05. tbl. 97. árg. 2011

Fræðigrein

doi: 10.17992/lbl.2011.05.582

Fyrri hluti þessarar greinar birtist í aprílblaðinu: Læknablaðið 2011;  97: 245-7.

Grein þessi er að stofni til erindi sem höfundur flutti 20. febrúar 2010 í Þjóðarbókhlöðu á málþingi Félags um átjándu aldar fræða undir yfirskriftinni: Læknavísindi og heilbrigðismál á 18. og 19. öld.

Þakkir

Dr. med. Henrik R. Wulff, fyrrum prófessor í klínískri ákvarðanatöku og heimspeki læknisfræðinnar við Kaupmannahafnarháskóla, er þökkuð öflun gagna sem ekki var aðgangur að hér á landi.

Lækningabókin og ritskoðun yfirvalda

Riti Jóns Péturssonar um iktsýkina12 fylgir formáli eftir Jón Árnason, staðarhaldara á Hólum (dagsettur 23. febrúar 1782), þar sem oeconomus Hoolensis getur þess, að nú hafi Jón Pétursson utan og innan lands reyndur að lærdómi og nákvæmni við sjúka, samantekið eina lækningabók, er inniheldur útskýring á almennustu sjúkdómunum, og ræður til innlendra meðala, og þeirra sem minnstum dírleika fást kunna frá apóthekinu. Þessa sína lækningabók mundi velnefndur Auctor af hendi láta til þrykkingar, almenningi til nota, mundi ég og, í tilliti til sama, láta bókina þrykkja, ef vissi ég hana svo útgengilega, að skaðlaus yrði, og prentverkið væri undir minni hendi framvegis.

Árið eftir sótti Jón Pétursson um að lækningabók hans yrði prentuð og í umsögn sinni til kanselísins í Kaupmannahöfn 26. september 1783 sagði Hálfdán stiftprófastur Einarsson að lækningabókin myndi koma að góðu gagni og ætti best við að hún yrði prentuð á Hólum.4 Sá var hængur á að í júní 1783 hófust Skaftáreldar og þeim fylgdu hörmungarnar miklu, Móðuharðindin.

Í bréfi til rentukammersins dagsettu 23. september 1785 segist Stefán amtmaður Þórarinsson hafa beðið Jón Pétursson lækni um að þýða lækningabók sína eða láta hann hafa handritið. Með fylgja uppköst, bréf frá Jóni lækni Péturssyni til konungs og bréf frá Árna biskupi Þórarinssyni.15

Í bréfi Jóns Eiríkssonar (1728-1787) konferensráðs til Árna Þórarinssonar (1741-1787) biskups á Hólum, dagsettu 2. júní 1786, segir: „Illa var, að við eigi í fyrra haust fengum translationina af lækningabók Jóns Péturssonar. Svo hefði það mál nú verið refererað kóngi. – Eldskrif hans eru hér undir censur ...“4 Þarna var Jón Pétursson kominn í svipaða stöðu og síra Jón Steingrímsson og frændunum skyldi refsað.

Um eldskrifin (Chirurgi Jon Petersens Afhandling om Ildrögens kiendeligste Virkninger af Ildsprudningen 1783 saa vidt Norder-Island Angaaer), sem voru í ritskoðun, fjallaði Magnús Stephensen (1762-1833) í bréfi til rentukammersins í Kaupmannahöfn, dagsettu 24. Júní 1786.16

Jón Steffensen ritar athugasemd í próförk af Læknum á Íslandi (1944), sem varðveitt er í sérsafni hans í þjóðdeild Þjóðarbókhlöðu: „Jeg hef ljósrit af [bréfinu], en hef hvergi rekist á þetta rit Jóns Péturssonar.“

Líklega verður aldrei í ljós leitt hvað olli óvild stjórnvalda, en eitt er víst að útgáfan var stöðvuð og þegar ekki varð úr því að Jón fengi lækningabók sína prentaða notaði hann tvo fyrstu kapítulana í grein um Orsakir til sjúkdóma á Íslandi sem hann birti í Riti Lærdómslistafélagsins árið 189117 og árið 1794 birti hann í sama riti grein Um líkamlega viðkvæmni.18

Erla Dóris Halldórsdóttir, sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur, sem er að kanna starfsferil Jóns Péturssonar, hefir bent mér á gögn sem hún hefir nýlega fundið:

1. Bréf dagsett 10. júlí 1795 (endurritað af Jóni Sveinssyni landlækni). Þar segir Jón Pétursson frá því að hann geti hvorki ferðast, skrifað né lesið vegna mikillar sjóndepru. Segir hann að „þoka er æði mikil á því, aftur, svolítið get lesið gleraugnalaust af góðum stíl, litla stund, svo sem Guðspjall, þó fæ ég þá verk í það; aldrei má ég lengi skrifa í rúmi.“ Segist hann jafnframt hafa ásett sér ferð suður en þar sem hann „þori hvorki né þoli sterkum vindi né sandfoki að mæta auga míns vegna, jafnvel þótt nú sé það með betra móti“ hafi hann hætt við þá ferð.19

2. Bréf dagsett 7. júlí 1795 frá Jóni Sveinssyni landlækni til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, þar sem hann tilkynnir honum að Jón Pétursson fjórðungslæknir í Norðlendingafjórðungi hafi óskað eftir aðstoðarlækni vegna sjóndepru sinnar og mælir með að Ari Arason verði ráðinn. Ari hafði numið læknisfræði hjá Jóni Sveinssyni frá sumri 1789 og tók próf hjá landlækni 1794. Hann var síðan aðstoðarlæknir í Nesi þar til stiftamtmaður staðfesti 8. september 1795 að hann væri skipaður aðstoðarlæknir Jóns Péturssonar.19

Þá hefir Erla Dóris vakið athygli mína á því að Ari Arason hafi verið settur læknir í Norðlendingafjórðungi 18. júlí 1801. Jón Pétursson hefir því verið í veikindaleyfi þegar hann fór í sína síðustu vitjun eins og nú skal greint frá:

Haustið 1801 „hafði Magnús Stepensen jústizráð verið mjög vanheill; sendi hann því norður að Viðvík til Jóns [Péturssonar]. Brá hann við skjótt og reið suður, en bað ferðamenn, er hann mætti á leiðinni, að bera kveðju ekkjunni í Viðvík. Þá er hann kom að Reykholti, var hann heill og hraustur um kveldið að því merkt varð, en fannst örendur í rekkju sinni um morguninn eftir ...“3 hinn 9. október 1801. „Jón hafði ritað ráð þau er hann ætlaði að hafa Magnúsi til heilsubótar og voru þau höfð undir umsjá Hallgríms Bachmanns frá Bjarnarhöfn, því hann var þá sóktur vestur og kom að liði.“3

Hér hefði hæglega getað orðið endir þessarar útgáfusögu, en sem betur fer tók málið heillavænlegri stefnu.

Heiðruðu landsmenn 

Á þessum orðum hefst ávarp Jóns Thorsteinsen landlæknis, dagsett 26. júní 1829, sem birt var í Lækningabók fyrir almúga þegar hún kom loksins út í Kaupmannahöfn árið 1834. Landlæknir segir að Jón Pétursson hafi í bók sinni um iktsýkina

teingt þarvið kapítula, innihaldi af lækningabók þeirri, sem hann hafði skrásett, frá því hann kom hingað til lands 1772 ... Bók þessa ... endurbætti hann eptir hendinni, eins og lækningatilraunir hans gáfu honum efni til, uns hann deyði ... 1801. ... Sökum þess, að einginn gaf sig fram, er hvetti til prentunar nefndrar bókar, lá hún í dái, uns Bókþrykkjari G[uðmundur] Schagfjørd og Apothekarasveinn Haldór Arnason øðludust, sá fyrri afskrift bókarinnar, en hinn aðalritið, sem afritaði það 5 eða 6 sinnum fyrir vini sína. Árið 1828 kom þessum saman um að útgefa þessa á prent, og til til að gjøra hana sem fullkomnasta, feingu þeir Landlæknir Thorsteinsen til að lesa hana ígegnum, og lagfæra hvað áfátt vera kynni, en embættis annir hans leyfðu honum ekki tóm til, að gjöra það svo vel, sem hann vildi. Þessa vegna fengu þeir Schagfjørd og Haldór Arnason, þeim æfða og lærða Handlækni S[veini] Pálssyni, til allrar umbótar þeirrar, er honum væri møguleg, hvað hann trúliga gert hefir, er sést af skíringargreinum hans í bók þessari ...

Boðslistar voru útsendir til allra presta í landinu, en komu fátækir tilbaka, og nokkrir aldrei. Auk þessa kom þá bilting í Prentverks stjórnina hér: Conferenceráð Stephensen frásagði sér hana framvegis, uppsagði Schagfjørd þjónusu við það verk og veik honum á burt, en Haldór missti sjón sína og yfirgaf Apóthekið. Ímillitíð sendu þeir bónarbréf sitt til Heilbrigðisráðsins í Kaupmannahöfn, leiðbeindu með vitnisburði Landlæknis um bókarinnar nytsemi fyrir almenning, um leyfi til að láta hana á prent út ganga ...12

Det Kongelige Sundheds-Collegium skrifaði landlækni 5. maí 1829 á þá leið að þar sem stofnunin þekki ekki til bókarinnar verði ekki dæmt um gildi hennar. Talið sé að ekkert mæli gegn því að bókin verði látin á þrykk út ganga, þar sem landlæknir hafi yfirfarið hana og komizt að raun um að hún sé við hæfi og nytsamleg og að auki sé ekkert við innsend recept að athuga.12

Næst á eftir ávarpi Thorsteinsens landlæknis er örstutt kveðja:

Þar eg hefi þess nú var orðið, að síðan áðurnefnd boðsbréf útkomu, enn þótt svo fáir teiknuðu sig, sem kaupendur, á því tímabili, hafa þó margir frétt eftir, hvørt þessi ecki mundi útkoma; margir hafa einnig í ljósi látið laungun sína til að eignast hana; svo hefi eg, ecki í ábata von, því útgáfa bókarinnar kostar mig ærna peninga, heldur framar rækt og elsku til landa minna, keypt af Schagfjørd og H[aldóri] Arnasyni, forlagsrétt þeirra til að útgefa bókina á minn eiginn kostnað, og þarvið hleypt mér í verulegar skuldir. En – vonin, heiðruðu landar! gleður mig, að þér bæði hafið þau not af bók þessari, sem tilætluð eru, og ég fái líka kostnað minn endurgoldinn.

Bessastöðum þann 20. júní 1833. Þorsteinn Jónsson.12

Á forsíðu Lækningabókar fyrir almúga er útgefandinn kynntur sem Þorsteinn Jónsson stud. theol. og um hann segir í Íslenzkum æviskrám:

Þorsteinn Jónsson Kúld (25. nóvember 1807-20. nóvember 1859). Kaupmaður og bóksali í Reykjavík. Foreldrar: Síra Jón Jónsson að Auðkúlu (biskups Teitssonar) og kona hans Jórunn Þorsteinsdóttir, Jónssonar. Tekinn í Bessastaðaskóla 1826, varð stúdent 1831, með heldur góðum vitnisburði. Stundaði kennslu, var sýsluskrifari í Mýrasýslu 1837-8. Settist að í Reykjavík og kostaði bækur til prentunar ... Varð kaupmaður þar 1844. Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í þágu bæjarins ...20

Jón Steffensen hefir fjallað nánar um þau handrit lækningabókarinnar, sem enn eru varðveitt og um prentsöguna alla4 og vísast til þess.

Um hvað fjallar Jón Pétursson í lækningabókinni?

Lækningabókin er á 222 síðum og er efninu skipt í tíu kafla:

                        I.                     Um algengustu barnasjúkdóma á Íslandi (§1-69)

                        II.                    Um kvenlega sjúkdóma (§70-107)

                        III.                  Um almennustu sjúkdóma á körlum og konum (§108-216)

                        IV.                   Um nokkra tilfallandi útvortis sjúkdóma (§217-272)

                        V.                    Um blóðtökur (§273-287)

                        VI                    Um uppsölu- og búkhreinsandi meðöl (§288-)

                        VII.                 Um klýster og stólpípur (§298-305)

                        VIII.                Um spansflugur, sáley, hánka og baun (§306-312)

                        IX.                   Um hvernig sjúkdómi skal lýsa fyrir fráverandi lækni (§313-317)

                        X.                    Um læknisdóma, mæla og vigt (§318-320)

f04-fig1

Á síðu 223 hefst aðalregistur og er vísað til þeirra greina þar sem heitin koma fyrir. Síðan fylgir registur innlendra urta sem í bókinni eru nefndar, með þeirra bótanísku nöfnum, en Jón Pétursson taldi að þessar jurtir gætu komið í stað innfluttra jurta og vildi hann með því forða sjúklingum sínum frá óþörfum útgjöldum. Aftast er svo listi yfir þau 30 recept sem til er vísað í bókinni og eru þau hin sömu og vitnað var til í bréfi heilbrigðisráðsins í Kaupmannahöfn til landlæknis sem getið var hér að framan.

Hér ber að vekja athygli á því að bókin fær aukið vægi vegna fjölmargra athugasemda Sveins Pálssonar neðanmáls. Lætur hann Jón Pétursson jafnan njóta sannmælis og sé Sveinn annarrar skoðunar en Jón, færir hann fram gild rök.

Jón Pétursson fjallar ekki um fæðingar eða sængurlegu, enda hafði Halldór Brynjólfsson (1692-1752) biskup á Hólum stuðlað að því að ritið Sá nýi yfirsetu kvenna skóli eður stutt undirvísun um yfirsetu kvenna konstina21var prentað á Hólum árið 1749 og var fyrsta kennslubókin í ljósmóðurfræði sem út kom á íslenzku. Bragi Þorgrímur Ólafsson gekk frá textanum til prentunar á ný árið 2006 og í inngangi að verkinu eru greinargóðar upplýsingar um verkið, tilurð þess og viðtökur.22  

Í hvaða lækningarit vísuðu Jón Pétursson og Sveinn Pálsson?

Jón Pétursson vísar í receptalistanum (No. 8) í „Herra Rósensteens Barnapillur“. Þar er augljóslega vitnað til sænska læknisins Nils Rosén von Rosenstein (1706-1773). Hann var kjörinn í Konunglegu sænsku vísindaakademíuna við stofnun hennar árið 1739 og þar var einnig með frá byrjun læknirinn Carl von Linné (1707-1778). Árið 1740 sóttu þeir báðir um prófessorsstöðu í grasafræði við Uppsalaháskóla. Heiðurinn féll Rosén í skaut, en árið eftir var Linné útnefndur prófessor í læknisfræði í Uppsölum. Árið 1742 sóttu þeir um konunglegt leyfi til þess að skiptast á embættum. Var það veitt og var samstarf þeirra gott úr því. 

Sænska akademían tók sér snemma fyrir hendur að miðla vísindaþekkingu til almennings í því skyni að bæta heilsufar þjóðarinnar. Af hálfu ríkisins voru uppi áform um að  draga úr ungbarnadauðanum, því að um fjórðungur barna dó á fyrsta
aldursári og um þriðjungur innan fimm ára aldurs. Rosén var falið að rita greinar um barnasjúkdóma og meðferð ungbarna fyrir Sænska almanakið sem kom út í 150.000 eintökum. Kom fyrsta greinin árið 1753 og sú síðasta árið 1771.

Árið 1764 kom út bók með því efni sem þá lá fyrir um barnasjúkdóma og varð Rosén þar með fyrstur manna til þess að gefa út sérstaka kennslubók í þeim fræðum.23, 24 Bókin náði mikilli útbreiðslu og fylgdu fjórar aðrar útgáfur á sænsku til 1851, sex á þýzku (1766-1798), tvær á hollensku 1768 og 1779 og ein á dönsku, sem Sveinn Pálsson vitnar til í skýringargrein við §42. Í §67 segir Sveinn að hinn „nafntogaði svenski herra af Rosenstein“ hafi skrifað bók eina um barnasjúkdóma og neðanmáls segir hann: „Þessi ágæta almúgabók er á dönsku snúin af Dr. medic. P. Chr. Abildgaard, og prentuð í Kaupmannahöfn 1769“. Auk þessa komu fram til 1798 út þýðingar bókarinnar í Englandi, á Frakklandi (þrjár útgáfur), Ítalíu (fjórar), Austurríki (tvær) og sitt hvor á tékknesku og ungversku.

Sveinn Pálsson vitnar í þýzka lækninn Christoph Wilhelm Friedrich Hufeland (1762-1836), sem sagður var jafn frægur heima fyrir og þeir Goethe, Herder og Schiller. Voru þeir andans jöfrar raunar í sjúklingahópi Hufelands meðan hann var líflæknir við hirðina í Weimar. Hufeland gaf út Journal der practischen Arzney und Wundarzneykunde á árunum 1795 til 1835 og safnrit um System der praktischen Heilkunde á árunum 1818-1828. Þekktast verka Hufelands er ritgerðin Makrobiotik oder Die Kunst, das menschliche Leben zu verlängern (1797).25 Hefir hann þar skilað til komandi kynslóða kenningum Hippókratesar, Aristótelesar og Galens um mikilvægi hollrar fæðu fyrir heilsuna og langlífi. Hufeland lagði þannig til heitið á næringarstefnu (macrobiotics), sem hefir öðlast nýtt líf á okkar tímum fyrir áhrif frá Austurlöndum. Það er áðurnefnt  rit Hufelands sem Sveinn Pálsson vitnar til í skýringargrein sinni við §68 í Lækningabók fyrir almúga. Ólafur Jónsson læknir hefir nýlega ritað ítarlega grein um Svein Pálsson og ævi hans og er vísað til þess.26   

Hér skal látið staðar numið en það er von mín að innan tíðar takist að endurútgefa ritið um iktsýkina, svo og og lækningabókina, með viðeigandi umfjöllun og skýringum. Jón Pétursson var slíkur andans afreksmaður, að hann á það skilið að honum sé verðugur sómi sýndur, þó seint sé.

Heimildir

 1. Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Sögufélagið, Reykjavík 1944.
 2. Jónassen JÞ. Um læknaskipun á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1890; 11: 194-5,  226-8.
 3. Annáll nítjándu aldar. Safnað hefur sjera Pjetur Guðmundsson frá Grímsey. Útgefandi: Hallgrímur Pjetursson, Akureyri 1912; 1: 14-5.
 4. Steffensen J. Jón læknir Pétursson og lækningabók hans. Árbók Landsbókasafns Íslands 1986; 12:  40-9.
 5.  Flora Danica. Det er Dansk Vrtebog. Med største Fljd oc Umage elaborerit aff Simone Paulii Anatom. Chirurg. Ac Botan. Prentet i Kiøbenhafn aff Melchiore Martzan Aar 1648. 4°. 4 dele. 746 blade.
 6. Steffensen J. Flora Danica á Íslandi. Árbók Landsbóksafns Íslands 1982; 8: 11-26.
 7.  Peter Wagner, sem um árabil starfaði í Botanisk Centralbibliotek í Kaupmannahöfn, hefir veitt eftirfarandi upplýsingar: Det er rigtigt, at Johann Gerhard König rejste på Island på vegne af Flora Danica og vendte hjem med en del frø, pressede planter og gouacher af tegninger. Jeg har gennemgået alle de bilag, der findes i de kongelige regnskaber (Chatol- og Partikulærkassen) og Jon Peturssons navn optræder ikke I disse bilag. Det oprindelige komplette arkiv brændte i 1884. Det kan altså ikke påvises, at han har haft noget med værket at gøre. Det betyder ikke, at han ikke har haft med det at gøre, det betyder kun, at man ikke kan påvise, at det har været tilfældet. Da bevillinger fra den kongelige kasse normalt er tildelt bestemte personer, udbetales de tilhørende kontanter til dem.  De kan derefter give dem videre. Det var dog indtil 1770 normalt sådan, at udgiveren Oeder fik lov til at udbetale evt. løn eller honorar direkte. Ved hjemkomsten fra Island f. eks. medbragte König en række tegninger for hvilke der udbetaltes et beløb, samtidig med at værkets tegner fik en sum for at rette dem til eller tegne dem om. Jeg kan altså ikke henvise til arkivalsk dokumentation for, at Jón Petursson har fået direkte løn eller honorar for at bidrage til Flora Danica.
 8. Jónsson B. Íslenzkir Hafnarstúdentar. Bókaútgáfan BS, Akureyri 1949.
 9. Pétursson J. Den saa kaldede Islandske Skiörbug, beskreven udi en kort afhandling af Johannes Petersen, Philosophiae Baccalaureo og Med[ecinae] Studioso. Soröe, 1769. Trykt hos Jonas Lindgren, det Ridderlige Akademies Bogtrykker.
 10. Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005: 158.
 11. Jóns Péturssonar Handlæknis Norðlendinga frá 1775 til 1801 Lækninga–Bók fyrir almúga. Yfirlesin, aukin og endurbætt af Landsphysikus Jóni Þorsteinssyni og Handlækni Sveini Pálssyni. Utgéfin með leyfi ens  Konungliga Heilbrigðis–Ráðs af Þorsteini Jónssyni Stud. Theol. Kaupmannahöfn. Prentuð hjá Bókþrykkjara S.L. Møller á kostnað Utgefarans 1834.
 12. Stutt Agrip um Icktsyke eður Lidaveike, Hvar inne hun er wtmaalud, med fleirstum sijnum Tegundum; Þar eru løgd Raad, hvørsu hun verde hindrud og læknud. Samannteked af Jone Peturs Syne, Chirurgo i Nordur-lande. ... Prentad aa Hoolum i Hialtadal, Af Gudmunde Jons Syne, 1782.
 13. Jónsson H. Evidence of Rheumatoid Arthritis in an Icelandic textbook from 1782. Sydsvenska Medicinhistoriska Sällskapets Årbok 1992.
 14. Jónsson H, Helgason J. Rheumatoid Arthritis in an Icelandic Textbook from 1782. Scand J Rheumatol 1996; 25: 134-7.
 15. Isl. Journ. 6, nr. 470 og 793. Skjalaskrár Þjóðskjalasafns Íslands B10, 16, 13, 1785, 1786.
 16. Þjskjs. Rtk. 42,2, 1786-1788, Islands Journal 7, fskj. nr. 104.
 17. Jón Pétursson. Orsakir til sjúkdóma á Íslandi, yfirhøfud. Rit þeß Íslenska Lærdóms-ListaFélags. Ellefta Bindini fyrir arit MDCCXXX. Prentat í Kaupmannahöfn 1791 á kostnað Felagsins hjá Jóhann Rúdolph  Thiele, 107-169.
 18. Jón Pétursson. Um líkamlega vidqæmni. Rit þeß Íslenska Lærdóms-ListaFélags. Þrettanda Bindini fyrir arit MDCCXCII. Utkomit í Kaupmannahöfn 1794 á kostnað Felagsins hjá Jóhann Rúdolph  Thiele, 184-228. 
 19. Þjóðskjalasafn Íslands: Skjalasafn stiftamtmanns nr. 105, III. Bréf landlæknis til stiftamtmanns 1795-1803.
 20. Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason, Reykjavík 1952; V. bindi: 217.
 21. Sá nýi yfirsetu kvenna skóli eður stutt undirvísun um yfirsetu kvenna konstina, til alminnilegrar nytsemi samanskrifaður í dönsku og forbetraður af Balthazar Johann de Buchwald ... en á íslensku útlagður af velæruverðugum og mjögvellærðum Sr. Vigfúsa Jóns Syni presti að Hítardal og prófasti í Mýra Sýslu ... Þrykktur á Hólum í Hjaltadal af Halldóri Eiríkssyni 1749.
 22. Balthazar Johann de Buchwald. Sá nýi yfirsetukvennaskóli eður stutt undirvísun um yfirsetukvennakúnstina.Bragi Þorgrímur Ólafsson bjó til prentunar og ritaði inngang. Söguspekingastifti, Hafnarfirði 2006.
 23. Underrättelser om Barnsjukdomar och deras Bote-Medel. Tilförene stycketvis utgifne uti små Almanachorna, nu samlade, tilökte och förbättrade af Nils Rosén von Rosenstein, Kongl[ig] Archiater, Riddare af Nordst[järnans] Orden. Stockholm, på Kongliga Wetenskapliga Academiens kostnad, tryckte hos Direkt[ör] Lars Salvius 1764. Textinn er í heimild 21.
 24. Jägervall M. Nils Rosén von Rosenstein och hans lärobok i pediatrik. Studentlitteratur, Lundi 1990.
 25. Christoph Wilhelm Friedrich Hufeland. Makrobiotik oder Die Kunst, das menschliche Leben zu verlängern. Jena: Akademische Buchhandlung 1797. Dönsk þýðing: Konst at forlænge det Menneskelige liv. Oversat af Werfel. Kjøbenhavn 1800.
 26. Jónsson Ó. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur. Fyrsti læknirinn í Vestur-Skaftafellssýslu. Dynskógar. Rit Vestur-Skaftfellinga, Vík 2009: 12; 29-49.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica