11. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérhæfingin orðin eins og færibandavinna Ford, rætt við Nigel Edwards

Nigel Edwards, hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, segir nýja Landspítalann gullfallegt tækifæri til að gera hlutina öðruvísi en áður. Breytingar í heilbrigðiskerfinu séu hins vegar erfiðar því deildir og stofnanir vinni saman

„Starfsánægja lækna er að minnka, þeim líður eins og þeir séu að einangrast. Margir þeirra telja að komist þeir bara til annars lands lagist ástandið. Ég tel að ein ástæðan sé sú að vinna á sjúkrahúsum er orðin svo hröð,“ segir Nigel Edwards, ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og fráfarandi framkvæmdastjóri The Nuffield Trust sem er bresk hugveita á sviði heilbrigðisþjónustu.

Nigel Edwards í Veröld, húsi Vigdísar, í byrjun október. Þar talaði hann á málþinginu Skýr heilbrigðisstefna, grýtt leið? Mynd/gag

Edwards ræddi við Læknablaðið áður en hann kom til landsins og hélt hér erindi þann 3. október í Veröld, húsi Vigdísar, á málþinginu Skýr heilbrigðisstefna, grýtt leið? sem Landspítalinn boðaði til.

„Það er erfitt að sinna sjúklingum af alúð. Læknum líður sem hluta af vél. Rétt eins og þeim sem stóðu við framleiðslulínu Henrys Ford líður þeim eins og þeir komi að hluta úr verki. Þá skortir tilgang og ein ástæðan er sú mikla sérhæfing sem hefur orðið,“ segir Edwards.

Hann lýsir því hvernig vel metinn skurðlæknir hafi sagst finnast leiðinlegt á skurðstofunni á sama tíma og hann hefði verið í miðri flókinni hjartaskurðaðgerð. „En hann gerði aðeins lítinn hluta aðgerðarinnar.“ COVID-19 hafi aukið á vandann. Endurheimta þurfi gamla starfsandann.

Edward Nigel kom hingað til lands til að gefa innsýn í hvernig sjúkrahús í Evrópu eru að þróast, hvernig þau séu í meginatriðum að sérhæfa sig enn frekar. „En á sama tíma og sérhæfing sjúkrahúsa eykst, verða sjúklingarnir sjálfir flóknari, hvort sem litið er til heilsu þeirra eða félagsstöðu. Þeir passa ekki lengur inn í þrönga sérhæfingu sjúkrahúsanna.“

Hann segir stöðu eyja og lítilla landa einnig erfiðari. Sjúkrahúsin þar þurfi að bjóða alhliða sérþjónustu sérfræðinga sem hafi þennan þrönga vinkil. Það, auk þess að alltaf sé hægt að gera meira, geri stöðuna sífellt meira krefjandi. Þá nefnir hann við Læknablaðið síaukna kröfu um grunnþjónustu. Sjúkrahús hafi ekki einblínt á þetta fyrsta skref þjónustunnar heldur beint skjólstæðingum til sérfræðinga. Huga ætti betur að því að halda langveikum sjúklingum í 1. stigs þjónustu og þjónusta á því stigi með stuðningi sérfræðinganna.

„Sérfræðingur á ekki að þurfa að sjá um sjúkling með sykursýki 2, svo dæmi sé tekið,“ segir Nigel. Sérfræðingar þyrftu svo að geta einbeitt sér að forvörnum í stað þess að tína upp brotin þegar hlutirnir hafi farið úrskeiðis.

Læknablaðið spurði Edward um innri breytingar á sjúkrahúsum. Hvers vegna hann teldi erfitt að innleiða ákvarðanir sem teknar hefðu verið? „Það er fjöldi ástæðna fyrir því að erfitt er að breyta sjúkrahúsum. Ein er að sjúkrahúsið vinnur í tengslum við annan spítala eða þjónustuveitanda og aðrar deildir,“ segir hann.

„Það er því ekki hægt að fínstilla kerfi án þess að fínstilla alla undirþætti þess, því þau spila saman.“ Einn hlutinn standi þá réttur en aðrir ekki.

Edwards er spurður hvort Landspítalinn ætti að bíða með breytingar fram að nýja spítalanum en hann svarar að taka þyrfti allar ákvarðanir um breytingar áður en spítalinn er byggður. Það væri þó erfitt þar sem framþróun í læknisfræði væri hröð.

„En ný byrjun er gullfallegt tækifæri til að spyrja sig hvort hlutir sem alltaf hafa verið gerðir á ákveðinn hátt séu besta leiðin,“ segir hann. Mörg ríki glími við hvernig hvernig best sé að haga bráðaþjónustu sjúkrahúsa.

„Nýtt sjúkrahús gefur tækifæri á einmitt þessu, að gera hlutina öðruvísi,“ segir hann og að tíminn fram að nýja sjúkrahúsinu sé tilvalinn til prófa sig áfram. „Líklega hafa stjórnendur góða hugmynd um hvað þeir vilja sjá. Næstu tvö ár eru því tilvalin til að verða tilbúin, prófa nýju ferlana og fínpússa fyrir flutninginn.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica