04. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Læknirinn sem vísindamaður – rannsóknarþjálfun læknanema og lækna

Helga M. Ögmundsdóttir höfundur er sérfræðingur í ónæmisfræði og prófessor í frumulíffræði við Háskóla Íslands formaður rannsóknarnámsnefndar læknadeildar og í forsvari fyrir rannsóknastofu deildarinnar í krabbameinsfræðum.

doi: 10.17992/lbl.2011.04.360

Fyrsta doktorsgráðan frá læknadeild Háskóla Íslands var veitt 1933 en formlegt doktorsnám hófst við deildina árið 1995. Doktorsvarnir hafa verið fimm til sjö talsins á ári síðastliðin fimm ár. Hafa ber í huga að læknar eru aðeins fimmtungur af um það bil 60 doktorsnemum við læknadeild. Fyrir fáeinum árum tóku unglæknar að innritast í meistaranám við læknadeild. Þetta virðist hafa verið bylgja sem reis og féll svo aftur, því að enginn unglæknir innritaðist síðastliðið ár. Vert væri að leita skýringa á þessu áhugaleysi nú. 

En hvað hvetur unga lækna til vísindastarfa og þá sérstaklega til meistara- eða doktorsnáms? Ein ástæðan er metnaður í námi og starfi, rannsóknargráða greiðir götuna til sérnáms á bestu stöðum. En það er annað og meira, og fáir munu endast í rannsóknum ef innri hvatann vantar. Vísindaleg þjálfun er verðmætt veganesti fyrir ævistarfið, jafnvel þótt rannsóknir skipi þar ekki háan sess. Það mikilvægasta við doktorsnámið er ekki viðfangsefnið og ritgerðin heldur það að hafa farið þessa leið og tekið út þann þroska sem hún felur í sér og geta staðið sjálfstætt sem vísindamaður. Doktorsgráðan opnar vissulega möguleikann á akademískum starfsferli en nýtist á margan annan hátt.  

Íslenskir læknar sækja sérmenntun til margra landa og algengt er að menn hafi fengið tækifæri til vísindastarfa. Í Svíþjóð fer það oft fram innan ramma doktorsnáms en í Bandaríkjunum er slíkt nám gjarnan skipulagt jafnhliða grunnnámi í læknisfræði (sem þar er á 2. stigi háskólanáms), sem MD-PhD og hentar það skipulag ekki vel fyrir erlenda lækna í sérnámi. Allnokkrir íslenskir læknar hafa notfært sér þann möguleika í reglum læknadeildar HÍ um doktorsnám að geta innritast á miðri leið. Þá er metin vísindavinnan sem þegar hefur verið unnin og menn fá formlega handleiðslu við lokahnykkinn, það er að setja verkið saman í heildstæða doktorsritgerð.   

Fjármögnun rannsókna er ekki auðveld, eins og talsvert hefur verið rætt að undanförnu. Háskólinn og RANNÍS hafa í nokkur ár veitt doktorsstyrki. Með ört vaxandi framboði á doktorsnámi við HÍ er ásóknin mikil og árangurshlutfall um þriðjungur. Hér á landi vantar alveg fjármögnun til rannsókna úr hinum svokallaða þriðja geira, sem er mjög mikilvægur víða erlendis. Þar koma að fyrirtæki, hollvinasamtök, stuðningssamtök og stórefnamenn. Til eru dæmi um að sérgreinafélög íslenskra lækna reki litla vísindasjóði sem ungir vísindamenn í viðkomandi sérgrein hafa notið góðs af. Þetta þyrfti að efla til muna. Það mætti hugsa sér að stofnaðir yrðu sjóðir sem læknar gætu lagt í til þess að styrkja efnilega læknanema og unglækna til doktorsnáms, til dæmis á tilteknum sérsviðum.

Læknar hafa nokkra sérstöðu í náms- og starfsferli að því leyti að á sama tíma og annað háskólafólk einbeitir sér að akademísku doktorsnámi eru þeir í krefjandi klínísku sérnámi. Þetta tvennt er ekki auðvelt að sameina. Það gildir um þjálfun í rannsóknum og vísindum, rétt eins og um annað nám, að best er að byrja snemma. Þetta er hugsunin á bak við bandaríska MD-PhD námið og ýmis dæmi eru um doktorsnám samhliða grunnnámi í læknisfræði á Norðurlöndum. Reglur um doktorsnám við Háskóla Íslands hafa leyft þennan möguleika frá upphafi. Einn nemandi hefur fram að þessu notfært sér hann og er viðtal við hann í þessu tölublaði Læknablaðsins. Er athyglisvert að grípa aðeins niður í það sem þessi efnilegi ungi vísindamaður segir. Hann talar um þann vanda að hafa áhuga á flestu sem hann hefur kynnst í læknanáminu, drauminn um að „geta sameinað rannsóknir og klíníska læknisfræðii og að hann sjái fyrirmyndir í mörgum sérfræðingum Landspítala sem hefur tekist að sameina farsælan feril í vísindarannsóknum og klíníska læknisfræði. Þarna er með öðrum orðum innri hvatinn og vandinn við að sameina vísindi og klínískt starf sem áður var nefnt, og við bætist gildi góðra fyrirmynda, sem eru mjög mikils virði. Innan læknadeildar HÍ verða á næstunni stigin fyrstu skrefin við að formfesta skipulag doktorsnáms samhliða grunnnámi í læknisfræði.

Það er ekki kappsmál í sjálfu sér að mikill fjöldi lækna ljúki doktorsnámi. Gæðin skipta mestu máli. Reyndir erlendir andmælendur við doktorsvarnir við læknadeild HÍ hafa látið þau orð falla að þetta sé besta ritgerð sem þeir hafi dæmt. Það verða aldrei margir í hverjum árgangi sem kjósa að fara þessa leið og þeir þurfa að leggja hart að sér. Þess vegna þarf hvatinn að vera sterkur og mikilvægt að áhuginn sé einlægur. Spítalinn og háskólinn þurfa að vinna saman að því að búa þessu fólki þau skilyrði að það fái að njóta sín og geti sinnt bæði klíníkinni og akademíunni með sóma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica