11. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Skurnin í Djúpinu
Halldóra og eggið
Mér er minnistætt símtal sem ég fékk kvöld eitt þegar ég var á vakt á Ísafirði. Kona hrópaði í angist í símann: „Pabbi er með hræðilegar blóðnasir.“ Það getur verið erfitt fyrir lækni að meta hvað er hræðilegt í símaviðtali. „Ég kem,“ svaraði ég. Heimili sjúklingsins var hvort sem er á leiðinni að gamla sjúkrahúsinu. Mér krossbrá þegar ég sá manninn. Þetta voru svo sannarlega hræðilegar blóðnasir. Blóð og blóðstorka lafði í löngum taumum úr báðum nösum og munni. Ég ræð aldrei við þetta ein, hugsaði ég á leiðinni á sjúkrahúsið. Þar tók á móti okkur gömul og reynd hjúkrunarkona ættuð úr Djúpinu, Halldóra Guðmundsdóttir. Hún var dálítið kyndug á svipinn. „Ættum við að reyna?“ Reyna hvað? hugsaði ég. Þá rann upp fyrir mér að Halldóra hafði nokkru áður lýst fyrir mér hvaða ráð var notað í hennar heimahögum til að stoppa blóðnasir. Það var farið út í hænsnakofa og náð í nýorpið egg. Skurnin var mulin og tekin í nefið.
Ljósmyndin er tekin 13. júlí 2010 af Kristjáni Ásbergssyni. Mælikvarðinn er 168 cm á lengd. Skútinn í
lofti steinsins tekur lengd handleggs.
Gamli spítalinn var nú ekki hátæknisjúkrahús en mortél var við hendina. Glerkrukka, hefur síðar reynst mér ágætur töflubrjótur. Meðan ég hreinsaði vit sjúklingsins eftir bestu getu muldi Halldóra litlar kalktöflur (kalsíum laktat) sem sjúklingurinn saug upp í nefið eins og vanur tóbakskarl. „Þetta er búið,“ sagði hann að bragði. Þetta var ótrúlegt. Við báðum hann að hinkra, en eftir 15-20 mínútur taldi hann sig vissan um árangurinn og við gátum ekki haldið honum lengur. Hvernig er það, á ekki kalsíum-jónin sinn sess í storknunarferlinu?
Nokkru seinna hringir hjúkrunarkona í mig frá sjúkrahúsinu. „Hér er maður með slæmar blóðnasir.“ Ég hélt að lækning okkar Halldóru væri orðin alþekkt staðreynd og segi. „Gefðu honum kalk í nefið meðan ég er á leiðinni.“ Þegar ég kem á staðinn situr sjúklingurinn og kona hans í skoðunarherberginu og stóð hvor sinn helmingurinn af stórri kalsíum-sandoz-töflu út úr nösum sjúklingsins. Þetta var nú of mikið fyrir mínar hláturtaugar. Við bárum okkur að eins og í fyrra sinnið með góðum árangri. Ég benti þeim hjónum á að það þyrfti að fylgja eftir blóðþrýstingnum hjá manninum. Skömmu seinna birtust þau á stofu hjá mér. Frúin hafði orð fyrir þeim. „Við ákváðum að hafa þig fyrir lækninn okkar, þú hlóst svo skemmtilega.“
Bergþóra í Steininum eða Steinninn í Skötufirði
Fljótlega eftir að ég fluttist til Ísafjarðar sýndi Hjörtur Hauksson læknir mér mynd sem mér fannst mjög spennandi. Hún var af konunni hans þar sem hún var inni í stórum steini í landi Kleifa sem er eyðibýli vestanmegin í Skötufirði.
Skötufjörður er 16 km langur fjörður, sá fimmti í Ísafjarðardjúpi talið frá Skutulsfirði. Vegurinn er upphækkaður og liggur með fjörunni og er steinninn hluti af skriðu ofan vegar. Ég heimsótti þennan stein oft því eins og Kjarval sagði: „En ég segi þér satt, steinar eru spakir í landslagi, steinar brosa í landslagi. En það fer auðvitað eftir því hver gengur framhjá.“ Nú er því svo farið að hann gerir meira en að brosa til mín, hann ögrar mér. Hann kallar á mig og vill miðla mér af spekt sinni sem getur verið erfitt að ráða í. Hann veit að skurnin, jarðskorpan, er í flekum, en hann þarf ekki að hræðast bröltið í þeim lengur, og Vestfirðir fóru fyrir nokkrum miljónum ára yfir eldhjarta Íslands og þá hlóðst upp hraunlagastaflinn sem hann er hluti af. Að hann var einu sinni í 1100°C heitu eldhrauni. Það gekk oft mikið á. Síðan lenti hann oft undir þungu fargi jökla ísaldar. Stundum var hlíðin hans viði vaxin. Það er margs að minnast.
Hvorki ég né Þuríður, kona Hjartar, minna hann á hunangsflugur. Hvernig getur hann þá hafa orðið til við býkúpuveðrun (Honeycomb weathering)? Á Seyðisfirði er frægur stakur steinn, Dvergasteinn. Hann er meira að segja til á póstkorti. Sjálfur er steininn hluti af heilli skriðu með holusteinum, dvergar hefðu átt fullt í fangi með að meitla allar þær holur. Það komu meira að segja enn fleiri holusteinar í ljós í skriðunni þegar vegurinn var breikkaður á síðasta áratug. Þá vorum við hrædd, ég og steinninn, en hann stóðst áfallið og rauða skánin í veginum var ekki blóð heldur úr jarðlagi sem skolaðist fljótlega af veginum. Hann veit að hann á marga frændur á Vestfjörðum og einn þeirra var stærri og mikilfenglegri en hann sjálfur. Þetta var steinn í fjörunni við Hnífsdalsveg og fékk hann oft gesti sem borðuðu nestið sitt í og við steininn. Hann átti meira að segja nafn: Urtusteinn. Hann man vel urtuna, það er fögur minning. Hann fékk mynd af sér í stórri bók (Saga Ísafjarðar, 1. bindi, bls. 16 ) og á netinu. Steininn okkar hryllti við því að sæta örlögum Urtusteins, að verða vegfylling. Hann hefur hins vegar meira gaman af því að heilsað sé upp á hann en þotið framhjá í bíl.