09. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Vallhumall - bætir, hressir, kætir

Haustið er tíminn til að huga að grösum jarðar sem standa enn vel í sumarblíðunni sem hefur hefur leikið við okkur Íslendinga síðan um jól liggur við. Plöntur eru ekki allar bara til skrauts og skemmtunar, sumar voru og eru enn með talsverðan lækningamátt. Ein slík er Vallhumall (Achillea millefolium) sem er algeng planta, bæði í byggð og upp til fjalla. Hann var talinn gott fóður fyrr á árum.

Latneska ættkvíslarheitið vísar til Akkillesar, grísku goðsagnahetjunnar úr Ilíónskviðu sem sagan segir að hafi lært að búa til verkjastillandi og mýkjandi smyrsl úr vallhumli hjá kentárkonunginum Kíron. Seinna heitið, millefolium, þýðir þúsundblöðóttur því að blöðin eru með fjölmarga smábleðla.

Á netsíðu (ahb.is) Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings segir:

Vallhumall þykir ein bezta lækningajurtin. Hann er styrkjandi, mýkjandi, samandragandi, uppleysandi, blóðhreinsandi, bætir sinateygjur og stirðleika líkamans. Gera má duft af rótinni og er gott að strá því í illa lyktandi sár.

Allt fram á þennan dag hefur vallhumall verið notaður í te, seyði og smyrsl. Seyðið er notað við margvíslegum óþægindum eins og matarólyst, meltingarvandræðum, skyrbjúg, innyflaormum, krampa, tannverk, þvagrásarbólgum, gikt, höfuðverk og sýkingum í öndunarvegi.

Vallhumalssmysl er mjög græðandi og líka oft notað sem handáburður, enda mjög mýkjandi. Það er talið eitt bezta gyllinæðar-meðal. Við heyskap sótti mjög á suma menn, að skinnið á höndum varð hart og komu sprungur í lófa og greipar. Var leitað ýmissa ráða til þess að bæta úr því og töldu margir vallhumalssmysl einna bezt til þess. Einnig var áburðurinn notaður gegn útbrotum, bólgum, fleiðrum og sárum. Væri ígerð komin í sárið var talið til bóta að hafa dálítið af ljónslöpp (ljónslummu) með humlinum. Þá var smyrslið notað á sára kýrspena og afrifnar kýr að burði loknum. Í sóknalýsingu Sólheima og Dyrhóla er sagt, að þar sé notuð „samsuða af mellifólíu, ánamöðkum, sauðasmjöri og tjöru til áburðar við mari á holdi“. VS


Þetta vefsvæði byggir á Eplica