03. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Lögfræði 17. pistill. Samfélagsmiðlarnir

Samfélagsmiðlarnir eru fyrirferðarmiklir í daglegu lífi flestra og þeir eru margir. Til þeirra teljast til dæmis fésbókin (Facebook), Twitter, LinkedIn, Pinterest, YouTube og Wikipedia.

Notendur fésbókarinnar töldust vera liðlega einn og hálfur milljarður manna á 4. ársfjórðungi 2015.1 Íslendingar eru mjög virkir á fésbókinni og þegar athugun var gerð árið 2013 virtust yfir 70% Íslendinga virkir á þessum samfélagsmiðli í mánuði hverjum.2

Fyrir heilbrigðisstarfsmenn er margs að gæta þegar kemur að umgengni við samfélagsmiðla. Alþjóðasamtök lækna samþykktu leiðbeiningar um samfélagsmiðla og notkun þeirra á ársþingi sínu haustið 2011.3 Þar eru aðildarfélög samtakanna hvött til að setja reglur af þessu tagi. Siðfræðiráð Læknafélags Íslands hefur um allnokkurt skeið haft til skoðunar að útbúa leiðbeiningar til lækna um þessi efni eins og fjölmörg systurfélög austanhafs og vestan hafa gert.4

Þær leiðbeiningar sem settar hafa verið á þessu sviði fyrir heilbrigðisstéttir eru nokkuð samhljóma: Bent er á að samfélagsmiðlar slævi mörkin milli einstaklingsins og fagaðilans. Þess vegna þurfi að gæta vandlega að friðhelgisstillingum sínum á samfélagsmiðlum í þeim mæli sem hver og einn þeirra býður upp á, en vera um leið meðvitaður um þá staðreynd að verndin í netheimum er alltaf takmörkuð. Trúnaðar- og þagnarskyldan og siðareglur eiga alltaf við, bæði í netheimum sem annars staðar. Almennt er bent á að hvorki skuli senda sjúklingum vinabeiðni né samþykkja slíkar beiðnir frá þeim. Ekki er talið skipta máli hvort um er að ræða núverandi eða fyrrverandi sjúklinga. Samskipti við sjúklinga á samfélagsmiðlum vegna meðferðar samrýmast ekki trúnaðar- og þagnarskyldu. Þá þarf að gæta þess að meiðyrðalöggjöf nær til þess sem skráð er á samfélagsmiðlum og unnt er að draga alla, heilbrigðisstarfsmenn sem aðra, til ábyrgðar fyrir meiðandi ummæli sem látin eru falla á þessum vettvangi.

Allt ætti þetta að vera nokkuð augljóst og sjálfsagt. Litlar upplýsingar liggja fyrir um notkun heilbrigðisstarfsmanna hér á landi á samfélagsmiðlum. Pistlahöfundi er ekki heldur kunnugt um að sjúklingar hafi kvartað yfir neinu sem þessu tengist. Á hinn bóginn eru til mörg slík dæmi frá öðrum löndum, meðal annars Bandaríkjunum. Þar hafa heilbrigðisstarfsmenn misst vinnuna, fengið áminningu og jafnvel verið sviptir starfsleyfi sínu vegna óvarlegrar umgengni við samfélagsmiðla sem talin hefur verið brot á trúnaðar- og þagnarskyldu.

Eins og áður segir eyða margir talsverðum tíma á samfélagsmiðlunum á degi hverjum, eru í samskiptum við fjölskyldu, vini og kunninga, lýsa þar skoðunum sínum á málefnum líðandi stundar, jafnvel skoðunum sínum á nafngreindum einstaklingum, deila reynslusögum og svo framvegis. Þess eru dæmi að sjúklingar eða aðstandendur segi reynslusögur af samskiptum sínum eða ættingja sinna við heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsmenn á þessum vettvangi. Ekki er víst að alltaf sé rétt sagt frá í slíkum frásögnum og mögulega eru meiðandi ummæli látin falla um heilbrigðisstarfsmanninn eða -mennina sem komu að meðferðinni.

Hvað er til ráða fyrir heilbrigðisstarfsmann sem fyrir slíku verður? Fyrst hlýtur alltaf að koma til skoðunar að gera ekki neitt. Það fennir venjulega fljótt yfir frásagnir á samfélagsmiðlum. Oftast gæti því verið skynsamlegast að bregðast ekki við frásögnum, jafnvel þó rangar séu eða misvísandi og ekki einu sinni þó heilbrigðisstarfsmaðurinn sé nafngreindur. Ef viðkomandi vill bregðast við og telur nauðsynlegt að gera það, takmarkast viðbrögðin af trúnaðar- og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna. Það þarf því að gæta ítrustu varkárni ef ákveðið er að bregðast við. Skynsamlegt er í þessum kringumstæðum að leita til Embættis landlæknis og kalla eftir ráðleggingum um hvort bregðast megi við og þá hvernig. Í 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er fjallað um trúnaðar- og þagnarskyldu starfsmanna í heilbrigðisþjónustu og fram kemur í ákvæðinu að sé starfsmaður í vafa um þætti er snúa að trúnaðar- og þagnarskyldunni geti hann borið málið undir landlækni.

Mögulega er frásögnin og ummælin svo meiðandi að hægt væri að fá þau dæmd dauð og ómerk sem meiðyrði. Þá kemur til skoðunar að höfða meiðyrðamál. Til slíkra málaferla hefur komið, til dæmis í Bandaríkjunum. Þar í landi er þó almennt talið óheppilegt að efna til slíkra málaferla við sjúklinga og heilbrigðisstarfsmönnum eindregið ráðið gegn því. Það er þó engum vafa undirorpið að þeir sem skrifa á samfélagsmiðla bera ábyrgð á þeim skrifum sínum, líkt og skrifum á öðrum vettvangi, og hér á landi hafa dómstólar til dæmis dæmt dauð og ómerk ummæli sem skrifuð hafa verið á fésbókina.5

Heimildir

1. statista.com/statistics/264810/number-of-monthly-active-facebook-users-worldwide/ – febrúar 2016.
 
2. icelandreview.com/stuff/views/2013/04/17/iceland-loves-facebook-job – febrúar 2016.  
 
3. wma.net/en/30publications/10policies/s11/ – febrúar 2016.  
 
4. Leiðbeiningar breska læknafélagsins (BMA) https://www.google.com/search?client=safari&rls=en&q=www.socialmediaguidance.pdf, danska læknafélagsins http://www.laeger.dk/nyhed/download/docs/F16266/97069_SocialeMedier.pdf. ástralska læknafélagsins https://ama.com.au/article/social-media-and-medical-profession – febrúar 2016.  
 
5. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 215/2015, 18. desember 2014. haestirettur.is/domar?nr=10063 – febrúar 2016.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica