12. tbl. 101. árg. 2015

Fræðigrein

Jólasjúkratilfelli Læknablaðsins 2015

Miðaldra prófessor með verk í vísifingri

Áður hraustur prófessor við virta læknadeild leitaði álits kollega sinna, geðlæknis og skurðlæknis, í sumarbústað á Þingvöllum vegna nokkurra daga sögu um verk í vísifingri hægri handar. Prófessorinn var greinilega miðaldra en hraustlegur að sjá og grannholda. Félagslegar aðstæður voru góðar. Við skoðun var hann hitalaus og áttaður á stað, stund og eigin persónu. Tal var eðlilegt þótt hann hefði drukkið nokkur glös af dýrindis rauðvíni fyrr um kvöldið. Hreyfingar voru óheftar en vísifingur bólginn í kringum nöglina eins og sýnt er á mynd 1.

Hver er greiningin?

Hvaða orsakir koma helst til greina?

Svar við jólasjúkratifelli 2015

Sýking við fingurnögl (paronychia digiti)

Greiningin í þessu tilfelli er býsna augljós: sýking við fingurnögl (paronychia professuri). Orsökin er hins vegar langt frá því að vera einföld, eins og vikið verður að síðar. Bráðasýking við fingurnögl er algengt vandamál sem oftast orsakast af bakteríusýkingu og er Staphylococcus aureus algengasti sýkingarvaldurinn. Þekktir áhættuþættir eru ónæmisbæling, sykursýki og skert blóðrás út í fingur. Einnig er aukin áhætta hjá þeim sem naga neglur eða sjúga fingur sína í sífellu.1 Enginn þessara áhættuþátta átti við í okkar tilfelli, nema þá helst síðastnefndu atriðin sem prófessorinn neitaði þó alfarið. Sjálfur ávísaði hann á sig sýklalyfinu díkloxacillíni, 250 mg fjórum sinnum á dag, og snarminnkaðu einkenni á nokkrum dögum (p<0,0001). Varð hann einkennalaus innan viku og hefur getað stundað kennslu síðan án teljandi vandræða. Sem er ánægjulegt fyrir hann og vonandi nemendur hans einnig.

Góð saga er forsenda réttrar greiningar í læknisfræði, eins og Guðmundur Þorgeirsson prófessor hefur minnt íslenska læknanema á svo áratugum skiptir. Í þessu tilfelli hafði sjúklingurinn tekið í notkun forláta erfðagrip, upptrekkjanlegt Raymond Weil gullúr (sjá mynd 2). Kom í ljós að hann notaði „ulnar” hluta hægri vísifingurs til að trekkja upp úrið. Viku fyrir umrædda sumarbústaðaferð varð hann var við roða í kringum nöglina sem ágerðist með graftarmyndun og bólgu. Þrátt fyrir strangt sérnám í lyflækningum erlendis og prófessorsstöðu í lyfjafræði við virtan innlendan háskóla, var reynd meðferð með heitum bökstrum, þrisvar á dag. Því miður, en eins og búast mátti við, án árangurs. Við nánari skoðun á fésbókarsíðu prófessorsins kom hins vegar eftirfarandi færsla í ljós: Mér fannst ég vera kornungur áðan. Fór til Gilberts úrsmiðs með fína úrið hans pabba sem hefur ekki verið notað lengi. Bað um nýtt batterí. Gilbert horfði meðaumkunaraugum á unga manninn. Tók úrið og trekkti það upp og rétti mér aftur. Þessi unga kynslóð!

Líklegt verður að teljast að þessi beitta gagnrýni úrsmiðsins hafi leitt til áráttubundnar upptrekkingar á armbandsúrinu og teljist því til beins orsakavalds sýkingarinnar. Þrátt fyrir leit í gagnasafni PubMed hefur ekki fundist nein vísindagrein eða sjúkratilfelli sem lýsir tengingu milli sýkingar í fingri og upptrekkingar á úri. Við teljum því að hér sé um einstakt tilfelli að ræða og hið fyrsta sinnar tegundar sem lýst er á heimsvísu. Ótvíræður styrkur er að um er að ræða tilfelli frá heilli þjóð. Tilfellið er þó ekki síst lærdómsríkt fyrir þær sakir að gagnlegt er að kíkja á fésbókarfærslur sjúklinga áður en komist er að sjúkdómsgreiningu. Þetta á sérstaklega við í flóknu tilfelli eins og þessu, ekki síst þegar geðlæknir og skurðlæknir reyna sig við sjúkdóma sem þeir vita ekkert um. Höfundar þessa jólasjúkratilfellis telja vafasamt að mæla með upptrekkjanlegum armbandsúrum, enda sýkingar sem þessar engin lömb að leika sér við.

 

Heimild

  1. Shafritz AB, Coppage JM. Acute and chronic paronychia of the hand. J Am Acad Orthop Surg 2014; 22: 165-74.
    http://dx.doi.org/10.5435/JAAOS-22-03-165

 

Það skal tekið fram að sjúklingurinn gaf leyfi fyrir birtingu þessa tilfellis en hvorki náðist í úrsmiðinn né úraframleiðandann Raymond Weil.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica