11. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Sameinuðu þjóðirnar og ósmitnæmir sjúkdómar

Gunnar Guðmundsson lungnalæknir á Landspítala dósent við læknadeild HÍ og situr í ritstjórn Læknablaðsins

doi: 10.17992/lbl.2011.11.394

Þann 19.-20. september 2011 héldu Sameinuðu þjóðirnar fund í New York-borg með fulltrúum æðstu stjórnvalda aðildarríkjanna, þar sem til umfjöllunar voru svokallaðir ósmitnæmir sjúkdómar (non-communicable diseases).1, 2 Það má einnig nefna þá langvinna sjúkdóma. Gallinn við að nota það orð er að smitsjúkdómar geta líka verið langvinnir og því var fyrra orðið valið. Vaxandi athygli beinist að ósmitnæmum sjúkdómum sem auknum heilsufarsvanda vegna þess hve mjög þeir eru í sókn og herja á þjóðir heims eins og faraldur. Þessir sjúkdómar eru fyrst og fremst hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sykursýki og langvinnir lungnasjúkdómar. Þar til nú hafa þessir sjúkdómar verið vanræktir af stjórnvöldum og alþjóðastofnunum. Þessir sjúkdómar herja jafnt á karla og konur og talið er að þeir séu valdir að 60%, eða 37 milljónum þeirra 57 milljóna dauðsfalla sem verða í heiminum á hverju ári.2 Áætlað er að fjögur af hverjum fimm dauðsföllum sem verða vegna ósmitnæmra sjúkdóma séu í löndum með miðlungs eða lágar þjóðartekjur. Þannig eru þessir sjúkdómar mikilvægur þáttur í að viðhalda fátækt meðal þjóða heims. Um níu milljónir þessara dauðsfalla verða fyrir 60 ára aldur. Áætlað er að koma megi í veg fyrir allt að þrjá fjórðu hluta hjartasjúkdóma, sykursýki 2 og heilaslags og 40% krabbameina.1, 2 Það er hægt að gera með fyrirbyggjandi aðgerðum gegn sameiginlegum áhættuþáttum eins og reykingum, óhollu mataræði, hreyfingarleysi og óhóflegri áfengisnotkun. Þetta er í annað skiptið sem Sameinuðu þjóðirnar halda slíkan fund um heilsufarsvandamál, en sá fyrri var árið 2001 og var um HIV-sýkingar og leiddi til betri árangurs í meðferð slíkra sjúklinga í heiminum.1 Á fundinum nú í september var samþykkt yfirlýsing um samvinnu allra þjóða í að berjast gegn ósmitnæmum sjúkdómum í nánustu framtíð.

Nú er einstakt tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að vera í fararbroddi í heiminum í baráttunni gegn þessum sjúkdómum. Þær metnaðarfullu áætlanir sem lagðar hafa verið fram um aðgerðir í tóbaksvörnum eru dæmi um slíkt tækifæri, því reykingar og önnur tóbaksnotkun eiga ríkan þátt í mikilli og ört vaxandi útbreiðslu ósmitnæmra sjúkdóma um allan heim. Nú deyja um sex milljónir manna vegna reykinga, en talið er að sú tala hækki í sjö og hálfa milljón árið 2020, eða um 10% allra dauðfalla. Aðgerðir til að draga úr offitu, eins og að auka hreyfingu almennings, eru annað dæmi um slíkt tækifæri. Sá frábæri árangur sem náðst hefur í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum á Íslandi er fordæmi sem Íslendingar geta sýnt umheiminum um hvernig hægt er að ná árangri í baráttunni gegn ósmitnæmum sjúkdómum. Skorað er á íslensk heilbrigðisyfirvöld að nota tækifærið til koma af stað áætlunum sem liggja fyrir um tóbaksvarnir og undirbúa áætlanir sem beinast að öðrum áhættuþáttum ósmitnæmra sjúkdóma

Heimildir

  1. un.org/en/- október 2011.
  2. who.int/nmh/events/un_ncd_summit2011/en/ - október 2011.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica