11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Dreifbýlislækningar sem undirsérgrein - rætt við Peter Arvier

Við háskólann í Tasmaníu hafa dreifbýlislækningar verið kenndar sem undirsérgrein heimilislækninga um 5 ára skeið. Peter Arvier er prófessor í dreifbýlislækningum í Burnie í Tasmaníu og var staddur á Akureyri þegar Læknafélag Akureyrar hélt ársfund sinn.

 
u06-fig1
„Mikilvægt að gera dreifbýlislækningar aðlaðandi og það er í rauninni ekki erfitt því þetta er mjög fjölbreytt
og skemmtilegt starf,“ segir Peter Arvier prófessor í dreifbýlislækningum við Tasmaníuháskóla í Ástralíu.

Peter var því kynntur sem hálfgerður leynigestur á ársfundinum og sagði stuttlega frá reynslu sinni af kennslu og þjálfun læknanema í dreifbýlislækningum og hversu miklu máli skipti að kynna greinina fyrir læknanemum í námi þeirra fremur en síðar.
„Dreifbýlislækningarnar við Tasmaníuháskóla eru valkostur sem læknanemum býðst á síðustu tveimur árum læknanámsins. Þeir koma til okkar úr læknanámi frá öðrum háskólum í Ástralíu og ljúka náminu hér með áherslu á dreifbýlislækningar. Það hefur gefið mjög góða raun,“ segir Peter.
Deildin sem heitir Rural Clinical School er hluti af heilbrigðisvísindasviði Tasmaníuháskóla og er ein af 17 slíkum sem starfræktar eru við 16 háskóla í Ástralíu og gegna því hlutverki að þjálfa læknanema til starfa í hinum dreifðu byggðum Ástralíu og Tasmaníu. Sjá www.utas.edu.au/rural-clinical-school/

Eigum margt sameiginlegt með Íslandi

Peter Arvier lýsir Tasmaníu sem svipaðri Íslandi að stærð og mannfjölda en samgöngur eru þar nokkuð erfiðari, svo ekki sé minnst á Ástralíu sjálfa þar sem vegalengdir eru margfaldar miðað við Ísland og læknisþjónusta skipulögð í samræmi við það í dreifbýlinu. „Við þjálfum lækna okkar til að vera mjög sjálfbjarga við flestar aðstæður og erum með vel skipulagt sjúkraflugskerfi þar sem erfitt er að komast nógu fljótt á milli staða á annan hátt.“

Lýsingar Peters á aðstæðum dreifbýlislækninga í Tasmaníu hljóma svipaðar og hér á Íslandi. „Vissulega er margt frábrugðið, veðurfar annað og samfélag frumbyggja sem ekki er til staðar á Íslandi. Við þurfum að vekja áhuga læknanema á dreifbýlislækningum og erum í harðri samkeppni við stóru sjúkrahúsin í stórborgunum þar sem nýjasta tækni og nýjustu aðferðir eru í boði. Það má orða það þannig að þrátt fyrir læknaskort í dreifbýlinu eru meira en nógu margir læknar í Ástralíu, þeir eru bara ekki á réttu stöðunum, frá mínum bæjardyrum séð. Eflaust geta íslenskir kollegar mínir tekið undir þetta.“
Heilbrigðisþjónusta meðal frumbyggja í Tasmaníu er eflaust sá hluti læknisstarfsins sem er frábrugðnastur því sem við eigum að venjast. „Tíðni ákveðinna  sjúkdóma sem herja á frumbyggjana er hærri en meðaltalið meðal íbúa Tasmaníu og ýmsir aðrir erfiðleikar eru því samfara að stunda lækningar meðal þeirra. Það eru ekki margir úr þeim hópi sem komast í háskóla, enn færri stunda nám í læknisfræði og af þeim vilja alls ekki allir stunda lækningar meðal síns fólks.“
Hann bætir því við að fjölgun undirsérgreina í læknisfræði byggi nær ávallt á borgar- og sjúkrahússérgreinum og því sé mikilvægt að vekja athygli á dreifbýlislækningum sem undirsérgrein við heimilislækningar.
„Við höfum séð að þeir læknanemar sem velja þessa undirsérgrein eru með sterka sýn á læknisstarfið og hafa stórar hugsjónir. Þetta eru líka mjög góðir námsmenn og standa sig mjög vel. Það er mjög mikilvægt að gera dreifbýlislækningar aðlaðandi og það er í rauninni ekki erfitt því þetta er mjög fjölbreytt og skemmtilegt starf. Að búa í dreifbýli höfðar líka til margra og býður upp á annars konar lífsstíl og manneskjulegri en lífið í stórborgunum oft er.“
Peter kveðst vera staddur á Íslandi til að leita eftir samstarfi við læknadeild HÍ og háskólann á Akureyri. „Það er margt sem við getum lært af hvert öðru og samstarf við eylönd eins og Ísland og Nýja-Sjáland, þar sem aðstæður eru um margt mjög svipaðar, getur verið mjög gefandi.





Þetta vefsvæði byggir á Eplica