11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Leiðin út, heim og aftur til baka. Þorsteinn Heiðberg Guðmundsson

Það var myrkur janúardagur 2016 þegar póstur kom frá kennslustjóranum, núverandi og brátt fyrrverandi samstarfsfélaga á Sahlgrenska í Gautaborg. Erindið var gleðilegt, að pláss væri opið á hjartadeildinni en skilyrðið fyrir stöðunni var að byrja eftir þrjá mánuði. Með stuttum fyrirvara var fjögurra manna fjölskyldan rifin upp og hús og bíll selt. Tilfinningin að keyra í átt að Keflavíkurflugvelli, allslaus með ekkert á lyklakippunni er sérstök, eftir allt netið sem við höfðum byggt upp á Íslandi.

Gautaborg kvödd.

Dvölin erlendis, og þá sérstaklega fyrsta árið, er erfið eins og allir vita sem búið hafa erlendis. Ekki aðeins tungumálið, sem kemur þó fljótt, heldur tilfinningin að vera útlendingar í öðru landi og á eigin fótum með þrjú lítil börn. Sem betur fer styðja Íslendingarnir við bakið hver á öðrum sem gerði dvölina í byrjun öllu bærilegri.

Reynslan af þessu ferðalagi, þá sérstaklega tengt vinnunni, var þó ómetanleg. Á hjartadeildinni á Sahlgrenska er fjölbreytt samfélag lækna með breiða þekkingu sem ég hef í gegnum árin tileinkað mér. Ekki aðeins Svíar og Íslendingar heldur læknar frá Albaníu, Ítalíu, Króatíu, Írak, Póllandi, Rúmeníu, Indlandi og Bandaríkjunum sem lært höfðu við ólíka skóla í Evrópu, Ameríku eða Mið-Austurlöndum. Það opnar augu manns sem hefur varla farið út fyrir eyju í miðju Norður-Atlantshafi að læknisfræðimenntunin er þrátt fyrir allt lík og ennfremur háð því hvernig hver og einn nýtir sér verkfærin/þekkinguna sem hann fær eða aflar sér.

Jafnvel rannsóknarvinna hefur smám saman kveikt áhuga hjá mér nú undir lokin þar sem ég var plataður í doktorsnám. Í raun er það hneyksli að útskrifast með tvöfalt sérfræðileyfi án þess að hafa fengið almennilega menntun í faraldsfræði eða tölfræði og sjá loks nú greinar, jafnvel í virtum tímaritum, með öðrum augum. Þetta er eitthvað sem við getum bætt í grunn- og sérfræðinámi, ekki eingöngu tengt doktorsnáminu, sem kemur inn seint hjá mörgum okkar.

Allt tekur þó enda um síðir og komin heimþrá í flesta fjölskyldumeðlimi. Því að tíminn stöðvast ekki meðan þú ert erlendis. Ekkert ósvipað persónu Matthew McConaughey í kvikmyndinni Interstellar sem yfirgefur jörðina í ferð um sólkerfið þar sem tíminn líður hægar og kemur til baka mörgum árum síðar þar sem allir eru farnir nema háöldruð dóttir hans. Kannski ekki alveg sambærilegt þar sem ég hef elst líka en tek hins vegar ekki eftir því. Á þessum tíma hafa nefnilega sumir nákomnir ættingjar farið yfir móðuna miklu eða veikst alvarlega og þegar börnin nálgast unglingsár er erfiðara að snúa aftur heim. Ofan á það bætist COVID-19 faraldur, stríð í sömu álfu, fasteignakreppa og verðbólga.

Þegar komið er upp á þilfar á degi þrjú á ágústmorgni tekur hörð norðaustanátt á móti manni og þegar loks glittir í Dalatangavita og síðan Skálanesbjarg rennur það upp fyrir mér að næstum 7 ára ferðalagi er loks lokið. Við erum komin heim.

Ég ætla ekki að fara í langdregin og niðurdrepandi smáatriði varðandi endurteknar sýningar á fasteign á frosnum markaði, pappírsvinnu og flakk milli landa en staldra aðeins við sjálfa heimferðina. Við héldum til baka frá Gautaborg, einum fleiri en 2017, með ferju til Danmerkur og áfram til Íslands með stuttu stoppi í Færeyjum. Það byggist upp enn meiri eftirvænting við þriggja daga ferðalag á miðju Atlantshafi. Þegar komið er upp á þilfar á degi þrjú á ágústmorgni tekur hörð norðaustanátt á móti manni og þegar loks glittir í Dalatangavita og síðan Skálanesbjarg (mynd) rennur það upp fyrir mér að næstum 7 ára ferðalagi er loks lokið. Við erum komin heim.

Þegar þessi grein er skrifuð er ég þó aftur kominn til Gautaborgar í nokkrar vikur að ganga frá lausum endum tengdu doktorsnáminu. Eftir stendur borg sem ég þekki í þaula, nýtt tungumál sem allir í fjölskyldunni tala reiprennandi, auk allra kollega og vina sem ég og fjölskyldan höfum kynnst í gegnum árin.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica