06. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Gleði og ánægja í leik og starfi – mottó Tryggva Ásmundssonar heiðursfélaga LR

„Ég er langyngstur af sjö systkinum og ólst upp á afskaplega góðu heimili hér í Reykjavík,“ segir Tryggvi Ásmundsson lungnalæknir sem var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Reykjavíkur á aðalfundi félagsins á dögunum. „Mér þykir mjög vænt um þessa viðurkenningu og met hana mikils,” segir Tryggvi, sem er einn þeirra manna sem lætur greinilega betur að tala um annað en sjálfan sig. Ásamt konu sinni, Öglu Egilsdóttur, hefur hann komið sér fyrir í rúmgóðri íbúð í nýlegu fjölbýli við Vatnsstíginn þar sem útsýnið yfir sundin blasir við, Esjan og Akrafjallið gera málverk á veggjum nánast óþörf. Tryggvi bendir þó á mynd á veggnum eftir kollega sinn í læknastétt, Guðmund Bjarnason barnaskurðlækni, og segir hann með betri málurum.

u04-fig1
„Samningar eru samvinna um að komast að ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila,” segir Tryggvi
Ásmundsson nýkjörinn heiðursfélagi Læknafélags Reykjavíkur.

Foreldrar Tryggva voru Ásmundur Guðmundsson biskup og Steinunn Magnúsdóttir.

„Ég átti mjög góða æsku og var nánast eins og einbirni í faðmi foreldra og eldri systkina. Það var dekrað við mig á allan hátt. Systur mínar sögðu reyndar að eflaust héldu margir að ég væri lausaleikskróinn þeirra sem foreldrar mínir hefðu tekið að sér uppeldið á og þegar ég var kandídat á fæðingardeildinni þótti mér vissara að fletta þessu upp,” segir Tryggvi og hlær við. Niðurstaðan af þeirri rannsókn var að hann væri sonur foreldra sinna.

„Ég ólst upp á Laufásvegi 75 í húsi sem foreldrar mínir byggðu og fór fótgangandi í skóla alveg frá fyrsta degi og þar til ég hleypti heimdraganum og hélt í framhaldsnám í læknisfræði til Bandaríkjanna. Ég byrjaði í Ísaksskóla sem var þar sem geðdeild Landspítalans stendur núna, fór þaðan í æfingadeild gamla kennaraskólans við Barónsstíg, svo í Gaggó Aust, þaðan í MR og loks í læknadeildina. Ég var í Bandaríkjunum í rúm sjö ár og kom síðan heim og bjó fyrst í starfsmannahúsi við Vífilsstaðaspítala. Síðan keyptum við hjónin hús og bjuggum í því í fáein ár en 1977 fluttum við á Laufásveg 75 og bjuggum þar allar götur þar til við fluttum hingað. Húsið á Laufásvegi var selt innan fjölskyldunnar og þar býr dóttir mín núna ásamt fjölskyldu sinni. Ég vona að það hús verði sem allra lengst í fjölskyldunni. Þetta er sannkallað ættarhús og er engu líkt.

Ég útskrifaðist í febrúar 1964 og vildi komast út sem allra fyrst og tók því hluta af kandídatsárinu í Bandaríkjunum. Ég var þó ekki alveg ráðinn í því hvaða sérgrein ég ætlaði að leggja fyrir mig. Ef einhver hefði sagt við mig að ég yrði lungnalæknir hefði ég hlegið að því. En ég átti eftir að taka lyflækningarnar af kandídatsárinu og byrjaði því á lyflækningadeild Duke- háskólans í Norður-Karólínu. Það var ekki auðvelt að komast þar inn en Tómas Árni Jónasson mælti með mér og þeir voru tilbúnir að taka við mér fyrir hans orð. Ég hélt óskaplega upp á Duke og þótti sérstaklega mikið til um hvað allt var sveigjanlegt. Ég minnist þess aldrei að hafa verið spurður hvað mig langaði til að gera nema þar. Hér á Íslandi er maður aldrei spurður um slíkt heldur bara sagt hvað á að gera. En þetta æxlaðist þannig að ég var spurður hvað mig langaði að gera og ég sagðist hafa áhuga á lungnalækningum og þá var það bara ákveðið. Ég var á Duke frá mars 1965 til 1968, fyrst sem kandídat og síðan sem deildarlæknir á lungnadeild. Næsta árið naut ég rannsóknarstyrks við Georgs Washington-háskólann og síðan var ég deildarlæknir við VA-sjúkrahúsið í Washington. Þaðan fór ég aftur 1970 sem sérfræðingur á lungnadeild Duke-háskólasjúkrahússins, en árið 1972 fluttum við hjónin heim til Íslands þar sem ég hafði fengið sérfræðingsstöðu við Vífilsstaðaspítalann.”

Mátti ekki fara einhleypur

Tryggvi brosir þegar hann rifjar upp að áður en hann fór til sérnámsins hafi móðir hans sagt með áherslu að hann færi ekki einhleypur til Bandaríkjanna. „Ég var svo hlýðinn drengur að ég fór að ráðum móður minnar. Við Agla kynntust þegar ég var kandídat á Landakoti og vorum gift áður en árið var úti. Nú eru bráðum 47 ár liðin og þetta hefur blessast vel. Fyrstu tvö börnin okkar fæddust í Bandaríkjunum en yngsti sonurinn er fæddur á Íslandi.”

Tryggvi lýsir viðbrögðum samstarfsmanna sinna á Duke þegar hann tilkynnti þeim að hann ætlaði að flytja heim til Íslands og taka upp störf á litlum lungnaspítala. „Þeir spurðu um stærð spítalans og hvað ég fengi í laun og það sló þögn á mannskapinn þegar ég skýrði frá því. Þeir trúðu mér fyrir því seinna að þeir hefðu alvarlega verið að spá í hvort ég þyrfti ekki á geðlækni að halda. En ég var alsæll og hafði alltaf ætlað mér að flytja heim og þarna bauðst tækifærið. Ég hef aldrei séð eftir því. Fyrsta árið hélt ég stöðunni á Duke og vinir mínir þar voru sannfærðir um að ég myndi koma aftur. Það hvarflaði ekki að mér. Það var óskaplega gaman að vinna á Vífilsstöðum með Hrafnkatli Helgasyni yfirlækni. Við smullum saman frá fyrsta degi en ég hafði kynnst honum lítillega áður þegar hann kom í heimsókn til Duke. Óskaplega skemmtilegur maður. Við vorum sammála um hvað við vildum gera á Vífilsstöðum og byggðum upp góðan lungnaspítala. Hrafnkell var mjög duglegur að fá fólk á sitt band og útvega peninga til starfseminnar. Þetta voru skemmtilegir tímar og lungnalækningar voru að breytast. Margir töldu lungnalækningar snúast um berkla og lítið að gerast úr því búið var að sigrast á þeim. En það var enginn hörgull á lungnasjúkdómum, enda reykti nær helmingur allra fullorðinna Íslendinga á þessum tíma, en reykingunum fylgja langvinnir lungnateppusjúkdómar. Þá var astmi á þessum tíma afskaplega vanmetinn sjúkdómur og mjög vangreindur hér á landi. Það vantaði sannarlega ekki verkefnin. Nokkrum árum síðar kom Þórarinn Gíslason til sögunnar með svefnrannsóknir sínar og afleiðingar kæfisvefns og þó ég tæki ekki þátt í þeim rannsóknum þá fylgdist ég með og studdi eftir því sem ég hafði tök á.”

Tryggvi réðist síðan sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítalans árið 1976 en segist hafa sett það skilyrði að hann fengi að starfa einn dag í viku á Vífilsstöðum. „Ég hélt því fyrirkomulagi allt þar til starfsemin á Vífilstöðum var lögð niður. Ég starfaði einnig á stofu öll þessi ár með aðsetur í Læknasetrinu frá 1987.”

Traust og heiðarleiki í samningum

Störf Tryggva að samningamálum og félagsmálum lækna eru ekki hvað síst tilefni þess að Læknafélag Reykjavíkur gerir hann að heiðursfélaga en hann var einn helsti samningamaður félagsins um árabil, bæði fyrir hönd sjálfstætt starfandi sérfræðinga og sjúkrahúslækna. Þá sat hann í stjórn Læknafélags Reykjavíkur og í Læknaráði Landspítalans og gegndi þar formennsku frá 1996-2000. Aðeins er fátt eitt nefnt hér af þeim trúnaðarstörfum sem Tryggvi hefur gegnt fyrir hönd lækna á starfsferli sínum.

„Ég hef aldrei sóst eftir því að taka þátt í félagsmálum en hins vegar oftast tekið því vel þegar leitað er til mín um slíkt. Við suma menn segir maður heldur ekki nei og þetta voru vinir mínir sem treystu mér og ég vildi gjarnan verða að liði. Samninganefndarstörfin tóku mestan tíma og voru erfið og vanþakklát stundum en gátu einnig verið skemmtileg. Ég hafði enga þjálfun í samningatækni en áttaði mig fljótt á því að samningar snúast ekki um að blekkja andstæðinginn heldur að sýna honum traust og vera heiðarlegur. Það eru ekki góðir samningar þar sem öðrum aðilanum finnst eftir á að hann hafi samið af sér. Sumt af því fólki sem sat í samninganefnd fyrir hönd mótaðilans urðu vinir minir og ég nefni Indriða H. Þorláksson sem var formaður samninganefndar ríkisins en við höfum spilað saman bridds í nokkur ár. Samningar eru samvinna um að komast að ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila.”

Tryggvi rifjar upp að einu sinni hafi honum runnið í skap við viðbrögð kollega sinna þegar samningur var lagður fyrir félagsfund til samþykktar. „Þetta var samningur sjúkrahúslækna við ríkið og menn voru ekki sáttir við niðurstöðuna. Á fundinum sögðust menn alls ekki ætla að samþykkja. Ég sagði að það væri fínt, þá færu menn í aðgerðir. Þá runnu tvær grímur á fundarmenn og niðurstaðan varð sú að samningurinn var samþykktur. Staðreyndin var sú að læknar óttuðust vinnudeilur og vildu forðast þær í lengstu lög. Þeir brenndu sig á harðvítugri deilu á níunda áratugnum. Kannski er þetta óþarfa hræðsla í dag.”

Hann segist telja að laun lækna í dag hafi dregist aftur úr því sem áður var. „Þegar ég kom heim þóttu mér kjör lækna alls ekki slæm. Vissulega voru launin lægri en í Ameríku en þau voru góð miðað við aðra hópa í íslensku samfélagi. Nú er hins vegar svo komið að ef læknir ætlar að hafa sæmilegar tekjur verður hann að vinna gríðarlega mikið. Samanburður við nágrannalöndin hvað varðar bæði laun og vinnutíma er mjög óhagstæður. Það er ekkert skrýtið að unga fólkið skuli velta þessu fyrir sér. Það eru engin hlunnindi að geta unnið 100 tíma á viku. Það er þrældómur. Þú þarft að fara til Afríku til að finna sambærilega sérfræðingstaxta og hér á landi. Bandaríkjamenn halda að vanti eitt eða jafnvel tvö núll í launatölurnar okkar.”

Tryggvi segist sjálfur aldrei hafa sóst eftir því að vinna mikið. „Ég hef alltaf tekið samfelld sumarfrí og nýt þess að vera samvistum við fjölskyldu og vini. Ég hef hins vegar mikla ánægju af því að stunda lækningar og eiga samskipti við sjúklingana mína svo ég hef haldið áfram stofurekstri en það fer nú að sjá fyrir endann á því. Ég hef heitið því að hætta alveg ef ég verð 75 ára. Það styttist í það.”

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica