10. tbl. 101. árg. 2015
Fræðigrein
Algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttaka og brottfall vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum
Prevalence of sport injuries, sport participation and drop out due to injury in young adults
Ágrip
Inngangur: Þátttaka í íþróttum og líkamsrækt hefur farið vaxandi undanfarna áratugi og íþróttameiðsli því orðin algengari. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta algengi íþróttameiðsla og brottfall vegna þeirra. Að auki var tilgangurinn að skoða hvort íþróttameiðsli hefðu tengsl við kyn, aldur, þrek, holdafar og iðkun sem var meiri en 6 klukkustundir á viku, miðað við 6 klukkustundir eða minna.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var þversniðsrannsókn á 457 ungmennum, 17 og 23 ára. Hæð, þyngd, líkamsfita, fitulaus mjúkvefjamassi, beinmassi og þrek (W/kg) voru mæld en spurningalisti notaður til þess að meta þátttöku í íþróttum og líkamsrækt, algengi íþróttameiðsla og brottfall.
Niðurstöður: Fjögurhundruð og fjörutíu (96%) höfðu einhvern tímann stundað íþróttir með íþróttafélagi en 277 (63%) voru hætt, fleiri (p=0,058) í hópi stúlkna (67,6%) en drengja (58,8%). Þrjátíu og sjö (8,4%) hættu vegna íþróttameiðsla. Af þeim sem æfðu með íþróttafélagi síðastliðna 12 mánuði voru 51% sem þurftu læknisfræðilega aðstoð einu sinni eða oftar vegna íþróttameiðsla. Þeir sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku höfðu fimmfalt hærra líkindahlutfall þess að hafa leitað læknisfræðilegrar aðstoðar (OR = 5,30; 95% CI: 3,00-9,42) en þeir sem æfðu 6 klukkustundir eða minna.
Ályktun: Íþróttameiðsli eru talsvert vandamál sem geta valdið brottfalli úr íþróttum. Áhættuþætti íþróttameiðsla þarf að rannsaka betur svo hægt verði að efla forvarnir og tryggja þjálfun sem byggir á gagnreyndum aðferðum.
Inngangur
Þátttaka barna og unglinga í skipulögðum íþróttum hefur farið vaxandi undanfarna áratugi.1 Gildi hreyfingar og félagsstarfs fyrir líkamlega, andlega og félagslega heilsu er ótvírætt,2,3 en með vaxandi þátttöku og aukinni tíðni æfinga og keppni eru íþróttameiðsli orðin að umtalsverðu heilbrigðisvandamáli.4-11 Flest íþróttameiðsli eru þó væg4,12 en hlutfall alvarlegra meiðsla er um það bil 15%.13 Hluti þeirra getur haft afleiðingar til lífstíðar og valdið skerðingu á lífsgæðum og líkamlegri virkni.1,6,8 Ekki er talið að alvarlegum meiðslum hafi fjölgað hlutfallslega síðustu tvo áratugi,13 þótt fyrir liggi vísbendingar um aukna tíðni höfuðmeiðsla og slits á fremra krossbandi í hné.12 Eftir krossbanda- og liðþófaaðgerðir er algengt að fólk þrói með sér slitgigt14 og samkvæmt nýrri rannsókn15 höfðu þeir sem fóru í slíkar aðgerðir 7 sinnum hærra nýgengi gerviliðaaðgerða í hné en samanburðarhópur, 15 árum síðar. Vaxtarlínuáverkar verða í 38% tilvika vegna íþróttameiðsla en vaxtartruflanir og aflaganir fylgja vaxtarlínuáverkum í 15% tilfella.1
Lítið er um rannsóknir á algengi íþróttameiðsla barna og unglinga og mismunandi skilgreiningar á íþróttameiðslum torvelda samanburð á niðurstöðum rannsókna á þessu sviði. Erlendar þversniðsrannsóknir þar sem spurt var um íþróttameiðsli síðastliðna 12 mánuði sýndu að 50-61% þátttakenda í skipulögðu íþróttastarfi höfðu að minnsta kosti meitt sig einu sinni í íþróttum á tímabilinu.4,5,10,11 Framskyggnar rannsóknir sýna nýgengishlutfall á bilinu 2,08/1000 æfingar og/eða kappleiki (ÆK) til 6,31/1000 ÆK og hlutfallið er hærra meðal drengja en stúlkna.16-18 Rannsókn á alvarlegum íþróttameiðslum sýnir nýgengishlutfall 0,45/1000 ÆK hjá drengjum, 0,26/1000 ÆK hjá stúlkum og 0,39/1000 ÆK í heildina.13 Tölur um algengi brottfalls vegna íþróttameiðsla hafa ekki verið birtar í ritrýndum tímaritum svo vitað sé til.
Hætta á íþróttameiðslum ungmenna er mismunandi eftir íþróttagreinum en komið hefur fram að hún sé almennt minni við ástundun einstaklingsíþrótta en liðaíþrótta.11 Viðamestu rannsóknirnar á nýgengi í mismunandi íþróttagreinum eru á bandarísku þýði og mælist hæst í amerískum fótbolta, glímu, fimleikum, íshokkí, fótbolta og körfubolta. Þess má geta að handbolti er mjög lítið stundaður þar um slóðir og því ekki meðal þeirra íþróttagreina sem rannsóknirnar taka til.12,13,16 Hættan er líka meiri við keppni en æfingar.12,13,17 Haldgóðar vísbendingar eru um að fyrri meiðsli hafi forspárgildi fyrir endurtekin meiðsli af sama toga19 en rannsóknir sýna að um 50% unglinga sem lentu í meiðslum höfðu meiðst áður.4,5 Þá reyndust unglingar sem æfa allt árið vera í 43% meiri hættu á álagsmeiðslum en þeir sem fengu hvíld frá íþróttinni í þrjá mánuði á ári.10
Vísbendingar eru um að iðkun íþrótta og líkamsræktar á bernsku- og unglingsárum geti haft forspárgildi um líkamlega virkni á fullorðinsárum.20 Því er til mikils að vinna að viðhalda þátttöku barna og unglinga í íþróttum og líkamsrækt eins lengi og kostur er, því hreyfingarleysi er talið stærsta lýðheilsuvandamál 21. aldarinnar.2,3
Markmið þessarar rannsóknar var að greina þátttöku ungmenna í íþróttum og líkamsrækt, algengi íþróttameiðsla og brottfall vegna þeirra. Að auki var markmiðið að skoða hvort íþróttameiðsli hefðu tengsl við kyn, aldur, þrek, holdafar og þess að stunda íþróttir og líkamsrækt í meira en 6 klukkustundir á viku miðað við 6 klukkustundir eða minna.
Efniviður og aðferðir
Rannsóknin er þversniðsrannsókn og ein af mörgum sem er byggð á gögnum úr rannsókninni Atgervi ungra Íslendinga sem er langtímaheilsufarsrannsókn á ungmennum fæddum 1988 og 1994. Leitað var eftir þátttöku einstaklinga sem tóku þátt í sams konar rannsókn og bar heitið Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendingaog framkvæmd var skólaárið 2003-2004. Tilgangur rannsóknarinnar er því að rannsaka langtíma- og aldurshópabreytingar á heilsutengdum þáttum eins og holdafari, hreyfingu, þreki, andlegri líðan og félagslegum þáttum.
Þátttakendur
Þátttakendur voru 457 ungmenni, 17 og 23 ára, sem höfðu tekið þátt í íslenskum hluta European Youth Heart Study árið 2003, þá 931 talsins. Úrtakið í þeirri rannsókn, sem nefndist Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga, var af höfuðborgarsvæðinu (60%), frá þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni (35%) og úr dreifbýli (5%). Aldurs- og kynjaskiptingu úrtaks má sjá í töflu I. Frá höfuðborgarsvæðinu komu 67% en 33% frá Akureyri, Egilsstöðum og Húsavík. Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (VSNa2003060014/03.1) og tilkynnt til Persónuverndar og Geislavarna ríkisins.
Aðferðir
Mælingar fóru fram á Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Rannsóknarstöð Hjartaverndar, á tímabilinu ágúst 2011 til janúar 2012.
Holdafar
Líkamsþyngd var mæld með 0,1 kg nákvæmni, með viðurkenndum þyngdarmæli (Seca, Model 813) og hæð með 0,1 sm nákvæmni með viðurkenndum hæðarmæli (Seca, Model 217). Líkamsþyngdarstuðull (body mass index, BMI) var reiknaður með því að deila hæð í öðru veldi í líkamsþyngd (kg/m²).
Líkamssamsetning-DXA
Fitumassi var mældur með DXA beinþéttnimælitæki (Dual Energy X-Ray Absorptiometry) og fituprósenta reiknuð sem hlutfall fitu af líkamsþyngd. Fitulaus mjúkvefjamassi (lean soft tissue, LST) og beinmassi var mældur og hlutfall reiknað á sama hátt. DXA- mælingar fóru fram á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (Hologic Discovery QDR 4500) og á Rannsóknarstofu Hjartaverndar (GE Lunar IDXA software 1140.004). Þekkt skekkja er á milli tækjanna og því var leiðréttingarstuðull notaður við útreikninga.
Þrek
Þrek var mælt með þrepaskiptu hámarksprófi á rafstýrðu þrekhjóli (Monark Ergometer 839E, Vansbro, Svíþjóð) þar sem hvert þrep tók þrjár mínútur. Þrektala (W/kg) var reiknuð út frá notuðu hámarksafli (Wött) sem hlutfall af líkamsþyngd (kg). Hámarksafl (Wmax) var reiknað út frá jöfnunni:
Wmax=W₁+W₂/T/180
þar sem W₁ stendur fyrir heildarafl á síðasta stigi sem lokið var að fullu, en W₂ er aflaukning á lokastigi sem ekki náðist að klára. T er tíminn sem óklárað lokastig tók, mældur í sekúndum. Skilgreining um að hámarksprófi væri náð, var að hámarkspúls næði ≥181 (23 ára) og ≥185 (17 ára) slögum á mínútu og að upplifun áreynslunnar væri ≥19 á Borg-álagsskalanum sem er viðurkenndur alþjóðlegur skali. Það jafngildir þeirri upplifun að ekki séu nema örfáar sekúndur í örmögnun. Ef aðeins annað af þessu náðist var það mat mælingarmanns hvort hámarksprófi væri náð þegar viðkomandi kaus að hætta. Á hverju stigi var skráð hjartsláttartíðni sem var mæld með þráðlausum púlsmæli (Polar Pacer Tester, Kempele, Finnland) og mat þátttakanda á álagi, samkvæmt Borg-álagsskalanum.
Spurningalisti
Úr víðtækum spurningalista um lífsstíl og líkamlega, andlega og félagslega þætti fengust upplýsingar um þrjá meginþætti: Þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi og líkamsrækt algengi íþróttameiðsla sem kölluðu á læknisfræðilega aðstoð, síðastliðna 12 mánuði, og algengi íþróttameiðsla sem ollu fjarveru frá æfingum eða keppni, eða brottfalli einhvern tímann á íþróttaferlinum.
Reglubundin hreyfing þátttakenda var mæld á tvo vegu. Fyrri mæling mældi fjölda klukkustunda á viku við iðkun íþrótta og/eða líkamsræktar. Seinni mæling mældi fjölda æfinga- og keppnisdaga á viku og var sundurgreint hvort iðkunin væri á vegum íþróttafélags eða á eigin vegum. Mælingar á íþróttameiðslum voru gerðar út frá fjórum spurningum. Tvær þeirra voru staðlaðar spurningar um meiðsli (læknisfræðileg aðstoð síðastliðna 12 mánuði) frá fjölþjóðlegu rannsókninni Heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC).21 Þriðja spurningin var hvort þátttakandi hefði þurft að leita til læknis, sjúkraþjálfara eða hjúkrunarfræðings vegna íþróttameiðsla síðastliðna 12 mánuði. Fjórða spurningin snéri að fjarveru frá æfingum og/eða keppni og brottfalli einhvern tímann á íþróttaferlinum. Svarað var fyrir alvarlegustu íþróttameiðslin á ferlinum með þeim svarmöguleika að þátttakandi hefði hætt fyrir fullt og allt vegna meiðslanna.
Tölfræðigreining
Við úrvinnslu gagna var notaður hugbúnaðurinn PAWS, útgáfa 17,0 (SPSS Inc., Chicago, Illinois; www.spss.com). Marktektarmörk voru skilgreind við 0,05. Lýsandi tölfræði var notuð á allar breytur sem rannsóknin tók til. Meðaltal og staðalfrávik var reiknað fyrir samfelldar breytur, og tíðni og hlutföll fyrir flokkabreytur. Kynjasamanburður var gerður með kí-kvaðratprófi fyrir flokkabreytur en með t-prófi fyrir tvö úrtök fyrir samfelldar breytur. Mælingar á íþróttameiðslum voru bornar saman eftir aldri með kí-kvaðratprófi og reyndist ekki vera marktækur munur á aldurshópunum. Tölfræðigreining var því ekki aldursskipt. Skoðaðir voru mögulegir áhrifaþættir meiðsla (læknisfræðileg aðstoð; já, nei) síðastliðinna 12 mánaða með lógístískri aðhvarfsgreiningu. Skýribreytan var magn íþrótta og líkamsræktar (≤6 klst/viku og >6 klst/viku). Samfelldar skýribreytur voru þrek og fituhlutfall. Einnig var gerður samanburður, með t-prófi fyrir tvö úrtök, á holdafari, líkamssamsetningu og þreki þeirra sem æfa íþróttir og/eða líkamsrækt í meira en 6 klukkustundir á viku, miðað við þá sem æfa 6 klukkustundir eða minna, skipt eftir kyni.
Niðurstöður
Allir þátttakendurnir 457 svöruðu spurningalista og voru hæðar- og þyngdarmældir, 381 fór í DXA mælingu og 385 náðu gildu þrekprófi.
Þátttaka í íþróttum og líkamsrækt
Sautján þátttakendur (3,7%) sögðust aldrei hafa tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfi en í hópi þeirra 440 (96,3%) sem einhvern tímann höfðu tekið þátt, voru 206 sem sögðust nú að einhverju marki æfa með íþróttafélagi. Í töflu I má sjá að 163 æfðu tvisvar sinnum í viku eða oftar. Sögðust flestir sem æfðu sjaldnar en það, ekki leggja stund á skipulagðar íþróttir lengur. Því var tekin ákvörðun um að þeir teldust í hópi þeirra 277 sem voru hættir. Fjörutíu og tveir þátttakendur (9,2%) stunduðu hvorki líkamsrækt né íþróttir með íþróttafélagi, 275 æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna en 140 æfðu meira en 6 klukkustundir á viku.
Algengi meiddra og brottfall vegna íþróttameiðsla
Á meðal þeirra 206 sem stunduðu íþróttir með íþróttafélagi að einhverju marki, voru 105 (51%) sem höfðu þurft læknisfræðilega aðstoð vegna íþróttameiðsla, einu sinni eða oftar, síðastliðna 12 mánuði. Ef einungis var horft á þá sem æfðu svo til daglega (n=68), var algengið 68%. Ekki var marktækur kynja- eða aldursmunur á því hvort þátttakendur höfðu þurft læknisfræðilega aðstoð.
Tafla II sýnir fjölda einstaklinga er hlutu íþróttameiðsli í skipulögðum íþróttum, sem orsökuðu fjarveru frá æfingum eða keppni, einhvern tímann á íþróttaferlinum. Hlutfall þeirra var 58,4%. Hjá drengjum 62,8% en 53,4% hjá stúlkum og var sá kynjamunur marktækur (p=0,045). Í töflunni kemur einnig fram hlutfall þeirra sem hættu fyrir fullt og allt í íþróttum vegna íþróttameiðsla. Algengi brottfalls var 8,4% og var hærra hjá stúlkum (10,2%) en drengjum (6,8%) en kynjamunur var ekki marktækur (p=0,210).
Tengsl íþróttaiðkunar við þrek og holdafar
Tafla III sýnir niðurstöður mælinga á þreki, holdafari og líkamssamsetningu, skipt eftir kyni og magni iðkunar. Þar kemur fram að þeir sem verja meira en 6 klukkustundum á viku við iðkun íþrótta og líkamsræktar höfðu meira þrek, lægra fituhlutfall og hærra hlutfall fitulauss mjúkvefjamassa (LST) og beinmassa. Konur sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku höfðu að meðaltali 21,7% hærra þrek (p<0,001), 12,7% lægra fituhlutfall (p<0,001) og 6,7% hærra hlutfall LST (p<0,001), heldur en þær sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna. Hjá körlum sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku var þrekið 10% hærra (p<0,001), fituhlutfallið 20,6% lægra (p<0,001), hlutfall LST 6,1% hærra (p<0,001) og hlutfall beinmassa 7,7% hærra (p=0,002) samanborið við karla sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna.
Hugsanlegir áhættuþættir meiðsla
Í þessari rannsókn var hópurinn sem stundar bæði æfingar með íþróttafélögum og/eða líkamsrækt á eigin vegum skoðaður sérstaklega (n=415). Af 411 iðkendum sem svöruðu spurningum um íþróttameiðsli voru 126 (30,7%) sem þurftu læknisfræðilega aðstoð (LA) síðastliðna 12 mánuði. Algengara var að hafa leitað sér aðstoðar meðal þeirra sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku en meðal þeirra sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna. Í þeirra hópi (n=139) höfðu 76 leitað sér aðstoðar, en 50 í hópi þeirra sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna (n=272). Við greiningu á þessum niðurstöðum var notuð lógístísk aðhvarfsgreining (tafla IV) og fundið líkindahlutfall þess að hafa þurft læknisfræðilega aðstoð síðastliðna 12 mánuði. Reyndust þeir sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku vera rúmlega fimm sinnum líklegri til þess, miðað við þá sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna, þar sem ekki var leiðrétt fyrir öðrum þáttum (líkan 1). Líkindahlutfallið var svipað þegar leiðrétt hafði verið fyrir þreki (líkan 2) og fituhlutfalli (líkan 3). Tengsl meiðsla við þrek og fituhlutfall voru ekki marktæk við aðhvarfsgreiningu.
Umræða
Af 440 ungmennum sem höfðu einhvern tímann stundað íþróttir með íþróttafélagi sögðust 63% þeirra vera hætt en þó aðeins 9,2% sem sögðust hvorki stunda íþróttir né líkamsrækt. Íþróttameiðsli voru orsök þess að 58,4% þeirra sem einhvern tímann æfðu með íþróttafélögum höfðu sleppt æfingum eða keppni og 8,4% hættu íþróttaþátttöku vegna meiðsla. Algengi meiddra (LA) í íþróttum með íþróttafélagi síðastliðna 12 mánuði var 51% en 68% ef skoðaðir voru sérstaklega þeir sem æfðu svo til daglega. Þeir sem stunduðu íþróttir og líkamsrækt í meira en 6 klukkustundir á viku voru rúmlega 5 sinnum líklegri til þess að hafa meiðst síðastliðna 12 mánuði, en höfðu betra þrek, meiri beinmassa, lægra fituhlutfall og hærra hlutfall LST en þeir sem æfðu 6 klukkustundir eða minna.
Í hópi karla sögðust 58,8% vera hættir í íþróttum en 67,6% kvenna. Svipaður kynjamunur kom fram í íslenskri rannsókn,22 en eftir 10 ára íþróttaiðkun unglinga í árgangi 1990, voru 45,9% stráka og 35,3% stelpna enn að æfa. Þar kom einnig fram að brottfallið reyndist mest í fimleikum og sundi þar sem stelpur voru fjölmennari en minnst í fótbolta þar sem stelpur voru fámennari. Ólíkt hlutfall kynja í fjölmennum íþróttagreinum getur því skýrt að hluta kynjamun brottfalls í okkar rannsókn.
Þeir sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku voru 5 sinnum líklegri til þess að hafa leitað læknisfræðilegrar aðstoðar síðastliðna 12 mánuði heldur en þeir sem æfðu 6 klukkustundir á viku eða minna. Kyn, aldur, þrek og fituhlutfall höfðu ekki marktæk tengsl við íþróttameiðsli í aðhvarfsgreiningu. Niðurstöðunum svipar til þeirra er fengust hjá Richmond og félögum23 sem fundu marktæk tengsl íþróttameiðsla og íþróttaþátttöku í klukkustundum á viku, en ekki voru tengsl við kyn og líkamsþyngdarstuðul. Hins vegar kemur fram í yfirlitsgrein24 að börn og ungmenni sem voru yfir kjörþyngd hafi verið líklegri til þess að meiðast við íþróttaiðkun en iðkendur í kjörþyngd. Einnig eru til vísbendingar um að lélegt þrek gæti verið áhættuþáttur íþróttameiðsla hjá börnum og fullorðnum.25
Hagstæðari líkamlegir eiginleikar þeirra sem æfðu meira en 6 klukkustundir á viku gætu verið ávinningur þeirra æfinga sem þeir höfðu stundað umfram hina. Einnig er mögulegt að þeir sem höfðu hagstæðara þrek og holdafar vegna erfða og umhverfisþátta á yngri árum hafi frekar valist í afreksíþróttir.26 Hlutfall beinmassa hjá körlum, sem æfðu meira en 6 stundir á viku reyndist marktækt hærra en hjá þeim sem æfðu minna. Sama gilti ekki um kvennahópana sem höfðu þó tilhneigingu í sömu átt. Líklegt er að kynbundinn munur á hormónabúskap þar sem testósteron spilar lykilhlutverk í uppbyggingu vöðva- og beinmassa hjá körlum27 ráði einhverju um þær niðurstöður. Við samanburð á iðkunarhópunum kom í ljós að fituhlutfall reyndist betri mælikvarði á holdafar en líkamsþyngdarstuðull. Fituhlutfall í hópi þeirra sem æfðu meira var marktækt lægra en ekki var marktækur munur á BMI. Munur á holdafarsmælingunum kemur einnig fram í rannsókn28 á tengslum holdafars og íþróttameiðsla í neðri útlim. Of þung börn, samkvæmt fituhlutfalli, voru 34% líklegri til þess að meiðast en börn í kjörþyngd. Hins vegar voru tengslin ekki marktæk þegar BMI var notað sem mælikvarði á ofþyngd.
Hátt algengi íþróttameiðsla hjá ungmennum í þessari rannsókn er samhljóma niðurstöðum úr fyrri rannsóknum.4,5,10,11 Ef niðurstöður okkar eru bornar saman við hóprannsóknir sem nota sambærilegar mæliaðferðir og skilgreiningu á meiðslum, má sjá 42% algengi hjá unglingum 12-15 ára4, 48% hjá 15-19 ára5 en 51% hjá ungmennum í okkar rannsókn. Hér var algengið hæst á meðal þeirra sem æfðu svo til á hverjum degi, eða 68% sem er svipað hlutfall og í hópi 14-19 ára kanadískra unglinga (63,8%)29 sem æfðu 16 klukkustundir á viku eða meira. Þessar háu tölur, sem gætu hugsanlega verið hærri hér en erlendis, eru verulegt áhyggjuefni en óþægindi og verkir sem fylgja íþróttameiðslum eru líkleg til þess að stuðla að neikvæðu viðhorfi gagnvart hreyfingu. Einnig má búast við því að sá sem hefur hlotið varanlegan áverka sé ekki eins líklegur til þess að lifa virkum lífsstíl og sá sem gengur heill til skógar.
Samkvæmt niðurstöðum gátu íþróttameiðsli verið meginástæða þess að börn og ungmenni hættu að stunda íþróttir en 37 af þeim 277 sem voru hættir, hættu fyrir fullt og allt vegna íþróttameiðsla. Meðal norskra ungmenna var hlutfallið heldur lægra þar sem 10% þeirra sem hættu í íþrótt, hættu vegna íþróttameiðsla.30 Hlutföllin eru þó ekki alveg sambærileg því ekki var vitað hvort norsku unglingarnir hefðu haldið áfram í annarri íþróttagrein. Í okkar rannsókn var kynjamunur á brottfalli vegna meiðsla ekki marktækur, en hlutfallslega höfðu fleiri konur hætt í íþróttum af þeim sökum. Vitað er um hærra nýgengishlutfall alvarlegra hnémeiðsla hjá konum í fótbolta, körfubolta13 og fimleikum12 en vísbendingar eru um að stúlkur eigi frekar á hættu að lenda í slíkum meiðslum í greinum sem fela í sér mikið af stefnubreytingum, hoppi og sprettum.5 Þrátt fyrir þessa hættu á alvarlegum hnémeiðslum höfðu marktækt fleiri stúlkur aldrei verið fjarverandi vegna íþróttameiðsla. Stúlkur eru taldar líklegri til að lenda í álagsmeiðslum, en strákar í bráðum meiðslum18, sem gæti skýrt að einhverju leyti þennan kynjamun. Álagsmeiðsli geta valdið langvarandi eða endurteknum verkjum sem koma ekki endilega í veg fyrir iðkun en eru líklegir til þess að skerða hæfni og breyta ánægju af ástundun íþróttanna í kvöð.
Í ljós kom að stór hluti (58,4%) þeirra ungmenna sem hafði einhvern tímann æft íþróttir sagðist hafa átt í íþróttameiðslum sem ollu fjarveru frá iðkun og brottfalli einhvern tímann á ferlinum. Hátt algengi (68%) þeirra sem þurftu að leita sér læknisfræðilegrar aðstoðar síðastliðið ár meðal þeirra sem æfðu svo til á hverjum degi, gefur tilefni til þess að ætla að mikið æfinga- og keppnisálag geti verið orsök meiðsla í mörgum tilvikum. Því er hugsanlegt að vel ígrundaðar skipulagsbreytingar á íþróttastarfi, sem hefðu að markmiði að minnka álag, gætu fækkað meiðslum. Ekki er augljóst hvernig best væri að minnka álag en hafa verður í huga í því sambandi að íþróttameiðsli ungmenna eru um það bil þrisvar sinnum líklegri við keppni en æfingar.12,13,17 Því getur ekki talist heppilegt fyrir iðkendur að keppa bæði með sínum flokki og þeim næsta fyrir ofan. Einnig má benda á að heilbrigðismenntaðir starfsmenn eru í fæstum tilfellum starfandi á vegum íþróttafélaga fyrr en komið er upp í efstu deildir. Með aukinni aðkomu sjúkraþjálfara að íþróttastarfi barna og unglinga væri mögulega hægt að bæta endurhæfingu eftir bráð meiðsli, fyrirbyggja framgang álagseinkenna á fyrstu stigum og koma með því í veg fyrir endurtekna verki og keðjuverkandi meiðslaframgang.
Helstu gallar þessarar rannsóknar eru sjálfsskráðar afturskyggnar mælingar á reglubundinni hreyfingu þátttakenda sem var þá hugsanlega ofmetin. Afturskyggnir spurningalistar geta einnig haft í för með sér óáreiðanlegar niðurstöður vegna gleymsku en brottfall úr íþrótt vegna meiðsla og þjónusta fagaðila í heilbrigðisþjónustu eru þó líkleg atriði til þess að vera í fersku minni. Einnig er ljóst að niðurstöður þversniðsrannsóknar sem þessarar er ekki hægt að yfirfæra á þýði eða aðra hópa en voru í þessari rannsókn. Til helstu kosta rannsóknarinnar má nefna fjölda þátttakenda sem gerði tölfræðilegt afl nægjanlegt fyrir þá tölfræðigreiningu sem var fyrirhuguð í upphafi. DXA-mælingar á líkamssamsetningu og holdafari í svo fjölmennum hópi gefur þessari rannsókn einnig aukið vægi. Þá telst gott að þátttakendur höfðu búsetu víðs vegar um landið en algengi meiddra ræðst að nokkru leyti af því hvaða íþróttir eru í boði á hverju svæði fyrir sig.
Ályktun
Á heimsvísu skortir rannsóknir á íþróttameiðslum barna og unglinga en þær fáu rannsóknir sem til eru benda til þess að algengið sé hátt. Staðan meðal íslenskra ungmenna virðist síst betri og í sumum tilfellum valda meiðsli brottfalli úr íþróttum. Því er nauðsynlegt að efla íslenskar rannsóknir til þess að fá vitneskju um hvort íþróttameiðsli séu algengari hér á landi en annars staðar. Einnig þarf að rannsaka betur orsakir íþróttameiðsla svo hægt verði að efla forvarnir, koma í veg fyrir brottfall og tryggja þjálfun sem byggir á gagnreyndum aðferðum. Þörf er á kynjaskiptum rannsóknum á almennu brottfalli úr íþróttum en fyrir liggja vísbendingar um hærra brottfall meðal stúlkna.
Þakkir
Þakkir fá ungmennin sem tóku þátt í rannsókninni, samstarfsmenn frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, ásamt þeim mörgu sem voru hjálplegir þar sem mælingar fóru fram. Jóhanna Eyrún Torfadóttir lýðheilsufræðingur fær einnig þakkir fyrir góð ráð við tölfræðiúrvinnslu. Rannsóknin var styrkt af Rannís, Lýðheilsusjóði, Embætti landlæknis, Íþróttasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Rannsóknarsjóði HÍ, Hjartavernd, Landsbankanum, Símanum, Icepharma og Bílaleigu Akureyrar.
Heimildir
1. Caine D, DiFiori J, Maffulli N. Physeal injuries in children's and youth sports: reasons for concern? Br J Sports Med 2006; 40: 749-60. http://dx.doi.org/10.1136/bjsm.2005.017822 PMid:16807307 PMCid:PMC2564388 |
|
2. Blair SN. Physical inactivity: the biggest public health problem of the 21st century. Br J Sports Med 2009; 43: 1-2. PMid:19136507 |
|
3. Haskell WL, Lee IM, Pate RR, Powell KE, Blair SN, Franklin BA, et al. Physical activity and public health - Updated recommendation for adults from the American college of sports medicine and the American heart association. Circulation 2007; 116: 1081-93. http://dx.doi.org/10.1161/CIRCULATIONAHA.107.185649 PMid:17671237 |
|
4. Emery CA, Tyreman H. Sport participation, sport injury, risk factors and sport safety practices in Calgary and area junior high schools. Paediatr Child Health 2009; 14: 439-44. PMid:20808471 PMCid:PMC2786948 |
|
5. Emery CA, Meeuwisse WH, McAllister JR. Survey of sport participation and sport injury in Calgary and area high schools. Clin J Sport Med 2006; 16: 20-6. http://dx.doi.org/10.1097/01.jsm.0000184638.72075.b7 PMid:16377971 |
|
6. Maffulli N, Longo UG, Gougoulias N, Caine D, Denaro V. Sport injuries: a review of outcomes. Br Med Bull 2011; 97: 47-80. http://dx.doi.org/10.1093/bmb/ldq026 PMid:20710023 |
|
7. Maffulli N, Longo UG, Gougoulias N, Loppini M, Denaro V. Long-term health outcomes of youth sports injuries. Br J Sports Med 2010; 44: 21-5. http://dx.doi.org/10.1136/bjsm.2009.069526 PMid:19952376 |
|
8. Oiestad BE, Holm I, Engebretsen L, Aune AK, Gunderson R, Risberg MA. The prevalence of patellofemoral osteoarthritis 12 years after anterior cruciate ligament reconstruction. Knee Surg Sports Traumatol Artrosc 2013; 21: 942-9. http://dx.doi.org/10.1007/s00167-012-2161-9 PMid:22898911 |
|
9. Kerssemakers SP, Fotiadou AN, de Jonge MC, Karantanas AH, Maas M. Sport injuries in the paediatric and adolescent patient: a growing problem. Pediatr Radiol 2009; 39: 471-84. http://dx.doi.org/10.1007/s00247-009-1191-z PMid:19277635 |
|
10. Cuff S, Loud K, O'Riordan MA. Overuse Injuries in High School Athletes. Clin Pediatr 2010; 49: 731-6. http://dx.doi.org/10.1177/0009922810363154 PMid:20308195 |
|
11. Frisch A, Seil R, Urhausen A, Croisier JL, Lair ML, Theisen D. Analysis of sex-specific injury patterns and risk factors in young high-level athletes. Scand J Med Sci Sports 2009; 19: 834-41. http://dx.doi.org/10.1111/j.1600-0838.2008.00860.x PMid:19000103 |
|
12. Hootman JM, Dick R, Agel J. Epidemiology of collegiate injuries for 15 sports: Summary and recommendations for injury prevention initiatives. J Athl Training 2007; 42: 311-9. PMid:17710181 PMCid:PMC1941297 |
|
13. Darrow CJ, Collins CL, Yard EE, Comstock RD. Epidemiology of Severe Injuries Among United States High School Athletes 2005-2007. Am J Sports Med 2009; 37: 1798-805. http://dx.doi.org/10.1177/0363546509333015 PMid:19531659 |
|
14. Roos EM. Joint injury causes knee osteoarthritis in young adults. Curr Opin Rheumatol 2005; 17: 195-200. http://dx.doi.org/10.1097/01.bor.0000151406.64393.00 PMid:15711235 |
|
15. Leroux T, Ogilvie-Harris D, Dwyer T, Chahal J, Gandhi R, Mahomed N, et al. The Risk of Knee Arthroplasty Following Cruciate Ligament Reconstruction A Population-Based Matched Cohort Study. J Bone Joint Surg Am 2014; 96A: 2-10. http://dx.doi.org/10.2106/JBJS.M.00393 PMid:24382718 |
|
16. Knowles SB, Marshall SW, Bowling JM, Loomis D, Millikan R, Yang JZ, et al. A prospective study of injury incidence among North Carolina high school athletes. Am J Epidemiol 2006; 164: 1209-1221. http://dx.doi.org/10.1093/aje/kwj337 PMid:17012366 |
|
17. Rechel JA, Yard EE, Comstock RD. An epidemiologic comparison of high school sports injuries sustained in practice and competition. J Athl Train 2008; 43: 197-204. http://dx.doi.org/10.4085/1062-6050-43.2.197 PMid:18345346 PMCid:PMC2267335 |
|
18. Yang J, Tibbetts AS, Covassin T, Cheng G, Nayar S, Heiden E. Epidemiology of Overuse and Acute Injuries Among Competitive Collegiate Athletes. J Athl Train 2012; 47: 198-204. PMid:22488286 PMCid:PMC3418132 |
|
19. DiFiori JP, Benjamin HJ, Brenner JS, Gregory A, Jayanthi N, Landry GL, et al. Overuse injuries and burnout in youth sports: a position statement from the American Medical Society for Sports Medicine. Br J Sports Med 2014; 48: 287-8. http://dx.doi.org/10.1136/bjsports-2013-093299 PMid:24463910 |
|
20. Tammelin T, Nayha S, Hills AP, Jarvelin MR. Adolescent participation in sports and adult physical activity. Am J Prev Med 2003; 24: 22-8. http://dx.doi.org/10.1016/S0749-3797(02)00575-5 |
|
21. Molcho M, Harel Y, Pickett W, Scheidt PC, Mazur J, Overpeck MD, et al. The epidemiology of non-fatal injuries among 11-, 13- and 15-year old youth in 11 countries: findings from the 1998 WHO-HBSC cross national survey. Int J Inj Contr Saf Promot 2006; 13: 205-11. http://dx.doi.org/10.1080/17457300600864421 PMid:17345718 |
|
22. Hilmarsdóttir RH. Íþróttaþátttaka og brottfall. Greining á íþróttaþátttöku barna og unglinga fæddra 1990 og 1995 á árunum 1994 og 2009. MS-ritgerð, hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands 2011. | |
23. Richmond SA, Kang J, Emery CA. Is body mass index a risk factor for sport injury in adolescents? J Sci Med Sport 2013; 16: 401-5. http://dx.doi.org/10.1016/j.jsams.2012.11.898 PMid:23273685 |
|
24. McHugh MP. Oversized young athletes: a weighty concern. Br J Sports Med 2010; 44: 45-9. http://dx.doi.org/10.1136/bjsm.2009.068106 PMid:19945974 |
|
25. Emery CA. Risk factors for injury in child and adolescent sport: A systematic review of the literature. Clin J Sport Med 2003; 13: 256-68. http://dx.doi.org/10.1097/00042752-200307000-00011 PMid:12855930 |
|
26. Phillips E, Davids K, Renshaw I, Portus M. Expert Performance in Sport and the Dynamics of Talent Development. Sports Med 2010; 40: 271-83. http://dx.doi.org/10.2165/11319430-000000000-00000 PMid:20364873 |
|
27. Lang TF. The bone-muscle relationship in men and women. J Osteoporos 2011; 2011: 702-35. http://dx.doi.org/10.4061/2011/702735 PMid:22007336 PMCid:PMC3189615 |
|
28. Jespersen E, Verhagen E, Holst R, Klakk H, Heidemann M, Rexen CT, et al. Total body fat percentage and body mass index and the association with lower extremity injuries in children: a 2.5-year longitudinal study. Br J Sports Med 2014; 48: 1497-501. http://dx.doi.org/10.1136/bjsports-2013-092790 PMid:24273306 |
|
29. Rose MS, Emery CA, Meeuwisse WH. Sociodemographic predictors of sport injury in adolescents. Med Sci Sports Exerc 2008; 40: 444-50. http://dx.doi.org/10.1249/MSS.0b013e31815ce61a PMid:18379205 |
|
30. Seippel Ø. Orker ikke, gidder idde, passer ikke? Om frafallet í norsk idrett. Institutt for samfunnsforskning, Oslo 2005. |