12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Á toppnum í Nepal með Tómasi Guðbjartssyni
„Já, þetta er svolítið ég. Ég er svo fljótur að ákveða mig,“ segir Tómas Guðbjartsson læknir og lýsir því hvernig hann stökk til Nepal þegar sænskur skurðlæknir leysti hann af á skurðdeildinni. Hann kleif Island Peak, eða Imja Tse-fjallið, 6165 metra hátt, í fjallasal Nepal og nýtti ferðina til góðs. 400 börn hafa nú fengið hlý föt frá Íslandi
„Þetta var stórkostleg ferð. Hún var ákveðin með nokkurra daga fyrirvara. Það hefur verið mikið álag í vinnunni, margar vaktir síðustu mánuði,“ segir Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og prófessor. Fríið hafi því verið kærkomið.
Læknablaðið · Tómas Guðbjartsson: Í hæstu hæðum Nepals - des 2023
Ekki er annað hægt en að fylgjast með Tómasi. Ef það eru ekki vísindagreinar eða uppskurðir á Landspítala, stekkur hann til Nepal eða dýfir sér í Arnarfjörðinn þar sem hann á athvarf. Hann er pólitískur og berst fyrir umhverfinu. Berst gegn ýmsum virkjanakostum og hvalveiðum. Í Læknavarpinu segir Tómas frá Nepal-förinni, ævintýraþránni, háfjallaveiki, styrktarverkefninu og afa sínum, Vigfúsi Sigurðssyni, sem fór yfir Grænlandsjökul í leiðangri danska höfuðsmannsins Koch árin 1912-1913.
„Forsendurnar voru að Dendi Sherpa, vinur minn sem býr í Katmandu, var laus og ekki með hóp þannig að við skelltum okkur tveir upp í fjöllin, eins og við gerðum í fyrra og tókum tvo bræður hans með sem eru í þjálfun í að verða fjallaleiðsögumenn. Við fjórir roguðumst með fjallgöngubúnað, vorum með töluvert af lyfjum og föt fyrir fátæk börn í heimabæ Dendi, Taksindu.“
„Þetta er eitt fátækasta svæðið í Nepal, tekjur mjög lágar og margir búa við kröpp kjör.“ Þeir hafi því safnað peningum á Íslandi, yfir tveimur milljónum króna, og keypt föt, skólabúninga og flíspeysur, handa hátt í 400 nemendum í þremur skólum, saumuð í Nepal, til að veita sem flest störf. Framhald verður á verkefninu.
„Það er svo kalt þarna,“ segir Tómas. „Þetta er í 3000 metra hæð og skólarnir eru lítið hitaðir upp. Vegna stríðsins, sérstaklega í Úkraínu, hefur gas og olía hækkað svo mikið og skólastofurnar eru nánast ekkert hitaðar upp. Þannig að fólk er látið klæða þetta af sér en margir eiga ekki hlý föt.“
Hann lýsir því hvernig fólk hafi leitað til hans í ferðinni þegar það vissi að hann væri læknir. Þorpin í fjöllum Nepal séu fjarri læknum og fólkið gangi dögum saman til að fá aðstoð. „Oft er það svo leyst út með röngum lyfjum.“ Hann hafi sjálfur orðið vitni að því.
„Það er gefandi að gera svona,“ segir hann og lýsir því hvernig hann hafi getað látið gott af sér leiða á stuttum göngudögum og aðstoðað veikt fólk. „Heilbrigðiskerfið þarna er vægast sagt lélegt. Það eru engar almannatryggingar. Ekkert net sem grípur unga krakka. Ungbarnadauði, þau sem deyja innan 12 mánaða, er 150-faldur á við það sem við sjáum á Íslandi,“ segir hann.
„Þessar tölur eru skelfilega háar í Nepal.“ Erlendir læknar, oft á eftirlaunaaldri, opni þjónustu árlega – til að mynda til að fyrirbyggja blindu – og annan vanda sem laga megi með ódýrum hætti. En hvernig vann hann þar?
„Þetta voru ekki flóknar lækningar en ég var með skurðstofusett sem hætt var að nota af Landspítala og gat framkvæmt smáar aðgerðir í staðdeyfingu og hreinsað sár en þetta var langmest öndunarfæra- og mjúkvefjasýkingar. Ég fór með 20 skammta af zitromaxim, sem er dýrt lyf hérna heima og næstum ófáanlegt í Nepal, og fékk Lyfjaver á Íslandi til að styrkja mig með stuttum fyrirvara. Ég notaði hvern einasta skammt.“ Þá hafi hann kynnt Diamox við háfjallaveiki en sjálfur hafi hann notað lyfið í 4-5 ár. „Mér hefur aldrei liðið svona vel í hæð,“ segir hann.
Tómas kleif Aconcagua í Andesfjöllunum í Argentínu í febrúar. Fjallið er enn hærra, eða rétt nærri 7000 metrum. Nepal hefur þó vinninginn. „Þar eru hæstu fjöllin, mesti snjórinn og hrikalegasta umhverfið en líka þessi kúltur í kringum sjerpana,“ segir hann og lýsir því þegar þeir Dendi komu í skóla og fengu 300 blómakransa um hálsinn sem þakklætisvott fyrir fötin.
„Það er eitthvað sem maður gleymir aldrei og ég sagði við Dendi að kannski væri þetta stærsta upplifunin í ferðinni, stærri en fjallið, að sjá þessa fátækt og hvað hægt er að gera mikið fyrir lítið fé,“ segir hann. „Við erum rétt að byrja. Okkur langar til að halda áfram með söfnunina.“
MYNDATEXTAR:
1. Tómas með Dendi Sherpa á toppi Island Peak, Imja Tse. 2. Ungir verðandi munkar í flíspeysum sem þeir fengu í fyrri ferð Tómasar til Nepal í fyrra. 3. Stúlkur í nýju skólabúningunum prýddum íslenska fánanum. 4. Tómas í reipi á leið á toppinn. 5. Leiðin á toppinn er stórfengleg. 6. Við lón í fjallgarðinum. 7. Tómas afhendir skurðáhöldin sem hann kom með frá Íslandi. 8. Þrír á fjalli. 9. Lógó góðgerðarsamtakanna. 10. Dendi og Tómas með blómakransana, þakklætisvottinn, um hálsinn.