12. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Blóðbankinn biðlar til yfirvalda að fá að vera í fremstu röð að sögn Sveins Guðmundssonar yfirlæknis
Um 20 landsmenn fara nú árlega í eigin blóðmyndandi stofnfrumumeðferð hér á landi eftir kröftugar krabbameinsmeðferðir. Áður voru sjúklingar sendir úr landi. Blóðbankinn hefur barist fyrir að blóð hans verði kjarnsýruskimað. Sveinn Guðmundsson yfirlæknir segir að hann vilji sjá Ísland verða með fyrstu löndum í heiminum til að fá rauðu blóðkornin smithreinsuð
Fjögur hundruð Íslendingar með illkynja blóðsjúkdóma, svo sem merg- eða eitlaæxli, hafa á síðustu 20 árum fengið eigin blóðmyndandi stofnfrumur hér á landi í kjölfar kröftugra krabbameinsmeðferða.
„Allflestir fóru til Stokkhólms fyrir árið 2003,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir hjá Blóðbankanum. Meðferðin hafi þróast og bjóðist nú enn fleirum en áður. „Gert var ráð fyrir að um fimm sjúklingar fengju þessar meðferðir á ári en þeir eru nú að meðaltali um 20.“ Stofnfrumumeðferðin sé unnin í samstarfi Blóðbankans og blóðlækningadeildar Landspítala. „Þetta er vaxtarbroddur fyrir framtíðarfrumumeðferðir af ýmsu tagi í hér á landi.“
Ína Björg Hjálmarsdóttir deildarstjóri, Erna Knútsdóttir gæðastjóri, Sveinn Guðmundsson yfirlæknir og Níels Árni Árnason einingastjóri stofnfrumuvinnslu í Blóðbankanum. Mynd/gag
Blóðbankinn fagnar í ár sjötugsafmæli sínu. Þriðja ráðstefna ársins af því tilefni fór fram þann 17. nóvember. Þar var lögð áhersla á að Ísland yrði áfram leiðandi í smithreinsun á heimsvísu.
„Við innleiddum smithreinsun fyrir blóðvökva og blóðflögueiningar á árunum 2012-14. Smithreinsun á rauðum blóðkornum verður fyrst aðgengileg árið 2025 og þar sem við stöndum svona framarlega skorum við á heilbrigðisyfirvöld að tryggja að þá verði hún einnig í boði hér á landi,“ segir Sveinn. Með smithreinsuninni sé hægt að grípa veirur sem berist með blóði. Fólk geti þá gefið blóð þrátt fyrir að óþekkt veira geri vart við sig.
„Þetta hefur margvíslega þýðingu; eykur öryggi blóðþega og stækkar þann hóp sem getur gefið blóð.“
Þetta er ekki eina framfaraskrefið sem stefnt er að, en Blóðbankinn hefur einnig barist síðustu ár fyrir að gerð verði NAT-kjarnsýruskimun á blóði hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Samkvæmt svörum spítalans hefur það verið afdráttarlaus stefna spítalans.
„Vonir standa til að þær geti hafist á næsta ári,“ segir í svörum spítalans við fyrirspurn Læknablaðsins um stöðuna. Samræður um kostnaðinn standi yfir við heilbrigðisráðuneytið. Sveinn segir grundvallarmun á NAT-skimun og þeirri skimun sem nú fari fram.
„NAT-greining er nákvæmari og grípur svokallað gluggatímabil þar sem blóðið getur borið sóttkveikju án þess að hún greinist með mótefnaprófum.“ Því sé rétt að taka skimunina upp. Hún sé stunduð í flestum Evrópulöndum og öllum Norðurlöndum utan Íslands og Svíþjóðar.
Sveinn fer á þessum tímamótum yfir helstu áskoranir bankans og nefnir að gripið hafi verið til kynningarátaks til að fjölga virkum blóðgjöfum í kjölfar COVID-19 en þá hafi staðan verið mjög krefjandi.
„Talsverð pressa var að geta uppfyllt óskir heilbrigðisþjónustunnar um blóðhluta.“ Vel heppnuð kynningarherferðin hafi hins vegar snúið þeirri áskorun í tækifæri. Virkir blóðgjafar séu nú 6000. 4000 karlar en 2000 konur – fleiri en þeir hafi verið á síðustu átta árum. Hann vill sjá kynningarátakinu haldið áfram og konur hvattar enn frekar til að gefa blóð.
„Í nágrannalöndunum eru konur 45-50% blóðgjafa en hér um þriðjungur.“ Engin fagleg rök séu fyrir því að konur gefi ekki blóð. „Við fylgjumst vel með járnbirgðum kvenna þar sem 10-25% þeirra glíma við járnskort og látum þær vita ef svo er.“ Sveinn segir aukna þörf fyrir blóð á næstu árum og áratugum. Þjóðin eldist og landsmönnum fjölgi hratt, auk fleiri ferðamanna. Því þurfi fleiri á blóði að halda.
Blóðbankinn var stofnaður 1953. „Hann var settur á stofn af stórhuga frumkvöðlum og við viljum vera stórhuga í því starfi sem okkur er fengið,“ segir Sveinn sem hefur verið í bankanum frá 1993, yfirlæknir frá 1995. Valtýr Bjarnason og Níels Dungal hafi fyrst hreyft við hugmyndinni um Blóðbanka árið 1949 og starfsmenn verið fjórir við stofnun hans. Nú séu 60 manns í 50 stöðugildum.
En hverju er hann stoltastur af á starfsferlinum í Blóðbankanum? „Að vinna í hópi mjög margra starfsmanna Blóðbankans af öllum stéttum: Líffræðinga, lífeindafræðinga, hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks. Það þarf samhentan hóp og skýr markmið. Það þarf styrka umgjörð gæðakerfis til þess að geta staðið undir þeim framförum sem við höfum séð á síðustu árum og áratugum.“
Vill þjálla kerfi um ráðningar frá útlöndum
„Nýliðun í heilbrigðiskerfinu mun í auknum mæli koma frá útlöndum,“ segir Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans. „Þetta er staðreynd og gera þarf ferlið þjálla.“
„Þetta er áskorun sem heilbrigðiskerfið þarf að taka á með áþreifanlegum hætti. Það þarf að bæta innviðina og skapa þægilega umgjörð þegar fólk er ráðið til starfa,“ segir hann. Einfalda og flýta þurfi yfirferð á skjölum og pappírum svo hægt sé að leyfa fólki sem góð reynsla er af erlendis að taka hratt og örugglega til starfa hér á landi.
Fjöldi starfsfólks með erlendan bakgrunn vinnur nú gott starf í Blóðbankanum, meðal annars frá Filippseyjum, Indlandi, Ástralíu, Danmörku og Íran. „Þetta er fólk sem hefur komið hér til starfa, skilað góðu verki og verið mikilvæg viðbót.“
Fleiri vottuð handtök þurfi í heilbrigðiskerfinu
Mikilvægt er að vottuð heilbrigðiskerfi hefji innreið sína á sem allra flestum sviðum í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Veita skuli heilbrigðisþjónustu undir merkjum og innan ramma vottaðs gæðakerfis. Það haldi utan um og tryggi rétt handtök. Þetta segir Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans.
„Við hvorki gætum né vildum sinna okkar starfi öðruvísi en að hafa vottað gæðakerfi,“ segir hann. „Það hefur verið okkar gæfa síðustu 25 árin að vinna mjög markvisst á því sviði og þar held ég að aðrir þættir heilbrigðiskerfsins þurfi að hugsa sinn gang. Það þýðir ekki alltaf að segja að við þurfum að stefna að eða að við erum á ákveðinni gæðavegferð heldur þarf að stíga skrefið til fulls,“ hvetur hann til.
Blóðbankinn fékk ISO 9001 vottun allrar starfseminnar árið 2000. „Við höfum síðan bætt við faggildingu á sviðum eins og vefjaflokkunarstarfsemi og stofnfrumumeðferð. Við teljum að það eigi ekki og sé ekki hægt að veita blóðbankaþjónustu öðruvísi en að það sé vottað gæðakerfi sem sé tekið út af óháðum aðilum.“