11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sigríður Dóra Magnúsdóttir: Við þurfum að leggja meiri áherslu á starfsfólkið

„Stolt,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir spurð hvað hún ætli að taka út úr starfi sínu sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Stolt yfir starfsfólki og góðu þjónustunni sem það muni veita. „Ég veit þetta verður ekki aðeins dans á rósum, en þetta er gríðarlegt tækifæri,“ segir hún

Læknablaðið · Sigríður Dóra Magnúsdóttir - nýr forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, nóv 2023

Eftirspurn eftir geðheilsuteymunum er mikil áskorun fyrir heilsugæsluna, segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, nýr forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Það er ein af okkar stærstu áskorunum og hefur nánast komið okkur á óvart. Það sýnir hvað er mikil vakning í öllum geðheilbrigðismálum. Tilvísunum fjölgar svo miklu meira en við höfum séð undanfarin ár,“ segir hún í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún útskrifaðist úr MR 1979, læknisfræði 1985 og fékk sænskt sérfræðipróf í heimilislækningum árið 1993. Hún var framkvæmdastjóri lækninga áður en hún varð forstjórinn. Mynd/gag

Sigríður Dóra heimilislæknir, áður framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er skipuð til fimm ára. Hún segir það að sækjast eftir starfinu hafa verið rökrétt framhald á þeirri vegferð sem hún hafi verið á undanfarin ár. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á heilsugæslunni. Haft óbilandi trú á henni og komið þar að mörgum framfaraskrefum.“ Starfið sé áskorun.

Mönnun í forgrunni

„Nú þurfum við að leggja miklu meiri áherslu á heilsugæslustöðvarnar og starfsfólkið þar,“ segir hún. „Við þurfum að bæta allt starfsumhverfið; tölvukerfin, koma böndum á vottorð og Heilsuveru, en við þurfum líka að bæta mikið úr húsnæðismálum. Þau hafa setið á hakanum,“ segir hún. Kjör og vinnuaðstaða þurfi að vera í lagi.

„Mönnunarvandinn hjá okkur í heilsugæslunni er stærsta viðfangsefnið. Hann er mismunandi milli stöðva og starfseininga en í heilbrigðiskerfinu í heild er þetta stærsta áskorunin,“ segir hún og að ekki sé talið hve marga vanti. Þau taki við flestum sem vilja koma til þeirra.

Sigríður Dóra tekur við starfinu af Óskari Reykdalssyni. „Ég tek við mjög góðu búi. Hann er búinn að leiða heilsugæsluna í rétta átt og hugsaði fram á við. Ég ætla svo sannarlega að gera það eftir bestu getu. Nýju fólki fylgja alltaf nýjar áherslur. Það verða breytingar en við förum alveg ótrauð fram á við.“ Markmiðið sé að bæta þjónustuna.

Sigríður Dóra hefur starfað sem heimilislæknir í rúma þrjá áratugi. „Ég hef haft gríðarlega ánægju af því starfi. Ég hef komið víða að og unnið með góðu fólki á mismunandi stöðum. Maður kemur með þá þekkingu. Ég veit hvað hópurinn vill og hvað ekki. Ég þekki hugmyndafræði heimilislækna mjög vel. Svo erum við líka að reka þjónustueiningu og það þarf að finna jafnvægi þar á milli.“ Hún telji að það sé mikill kostur að hafa lækni í stjórnunarstöðum innan heilbrigðiskerfisins.

Hún segir mikilvægt að hafa rétta fólkið með sér. „Ég er sjálf búin að taka aukalega diplóma í stjórnun og hef reynslu af að stjórna. Þetta er allt saman skóli lífsins og maður fyllir upp með fólki þar sem þörfin er mest.“

Sigríður Dóra er Vesturbæingur, býr á Seltjarnarnesi með eiginmanni sínum Björgvini Jónssyni. „Ég gekk hefðbundna skólagöngu þar, á yngri og eldri bræður. Gekk í MR, sem var hverfisskólinn. Þaðan fór ég í háskólann. Læknisfræðin var alltaf það sem mig langaði í. Mömmu leist ekkert á það og fannst þetta allt of erfitt og strangt,“ segir hún en móðir hennar Dóra Jóhannsdóttir var tanntæknir og pabbi Magnús Ragnar Gíslason tannlæknir.

Vildi ekki verða tannlæknir

„Það hefði legið beint við að fara í tannlækninn. Ég hefði fengið vinnuaðstöðu; stofu beint við útskrift. En það var ekki það sem mig langaði,“ segir hún. Henni hafi gengið vel í námi, eignast góða félaga. Fundið hvernig samfélag og heilsa tvinnast saman.

„Það er ekki hægt að rífa þetta í sundur,“ segir hún, og hvernig hún hafi smitast af þessum áhuga í störfum á Ísafirði og í Garðabæ. Sérnámið valið og hún á leið til Gävle í Svíþjóð með milligöngu heimilislæknisins Bjarna Jónassonar. Þar var hún í fjögur ár.

„Mér leist ekkert á að fara þangað því þar var enginn Íslendingur,“ segir hún, og hvernig henni hafi svo liðið þar vel. „Þetta hefur aldrei orðið þessi Íslendingaborg.“ Ungu læknarnir hafi verið aðfluttir, enda spítalinn ekki háskólasjúkrahús. „En þetta var mikið gæfuspor.“ Sigríður segir sérnámið hér heima skipta heilsugæsluna miklu. Ramminn sé stífur og handleiðararnir orðnir reyndir.

„Ég held engu að síður að við höfum gott af því að fara eitthvað út. Jafnvel þótt það sé eitthvað styttri tími. Aðeins til að sjá eitthvað annað. Við þurfum að vera dugleg að fara á þing og fundi til að auka víðsýnina,“ segir hún.

Sigríður Dóra ræðir í hlaðvarpinu sem finna má á Soundcloud og Spotify vottorðafarganið, yfirflæði Heilsuveru og langa biðlista að geðheilbrigðisteyminu. Einnig það sem heilsugæslan lærði af COVID. Miklar breytingar urðu og starfsemin litaðist verulega af þessum heimsfaraldri.

„Við förum aldrei á sama hraða og áður [í móttökunni] af því að verkefnin hafa breyst svo mikið. Þessi einföldu, fljótafgreiddu mál sem voru þegar ég var að hefja störf sjást ekki lengur. Öll erindi eru þung úrlausnar og það þarf að hugsa um marga þætti. Við erum því ekki að keyra móttökuna á heilsugæslunni eins hratt og var því erindin eru annarskonar.“

Þéttir og hraðir dagar

En hvernig er þá álag innan heilsugæslunnar? „Hjá okkur horfumst við í augu við það að unga fólkið vill fyrst og fremst vinna dagvinnutíma. Það vill ekki vinna frameftir öll kvöld eða langt frameftir með síðdegisvaktir.“ Vinnuumhverfið og vinnutíminn sé því lagaður að því. „Við tökum því þétta og hraða daga en vísum ekki fólki á síðdegisvaktir.“

Sigríður Dóra hefur gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í gegnum tíðina; fyrir Læknafélag Reykjavíkur, Félag íslenskra heimilislækna og Félag yfirlækna á heilsugæslustöðvunum. Þá fór hún fyrir nemendum í MR, Inspector Scholae: Hvers vegna hefur hún kosið að beita sér? „Það hljómar nú kannski ekki trúverðugt en það er ekki það að ég þurfi alltaf að stýra og stjórna. Ég sótti ekki um þetta forstjórastarf af því að ég hafi svo gríðarlegan metnað til að ná í þennan titil. Minn metnaður hefur alla tíð staðið til þess að hlutirnir séu vel gerðir. Ég hef alltaf litið þannig á sem heimilislæknir, jafnvel þegar ég kem heim fersk úr námi rétt þrítug, að maður vildi hafa áhrif á umhverfið,“ segir hún og að hún hafi haft mikla trú á að geta komið góðu til leiðar.

„En grunnurinn er alltaf að þjónusta fólkið. Það rekur mig áfram.“ Hún nefnir hversu heppin hún var í sérnámi að handleiðari hennar hafi verið formaður sænska heimilislæknafélagsins. „Ég hef haft góðar fyrirmyndir.“

Huga þarf betur að nýbúum á Íslandi

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leitar nú að læknum með erlendan bakgrunn til að mæta þörfum íbúa með erlendan bakgrunn. Sigríður Dóra Magnúsdóttir nýr forstjóri segir nýbúa fjölbreyttan hóp.

„Við sjáum að útlendingar leita á vaktþjónustur því þeir þekkja ekki kerfið, eru óöruggir um stöðu sína. Þeir biðja um vottorð því þeir eru óöruggir í sinni vinnu. Þeir hafa sumir fjölþættan heilsuvanda sem við þurfum að mæta og við þurfum að sinna þeim betur,“ segir hún í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins.

„Við erum að reyna að ráða inn erlenda lækna, lækna sem tala önnur tungumál, til að mæta þessum hópi. Þetta er það sem þjóðfélagið þarf að hugsa betur um: Hvernig við tökum á móti fólki sem býr hér og er Íslendingar en með annan bakgrunn.“

Heilsugæslan hefur staðið í ströngu við móttöku flóttamanna síðustu misseri. Nokkur hundruð skjólstæðingar fóru á stuttum tíma í nokkur þúsund. Sett hefur verið upp aðstaða í Domus Medica á Eiríksgötu. „Við þurftum að hugsa alla þjónustu upp á nýtt og breyta allri nálgun. Það tókst með öflugu fólki,“ segir hún. „En starfsaðstæður eru erfiðar. Gríðarleg pressa og mikil keyrsla. En það var eins og með COVID-ið. Það varð að hugsa alla hluti upp á nýtt.“

Sigríður segir flóttafólki oft ruglað saman við nýbúa. Þetta séu tveir ólíkir hópar. Flóttafólk fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. „En við þurfum að gæta að því að hér er margt fólk með annan bakgrunn, annað tungumál, aðrar venjur, aðrar væntingar til heilbrigðisþjónustu. Það er hópur sem við náum ekki nógu vel til,“ segir Sigríður Dóra.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica