11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ónæmisfræðideild Landspítala fær alþjóðlegan gæðastimpil

Alþjóðaofnæmisstofnunin hefur veitt ónæmisfræðideild
Landspítalans viðurkenningu fyrir gæði

„Þetta hefur heilmikla þýðingu,“ segir Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, yfir-læknir ónæmisfræðideildarinnar. Deildin sé nú í hópi stofnana víða um heim sem hafa verið valdar öndvegismiðstöðvar, Center of Excellence, af Alþjóðaofnæmisstofnuninni, World Allergy Organization.

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala, og fyrirrennari hennar í starfi og nú framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu, Björn Rúnar Lúðvíksson. Mynd/gag

„Þetta er ákveðin viðurkenning á því að við stöndum fyrir gæðum í klínískri þjónustu við sjúklinga, í rannsóknum, kennslu og ákveðinni þróun og nýsköpun,“ segir hún. „Þessi viðurkenning getur hjálpað okkur í alþjóðlegu samstarfi, í vísindasamstarfi og við kennslu og nám nemenda sem vonandi fara í ofnæmis- og ónæmislækningar,“ segir hún.

„Þetta auðveldar okkur að leita til annarra áþekkra stofnana um samstarf,“ segir hún og að innan þeirra sé hvatt til samstarfs ungs vísindafólks. Sigurveig segir félag íslenskra ofnæmis- og ónæmislækna vera aðila að þessum alþjóðasamtökum. Þau hafi séð ávinning og líkur á því að fá gæðastimpilinn og sótt um.

„Við erum mjög stolt af þessu,“ segir Sigurveig, sem hefur frá síðustu áramótum verið yfirlæknir deildarinnar. Fyrirrennarar hennar, Helgi Valdimarsson og Björn Rúnar Lúðvíksson, hafi unnið mikið og merkilegt starf, hlúð að vísindum og menntun og mannað deildina góðu vísindafólki með þessum árangri. Sigurveig er þar öllum hnútum kunnug enda hefur hún unnið þar frá árinu 1991.

„Það hefur heilmikið breyst á þeim tíma. Ónæmisfræðin hefur þróast mikið og þekking á ónæmiskerfinu vaxið gífurlega. Nú skoðum við boðefni og yfirborðssameindir sem við vissum ekki að væru til fyrir 10-20 árum síðan. Við greinum frumur mikið nákvæmar og sjáum samhengi milli þeirra og sjúkdóma,“ segir hún.

„Það er svo dásamlegt að upplifa tíma þar sem farið er að framleiða einstofna mótefni gegn ákveðnum frumum eða sameindum sem hreinlega lækna sjúkdóma sem áður gerðu fólk að öryrkjum.“ En bjóst hún við svona hraðri þróun þegar hún byrjaði og að henni fleygði áfram svona hratt fram?

„Já, þróunin verður áfram svona hröð og nei, ég hugsaði ekki svona langt þegar ég byrjaði hér. Alls ekki,“ segir hún róleg. „Við vitum ekki hvað bíður okkar í framtíðinni. Ég tel þó að þessi þróun haldi áfram og að meðferð við mörgum sjúkdómum verði persónubundin. Meðferðir verða sérsniðnar að hverjum og einum í meira mæli.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica