03. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Áður dauðadómur – nú sjúkdómur

Jón Gunnlaugur Jónasson höfundur er yfirlæknir á Krabbameinsskrá Íslands - læknir á rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

doi: 10.17992/lbl.2011.03.353

Einn af fyrrverandi forystumönnum Krabbameinsfélags Íslands sagði að þegar hann var að nema læknisfræði fyrir nokkrum áratugum hefði verið litið á krabbamein sem dauðadóm, en nú væri frekar litið á það sem sjúkdóm. Þessi ágæti maður hafði mikið til síns máls. Möguleikar á greiningu og meðferð hafa gjörbreyst á undanförnum áratugum.

Við upphaf skráningar krabbameina á vegum Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands, um miðjan sjötta áratuginn, greindust rúmlega 300 mein árlega en nú greinast tæplega 1400 ný tilfelli árlega. Þetta er mikil aukning á tiltölulega skömmum tíma. Þetta skýrist að miklu leyti af því að hlutfall eldra fólks hefur aukist, en krabbamein er mun algengara í þeim hópi. Krabbameinsskráin hefur möguleika á að leiðrétta fyrir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þegar slíkt hefur verið gert sýnir sig að áhætta hvers einstaklings á því að greinast með krabbamein nú er samt meiri en var fyrir tæplega hálfri öld og er raunveruleg áhættuaukning um 1-2% á ári. Áður fyrr var oft vandkvæðum bundið að greina illkynja æxli, meðal annars vegna skorts á greiningaraðferðum. Á síðustu áratugum hefur bæði myndgreiningarrannsóknum og speglunarmöguleikum fleygt fram og ýmiss konar skurðtæknileg inngrip til þess að taka frumusýni og vefjasýni orðið möguleg. Þetta allt hefur gert það að verkum að mun auðveldara og áreiðanlegra er að greina illkynja sjúkdóma en á árum áður. Þetta er að hluta til skýringin á fjölgun tilfella krabbameina.

Hlutfall sjúklinga sem lifir í fimm ár eða lengur eftir greiningu krabbameins hefur gjörbreyst á þessu tímabili og hækkað úr um 30% í um 60%, að teknu tilliti til aldurs og greiningarárs. Þessar bættu lífshorfur skýrast af ýmsu. Meinin greinast gjarnan á lægri stigum en áður og eru því læknanlegri, aukin árvekni leiðir til þess að fleiri mein greinast snemma og sum þeirra hefðu mögulega aldrei gert vart við sig og ekki haft áhrif á lífshorfur. Einnig kemur til bætt meðferð þeirra sem greinast, bæði hvað varðar skurðlækningar, geislameðferð og lyfjameðferð. En þess ber að geta að krabbamein eru margir ólíkir sjúkdómar og horfur afar mismunandi eftir meinum.

Krabbameinsfélag Íslands minnist 60 ára afmælis síns á þessu ári. Í marsmánuði stendur félagið fyrir árvekniátakinu „Karlmenn og krabbamein“, eins og síðastliðin ár. Árlega greinast yfir 700 karlar með krabbamein. Algengasta krabbamein þeirra er blöðruhálskirtilskrabbamein. Í öðru sæti er krabbamein í lungum, þá krabbamein í ristli og endaþarmi og því næst er krabbamein í þvagvegum. Þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og nú eru um 5000 karlmenn á lífi eftir krabbameinsgreiningu og margir þeirra eru læknaðir.

Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtist grein um krabbamein í eistum, en þau eru algengustu æxli hjá karlmönnum milli 25 og 50 ára. Á undanförnum áratugum hefur orðið bylting í meðferð þessa sjúkdóms og fáheyrt er nú orðið að menn deyi af völdum hans.

Skimun fyrir krabbameinum hjá körlum á Íslandi hefur enn ekki hafist og eru ýmsar ástæður fyrir því. Mæling á PSA-blóðgildi, sem mögulega væri unnt að nota við leit að krabbameini í blöðruhálskirtli, er ekki nægilega gott próf hvað varðar næmi og áreiðanleika og greinir ekki vel milli þeirra sem þurfa að fá krabbameinsmeðferð og hinna sem væru betur settir án meðferðar. Því er ekki mælt með PSA-mælingu til skimunar. Hins vegar er til skimunarpróf við leit að ristilkrabbameini sem mælt er með að nota og byggist á því að leita að blóði í hægðum. Mikilvægt er að skimun fyrir ristilkrabbameini hefjist sem fyrst.

Engu að síður skiptir miklu máli að karlar haldi árvekni sinni gagnvart einkennum og hugi að viðurkenndum forvörnum. Lungnakrabbameinsfaraldur síðustu aldar er í mikilli rénun vegna þess hve dregið hefur úr reykingum. Árið 1967 reyktu um 60% íslenskra karla en nú er hlutfallið komið niður fyrir 20%. Auk þess að forðast reykingar er líklegt að hægt sé að draga úr krabbameinsáhættu með því að lifa heilbrigðu lífi almennt, gæta hófsemi og fjölbreytni í matarvenjum og hreyfa sig reglulega.

Fjölmargar vísindarannsóknir sem Ísland hefur tekið þátt í hafa sýnt fram á að lífshorfur krabbameinssjúklinga hér á landi eru með því allra besta sem gerist í heiminum. Það má meðal annars þakka góðu aðgengi almennings að hágæðaheilbrigðiskerfi þar sem brugðist er við án tafa.

Við Íslendingar verðum að standa vörð um heilbrigðiskerfið sem skilað hefur þessum góða árangri.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica