10. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Frekari sérhæfing í hjartalækningum. Inga Jóna Ingimarsdóttir

Evrópsku hjartalæknasamtökin (ESC, European Society of Cardiology) bjóða upp á möguleika til að sérhæfa sig frekar í starfi eins og lýst er neðst á síðunni. Sjálf komst ég inn í framhaldsnám í hjartabilun í Sviss í ársbyrjun 2018 og útskrifaðist í október 2019. Þetta er tveggja ára nám sem hægt er að taka með vinnu og annað hvert ár eru um það bil 60 hjartalæknar teknir inn í námið. Námið samanstendur af átta lotum sem kenndar eru í Zürich með fyrirlestrum og verklegum æfingum. Einnig verður hver þátttakandi að halda fyrirlestur um ákveðið sjúkratilfelli sem þarf að standast strangar faglegar kröfur. Hverri lotu lýkur með skriflegu prófi og í lok námsins er tekið skriflegt próf sem nær yfir allar loturnar. Við útskrift öðlast maður gráðu í ,,Advanced Heart Failure“. Ég sótti um styrk til námsins hér heima án árangurs og þurfti því miður þar með að fjármagna námið sjálf.

Varðandi námið í heilsuhagfræði við London School of Economics hefur nýverið orðið sú breyting að það verður ekki bara opið hjartalæknum heldur einnig öðrum sérgreinalæknum. Ég vil því hvetja samlanda mína sem hafa áhuga á heilsuhagfræði að sækja um. Námið við Oxford háskóla og London School of Economics er mjög dýrt en hægt er að sækja um styrk til ESC upp í kostnaðinn. Á heimasíðu ESC kemur fram að umsóknarfrestur fyrir styrkinn sé til 29. september og þar sem þessi pistill birtist í októberútgáfu Læknablaðsins hef ég beðið um framlengingu á frestinum svo hægt sé að sækja um styrkinn fram í lok október næstkomandi.

Ég vísa á slóðina hér fyrir neðan þar sem áhugasamir geta kynnt sér betur þessar fjórar námsleiðir. Forsvarsmenn PCHF-námsins í hjartabilun, sem ég sótti, ætlast til þess að þeir sem þeir velja til framhaldsnámsins leggi sitt af mörkum með því að efla veg hjartabilunar í sínu heimalandi. Mitt framlag til Íslands var að stofna gagnagrunn á sviði hjartabilunar sem starfræktur hefur verið frá því í janúar 2020 og hefur skilað nokkrum rannsóknarverkefnum á sviði læknisfræði og lyfjafræði við HÍ. Þessi rannsóknarverkefni voru valin til veggspjaldakynningar á Evrópska hjartabilunarþinginu (HFA, Heart Failure Association) í Prag í maí og fyrirlesturs á Evrópska hjartalæknaþinginu í Amsterdam í ágúst. Framhaldsnámið mitt í hjartabilun er mér ómetanleg reynsla sem hefur opnað fjölda dyra og komið hjartabilunarmeðferð á Íslandi á framfæri.

Gott yfirlit yfir framhaldsmenntun í hjartalæknisfræði er hægt að nálgast á slóðinni: escardio.org/Education/Postgraduate-Programmes

1) Klínískar rannsóknir (MSc in Clinical Trials) við Oxford-háskóla í Bretlandi.

2) Heilsuhagfræði (MSc Health Economics, Outcomes and Management in Clinical Sciences) við London School of Economics í Bretlandi.

3) Hjartsláttartruflanir (DAS-CAM, Diploma of Advanced Studies in Cardiac Arrhythmia Management) við Maastricht-háskóla í Hollandi.

4) Hjartabilun (PCHF, Post graduate Course in Heart Failure) við Zürich-háskóla í Sviss.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica