11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskólanum í Lundi: Sigríður Sunna Aradóttir

Sigríður Sunna Aradóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskólans í Lundi þann 13. október síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Magnakerfis-miðlaðir nýrnasjúkdómar: Arfgerð, svipgerð og rannsóknir á hemjandi meðferð (Complement-mediated kidney diseases: Genotype, phenotype and inhibition studies).

Andmælandi var Sally Johnson, sérfræðingur í barnanýrnalækningum Háskólasjúkrahúsinu Newcastle. Sally Johnson fer fyrir nefnd sem stýrir meðhöndlun með magnakerfis-hemlum í Bretlandi. Í matsnefnd voru dósentarnir Nadine Gretenkort, Háskólanum Lundi, Maria Rasmussen, Háskólanum Suður-Danmörku, og Charlotte Dahle, Háskólanum Linköping. Aðalleiðbeinandi var prófessor Diana Karpman og meðleiðbeinandi Zivile Bekassy, dósent, Háskólanum Lundi.

Úr ágripinu

Markmið doktorsverkefnisins var að lýsa sjaldgæfum erfðabreytileika í magnakerfinu og athuga orsakasamhengi við magna-kerfismiðlaða nýrnasjúkdóma. Nýtt meðferðarúrræði var athugað. Niðurstöður doktorsverkefnisins eru eftirfarandi:

Þrátt fyrir að stökkbreyting í geni leiði til próteins sem valdi hömlulausri virkjun magnakerfisins og orsakasamband sé skýrt, þá eru þessar stökkbreytingar áhættuþáttur og samspil fleiri þátta ákveður þróun sjúkdóms.

Magnakerfis-hemillinn danicopan hindrar ofvirkni magnakerfisins í sermi sjúklinga með faktor B stökkbreytingu.

Hlutverk „faktor H-related 5“ próteinsins er mögulega að vera hemill á magnakerfismiðluðu blóðrauðalosi og stökkbreytingar sem leiða til skorts á FHR-5 eru mögulegur áhættuþáttur fyrir magna-kerfis miðluðum nýrnasjúkdómum.

Doktorinn

Sigríður Sunna Aradóttir er stúdent af náttúrufræðibraut MR. Hún stundaði læknanám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi 2007. Hún lauk sérnámi í barnalækningum árið 2015 frá Háskólasjúkrahúsinu Skáni í Svíþjóð og í barnanýrnalækningum árið 2021. Hún býr ásamt sambýlismanni og tveimur börnum í Malmö og starfar sem yfirlæknir á barnasviði á Sjúkrahúsinu í Helsingborg.

Doktorsritgerðin er aðgengileg hér: https://portal.research.lu.se/sv/persons/sunna-aradottir

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég var uppátækjasamur krakki með afsláttarkort á slysa- og bráðamóttökunni og mig grunar að áhuginn hafi kviknað þar þegar mér var lappað saman af umhyggjusömu og skemmtilegu heilbrigðisstarfsfólki.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Doktorsnámið hefur verið skemmtilegt og það eru forréttindi að fá tækifæri til að rannsaka efniviðinn en þetta hefur verið mjög krefjandi. Ég hef unnið að þessu í 8 ár í hlutastarfi sem frítíma og myndi segja 10 af 10. Á rannsóknarstofunni þurfa doktorsnemar að vinna allar tilraunir sjálfstætt frá grunni og verið þolinmæðisvinna að setjast aftur á skólabekk. Það sem hefur drifið mig áfram er viljinn að klára rannsóknirnar á sýnum frá íslenskri fjölskyldu sem var viðfangsefnið í tveimur af fjórum verkefnum.

Hvað er framundan í námi og starfi?

Ég ætla að njóta þess að geta einbeitt mér að því að þróa starfsemi barnamóttökunnar í Landskrona. Ég kláraði verkefnin í doktorsnáminu og allar fjórar vísindagreinarnar höfðu verið birtar fyrir doktorsvörn þannig að vinnunni í hópi prófessors Diönu Karpman er lokið en framtíðin í rannsóknum er óráðin.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Vinna að því að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bestu fáanlegu meðferðum. Koma á fót ríkisstyrktu styrkjakerfi að fyrirmynd Svíþjóðar til að efla rannsóknarstörf heilbrigðisstarfsfólks. Gera doktorsverkefni frá Háskóla Íslands aðgengileg í rafrænu formi fyrir áhugasama.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Uppáhaldsbókin er Babettes gæstebud eftir Karen Blixen.
Bestu þættirnir eru Fólkið í blokkinni. Besta músík er tónlist góðra minninga frá menntaskólaárunum. Mér var sendur slíkur spotify-listi fyrir doktorsvarnarpartíið og nota hann áfram til að koma mér í gang á morgana. Fjallgöngur, náttúruhlaup, sjóböð og skíði eru mín vítamínsprauta.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

„Fredagsmys“ eða kósýkvöld með fjölskyldunni og cava-stund með mömmu eða í góðra vina hópi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica