misserin. Þaðan berast reglulega fréttir um að helstu vísindasjóðir veraldarinnar hafi séð ástæðu til þess að veita stóra styrki til rannsókna sem íslenskir vísindamenn þar á bæ standa fyrir. Hér verður fjallað um tvö verðug verkefni sem eiga það sameiginlegt að hafa hlotið stóra styrki frá Evrópska rannsóknaráðinu.


                 
                                                    Unnur Valdimarsdóttir. Mynd Kristinn Ingvarsson.


Unnur Anna Valdimarsdóttir leiðir hóp sem hlaut nýlega styrk að upphæð 240 milljónir króna til þess að rannsaka samspil erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla, eins og því er lýst á heimasíðu Háskóla Íslands. Unnur er prófessor í lýðheilsuvísindum og varaforseti læknadeildar HÍ og blaðamaður Læknablaðsins hitti hana að máli á vinnustað sínum að Sturlugötu 8.

Unnur hefur haft áhuga á og starfað að rannsóknum á sviði lýðheilsu og hvernig fólk tekst á við áföll í rúm 20 ár. Hún hóf nám í sálfræði og skrifaði BA-ritgerð um áföll, streitu og krabbamein árið 1996. Að því loknu hélt hún til Svíþjóðar í framhaldsnám og hóf doktorsnám við krabbameinsdeild Karolinska sjúkrahússins árið 1999. Hún hefur starfað að rannsóknum frá því hún byrjaði sem aðstoðarmaður í rannsóknum við sömu stofnun árið 1998. Heim komin með doktorspróf í klínískri faraldsfræði var hún ráðin dósent við læknadeild HÍ árið 2007 en skipuð prófessor árið 2012.

 

Tengsl áfalla og sjúkdóma

Það er ljóst af því að ræða við Unni að hún er með mörg járn í eldinum. Þessi tiltekna rannsókn sem hún hlaut stóra styrkinn fyrir er reyndar stór hluti þess sem hún og hennar fólk starfar að þessi misserin. Þegar blaðamaður spurði hvað hún ætti við með „sínu fólki“ kom í ljós að þar var að baki hópur sem telur á þriðja tug vísindamanna hér og í Svíþjóð. Þegar hún starfaði sem nýdoktor við Karolinska Institutet tók hún þátt í stóru verkefni sem fólst í því að rannsaka um 16.000 Svía sem lentu í en lifðu af tsunami-hamfarirnar í Suðaustur-Asíu um jólin 2004. „Við höfum fylgt þessum eftirlifendum eftir með tilliti til einkenna áfallastreitu og annarra sálrænna kvilla, en erum að færa okkur yfir í að skoða einnig svefn og möguleg áhrif á líkamlega heilsu þessa hóps,“ segir hún.

„Í doktorsnáminu rannsakaði ég ekkjur sem höfðu misst mennina sína úr krabbameini. Ég skoðaði klíníska þætti á sjúkdómstímanum og hvaða áhrif þeir höfðu á aðlögun ekknanna og heilsufar eftir missinn. Núna hef ég fært mig meira yfir í að reyna að skilja hvaða áhrif áföll hafa á líkamlega heilsu. Það hefur sýnt sig að eftir áfall eins og það að greinast með krabbamein verður mikil aukning í tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sjálfsvíga og geðraskana meðal þeirra sem fá krabbameinsgreiningu. En meginmarkmið okkar er að skilja áhrif áfalla og streituvaldandi aðstæðna á uppkomu og framgang sjúkdóma á borð við krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma.

Rannsóknir okkar hafa sýnt fram á að áföll hafa áhrif á móttækileika okkar fyrir ýmsum sjúkdómum. Við sjáum hins vegar að það er aðeins minnihluti þeirra sem lenda í erfiðum áföllum sem þróar hraðar með sér alvarlega sjúkdóma, meirihlutinn virðist hins vegar komast í gegnum þessi áföll án þess að bíða heilsufarslegt tjón. Verkefni okkar nú er að reyna að skilja betur áhættuþætti heilsutaps eftir slíkar hremmingar, þar á meðal erfðaþætti,“ segir Unnur.

 

Manneskjan er seig, en …

Unnur nefnir að rannsóknir hennar beinist að ýmsum áföllum; að náttúruhamförum, ofbeldi, greiningu lífshættulegs sjúkdóms, eða það að missa náinn ættingja.

„Við skoðum alla myndina og sjáum mikinn breytileika í viðbrögðum og í heilsufari þeirra sem lenda í áföllum, til dæmis foreldra sem missa barn en það er sennilega einhver mest streituvaldandi lífsviðburður sem fólk getur orðið fyrir. Þrátt fyrir að verða fyrir þessum skelfilega atburði virðast sumir foreldra hafa óskertar lífslíkur á meðan aðrir veikjast fljótt og jafnvel deyja. Við viljum skilja hvort það séu einhverjir erfðaþættir sem spá fyrir um þetta, það er að segja lífslíkur og sjúkdómsáhættu í kjölfar slíkra atburða. Á ensku er talað um „resilience“, seiglu, í þessu samhengi. Við erum seigar lífverur og flest okkar hafa einhver bjargráð til þess að komast í gegnum erfiðleika án þess að verða fyrir heilsutjóni, en sumir hafa þau ekki. Þarna eiga erfðaþættir eflaust sinn hlut. Þetta er það sem við höfum nú fengið 5 ára styrk til að skoða.

Stóri Evrópustyrkurinn er til að vinna ákveðið verkefni en inn í hann falla ýmsar rannsóknir sem við erum að vinna að. Þetta er ekki ein rannsókn heldur samsafn margra ólíkra verkefna. Að þessu starfar rannsóknarhópurinn minn sem telur um 20 manns að meðtöldum nýdoktorum og doktorsnemum auk samstarfsfólks erlendis. Þetta er öflugur hópur og ég hef alltaf verið einstaklega lánssöm með samstarfsfólk,“ segir hún.

Nýjasta viðurkenningin sem Unnur fékk voru verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem úthlutað var á Vísindum á vordögum á Land-spítala. Sá sjóður var stofnaður árið 1986 af læknunum Árna Kristinssyni og Þórði Harðarsyni sem nú eru heiðursprófessorar við HÍ. Unnur er þakklát fyrir þessi verðlaun. „Það er einstakur heiður að fá þessa merku viðurkenningu fyrir störf mín og hópsins míns, og það frá nærumhverfi okkar, fyrrum samstarfsmönnum við læknadeild og Landspítala sem voru leiðandi á sínu sviði. Þessir fjármunir munu nýtast okkur vel í því starfi sem er framundan.“ segir hún.

 

Möguleikarnir eru miklir

Innan læknadeildar er starfrækt Miðstöð í lýðheilsuvísindum og þar er Unnur í forsvari.

„Við erum nokkuð stór hópur kennara, vísindamanna og doktorsnema sem stundum fjölbreyttar rannsóknir sem snerta lýðheilsu í víðu samhengi. Minn fókus, og reyndar margra annarra innan hópsins, er á áföllin en aðrir rannsakendur eru til dæmis að skoða næringu og aðra lífsstílstengda þætti og enn aðrir umhverfisþætti eins og loftgæði í Reykjavík og áhrif á heilsufar. Það eru um 20 doktorsnemar við miðstöðina sem var stofnuð árið 2007 en undanfarin ár hafa um 2-3 doktorar verið útskrifaðir á ári.

Eitt þeirra verkefna sem miðstöðin er með í undirbúningi er Heilsusaga Íslendinga en það er risastórt verkefni þar sem fyrirhugað er að safna ítarlegum upplýsingum frá 30.000 íslenskum konum á næstu þremur árum. Áherslan er á áfallasögu og heilsufar einstaklinga en við spyrjum einnig um nútímalífshætti og líðan og veltum fyrir okkur samspili þessara þátta og erfða á heilsufar, þar á meðal á einkenni áfallastreituröskunar. Þessum konum verður svo fylgt eftir í lengri tíma til að sjá hvernig heilsufar þeirra þróast,“ segir Unnur.

Í lokin spyr ég hana hvernig henni lítist á að starfa í íslensku vísindaumhverfi.

„Hér er gott að vinna og við höfum allar forsendur til að vinna frábær vísindi. Ef ég tek bara heilbrigðisvísindin þá erum við með einstaka lýðgrundaða gagnagrunna um sjúkdóma og erfðir. Okkur vantar ákveðin gögn um lífsstíl, líðan og áfallasögu sem við ætlum að bæta úr með Heilsusögurannsókninni okkar. Möguleikarnir eru sem sagt miklir og það væri frábært ef stjórnvöld væru tilbúin að fylgja þessu eftir og veðja með okkur á þessi tækifæri. En það eru auðvitað vonbrigði að framlög til vísinda sæti stöðugum niðurskurði þrátt fyrir að hér eigi að heita góðæri. Við erum ekki að nýta þau tækifæri sem við raunverulega höfum í vísindum. Ég hef unnið að vísindum bæði austan hafs og vestan og get staðfest að við eigum frábært vísindafólk hér á landi og góðan efnivið til að vinna með, en við þurfum aukin stuðning hins opinbera til þess að geta fullnýtt þessa möguleika okkar og til þess að halda í allt þetta frábæra vísindafólk,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica