11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Læknirinn sem gekk eftir endilöngum Bandaríkjunum, Ágústa Waage

Ágústa Waage svæfingalæknir hefur nú gengið Kambaslóðina á enda frá Mexíkó til Kanada, 4265 kílómetra. Hún flosnaði upp úr framhaldsskóla á Íslandi, ók trukk fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Bosníustríðinu, en lauk svo við lækna- og sérnám í Svíþjóð. Þar starfar hún og sér ekki fram á að koma heim

Ágústa Waage svæfingalæknir á leiðinni yfir brúna yfir Colombia-á frá Oregon til Washington-ríkis á Kambaslóðinni, Pacific Crest Trail, sem er 4265 kílómetra löng eftir endilöngum Bandaríkjunum. Ágústa gekk leiðina í áföngum, lengst vel yfir 2000 kílómetra. Myndir/aðsendar

„Lífið er mitt,“ er mottó Ágústu Waage fæðingasvæfingalæknis í Malmö í Svíþjóð. Hún er ævintýramanneskja, fædd á Raufarhöfn, sleit barnsskónum í Neskaupstað, eyddi unglingsárunum í Reykjavík en kláraði grunnskólann á heimavist í Hrútafirði. Nú býr hún með 19 ára dóttur sinni í Svíþjóð og hyggst ekki koma heim.

Læknablaðið · Ágústa Waage - gekk frá Mexíkó til Kanada - nóv 2023

„Ég er búin að búa hér meira og minna síðan 1996,“ segir Ágústa. Æskan íslensk en fullorðinsárin sænsk. „Ég verð hálfgerður unglingur þegar ég kem heim til Íslands. Sleppi jakkanum á gólfið hjá mömmu og pabba,“ segir hún og hlær.

Ágústa vann þrekvirki nú í september þegar hún lauk 4265 kílómetra göngu sinni um Kambaslóðina við Kyrrahafið, Pacific Crest Trail. Hún gekk þetta í fjórum áföngum, fyrst með dóttur sinni en svo ein. Sérfræðingar segja þessa göngu eina þá erfiðustu sem hægt er að takast á hendur – og fætur; þó ekki hvað síst hugann. „Þetta hefst með einum fæti fram fyrir hinn,“ segir Ágústa. „Og svo gerir maður þetta með gleði.“

Þær mæðgur hófu gönguna 2021. „Við vorum í þrjá mánuði saman og gengum þá um 2500 kílómetra,“ segir hún. „Svo hef ég mjatlað þessu inn, fór í mánuð í fyrra, mánuð í vor og kláraði nú í byrjun september.“

Kúvending í lífinu

Örlögin gripu í taumana í lífi Ágústu þegar hún kynntist sænskum manni á Balkanskaganum rétt fyrir þrítugt. Hún flutti í kjölfarið á eftir honum til Svíþjóðar og var orðin 35 ára gömul þegar hún lærði læknisfræði þar. Hún tók kandídatsárið á Íslandi og fór svo aftur út.

„Mér líður vel hér,“ segir hún, og hvernig hún sérhæfði sig í svæfingalækningum og svo fæðingasvæfingu. „Ég vinn mest við það á háskólasjúkrahúsinu í Malmö.“ Læknisfræðin stóð henni ekki næst.

Fjallaeyðimörk Suður-Kaliforníu í apríl á þessu ári.

„Ég ætlaði alltaf að verða dýralæknir þegar ég var krakki en fór ekki í gegnum menntaskóla. Ég var eitt ár í Menntaskólanum við Sund á 9. áratugnum en hætti og fór að vinna.“ Hún gat tekið stöðupróf í Svíþjóð og í kjölfarið hafið háskólagöngu.

„Ég tók prófið nokkrum sinnum og var að lokum komin með svo góðar einkunnir að ég gat farið í læknisfræði hér úti. Ég var því fertug þegar ég útskrifaðist úr læknadeildinni í Lundi,“ segir hún og lýsir því hvernig lífið hafi umturnast um þrítugt.

„Já, ég fór úr því að vera almennur verkamaður í að verða læknir. Vann í plastverksmiðju, kexverksmiðjunni Frón, fór í meirapróf rétt um tvítugt og keyrði í mörg ár hjá Reykjavíkurborg,“ segir hún og lýsir því hvernig 30% atvinnuleysi hafi mætt henni í Malmö þegar hún flutti til Svíþjóðar.

„Það var því ekki um annað að ræða en fara í skóla. Svo fann ég að mér fannst það gaman og ég gat gert það sem ég vildi,“ segir Ágústa.

Hún segir frá því hvernig trukkabílstjóraárin hafi verið samofin persónu sinni í mörg ár. Hún hafi til að mynda unnið við snjómokstur í borginni en endað sem vörubílstjóri í Bosníu þegar stríðið geisaði þar á tíunda áratugnum.

„Ég fór þangað og vann hjá Sameinuðu þjóðunum árin 1994-1996 við að keyra vörubíl.“ Hún hafi hugsað að hún hlyti að geta þetta eins og hver annar. „Þar hitti ég svo sænska manninn minn fyrrverandi.“

Ágústa segir þetta hafa verið mikla reynslu fyrir sig 27 ára gamla. „Ég hafði lítið verið erlendis, kunni lítið í pólitík og var lítið peð í stórri stofnun en þó mikilvæg í hjálparstarfi. Það var rosalega gaman. Við fórum þó nokkur frá Íslandi og þarna var fólk frá öllum heimshornum,“ segir Ágústa.

„Við bjuggum í Split í Króatíu, spiluðum biljard um helgar við ströndina en svo var keyrt til Bosníu með vistir til hermanna á virkum dögum,“ segir Ágústa, önnur tveggja kvenna í 130 manna hópi frá 28 löndum.

„Þetta var skemmtilegt en um leið erfitt. Ég sá ekki stríðið sjálft en afleiðingarnar. Sundursprengda bæi og yfirgefnar borgir, fólk á flótta. Ég sá kannski bara eina eða tvær sprengingar en sá afleiðingar stríðsins og það hefur haft mikil áhrif á mig,“ segir hún.

Áróðurinn ljós

„Ég man alltaf eftir einu atviki þar sem við keyrum inn í hluta Króatíu eða Bosníu. Allt í einu standa bæirnir sem ég hafði ekið í gegnum áður tómir. Þar er ekkert fólk og dauð dýr út um allt. Húsin voru sundursprengd,“ lýsir hún.

„Ég heyrði aldrei um þetta í fréttum. Horfði á BBC og CNN. Vestrænir fréttamiðlar sögðu aldrei frá þessu. Maður frá Pakistan og annar frá Indlandi sögðu okkur að heima hjá þeim hefði verið sagt frá þessu. Króatar hefðu farið þarna inn. Við á Vesturlöndum vildum kannski ekkert heyra það,“ segir hún, og hvernig sagt hafi verið frá þessu mörgum árum seinna.

„Ég sá hvernig sagt var frá einni hlið í stríði í fréttum. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig og ég horfi á fréttir með öðrum augum.“ Áróður sé í báðar áttir.

En hafði þessi snerting hennar við stríð áhrif á að hún yrði læknir? „Ég get alveg trúað að þessi reynsla sé hluti af því að vilja vera með og hjálpa til.“ Dýralæknadraumurinn hafi verið úti þar sem erfitt hafi verið að komast að í skólum í Svíþjóð. „En ég fæ að vera læknir fyrir manndýrin og sé ekki eftir því, alls ekki,“ segir Ágústa og hlær. „Þetta er agalega gaman, skemmtilegt djobb eins og allir læknar vita.“

Hlaup, klifur, ræktin og nú ganga. Ágústa lýsir því hvernig áhugamálin þróist. Nú sé göngutímabilið og Kyrrahafsleiðin frá. „En það var dóttir mín sem vildi gera þetta. Katla var tólf ára þegar hún gerði lista yfir allt sem hún vildi hafa gert fyrir áttrætt. Þar á meðal var að ganga þessa leið,“ segir Ágústa og hvernig þær hafi handsalað að gera þetta árið 2021 og dauðinn einn gæti komið í veg fyrir það.

„Þessi leið er tenging á milli margra þjóðgarða á vesturströnd Bandaríkjanna, frá landamærum Mexíkó að Kanada. Í gegnum alla Kaliforníu, upp til Oregon og að Washington: upp í fjöllin og á sem flesta fjallatoppa,“ segir hún og lýsir ósnortinni náttúru þjóðgarðanna enda Bandaríkin lítið byggt land þegar þeir voru merktir út.

Engin mannvirki í augsýn

„Þarna getur maður gengið dögum saman án þess að sjá nokkuð sem minnir á mannverur annað en þessa litlu troðnu slóð sem maður labbar,“ segir Ágústa. Sækja þurfi um leyfi og fjörutíu manns sé hleypt af stað á dag frá 1. mars-1. júní við landamæri Mexíkó. „30-40% þeirra sem byrja ganga alla leið.“

Hún segir förina fyrst og fremst erfiða. „En svo kemur allt hitt. Þetta er æðislegt, skemmtilegt, lífsreynsla og svo fallegt, svo fallegt að það er ótrúlegt,“ lýsir hún. „Maður nær að hugsa, klára að hugsa og hefur svo ekkert að hugsa um. Maður gengur heilan dag án þess að hafa neitt að hugsa um.“ Allt tilfinningarófið sé nýtt. „En skyldan er einn fótur fram fyrir hinn.“

Fjörutíu stiga hiti var fyrsta daginn. Þær báru marga lítra af vatni en urðu þó að bera eins lítið og hægt var. Núðlur voru uppistaða matarins og þær sofnuðu klukkan átta um kvöldið. Vöknuðu árla og hófu aftur gönguna. Heilu dagarnir liðu án nets og símasambands. Þá þurfti að finna veg, húkka far í næsta bæ og kaupa meiri vistir. „Í bæjunum var mikilvægt að koma eins mörgum kaloríum í sig og hægt var. Þá fengum við líka stundum að sofa í rúmi,“ segir Ágústa.

„Það er frábært að gera ekki neitt með heilanum í marga, marga daga. Það er þvert á það sem maður gerir í vinnunni. Þá notar maður hausinn og líkaminn þvælist með. Á göngu verður líkaminn að vinna allan daginn og hausinn að þvælast með, hefur ekkert að gera,“ segir hún.

„Svo finnur maður þegar komið er heim að hausinn er úr æfingu fyrstu dagana. Maður getur hugsað eina hugsun í einu, kannski tvær, en líkaminn er sterkur.“

Komst að kjarnanum

En finnur maður innri ró?

„Já, algjörlega,“ segir Ágústa. Umhverfið fallegt. Fólkið gott. „Það eina sem þarf að huga að er: Hvar ætla ég að sofa, hvað ætla ég að borða? Ætli verði rigning í dag? Þannig að róin er algjör,“ segir hún. „Hausinn er eins og líkaminn, ef hann er ekki notaður getur hann ekki mikið þegar á reynir.“

Ágústa á leiðarenda eftir á fimmta þúsund kílómetra sem hún gekk í fjórum lotum. Fyrst 2021, svo aftur 2022 og svo bæði í vor og haust nú 2023. Eitt stórt jei.

Ágústa segir að það sem hafi komið henni mest á óvart í göngunni sé að hafa komist að kjarna samferðamannanna. „Ég hélt ég væri að fara í göngutúraútilegu, en svo hittir maður fyrsta fólkið. Það er mjög sérstakt þegar maður gengur á eftir eða undan einhverjum, horfir ekki í augun á fólki, enginn sími truflar eða annað og þá verður maður óheftur í því sem maður segir. Maður kynnist því fólki hratt og vel á stuttum tíma,“ segir Ágústa. „Fólkið sem ég hitti á þessari leið eru nú meðal betri vina minna.“

Að 2000 kílómetrum liðnum fór Katla Waage dóttir Ágústu heim í skólann en hún gekk áfram. „Það var ekki voðalega gaman að ganga ein. Ég gerði það í mánuð og hugsaði að það myndi ég aldrei gera aftur,“ segir hún. „Ég er of mikil félagsvera.“ Dóttirin hafi orðið átján ein í Svíþjóð og hún alein á göngu.

„Þá láku tár,“ segir Ágústa. Tilgangsleysið hafi gripið hana. „Mér var allt of heitt, það var mikill vindur og mér illt í fótunum. Alein.“ Hún segir líkamlega hlutann í upphafi hafa verið mest krefjandi – að halda áfram. „Maður setur spurningamerki við tilganginn. Maður sefur ekki vel fyrstu næturnar. Allir fá blöðrur á fæturna,“ segir hún.

„Eftir fyrstu tvær vikurnar hættir það og maður fer að sofa betur.“ Hún hafi alltaf haft í huga að allt við gönguna myndi líða hjá, það slæma og það góða. Ekkert eigi eftir að endast endalaust. Gullfallegu svæðin verði að fallegum svæðum, jafnvel í þrjár vikur samfleytt. Flugurnar trufli í tvær vikur.

„Þá er að halda hugsuninni við það að þetta sé það sem ég ætla að gera. Halda áfram. Eftir að hafa lært á þetta líkamlega kemur það andlega: Á ég virkilega að halda þessu áfram? Þetta er ekkert skemmtilegt. En svo verður aftur gaman.“

Lítið jei að innan

En gengur maður á sig líkamlega? „Maður fær agalega stórar lappir, stækkar um tvö númer. Byrjaði í 39 og endaði 41. Ég léttist um þyngdina á bakpokanum mínum. Það er alveg sama hvað maður borðar.“ Mataræðið sé ekki beysið. „Maður borðar fimm snickers á dag og svo bara hamborgara, franskar og sjeik í bæjunum.“ Erfitt sé að láta af sykrinum þegar heim sé komið.

En er þess virði að koma svo á leiðarenda eftir 4250 kílómetra göngu? Ágústa vísar í teikningu Hugleiks Dagssonar af manni sem gengur á fjallstopp og segir lítið jei.

„Mér leið þannig. Ég kom að þessu stóra minnismerki við landamæri Bandaríkjanna og Kanada. Það var rigningarsúld og ég var með einhverjum fimm öðrum. Ég sagði hátt: Vei, æðislegt, þetta er rosalega gaman. Inni í mér var lítið jei, hvað á ég að gera núna?“

Kannski hjóla, segir hún. „En leiðin er markmiðið, ekki endamarkið,“ segir hún. „Gangan var það sem skipti máli en ekki Kanada. Þangað hefði ég getað keyrt.“ Tómarúmið þegar markmiðinu var náð hafi verið hrópandi.

„Þá var gott að koma í vinnuna. Sjá að þar var ég með markmið, að vinna í hóp sem hefur það að markmiði að koma sjúklingum betri út en þegar þeir komu inn,“ segir hún. „Allir voru að róa í sömu átt og gera sama hlutinn eins og í göngunni. Það var því gott að koma aftur í vinnuna.“

Ágústa lýsir göngunni enn betur í hlaðvarpi Læknablaðsins sem hægt er að finna á Soundcloud og Spotify.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica