03. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Hefðbundið íslenskt uppeldi – rætt við Jónínu Einarsdóttur mannfræðing

„Það er mjög athyglisvert að skoða hvernig reglur samfélagsins breytast varðandi það hvað teljast ásættanlegar refsingar í uppeldisskyni og hvað telst ofbeldi gegn börnum,“ segir dr. Jónína Einarsdóttir prófessor í mannfræði. Á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum kynnti hún niðurstöður rannsókna sem hún og Geir Gunnlaugsson barnalæknir og núverandi landlæknir hafa unnið að nokkur síðastliðin ár á reynslu Íslendinga á mismunandi aldri af ofbeldi og refsingum sem þeir urðu fyrir sem börn af hálfu foreldra sinna. Kynferðislegt ofbeldi var undanskilið.

u03-fig1
„Langflestir töldu að þeir hefðu fengið ósköp hefðbundið
íslenskt uppeldi,“ segir Jónína Einarsdóttir prófessor í
mannfræði um rannsókn á reynslu Íslendinga af refsingum
í uppeldi.


„Húsaginn, sem gefinn er út árið 1746 og stóð í rauninni óbreyttur fram til 1932 þegar barnaverndarlögin voru sett, segir að foreldrum beri að refsa börnum sínum líkamlega, „með hendi eða með vendi“ ef þau sýn i óhlýðni. Með barnalögunum frá 2003 var talið að búið væri að banna líkamlegar refsingar á börnum en eftir dóm í Hæstarétti varð ljóst að svo var ekki. Með lagabreytingu vorið 2009 var tekinn af allur vafi og nú er bannað að refsa börnum líkamlega.“

Reynsla Íslendinga af refsingum

Jónína og Geir byrjuðu verkefnið á því að rannsaka ritaðar heimildir um heimilisofbeldi og afrakstur þeirrar vinnu birtist í bókinni Heimilisofbeldi á Íslandi: höggva, hýða, hirta, hæða, hóta, hafna, hrista, hræða. „Í framhaldi af bókinni langaði okkur að gera rannsókn á hugmyndum og reynslu nokkurra kynslóða Íslendinga af refsingum og heimilisofbeldi. Rannsóknin byggði á viðtölum við 22 einstaklinga fædda á tímabilinu 1920-1985, 11 karlmenn og 11 konur. Við völdum þá með tilliti til aldurs og kyns en vorum ekki að leita sérstaklega að fólki með reynslu af ofbeldi. Langflestir töldu að þeir hefðu fengið ósköp hefðbundið íslenskt uppeldi. Meginniðurstaða okkar er sú að líkamlegar refsingar í uppeldisskyni þykja eðlilegar fram undir 1970 en eftir 1975 fara hugmyndir fólks greinilega að breytast. Athygli vekur að fólk af öllum kynslóðum sagði frá því að það hefði aldrei verið beitt líkamlegum refsingum jafnvel þó það hefði þótt sjálfsagt þegar þau voru að alast upp. Þá töluðu þeir elstu sem fæddir eru á millistríðsárunum mest um vinnuhörkuna og matarskortinn sem tíðkaðist á uppvaxtarárum þeirra. Tveir sögðu til dæmis frá því að þeir hefðu byrjað í reglulegri vinnu við átta ára aldur. Jónína segir að kynslóðin sem var að alast upp á 5. og 6. áratug síðustu aldar hafi gjarnan talað um vanrækslu. „Þetta voru frumbýlingsár svo margra í Reykjavík. Mörg börn voru sett út fyrir dyr á morgnana, kölluð inn í hádeginu, svo sett út aftur fram að kvöldmatartímanum. Enginn fylgdist með þeim en aftur á móti ef þau komu of seint inn á kvöldin þá voru þau flengd.“

Jónína segir að viðmælendum megi skipta í þrjá hópa. „Í fyrsta hópnum voru þeir sem refsað var reglulega með líkamlegu ofbeldi, þeim þóttu refsingarnar eðlilegar, þeir hafi átt þær skilið og telja sig ekki hafa borið mein af þeim. Annar hópur hafði reynslu af einstökum viðburði þar sem beitt var líkamlegri refsingu sem var þeim mjög minnisstæð. Þessum hópi finnst það sama og fyrsta hópnum, það er að refsingin hafi verið verðskulduð og þeim ekki orðið meint af henni síðar á lífsleiðinni. Lýsingar í þessum hópi eru gjarnan þannig að foreldrarnir sáu eftir að hafa beitt refsingunni og viðkomandi vissi af því. Þessi hópur lýsir sterkari eigin viðbrögðum við refsingunni en fyrsti hópurinn. Þriðji hópurinn hefur aftur á móti enga reynslu af líkamlegum refsingum og okkur þótti athyglisvert að það voru nær eingöngu konur í þeim hópi. Samt eru viðmælendur almennt sammála um að lítill munur hafi verið á refsingum stúlkna og drengja. Einnig töldu þeir að þeim sem mest var refsað hafi verið ódælir og þeir sem voru elstir í systkinahópi. Oftast voru það mæðurnar sem útdeildu refsingunum en börnum var gjarnan hótað með föðurnum. Þetta kollvarpar staðalmyndinni af hinum refsandi föður en skýringin er einfaldlega sú að mæður voru miklu meira með börnin en feðurnir. Allir viðmælendur okkar voru sér vel meðvitaðir um að líkamlegar refsingar eru bannaðar í dag en fannst þó í lagi að þeim hafi verið beitt á sínum tíma.

Allir viðmælendur okkar utan einn voru mjög sáttir við foreldra sína þrátt fyrir refsingarnar. Sá eini sem ekki var sáttur lýsir í rauninni allt annarri og alvarlegri reynslu, þar sem um var að ræða tilefnislaust, alvarlegt og síendurtekið líkamlegt og andlegt ofbeldi.“

Breyttar refsingar

Jónína segir að viðmælendur hafi einnig verið spurðir ítarlega úti í uppeldi eigin barna og hvort þeir hafi beitt þau líkamlegum refsingum. „Ég á reyndar eftir að taka þær niðurstöður endanlega saman en hef lesið viðtölin mjög vandlega. Það er þó alveg ljóst að margir viðmælendur segjast hafa byrjað að beita sömu refsingum og þeir voru beittir í æsku en hafi hætt því, enda umburðarlyndi samfélagsins fyrir slíku á undanhaldi og nú séu slíkar refsingar bannaðar. Einn ungur maður, fæddur á 8. áratugnum, segir frá því að hann hafi alist upp hjá móður sinni sem beitti hann líkamlegum refsingum, endurteknum flengingum eins og hann lýsti sjálfur, og þegar hann svo eignaðist sjálfur börn byrjaði hann að refsa þeim með flengingum að hætti móður sinnar. Þá var hún farin að vinna með börn og sagði honum að það þætti ekki gott lengur að flengja börnin. Hann fór að hennar ráðum og lokaði börnin inni í refsingarskyni í staðinn. Mamman sagði þá við son sinn að það væri heldur ekki gott að loka börn inni og enn tók hann sönsum og segist nú refsa þeim með því að taka af þeim leikjatölvuna og farsímann. Þessi frásögn lýsir ágætlega breytingaferlinu sem verður í samfélaginu gagnvart líkamlegum refsingum. En það sem er skemmtilegt við þessa frásögn er að það er móðir föðurins sem stjórnar ferðinni.“

Að sögn Jónínu gerist viðhorfsbreytingin í samfélaginu til líkamlegra refsinga mjög hratt. „Í dag er annars konar refsingum beitt við uppeldi. Algengt er að foreldrar svipti börn einhverjum hlutum eða forréttindum. Mér heyrist að skammarkrókurinn í breyttri mynd sé að koma aftur sem aðferð til að aga börn heima. Hafa ber í huga að ofangreind rannsókn um reynslu Íslendinga af ofbeldi og refsingum er eigindleg og því ekki hægt að yfirfæra niðurstöður hennar á þjóðina í heild. Megindleg rannsókn er í vinnslu og byggist hún á úrtaki úr þjóðskrá. Það væri mjög áhugavert að skoða hvernig þetta er í dag.“

Afleiðing ofbeldis

Jónína bendir á að það þurfi að fræða og upplýsa fólk um breytt lagaumhverfi og áhrif ofbeldis hverskonar á heilsu barna. Önnur rannsókn sem Jónína og Geir hafa unnið í samvinnu við Álfgeir Loga Kristjánsson og Ingu Dóru Sigfúsdóttur snýr að áhrifum þess á heilsu og vellíðan 14 og 15 ára unglinga að hafa orðið vitni að deilum og ofbeldi á milli foreldra eða forsjáraðila sinna. Þetta var stór rannsókn þar sem upplýsingum frá 3515 unglingum var safnað árið 2003 af Rannsóknum og greiningu og bíður birtingar í Child Abuse & Neglect.

„Tölurnar úr þessari rannsókn segja okkur að um fimmtungur unglinganna höfðu orðið vitni að alvarlegu rifrildi foreldranna og um þriðjungur hafði rifist alvarlega við foreldra sína. Um 7% höfðu orðið vitni að líkamlegum átökum fullorðinna á heimilinu og 6% höfðu sjálf lent í líkamlegum átökum við fullorðna á heimili sínu. Reynsla unglinganna af þessu jók líkur á einkennum um þunglyndi, reiði eða kvíða, auk þess að hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd unglinganna. Slík reynsla barna hefur því langtímaáhrif á heilsu og vellíðan þeirra. Það er því full ástæða til að huga sérstaklega vel að velferð og líðan barna og unglinga þar sem vitað er að ofbeldi og líkamleg átök hafa átt sér stað eða eiga sér stað á heimilum þeirra.“

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica