12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Svört skýrsla um skaðleg áhrif varnarefna - frá alþjóðasamtökum fæðingar- og kvensjúkdómalækna

Í tengslum við ráðstefnu alþjóðasamtaka fæðinga- og kvensjúkdómalækna, FIGO (International Federation of Gynecology and Obstetrics), sem haldin var í október kom út á vegum samtakanna býsna svört skýrsla um heilsufarsleg og þjóðhagsleg áhrif kemískra efna sem leynast í nánasta umhverfi manna, innanhúss sem utan.


„Fjölmörg önnur efni eru í notkun sem ekki eru bönnuð þó áhrif þeirra hafi ekki verið rannsökuð til hlítar,“ segja Þóra Steingrímsdóttir og Kristín Ólafsdóttir. 

Höfundar skýrslunnar eru alþjóðlegur hópur fæðinga- og kvensjúkdómalækna og annarra vísindamanna austan hafs og vestan í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO). Aðalhöfundur skýrslunnar, Dr. Gian Carlo Di Renzo, heiðursritari FIGO, hafði á orði við kynningu skýrslunnar að „við værum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum.“

Í skýrslunni kemur fram að gríðarlega aukin umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógni frjósemi og heilsu manna, eigi þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hafi í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna ófrjósemi, aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, og mögulega athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru meðal annarra varnarefni sem notuð eru í landbúnaði og við matvælaframleiðslu, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni.
 

Hormónaraskandi efni

Í þættinum Samfélagið á Rás eitt þann 5. október rakti Stefán Gíslason umhverfisfræðingur efni skýrslunnar og sagði meðal annars að „það teldist ekki til tíðinda að birtar væru skýrslur um þetta efni en aldrei fyrr hefðu alþjóðasamtök lækna tekið jafn skýra afstöðu um þessi efni og gert er í þessari skýrslu.“

Undir þetta taka Þóra Steingrímsdóttir yfirlæknir og prófessor í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum við HÍ og Landspítalann og Kristín Ólafsdóttir lífefnafræðingur og dósent í eiturefnafræði við læknadeild HÍ.

Í skýrslunni koma fram yfirþyrmandi tölur um magn efna sem framleidd eru í heiminum og notuð í alls kyns iðnaði og það sem vekur hvað mestan ugg er að fæst þessara efna hafa gengið í gegnum nægilegar prófanir til að öruggt sé að mönnum stafi ekki hætta af þeim. „Í skýrslu um stöðu þekkingar á hormónaraskandi efnum sem WHO og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna gáfu út árið 2012 kom fram að í notkun væru um það bil 800 efni sem talin væru geta truflað hormónastarfsemi líkamans og að aðeins lítill hluti þeirra hefði verið prófaður með tilliti til áhrifa af þessu tagi. Í skýrslunni kom líka fram að það sama gilti um flest önnur efni sem fyrirfinnast á markaðnum,“ segir Stefán Gíslason og bætir um betur með því að segja að „í raun vita menn sáralítið um áhrif þessara efna, því að aðeins lítið brot af þeim hefur verið prófað nægilega. Svipað gildir um önnur lönd, enda gera fríverslunarsamningar það að verkum að erfitt er að takmarka viðskipti með efni á milli landa og heimshluta.“

„FIGO eru mjög stór og áhrifamikil samtök og hafa átt mikinn þátt í því að draga úr mæðra- og ungbarnadauða í þriðja heiminum sérstaklega. Það er því full ástæða til að taka mark á því þegar þau stíga fram og vara við notkun efna sem geta haft skaðleg áhrif á frjósemi manna og fósturþroska,“ segir Þóra.

Fósturskeiðið viðkvæmt fyrir þrávirkum efnum

„Fósturskeiðið er viðkvæmasta æviskeið mannsins og áhrif hormónahermandi efna geta verið mikil,“ segir Kristín. „Ég hef verið að vinna með hópi vísindamanna að rannsókn á áhrifum ýmissa efna í umhverfinu á íbúa á norðurslóðum. Þetta er 8 landa rannsókn þar sem taka þátt fjölmargir vísindamenn, læknar, líffræðingar og efnafræðingar og rannsóknin beinist eingöngu að barnshafandi konum og magni og  áhrifum þrávirkra efna á fóstur. Þrávirk efni safnast upp í fæðukeðjunni og eyðast mjög hægt í náttúrunni. Mörg þessara efna hafa reyndar verið bönnuð og við höfum séð að styrkur þeirra hefur minnkað verulega í fólki á undanförnum árum en þó eru þau enn til staðar, enda hverfa þau ekki. Við höfum einkum skoðað áhrif þrávirkra efna á frjósemi, mótefnasvar og taugaþroska. Fjölmörg önnur efni hafa komið fram síðan sem ekki eru bönnuð enda áhrif þeirra ekki rannsökuð til hlítar en þó er vitað að þau hafa áhrif á hormónakerfi mannsins. Meðal þeirra eru ýmiss konar plastefni og flúorefni. Hver styrkur þeirra er í okkur Íslendingum hefur ekki verið rannsakað.“

Kristín bætir því við að efnaiðnaðurinn sé mjög fljótur að bregðast við þegar ákveðin efni eru bönnuð með því að breyta efnafræðilegri samsetningu þeirra nægilega mikið til að fræðilega sé um að ræða nýtt efni. „Virkni þess getur þó verið nákvæmlega sú sama og gamla efnisins en eftirlitskerfið þarf þá að hefja rannsóknir á nýja efninu og færa sönnur á að það sé einnig skaðlegt og það tekur langan tíma. Þetta er neikvæða hliðin á efnaiðnaðinum í heiminum í dag.“

Þóra segir jákvæðu hliðina hvað okkur Íslendinga varðar engu að síður vera þá að við búum þó við eftirlitskerfi og öryggi sem það skapar á borð við það besta í heiminum en þriðji heimurinn nýtur ekki slíks. Í mæðravernd hérlendis er konum ráðlagt mjög almennt að neyta hollrar, fjölbreyttrar og ferskrar fæðu. Í skýrslunni eru heilbrigðisstéttir sem einkum vinna með mæður og ungbörn hvattar til að beita sér fyrir stefnumörkun sem kemur í veg fyrir að fólk umgangist hættuleg efni í miklum mæli og taka virkan þátt í umræðum um þessi mál, jafnt í heimahéraði sem á landsvísu og á heimsvísu. Þessi áhersla FIGO á fræðslu til almennings beinist kannski fremur að löndum þriðja heimsins en okkar heimshluta þó vissulega sé full ástæða til að halda vöku sinni.“

Heimildir

  1. ijgo.org/article/S0020-7292%2815%2900590-1/fulltext – nóvember 2015.
  2. ruv.is/frett/skadleg-efni-innan-huss-og-utan - nóvember 2015.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica