12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín: röntgenlækningar. Myndgreining og myndstýrð inngrip. Hjalti Már Þórisson

Ég ætlaði ekki einu sinni að verða læknir. Frá því að ég man eftir mér var ég stöðugt spurður hvort ég ætlaði að verða læknir þar sem MJÖG margir í minni fjölskyldu hafa farið þá leið. En svarið var alltaf það sama: Nei – kemur ekki til greina – allt nema læknisfræði. En þegar til kastanna kom ákvað ég að skella mér í læknisfræði þar sem mér leist ekki á neitt annað.

Í læknadeild hallaðist ég að því að ég færi í skurðlækningar (eins og ansi margir í minni fjölskyldu – við erum ekki frumlegasta fólk í heimi). Þegar ég var á 6. ári í deildinni fékk ég að taka skurðlæknisfræðikúrsinn á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Það var á þeim tíma sem ég kynntist fyrst „interventional radiology“ sem er ýmist kallað myndstýrð inngrip eða inngripsröntgen á íslensku. Ég var í kúrsi hjá æðaskurðlæknum á Yale-New Haven Hospital og einn af læknunum á deildinni lagði til að ég fengi að vera á IR í tvo daga til að fylgja eftir sjúklingum sem fóru í æðaþræðingu. Á IR-deildinni opnuðust augu mín fyrir faginu. Sérstaklega var eitt eftirminnilegt atvik sem hafði mikil áhrif á mig. Ég var á IR-deildinni að fylgjast með sérnámslækni ströggla við tilfelli og sérfræðilæknirinn sat fyrir utan æðaþræðingastofuna og lét fleyg orð falla: „Son – it looks like you are trying to get out of a greenside bunker with a 3-wood. It may be possible but it is certainly not the best tool for the job“. Við þetta kviknaði ljós í kollinum á mér. Golfsamlíking sem ég skildi á augabragði enda verið ákafur golfari frá barnsaldri. Samlíkingin fékk þannig á mig að ég fór að velta fyrir mér IR sem sérgrein og möguleikunum sem það gæti boðið upp á, einkum með tilliti til aukinna möguleika til innæðameðferðar í framtíðinni.

Þegar heim til Íslands var aftur komið reyndi ég að forvitnast um IR-starfsemi á Landspítala. Þannig kynntist ég Kristbirni Reynissyni og Jóni Guðmundssyni röntgenlæknum. Þeir tóku áhuga mínum vel og ég fékk að kynnast starfsemi spítalans. Báðir hafa reynst mér afbragðs vel, fyrst sem lærifeður en síðar sem samstarfsmenn.

Á kandídatsárinu tók ég valmánuð á röntgendeild og eftir það varð ekki aftur snúið. Á kandídatsárinu fór ég einnig í heimsókn til Haraldar Bjarnasonar röntgenlæknis á Mayo Clinic í Bandaríkjunum. Þar var ég í fjórar vikur og sannfærðist um að IR væri framtíðarfag og rétt val fyrir mig. Innan geirans var mikil gerjun og nýjungar að spretta upp stöðugt.

Ég var deildarlæknir á Landspítala í eitt ár eftir kandídatsárið og síðan var haldið út í sérnám við Yale New Haven Hospital í Bandaríkjunum en þar stundaði ég bæði sérnám í myndgreiningu og framhaldsnám í myndstýrðum inngripum en alls voru þetta sex ár ytra. Árið 2009 flutti fjölskyldan heim til Íslands og ég hóf störf á Landspítala.

Á árunum 2012-2018 vann ég einnig hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu ásamt spítalanum en frá 2018 hef ég starfað sem yfirlæknir inngripsröntgen- og æðaþræðingadeildar Landspítala í fullu starfi. Starfsemin hefur aukist gríðarlega og viðfangsefnin eru ærin. Meðal annars höfum við tekið upp segabrottnám við bráðu slagi og ýmislegt annað nýtt hefur gerst síðastliðin ár.

Ég er afskaplega ánægður með mitt val á sérgrein. Mér finnst fagið vera ögrandi en um leið gefandi að fá að stunda og flestir dagar í vinnunni eru góðir (það eru gríðarleg forréttindi). Og næg verkefni framundan : )

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica