04. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Jón Karlsson bæklunarlæknir - Handhafi Norrænu læknisfræðiverðlaunanna 2015

Jón Karlsson prófessor og yfirlæknir við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg hlaut nýverið norrænu verðlaunin í læknisfræði árið 2015 fyrir rannsóknir sínar og brautryðjendastarf á sviði íþróttalækninga. Verðlaunin afhenti Daníel Svíaprins við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi þann 27. janúar síðastliðinn.


Jón Karlsson prófessor og yfirlæknir tekur við verðlaununum úr hendi Daníels Svíaprins. Ljósmynd: Lars Nyman.

„Mér þótti afskaplega vænt um að fá þessi verðlaun og þau eru mikil viðurkenning fyrir það starf sem við höfum unnið hér undanfarna fjóra áratugi,“ segir Jón og bætir við að ekki hafi spillt fyrir að hitta ríkisarfa Svíþjóðar og snæða svo hátíðarkvöldverð. „Þetta var mjög virðulegt og hátíðlegt.“

Auk Jóns hlutu þrír aðrir sérfræðingar í íþróttalækningum verðlaunin, Norðmennirnir Roald Bahr og Lars Engebretsen og Daninn Michael Kjær.

Jón hefur verið búsettur í Gautaborg allar götur frá árinu 1981 er hann hélt utan frá Íslandi til framhaldsnáms í læknisfræði og segir að val á sérgrein hafi verið hálfgerð tilviljun og enn síður hafi hann ætlað sér að setjast að í Svíþjóð til langframa. „Eftir kandídatsárið starfaði ég í tvö ár sem deildarlæknir á bæklunardeild Landspítala og einn af sérfræðingunum á deildinni útvegaði mér námsstöðu við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg. Síðan hef ég verið hér án þess að hafa haft uppi stórar áætlanir um það í upphafi. En svona gerast hlutirnir bara og nú er ég farinn að nálgast eftirlaunaaldur,“ segir hann. Eiginkona Jóns er sænsk og eiga þau fjórar uppkomnar dætur og fjögur barnabörn. „Heimþráin hefur alltaf blundað í mér en Svíþjóð hefur farið afskaplega vel með mig,“ segir hann.

Norrænu verðlaunin í læknisfræði hafa verið afhent árlega síðan 1979 og voru stofnuð af Salus, tryggingafélagi sænskra lækna. Árið 2013 rann Salus saman við Folksam-tryggingasamsteypuna og eru verðlaunin nú kennd við Folksam. Dómnefnd er skipuð fjórum einstaklingum úr jafnmörgum greinum læknisfræði og á hverju ári er veitt til ákveðinnar sérgreinar. Verðlaunin nema einni milljón sænskra króna sem skiptist á milli verðlaunahafa.

Jón er vel þekktur innan sinnar sérgreinar og doktorsverkefni hans er fjallaði um nýjung í aðgerð á ökklaáverka vakti heimsathygli. „Þetta er mun einfaldari aðgerð en áður var gerð og hefur reynst mjög vel.“ Reyndar svo vel að aðgerðin er kennd við hann. „Það finnst mér nú reyndar óþarfi og hef reynt að draga úr því eftir bestu getu,“ segir hann en þess má einnig geta að auki að hann er höfundur nærri 30 bóka um bæklunarlækningar, ritrýndar greinar hans skipta hundruðum svo sitthvað hefur hann lagt til málanna á merkum ferli. Og er langt frá því sestur í helgan stein.

„Ég er núna að rannsaka mjaðmaaðgerðir með liðspegli ásamt samstarfsfólki mínu. Þetta er stórt rannsóknarverkefni sem felur í sér talsverða nýjung og er mjög spennandi. Hér var einn Íslendingur, Páll Jónasson, sem vann við þetta en hann lauk doktorsverkefni sínu í fyrra undir minni handleiðslu. Hann er fluttur heim og starfar í Orkuhúsinu núna. Hér hafa þrír aðrir íslenskir læknar stundað sérnám í bæklunarlækningum undir minni handleiðslu, Sveinbjörn Brandsson, Gauti Laxdal og núna Haukur Björnsson sem er að ljúka sérnámi sínu. Þetta eru toppmenn og ég hef gert talsvert af því að fara heim til Íslands og gera aðgerðir með þeim þannig að tengslin við Ísland eru sterk, bæði faglega og persónulega.“

Jón segist sinna aðgerðum daglega og helst eru það ökklaaðgerðir og flóknar hnéaðgerðir sem hann fæst við. „Á þessum árstíma eru skíðameiðsli algeng. Fólk slasast á ökklum og hnjám. Þetta eru algengustu aðgerðirnar. Annars má segja að ég hafi sérhæft mig í íþróttameiðslum og þá sérstaklega meiðslum sem knattspyrnumenn verða fyrir.“

Knattspyrna er eitt helsta áhugamál Jóns utan vinnunnar og tilviljun réði því að hans sögn að árið 1984 gerðist hann liðslæknir eins af stóru liðunum í Svíþjóð, IFK Gautaborg. „Þetta var hrein tilviljun. Einn af liðslæknunum hætti með stuttum fyrirvara og samstarfsmaður minn á bæklunardeildinni hljóp í skarðið og spurði mig hvort ég vildi aðstoða hann. Síðan höfum við verið læknar liðsins.“

Ein af bókum Jóns fjallar einmitt um knattspyrnumeiðsli og er sögð ómissandi fyrir alla sem leggja slíkar lækningar fyrir sig. „Þetta er líklega sú bók sem ég er hvað stoltastur af. Hún hefur gagnast mörgum og meðal annars orðið til þess að alvarlegum meiðslum í íþróttinni hefur fækkað. Það er fyrst og fremst því að þakka að með markvissri þjálfun er hægt að fyrirbyggja mörg alvarlegustu meiðslin.“

Ekki er hægt að heyra á mæli Jóns að hann hafi tapað niður íslenskunni að neinu leyti og hann segist halda henni við með lestri íslenskra bóka. „Ég les mest íslenska reyfara og er hrifnastur af Arnaldi Indriðasyni.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica